Nýlega kom út bókin Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, eftir Viðar Halldórsson, prófessor.

Þetta er bók sem allt kirkjufólk ætti að taka sér í hendur og lesa auk þess sem hún er tilvalin fyrir leshópa í safnaðarstarfi. Margar félagslegar og trúarlegar tengingar er hægt að finna í henni sem kveikja ýmsar hugsanir og vangaveltur. Mikilvægt er fyrir allt kirkjufólk að hafa innsæi í samfélagið og þá krafta sem halda því gangandi hverju sinni.

Ljósmyndir gegna lykilhlutverki í þessari bók sem er framlag til sjónrænnar félagsfræði sem höfundur kallar svo. Fjöldi mynda sem sýna fólk í samfélaginu við ýmsar aðstæður prýða bókina. Myndirnar eru svo settar undir kenningarlegt sjónarhorn félagsfræðinnar með auðlæsilegum hætti og mjög svo áhugaverðum bæði fyrir almenning sem og þau sem eru vel heima í fræðum félagsvísinda. Höfundur talar í þessu sambandi um sjónræna félagsfræði. Ólíkt öðrum félagsfræðilegum ritum þar sem kafað er ofan í kenningar, skilgreiningar og rannsóknir raktar, þá gegnir ljósmyndin lykilhlutverki sem félagsleg heimild. Þess vegna geta lesendur hvað sem þeir svo sem vita um vísindagreinina félagsfræði, lesið ljósmyndina, greint hana og rætt. Ljósmyndirnar eru sem sneiðmynd úr samfélaginu og kalla ósjálfrátt á vangaveltur og umræður. Það er mikill kostur og hefur vel tekist til með myndaval. Flestar ljósmyndanna hefur höfundurinn tekið.

Lykilhugtak í félagsfræðinni er orðið samfélag. Þó að stjórnmálafólk hafi efast um að þetta fyrirbæri væri til þá hefur það ekki stöðvað rannsóknir á því. Birtingarmynd samfélagsins kemur fram í sjónrænum miðlum af hvaða tagi sem er. Höfundur ræðir eðli máls samkvæmt um að nútímafólk lifi og hrærist í hinum sjónræna heimi hversdagsins og þarf ekki annað en að nefna hvers kyns snjalltæki. En það er samkeppni um augun, ef svo má segja, og höfundur skýtur að lesendum hugtökunum athyglisblindu og viljandi blindu. Þessar tvær tegundir af blindu eru neikvæðar þar sem þær loka augum fyrir því sem miður fer í samfélaginu. Betlarinn sem situr skjálfandi með pappakaffiboxið fer fram hjá augum þess er fram hjá gengur. Hin sjónræna félagsfræði tekur á öllu því sem fyrir augu rannsakandans ber.

Ein lykilhugmynd bókarinnar er félagslegir töfrar. Þetta hugtak er frá höfundi runnið og felur í sér að félagsleg samskipti fólks kalli fram andrúmsloft, kannski magnað andrúmsloft, sem hefur blæ töfra án þess þó að vera yfirnáttúrulegt heldur eingöngu mannlegt sem verður til í hvers konar samskiptum. Í umfjöllun hans um félagslega töfra eru tvær myndir eins og til skýringar. Á annarri er fólk yfir sig hrifið af því að hlusta á hljóðfæraleik í mikilli nánd við listamanninn og á hinni eru tveir á spjalli úti í náttúrunni með innri gleðisvip. Þetta eru félagslegir töfrar (e. social magic) sem verða til í andrá stundarinnar sem líður.

Höfundur rekur fjölmörg dæmi um hina félagslegu töfra bæði í orðum og myndum: úr íþróttalífi; úr menningarlífi; úr samhjálpargeiranum eins og björgunarsveitum o.s.frv. Þetta eru allt sjálfsprottnir félagslegir töfrar sem samfélagið elur af sér. En það eru líka aðrir „töfrar“ (já, innan gæsalappa!) sem birtast í varningi stórfyrirtækja sem oft er sveipaður töfraljóma til dæmis nafnkunnugra kappa úr heimi íþróttanna, þessir töfrar veita að mati höfundar yfirborðskennda stundaránægju (bls. 122) og eru ekki sjálfsprottnir úr samfélaginu heldur hjá stórfyrirtækjum sem sum hafa jafnvel vafasamt orðspor og hugsa um það eitt að græða fé. En þetta er líka rannsóknarefni fyrir félagsfræðina!

