Í góðri grein, efnisríkri og hnitmiðaðri, „Vígslubiskupar fyrr og nú“ sem birtist á þessum vettvangi þann 9. maí s.l. velti dr. Haraldur Hreinsson fyrir sér sögulegum þáttum og þróun vígslubiskupsembættanna – auk ýmissa annarra flata á þessum sérstöku embættum sem hvorki eru forn né sérstaklega auðskiljanleg í nútíma kirkjuskipan. Það kemur nokkuð skýrt fram hjá Haraldi að tilnefningar biskupskjörs í Skálholti eru kveikjan að hugleiðingum hans. Það væri ástæða til að staldra við margt í skrifum Haraldar, rík ástæða er til þess að ræða fjölmargt af því sem hann drepur á og af marka má viðbrögð við greininni þá er ljóst að þar féllu víða orð í tíma töluð.
Í þessu greinarkorni verður aðeins staldrað við eina spurningu, sem liggur í texta Haraldar. Reyndar æði beinskeytta og mikilvæga spurningu – sem að sönnu þyrfti mun meira rými en hér fæst og þyrfti mun víðari rannsóknargrundvöll en eina stutta grein sem þessa. Haraldur spyr:
„Hver er guðfræði vígslubiskupsembættis íslensku þjóðkirkjunnar?“
Hér er vitaskuld um algjöra grunnspurningu að ræða og þess vegna er enn undarlegra en ella að henni hefur aldrei verið svarað. Vissulega er embættið ekki gamalt, en það er þó ekki svo ungt að það ætti að geta gert sér grein fyrir því hvers vegna það er til. Og sá sem það situr ætti auðvitað að reyna að móta til framtíðar einskonar guðfræðilega aðferð – en það hefur ekki verið gert. Aldrei – að því best verður séð. Þó hafa einstakir menn reynt – eins og lauslega verður farið yfir hér á eftir – en aldrei urðu maklegar tilraunir þeirra eða vísdómur að neinskonar hefð. Hver tilraun var of einstaklingsbundin.
Til hvers er hægt að ætlast af biskupi, hvort heldur það er vígslubiskup eða biskupinn yfir Íslandi, ef ekki að viðkomandi hafi skýra guðfræðilega sýn, sú sýn sé öllum ljós og að biskup praktíseri – eða í það minnsta leitist við að praktísera – þá guðfræðilegu sýn; svo hún megi raungerast sem guðfræðilegt framlag til eflingar kristni í stiftinu og auðvitað landinu öllu.
Á haustdögum 2022 samþykkti kirkjuþing starfsreglur fyrir vígslubiskupa. Þar er fátt um fína guðfræðilega drætti. Mest er það almennt fjas, um sjálfsögð málefni og flest veigalítil, sem maður hefur sterklega á tilfinningunni að öll mæti leysa með miklum ágætum án þess að utan um þau væru tvö vígslubiskupsembætti – með tilheyrandi kostnaði og tildri. Það er jafnvel svo að sú hugsun sæki að manni að utan á þessi embætti sé, í starfsreglunum, verið að raða verkefnum, svona eftir á, til þess að reyna nú að láta líta út fyrir að ekki séu þessi háu embætti til einskis. Það er vond aðferðafræði og segir meira um guðfræðilegan þankagang þeirra sem að slíku standa en 100 messur.
Ef gerð er tilraun til þess að greina guðfræði vígslubiskupsembættanna verður ekki hjá því komist að staldra við þær persónur sem sinnt hafa þessum embættum. Því það liggur ljóst fyrir að öll umgjörð um embættin er hrákasmíð og miðar frá upphafi að einhverju allt öðru en guðfræðilegum spursmálum og erindum. Flestir sem þetta lesa vita auðvitað hvers vegna þessi embætti voru stofnuð, Haraldur fer einnig yfir það og verður það því ekki tíundað hér. Dr. Haraldur bendir réttilega á það í grein sinni að boðvald vígslubiskupsins er horfið – reyndar eru það mín orð að það sé horfið – Haraldur Hreinsson er háttvísari maður en ég og segir það fara „hnignandi“. Boðvald biskupa yfirleitt er hnignandi, eða horfið og er það vel – í flestum tilfellum.
En þá aftur að persónunum. Til þess að einfalda hlutina er hér aðeins litið til þeirra vígslubiskupa sem hafa setið staðina, Hóla og Skálholt, og að þeim beint þeirri rannsóknarspurningu hvort segja megi að þeir hafi lagt fram guðfræðilega stefnu eða gert sig gildandi í guðfræðilegri umræðu; hvort þeir hafi verið eða séu guðfræðingar? Áður en gerð verður tilraun til þess að svara þessu er rétt að undirstrika að hér í þessari stuttu grein er gerður greinarmunur á lærdómsgráðunni „guðfræðingur“ og svo því að vera „guðfræðingur“. Vera kannski það sem kalla mætti Guðfræðingur með stóru G. Einhverjum kann að þykja þetta undarleg framsetning en þá er því til að svara að þetta á í raun við um alla akademíska menntun sem flokkast sem hugvísindi. Maður getur lært sagnfræði eða bókmenntafræði, unnið síðan við kennslu í þessum greinum í t.d. framhaldsskóla en aldrei stundað fagið með neinum djúpum hætti, svo sem með skrifum um efnið eða rannsóknum. Með sama hætti læra menn guðfræði og fara í vinnu sem prestar eða djáknar en kafa sjaldnast í fræðin eftir að út á akurinn er komið, skrifa ekki um guðfræði né heldur rannsaka með verkfærum fræðigreinarinnar nema bara rétt það sem þurfa þykir til að geta sinnt embættisskyldum sínum.
Fimm vígslubiskupar hafa setið Hóla: Bolli Gústavsson, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, Solveig Lára Guðmundsdóttir og Gísli Gunnarsson og Sigurður Guðmundsson fór að Hólum á seinni hluta embættistíma síns sem vígslubiskup. Í Skálholti hafa fjórir vígslubiskupar haft fast aðsetur: Jónas Gíslason, Sigurður Sigurðarson, Kristján Valur Ingólfsson og Kristján Björnsson.
Þeir Kristján Valur Ingólfsson og Jónas Gíslason skera sig nokkuð úr þessum hópi hvað varðar mótaðar hugmyndir og framsetningu á ákveðinni guðfræði. Kristján Valur er maður ritúalsins, helgihaldsins, messusöngsins, hann er maður Orðsins og hans sýn virðist miða að því að samræma helgihaldið og þá mystík sem það innifelur og svo aftur hina ytri lofandi þætti svo sem sálmasöng og trúarlegan skáldskap. Þessa má sjá stað aftur og aftur í skrifum Kristjáns Vals og í skáldskap hans, hvort heldur frumsömdum eða þýðingum. Í tíð hans sem vígslubiskups lá myndugleiki Kristjáns Vals inni í þessari guðfræði, inni í helgi guðsþjónustunnar og lá einnig í virðingu hans fyrir ritúali og lofgjörð. Þannig duldist engum að hann stóð fyrir eitthvað sérstakt. Hann var skapandi vígslubiskup sem eftir var tekið og horft til sem Guðfræðings.
Jónas Gíslason var maður sögunnar, kirkjusögunnar, guðfræði Jónasar er sú sem grundvallast á því sem verið hefur, hún er klassísk en þó ekki íhaldssöm í þeim skilningi að ekki sé leitað svara við sístæðum spurningum. Þannig er Jónas óhræddur við átakaspurningar eins og um illsku í heimi eða stöðu kirkjunnar sem samfélagslegrar hreyfingar. Í gegnum skrif sín kemur Jónas manni fyrir sjónir sem mjög afdráttarlaus Lúterani en fyrst og síðast virðist hann hafa litið á vígslubiskupsstöðu sína sem vettvang til að styrkja uppfræðslu og menntun á kristilegum grunni. Hann virðist hafa haft til að bera kennimannlega reisn en um leið yfirvegaða mildi. Miðlun og fræðsla, eru kjarnaþættir í guðfræði Jónasar og stendur hann, líkt og Kristján Valur, fyllilega undir því að vera kallaður Guðfræðingur.
Einnig þykir þeim sem þetta ritar rétt að setja Bolli Gústavsson í hóp með þessum gildu Guðfræðingum, nálgun Bolla var þó ætíð úr annarri átt – ef svo má segja – hann beitir skáldskapnum og listinni sem lyklum að dyrum fræðigreinarinnar. Hann boðar síður, vissulega stundum þó, í skáldskap sínum, en það er frekar að hann sé að ljúka upp ritningunum þegar hann dregur upp mynd eða smíðar texta. Þá er Bolli óumdeilanlega einn af þeim sem mætti kalla brautryðjanda í guðfræði náttúrunnar – eða sköpunarverksins – í skrifum sínum. Þannig náði Bolli að setja verulegt mark á samtíð sína. En það er einmitt það sem skilur að guðfræðing og Guðfræðing að mati þess sem þetta skrifar.