Andspænis félagslegum töfrum í samfélaginu stendur firring þess sem höfundur telur að megi tefla fram sem svartagaldri (e. black magic) mót töfrunum. Firring er margslungið hugtak og gerir höfundur henni skýr skil. Fjöldi mynda úr íslensku samfélagi fylgir þeirri umfjöllun en þar er efst á blaði hrunið, búsáhaldabyltingin og afleiðingar hennar. Í því sambandi kemur til umræðu stéttaskipting í samfélaginu og höfundur greinir frá ýmsum hugmyndum um hana sem allir eru ekki á einu máli um. Þar koma til athugunar hugtökin verðleikaræði og veruháttur sem höfundur ræðir skilmerkilega og tengir hvort tveggja við menningarlegt auðmagn. Framsetning höfundar á þessum hugtökum er glögg og umræða hans hófsöm og gagnrýnin eftir því sem efni standa til: „Greining nútímasamfélagsins í þessari bók vísar til þess að samfélagið kunni að vera í krísu (bls. 304).

Einstaklingarnir lifa og hrærast í samfélaginu. Þar flæða gagnkvæm áhrif á milli og höfundur gerir því góð skil. Hann ræðir áhrif félagsmótunar, áhrif fyrirmynda í samfélaginu og hvernig einstaklingurinn gengur fram á völl samfélagsins í ljósi þeirra afla sem hafa mótað hann, teygt hann og togað til. Í því sambandi talar hann um leiksvið lífsins sem sannarlega réttnefni. Þetta leiksvið ræðir hann svo sérstaklega í næstsíðasta kafla bókarinnar, þeim sjötta, þar sem hann fjallar um tjáskipti í leikhúsi hversdagslífsins, til dæmis notkun tákna og látbragðs. Samskiptin í þessu leikhúsi eru bæði framúrskarandi góð en líka slæm og geta leitt til árekstra. Lífið er ekki dans á rósum. Fjöldi frábærra mynda fylgir þessari umfjöllun höfundar og þær verða kröftugur farvegur hinnar sjónrænu hliðar og rannsóknar á samfélaginu sem hann leggur fram í þessari bók. Myndir og texti fara vel saman í allri bókinni og fyrir vikið má segja að hinn fræðilegi texti verði býsna auðlesinn en skyldugt er að taka fram að höfundur er afar vel ritfær og tekur oft frábæra spretti sem unun er að lesa.

Tækni hefur mikil áhrif á samfélagið og ýmsar tæknibyltingar hafa umbylt því. Í félagsfræðinni hafa og komið fram þær raddir að líkja megi tæknivæðingunni við trúarbrögð: Á sama hátt og trúarbrögðin upphefja gildi sín hefur tæknin farið sömu leið (bls. 342). Mjög athyglisverð er umfjöllun höfundar um áhrif snjalltækninnar á hversdagsleg samskipti fólks. Þetta kannast allir við í vestrænum samfélögum nútímans. Þessi tækni ásamt sjálfvirknivæðingu sem er af ætt hennar hefur nánast tekið líf einstaklingsins í stæltar tæknihendur sínar, sem og samfélagið. Eins og höfundur rekur þá er vitaskuld margt jákvætt við þessa þróun en hún á sér líka sínar skuggahliðar: „Minni bein samskipti við aðra firra einstaklinginn félagslegri tilvist sinni og þar með leysast félagsleg bönd samfélagsins smátt og smátt upp, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið“ (bls. 285). Myndir fylgja með þessari umfjöllun og sýna fólk niðursokkið í snjalltækin sín – þetta er veruleiki sem flestir þekkja. En þó að gott sé að vera tengdur og snjalltækin létti margt í lífinu þá bendir höfundur á að þau kunni að ýta undir einmanakennd í samfélaginu og segir hann rannsóknir benda til þess. Einstaklega sterk mynd (bls. 291) sýnir rafrænan barþjón skenkja viðskiptavini vín en þjónninn er ekki beinn fríður og auk þess ekki fær um að spjalla við einmana sál sem rekur nefið inn á bar – kannski til að drekkja sorgum sínum? Ekki er víst að samskiptatæknin sé best til þess fallin að tengja fólk við hvert annað (bls. 299). Höfundur ræðir um afmennskun skjásamfélagsins í því sambandi sem er mjög athyglisvert. Umræða um skjásamfélagið er mjög svo lifandi í samfélaginu og þessi kafli talar beint inn í hana, til dæmis í sambandi við skjánotkun barna og unglinga – sem og þá kynslóð sem ræður ekki við skjásamfélagið.