Þótt þessir andans menn sem hér hafa verið teknir út fyrir sviga, sæmilegra presta og jafnvel ágætra – og yfirleitt prýðilegs fólks, þá stendur það eftir að þrátt fyrir guðfræðilegan styrk þeirra náðu þeir ekki að verða með þeim hætti mótandi að vígslubiskupsembættið færi að kannast við sjálft sig eða erindi sitt eftir þeirra daga í embætti. Auðvitað kemur ýmislegt til, hvað það varðar, en það verður ekki tíundað hér, en megin skýringin er auðvitað sú að tilgangsleysi embættanna og hátimbrað núllið í veru þeirra, tímaskekkjan og andlega fátæktin sem þau afhjúpa í dag er svo himinhrópandi að velmeinandi menn og gáfaðir gátu ekki nema rétt svo haldið sjó af viti rétt á meðan þeir sátu í embættum. Og frekja að ætlast til þess að þeir gætu mótað þau til langframa, ekki frekar en að menn geti með besta atlæti og iðkun breytt smalahundi í reiðhest.
Erindi vígslubiskupsembættanna er nákvæmlega ekki neitt. Guðfræði þeirra finnst ekki á grundvelli embættanna sjálfra og verður aldrei sköpuð úr þessu þegar boðvald biskupa fer hnignandi. Nær væri að taka það fé sem ausið er í þessa hít til þess að fara af stað með víðtæka kærleiksþjónustu í hverju prófastsdæmi fyrir sig, t.d. með því að ráða tvo djákna í hvert þeirra. En til þess að hafa nú biskup til taks, forfallist biskup Íslands óvænt í embætti, gætu prófastar kosið einn úr sínum hópi til þess að fara með stöðu varabiskups – hann mætti kalla sig vígslubiskup mín vegna. Og líklega allra landsmanna vegna.
Í góðri grein, efnisríkri og hnitmiðaðri, „Vígslubiskupar fyrr og nú“ sem birtist á þessum vettvangi þann 9. maí s.l. velti dr. Haraldur Hreinsson fyrir sér sögulegum þáttum og þróun vígslubiskupsembættanna – auk ýmissa annarra flata á þessum sérstöku embættum sem hvorki eru forn né sérstaklega auðskiljanleg í nútíma kirkjuskipan. Það kemur nokkuð skýrt fram hjá Haraldi að tilnefningar biskupskjörs í Skálholti eru kveikjan að hugleiðingum hans. Það væri ástæða til að staldra við margt í skrifum Haraldar, rík ástæða er til þess að ræða fjölmargt af því sem hann drepur á og af marka má viðbrögð við greininni þá er ljóst að þar féllu víða orð í tíma töluð.
Í þessu greinarkorni verður aðeins staldrað við eina spurningu, sem liggur í texta Haraldar. Reyndar æði beinskeytta og mikilvæga spurningu – sem að sönnu þyrfti mun meira rými en hér fæst og þyrfti mun víðari rannsóknargrundvöll en eina stutta grein sem þessa. Haraldur spyr:
„Hver er guðfræði vígslubiskupsembættis íslensku þjóðkirkjunnar?“
Hér er vitaskuld um algjöra grunnspurningu að ræða og þess vegna er enn undarlegra en ella að henni hefur aldrei verið svarað. Vissulega er embættið ekki gamalt, en það er þó ekki svo ungt að það ætti að geta gert sér grein fyrir því hvers vegna það er til. Og sá sem það situr ætti auðvitað að reyna að móta til framtíðar einskonar guðfræðilega aðferð – en það hefur ekki verið gert. Aldrei – að því best verður séð. Þó hafa einstakir menn reynt – eins og lauslega verður farið yfir hér á eftir – en aldrei urðu maklegar tilraunir þeirra eða vísdómur að neinskonar hefð. Hver tilraun var of einstaklingsbundin.
Til hvers er hægt að ætlast af biskupi, hvort heldur það er vígslubiskup eða biskupinn yfir Íslandi, ef ekki að viðkomandi hafi skýra guðfræðilega sýn, sú sýn sé öllum ljós og að biskup praktíseri – eða í það minnsta leitist við að praktísera – þá guðfræðilegu sýn; svo hún megi raungerast sem guðfræðilegt framlag til eflingar kristni í stiftinu og auðvitað landinu öllu.
Á haustdögum 2022 samþykkti kirkjuþing starfsreglur fyrir vígslubiskupa. Þar er fátt um fína guðfræðilega drætti. Mest er það almennt fjas, um sjálfsögð málefni og flest veigalítil, sem maður hefur sterklega á tilfinningunni að öll mæti leysa með miklum ágætum án þess að utan um þau væru tvö vígslubiskupsembætti – með tilheyrandi kostnaði og tildri. Það er jafnvel svo að sú hugsun sæki að manni að utan á þessi embætti sé, í starfsreglunum, verið að raða verkefnum, svona eftir á, til þess að reyna nú að láta líta út fyrir að ekki séu þessi háu embætti til einskis. Það er vond aðferðafræði og segir meira um guðfræðilegan þankagang þeirra sem að slíku standa en 100 messur.
Ef gerð er tilraun til þess að greina guðfræði vígslubiskupsembættanna verður ekki hjá því komist að staldra við þær persónur sem sinnt hafa þessum embættum. Því það liggur ljóst fyrir að öll umgjörð um embættin er hrákasmíð og miðar frá upphafi að einhverju allt öðru en guðfræðilegum spursmálum og erindum. Flestir sem þetta lesa vita auðvitað hvers vegna þessi embætti voru stofnuð, Haraldur fer einnig yfir það og verður það því ekki tíundað hér. Dr. Haraldur bendir réttilega á það í grein sinni að boðvald vígslubiskupsins er horfið – reyndar eru það mín orð að það sé horfið – Haraldur Hreinsson er háttvísari maður en ég og segir það fara „hnignandi“. Boðvald biskupa yfirleitt er hnignandi, eða horfið og er það vel – í flestum tilfellum.
En þá aftur að persónunum. Til þess að einfalda hlutina er hér aðeins litið til þeirra vígslubiskupa sem hafa setið staðina, Hóla og Skálholt, og að þeim beint þeirri rannsóknarspurningu hvort segja megi að þeir hafi lagt fram guðfræðilega stefnu eða gert sig gildandi í guðfræðilegri umræðu; hvort þeir hafi verið eða séu guðfræðingar? Áður en gerð verður tilraun til þess að svara þessu er rétt að undirstrika að hér í þessari stuttu grein er gerður greinarmunur á lærdómsgráðunni „guðfræðingur“ og svo því að vera „guðfræðingur“. Vera kannski það sem kalla mætti Guðfræðingur með stóru G. Einhverjum kann að þykja þetta undarleg framsetning en þá er því til að svara að þetta á í raun við um alla akademíska menntun sem flokkast sem hugvísindi. Maður getur lært sagnfræði eða bókmenntafræði, unnið síðan við kennslu í þessum greinum í t.d. framhaldsskóla en aldrei stundað fagið með neinum djúpum hætti, svo sem með skrifum um efnið eða rannsóknum. Með sama hætti læra menn guðfræði og fara í vinnu sem prestar eða djáknar en kafa sjaldnast í fræðin eftir að út á akurinn er komið, skrifa ekki um guðfræði né heldur rannsaka með verkfærum fræðigreinarinnar nema bara rétt það sem þurfa þykir til að geta sinnt embættisskyldum sínum.
Fimm vígslubiskupar hafa setið Hóla: Bolli Gústavsson, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, Solveig Lára Guðmundsdóttir og Gísli Gunnarsson og Sigurður Guðmundsson fór að Hólum á seinni hluta embættistíma síns sem vígslubiskup. Í Skálholti hafa fjórir vígslubiskupar haft fast aðsetur: Jónas Gíslason, Sigurður Sigurðarson, Kristján Valur Ingólfsson og Kristján Björnsson.