Síðasti kafli bókarinnar er nokkurs konar samantekt á sjónrænni greiningu höfundar á samfélaginu. Meginniðurstaða höfundar er sú að enda þótt skiptar skoðanir séu um hvernig samfélag skuli vera byggt upp þá sé meira sem sameini fólk en sundri. Einstaklingarnir séu bindiefni samfélagsins og aðalefni hinna félagslegu töfra séu samskipti einstaklinganna. Enda þótt ekki sé hægt að vega og mæla félagslega töfra eins og tiltekin frumefni í náttúrunni þá eru þeir sýnilegir í samfélaginu eins og fjöldi mynda bókarinnar sýnir en höfundur er engu að síður varfærinn eins og fræðimanni ber að vera og segir að það geti verið „erfitt að festa fingur á þá“ (bls. 313).

Í bókinni er goldið varhug við neyslukapítalisma og tæknirisum sem boða sífellt fleiri nýjungar til að létta fólki lífið. En ekki er allt sem sýnist. Hver einstaklingur verður að skoða samfélagið og átta sig á stöðu sinni þar. Samfélagið er ekki fullkomið, það hefur kosti og galla. Mikilvægt er að falla ekki fyrir þeim sem vilja ná tökum á einstaklingunum til að hafa áhrif á þá og hagnast jafnframt á þeim fjárhagslega með hvers kyns neyslutilboðum.

Höfundur boðar þannig sjálfstæði hvers manns gagnvart öllum hugsanlegum áhrifavöldum sem eru á sveimi í samfélaginu og hann hefur fjallað um nokkra þeirra, bæði þá jákvæðu og neikvæðu. Hann hvetur til samtals, samtakamáttar og samhjálpar í samfélaginu: „Samfélagið þarf að tengja einstaklinga saman en ekki slíta þá í sundur … Samfélagið þarf meiri nánd, meiri jöfnuð og meiri mennsku til að lifa af, dafna og styrkjast; og meiri félagslega töfra“ (bls. 366). Þessi orð endurspegla vel hina hlýju og skilningsríku nærveru höfundar sem lesandi finnur vel fyrir í texta bókarinnar og yljar honum um hjartarætur.

Í lokin má spyrja hver sé markhópur þessarar bókar. Félagsfræðinemar við háskólana hér á landi, kennaranemar og íþróttafræðinemar, sá hópur kemur fyrst upp í hugann. Marga fleiri hópa mætti svo sem nefna – til dæmis fólk sem tekur þátt í stjórnmálum, menningarmálum og öðrum samfélagsmálum, sem og að ógleymdum þeim flokki sem kallast alla jafna áhugasamir lesendur. Loks er bókin mjög heppileg fyrir allt kirkjufólk sem vill skoða samfélagið og kynnast gangvirki þess til þess að finna sem bestar leiðir til að boða fagnaðarerindið.

Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu spannar vítt svið og tekur á öllum grundvallaratriðum í tengslum við samfélagið, er skýr, skilmerkileg og á mannamáli. Hún er því fengur fyrir öll þau sem vilja sjá samfélagið frá sem flestum hliðum og fræðast um það með tungutaki félagsfræðinnar.

Bókin geymir enskan útdrátt (e. abstract), heimildaskrá og bendiskrá.

Á síðustu blaðsíðu bókarinnar, 417, er svo að finna QR-kóða þar sem lesa má fleira af svipuðum toga og bókin fjallar um. Þessi tilvísun er skemmtileg nýjung í bók – enda snjallsíminn við höndina!

Niðurstaða:

Bókin Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, er frábær bók fyrir allt hugsandi fólk. Setur hluti í samhengi hversdagsins, fræðanna og þar sem hver og einn hefur líka til margt til málanna að leggja. Höfundur skrifar lipran og góðan texta sem er mikilvægt í bókum af þessu tagi sem sameina fræðileg ritstörf og það sem er við almennings hæfi. 