Þeir Kristján Valur Ingólfsson og Jónas Gíslason skera sig nokkuð úr þessum hópi hvað varðar mótaðar hugmyndir og framsetningu á ákveðinni guðfræði. Kristján Valur er maður ritúalsins, helgihaldsins, messusöngsins, hann er maður Orðsins og hans sýn virðist miða að því að samræma helgihaldið og þá mystík sem það innifelur og svo aftur hina ytri lofandi þætti svo sem sálmasöng og trúarlegan skáldskap. Þessa má sjá stað aftur og aftur í skrifum Kristjáns Vals og í skáldskap hans, hvort heldur frumsömdum eða þýðingum. Í tíð hans sem vígslubiskups lá myndugleiki Kristjáns Vals inni í þessari guðfræði, inni í helgi guðsþjónustunnar og lá einnig í virðingu hans fyrir ritúali og lofgjörð. Þannig duldist engum að hann stóð fyrir eitthvað sérstakt. Hann var skapandi vígslubiskup sem eftir var tekið og horft til sem Guðfræðings.
Jónas Gíslason var maður sögunnar, kirkjusögunnar, guðfræði Jónasar er sú sem grundvallast á því sem verið hefur, hún er klassísk en þó ekki íhaldssöm í þeim skilningi að ekki sé leitað svara við sístæðum spurningum. Þannig er Jónas óhræddur við átakaspurningar eins og um illsku í heimi eða stöðu kirkjunnar sem samfélagslegrar hreyfingar. Í gegnum skrif sín kemur Jónas manni fyrir sjónir sem mjög afdráttarlaus Lúterani en fyrst og síðast virðist hann hafa litið á vígslubiskupsstöðu sína sem vettvang til að styrkja uppfræðslu og menntun á kristilegum grunni. Hann virðist hafa haft til að bera kennimannlega reisn en um leið yfirvegaða mildi. Miðlun og fræðsla, eru kjarnaþættir í guðfræði Jónasar og stendur hann, líkt og Kristján Valur, fyllilega undir því að vera kallaður Guðfræðingur.
Einnig þykir þeim sem þetta ritar rétt að setja Bolli Gústavsson í hóp með þessum gildu Guðfræðingum, nálgun Bolla var þó ætíð úr annarri átt – ef svo má segja – hann beitir skáldskapnum og listinni sem lyklum að dyrum fræðigreinarinnar. Hann boðar síður, vissulega stundum þó, í skáldskap sínum, en það er frekar að hann sé að ljúka upp ritningunum þegar hann dregur upp mynd eða smíðar texta. Þá er Bolli óumdeilanlega einn af þeim sem mætti kalla brautryðjanda í guðfræði náttúrunnar – eða sköpunarverksins – í skrifum sínum. Þannig náði Bolli að setja verulegt mark á samtíð sína. En það er einmitt það sem skilur að guðfræðing og Guðfræðing að mati þess sem þetta skrifar.
Þótt þessir andans menn sem hér hafa verið teknir út fyrir sviga, sæmilegra presta og jafnvel ágætra – og yfirleitt prýðilegs fólks, þá stendur það eftir að þrátt fyrir guðfræðilegan styrk þeirra náðu þeir ekki að verða með þeim hætti mótandi að vígslubiskupsembættið færi að kannast við sjálft sig eða erindi sitt eftir þeirra daga í embætti. Auðvitað kemur ýmislegt til, hvað það varðar, en það verður ekki tíundað hér, en megin skýringin er auðvitað sú að tilgangsleysi embættanna og hátimbrað núllið í veru þeirra, tímaskekkjan og andlega fátæktin sem þau afhjúpa í dag er svo himinhrópandi að velmeinandi menn og gáfaðir gátu ekki nema rétt svo haldið sjó af viti rétt á meðan þeir sátu í embættum. Og frekja að ætlast til þess að þeir gætu mótað þau til langframa, ekki frekar en að menn geti með besta atlæti og iðkun breytt smalahundi í reiðhest.
Erindi vígslubiskupsembættanna er nákvæmlega ekki neitt. Guðfræði þeirra finnst ekki á grundvelli embættanna sjálfra og verður aldrei sköpuð úr þessu þegar boðvald biskupa fer hnignandi. Nær væri að taka það fé sem ausið er í þessa hít til þess að fara af stað með víðtæka kærleiksþjónustu í hverju prófastsdæmi fyrir sig, t.d. með því að ráða tvo djákna í hvert þeirra. En til þess að hafa nú biskup til taks, forfallist biskup Íslands óvænt í embætti, gætu prófastar kosið einn úr sínum hópi til þess að fara með stöðu varabiskups – hann mætti kalla sig vígslubiskup mín vegna. Og líklega allra landsmanna vegna.