Viðar Halldórsson, Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2024, 417 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Nýlega kom út bókin Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, eftir Viðar Halldórsson, prófessor.

Þetta er bók sem allt kirkjufólk ætti að taka sér í hendur og lesa auk þess sem hún er tilvalin fyrir leshópa í safnaðarstarfi. Margar félagslegar og trúarlegar tengingar er hægt að finna í henni sem kveikja ýmsar hugsanir og vangaveltur. Mikilvægt er fyrir allt kirkjufólk að hafa innsæi í samfélagið og þá krafta sem halda því gangandi hverju sinni.

Ljósmyndir gegna lykilhlutverki í þessari bók sem er framlag til sjónrænnar félagsfræði sem höfundur kallar svo. Fjöldi mynda sem sýna fólk í samfélaginu við ýmsar aðstæður prýða bókina. Myndirnar eru svo settar undir kenningarlegt sjónarhorn félagsfræðinnar með auðlæsilegum hætti og mjög svo áhugaverðum bæði fyrir almenning sem og þau sem eru vel heima í fræðum félagsvísinda. Höfundur talar í þessu sambandi um sjónræna félagsfræði. Ólíkt öðrum félagsfræðilegum ritum þar sem kafað er ofan í kenningar, skilgreiningar og rannsóknir raktar, þá gegnir ljósmyndin lykilhlutverki sem félagsleg heimild. Þess vegna geta lesendur hvað sem þeir svo sem vita um vísindagreinina félagsfræði, lesið ljósmyndina, greint hana og rætt. Ljósmyndirnar eru sem sneiðmynd úr samfélaginu og kalla ósjálfrátt á vangaveltur og umræður. Það er mikill kostur og hefur vel tekist til með myndaval. Flestar ljósmyndanna hefur höfundurinn tekið.

Lykilhugtak í félagsfræðinni er orðið samfélag. Þó að stjórnmálafólk hafi efast um að þetta fyrirbæri væri til þá hefur það ekki stöðvað rannsóknir á því. Birtingarmynd samfélagsins kemur fram í sjónrænum miðlum af hvaða tagi sem er. Höfundur ræðir eðli máls samkvæmt um að nútímafólk lifi og hrærist í hinum sjónræna heimi hversdagsins og þarf ekki annað en að nefna hvers kyns snjalltæki. En það er samkeppni um augun, ef svo má segja, og höfundur skýtur að lesendum hugtökunum athyglisblindu og viljandi blindu. Þessar tvær tegundir af blindu eru neikvæðar þar sem þær loka augum fyrir því sem miður fer í samfélaginu. Betlarinn sem situr skjálfandi með pappakaffiboxið fer fram hjá augum þess er fram hjá gengur. Hin sjónræna félagsfræði tekur á öllu því sem fyrir augu rannsakandans ber.

Ein lykilhugmynd bókarinnar er félagslegir töfrar. Þetta hugtak er frá höfundi runnið og felur í sér að félagsleg samskipti fólks kalli fram andrúmsloft, kannski magnað andrúmsloft, sem hefur blæ töfra án þess þó að vera yfirnáttúrulegt heldur eingöngu mannlegt sem verður til í hvers konar samskiptum. Í umfjöllun hans um félagslega töfra eru tvær myndir eins og til skýringar. Á annarri er fólk yfir sig hrifið af því að hlusta á hljóðfæraleik í mikilli nánd við listamanninn og á hinni eru tveir á spjalli úti í náttúrunni með innri gleðisvip. Þetta eru félagslegir töfrar (e. social magic) sem verða til í andrá stundarinnar sem líður.

Höfundur rekur fjölmörg dæmi um hina félagslegu töfra bæði í orðum og myndum: úr íþróttalífi; úr menningarlífi; úr samhjálpargeiranum eins og björgunarsveitum o.s.frv. Þetta eru allt sjálfsprottnir félagslegir töfrar sem samfélagið elur af sér. En það eru líka aðrir „töfrar“ (já, innan gæsalappa!) sem birtast í varningi stórfyrirtækja sem oft er sveipaður töfraljóma til dæmis nafnkunnugra kappa úr heimi íþróttanna, þessir töfrar veita að mati höfundar yfirborðskennda stundaránægju (bls. 122) og eru ekki sjálfsprottnir úr samfélaginu heldur hjá stórfyrirtækjum sem sum hafa jafnvel vafasamt orðspor og hugsa um það eitt að græða fé. En þetta er líka rannsóknarefni fyrir félagsfræðina!

Andspænis félagslegum töfrum í samfélaginu stendur firring þess sem höfundur telur að megi tefla fram sem svartagaldri (e. black magic) mót töfrunum. Firring er margslungið hugtak og gerir höfundur henni skýr skil. Fjöldi mynda úr íslensku samfélagi fylgir þeirri umfjöllun en þar er efst á blaði hrunið, búsáhaldabyltingin og afleiðingar hennar. Í því sambandi kemur til umræðu stéttaskipting í samfélaginu og höfundur greinir frá ýmsum hugmyndum um hana sem allir eru ekki á einu máli um. Þar koma til athugunar hugtökin verðleikaræði og veruháttur sem höfundur ræðir skilmerkilega og tengir hvort tveggja við menningarlegt auðmagn. Framsetning höfundar á þessum hugtökum er glögg og umræða hans hófsöm og gagnrýnin eftir því sem efni standa til: „Greining nútímasamfélagsins í þessari bók vísar til þess að samfélagið kunni að vera í krísu (bls. 304).

Einstaklingarnir lifa og hrærast í samfélaginu. Þar flæða gagnkvæm áhrif á milli og höfundur gerir því góð skil. Hann ræðir áhrif félagsmótunar, áhrif fyrirmynda í samfélaginu og hvernig einstaklingurinn gengur fram á völl samfélagsins í ljósi þeirra afla sem hafa mótað hann, teygt hann og togað til. Í því sambandi talar hann um leiksvið lífsins sem sannarlega réttnefni. Þetta leiksvið ræðir hann svo sérstaklega í næstsíðasta kafla bókarinnar, þeim sjötta, þar sem hann fjallar um tjáskipti í leikhúsi hversdagslífsins, til dæmis notkun tákna og látbragðs. Samskiptin í þessu leikhúsi eru bæði framúrskarandi góð en líka slæm og geta leitt til árekstra. Lífið er ekki dans á rósum. Fjöldi frábærra mynda fylgir þessari umfjöllun höfundar og þær verða kröftugur farvegur hinnar sjónrænu hliðar og rannsóknar á samfélaginu sem hann leggur fram í þessari bók. Myndir og texti fara vel saman í allri bókinni og fyrir vikið má segja að hinn fræðilegi texti verði býsna auðlesinn en skyldugt er að taka fram að höfundur er afar vel ritfær og tekur oft frábæra spretti sem unun er að lesa.

Tækni hefur mikil áhrif á samfélagið og ýmsar tæknibyltingar hafa umbylt því. Í félagsfræðinni hafa og komið fram þær raddir að líkja megi tæknivæðingunni við trúarbrögð: Á sama hátt og trúarbrögðin upphefja gildi sín hefur tæknin farið sömu leið (bls. 342). Mjög athyglisverð er umfjöllun höfundar um áhrif snjalltækninnar á hversdagsleg samskipti fólks. Þetta kannast allir við í vestrænum samfélögum nútímans. Þessi tækni ásamt sjálfvirknivæðingu sem er af ætt hennar hefur nánast tekið líf einstaklingsins í stæltar tæknihendur sínar, sem og samfélagið. Eins og höfundur rekur þá er vitaskuld margt jákvætt við þessa þróun en hún á sér líka sínar skuggahliðar: „Minni bein samskipti við aðra firra einstaklinginn félagslegri tilvist sinni og þar með leysast félagsleg bönd samfélagsins smátt og smátt upp, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið“ (bls. 285). Myndir fylgja með þessari umfjöllun og sýna fólk niðursokkið í snjalltækin sín – þetta er veruleiki sem flestir þekkja. En þó að gott sé að vera tengdur og snjalltækin létti margt í lífinu þá bendir höfundur á að þau kunni að ýta undir einmanakennd í samfélaginu og segir hann rannsóknir benda til þess. Einstaklega sterk mynd (bls. 291) sýnir rafrænan barþjón skenkja viðskiptavini vín en þjónninn er ekki beinn fríður og auk þess ekki fær um að spjalla við einmana sál sem rekur nefið inn á bar – kannski til að drekkja sorgum sínum? Ekki er víst að samskiptatæknin sé best til þess fallin að tengja fólk við hvert annað (bls. 299). Höfundur ræðir um afmennskun skjásamfélagsins í því sambandi sem er mjög athyglisvert. Umræða um skjásamfélagið er mjög svo lifandi í samfélaginu og þessi kafli talar beint inn í hana, til dæmis í sambandi við skjánotkun barna og unglinga – sem og þá kynslóð sem ræður ekki við skjásamfélagið.

Síðasti kafli bókarinnar er nokkurs konar samantekt á sjónrænni greiningu höfundar á samfélaginu. Meginniðurstaða höfundar er sú að enda þótt skiptar skoðanir séu um hvernig samfélag skuli vera byggt upp þá sé meira sem sameini fólk en sundri. Einstaklingarnir séu bindiefni samfélagsins og aðalefni hinna félagslegu töfra séu samskipti einstaklinganna. Enda þótt ekki sé hægt að vega og mæla félagslega töfra eins og tiltekin frumefni í náttúrunni þá eru þeir sýnilegir í samfélaginu eins og fjöldi mynda bókarinnar sýnir en höfundur er engu að síður varfærinn eins og fræðimanni ber að vera og segir að það geti verið „erfitt að festa fingur á þá“ (bls. 313).

Í bókinni er goldið varhug við neyslukapítalisma og tæknirisum sem boða sífellt fleiri nýjungar til að létta fólki lífið. En ekki er allt sem sýnist. Hver einstaklingur verður að skoða samfélagið og átta sig á stöðu sinni þar. Samfélagið er ekki fullkomið, það hefur kosti og galla. Mikilvægt er að falla ekki fyrir þeim sem vilja ná tökum á einstaklingunum til að hafa áhrif á þá og hagnast jafnframt á þeim fjárhagslega með hvers kyns neyslutilboðum.

Höfundur boðar þannig sjálfstæði hvers manns gagnvart öllum hugsanlegum áhrifavöldum sem eru á sveimi í samfélaginu og hann hefur fjallað um nokkra þeirra, bæði þá jákvæðu og neikvæðu. Hann hvetur til samtals, samtakamáttar og samhjálpar í samfélaginu: „Samfélagið þarf að tengja einstaklinga saman en ekki slíta þá í sundur … Samfélagið þarf meiri nánd, meiri jöfnuð og meiri mennsku til að lifa af, dafna og styrkjast; og meiri félagslega töfra“ (bls. 366). Þessi orð endurspegla vel hina hlýju og skilningsríku nærveru höfundar sem lesandi finnur vel fyrir í texta bókarinnar og yljar honum um hjartarætur.

Í lokin má spyrja hver sé markhópur þessarar bókar. Félagsfræðinemar við háskólana hér á landi, kennaranemar og íþróttafræðinemar, sá hópur kemur fyrst upp í hugann. Marga fleiri hópa mætti svo sem nefna – til dæmis fólk sem tekur þátt í stjórnmálum, menningarmálum og öðrum samfélagsmálum, sem og að ógleymdum þeim flokki sem kallast alla jafna áhugasamir lesendur. Loks er bókin mjög heppileg fyrir allt kirkjufólk sem vill skoða samfélagið og kynnast gangvirki þess til þess að finna sem bestar leiðir til að boða fagnaðarerindið.

Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu spannar vítt svið og tekur á öllum grundvallaratriðum í tengslum við samfélagið, er skýr, skilmerkileg og á mannamáli. Hún er því fengur fyrir öll þau sem vilja sjá samfélagið frá sem flestum hliðum og fræðast um það með tungutaki félagsfræðinnar.

Bókin geymir enskan útdrátt (e. abstract), heimildaskrá og bendiskrá.

Á síðustu blaðsíðu bókarinnar, 417, er svo að finna QR-kóða þar sem lesa má fleira af svipuðum toga og bókin fjallar um. Þessi tilvísun er skemmtileg nýjung í bók – enda snjallsíminn við höndina!

Niðurstaða:

Bókin Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, er frábær bók fyrir allt hugsandi fólk. Setur hluti í samhengi hversdagsins, fræðanna og þar sem hver og einn hefur líka til margt til málanna að leggja. Höfundur skrifar lipran og góðan texta sem er mikilvægt í bókum af þessu tagi sem sameina fræðileg ritstörf og það sem er við almennings hæfi. 

Viðar Halldórsson, Sjáum samfélagið – Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2024, 417 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir