Fyrir nokkru sagði maður nokkur sem nýkominn var frá útlöndum að hann væri orðinn ósköp leiður á því að standa iðulega frammi fyrir betlurum og vita ekki alltaf hvað hann ætti að gera. Auðvitað hefði hann alltaf eitthvert klink á sér og stundum gæfi hann og stundum ekki. Svo kæmi hann heim og væri annað slagið að detta um betlara og hefði aldrei krónu á sér enda notaði hann ekki reiðufé heldur kort.

Almenningur hefur sennilega blendnar tilfinningar gagnvart götubetli. Sumir telja að betlarar séu að blanda öðrum inn í vandamál sín á förnum vegi en betlið tíðkast alla jafna í almannarými. Rannsóknir á betli hafa til dæmis leitt í ljós að margir fái samviskubit yfir því að gefa ekki betlurum og telji ósanngjarnt að þessi iðja alls ókunnugs fólks á almannafæri þurfi að hrella þau andlega. Svo eru þau sem líta á að betlarar ættu að hafa einhverja döngun í sér og fá sér almennilega vinnu. Markaðskerfi kapítalismans gerir kröfu um endurgjald fyrir vinnuframlag og í betli er því ekki til að dreifa. Ástandið skánar strax ef betlarinn heldur til dæmis á harmónikku og leikur þar af fingrum fram. Þá lítur margur svo á að músíkin sé framlag sem megi svo sem greiða fyrir.

Betl hefur tengst trú frá fornu fari. Betlimunkar fóru um og þágu ölmusu til þess að geta sinnt betur helgu lífi. Munkurinn hvarf frá hefðbundnu lífi og setti allt sitt traust á Guð. Þau sem ölmusu gáfu voru sem sendiboðar almættisins til þess sem kaus að iðka trú og biðja fyrir öðrum. Sama átti við pílagríma í kaþólskri tíð og lifðu þeir á bónbjörgum til að komast í áfangastað. Betlarar nútímans höfða margir til trúar vegfarenda eins og þeir sem sitja við kirkjudyr eða hafa stundum trúarlegar myndir í farteski sínu, sitja í bænastellingu og kalla á hjálp þess sem fer um. Sé eitthvert klink látið af hendi rakna skorti ekki guðsblessanir í bak og fyrir.

Lúthersk kirkja hefur talið að enginn þurfi að betla vegna þess að það sé hlutverk hins opinbera að sjá til þess að fólk hafi fyrir nauðþurftum. Það er umhugsunarverð og ögrandi lesning í einu rita Marteins Lúthers þar sem hann kemur inn á betl. Vissulega er sem oft áður stólpakjaftur á þeim gamla en kjarninn í máli hans er skýr:

Brýnustu nauðsyn ber til þess að útrýma öllu betli í hinum kristna dómi. Það á aldrei nokkur maður meðal kristinna manna að betla. Það væri líka léttur leikur að koma skikki á þessi mál, ef við hefðum kjark til þess að taka á þeim. Það á nefnilega að vera þannig að hver borg forsorgi sína fátæklinga og líði ekki ókunnuglega betlara, pílagrímsbræður eða betlimunkareglur – alveg sama hvaða nöfnum þeir nefnast. Hver einasta borg getur alltaf framfært sína fátæklinga; reynist hún þess ekki megnug á að áminna sveitafólkið í þorpunum í nágrenninu að láta sinn hlut ekki eftir liggja. Það fólk verður hvort sem er að forsorga umrenninga og annað illþýði, sem kallar sig betlara. Það mætti og aðgæta, hver sé í raun og veru fátækur og hver ekki.

(Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýðing Vilborg Ísleifsdóttir,
Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík, 2012, bls. 143 – 144).

Betl er sem sé ævagamalt í sögunni og fólk á öllum tímum hefur alltaf talið sjálfsagt að liðsinna þeim sem neyðast til að betla. Flestir átta sig á því að betlið eigi sér margvíslegar félagslegar aðstæður og sé stundum illviðráðanlegt sem samfélagið verði að taka á. Betlarar séu manneskjur og fyrir þeim verði að bera virðingu sem slíkum.

Engar rannsóknir liggja fyrir um betl á Íslandi í nútímanum en það virðist hafa færst í vöxt. Betl er ekki bannað með lögum á Íslandi og enginn hefur kallað mjög hátt eftir því sem betur fer. Bann við betli útrýmir því ekki úr borgarsamfélaginu þó svo að háværar raddir hafi í sumum löndum kallað eftir slíkum bönnum til að tryggja öryggi borgaranna. Frændur vorir Danir banna betl með lögum. Rannsóknir sýna hins vegar að lög gegn betli virka ekki til dæmis gagnvart samfélagshópum þar sem betl er hluti af menningu þeirra ein og hjá Rómafólki.

Fátækt fyrirfinnst á Norðurlöndum enda þótt þar sé við lýði velferðarkerfi. Svo á einnig við um Ísland. Ætla mætti að lágmarksframfærslueyrir sé öllum tryggður en auðvitað kann að vera misbrestur á því vegna ákveðinna aðstæðna auk þess sem hann dugar ekki öllum. Sumir tortryggja betlara á þeim forsendum að þeir séu að afla sér aukafjár þó að þeir þiggi framfærslu frá hinu opinbera sem eigi einmitt að þeirra áliti að gera betl óþarft.

Sennilega eru flestir sammála því að enginn þurfi að vera í þeirri stöðu að stunda betl í samfélagi velferðar. Þá er rétt að benda á ýmsar hjálparstofnanir sem liðsinna fólki sem býr við erfið kjör. Hjálparstarf kirkjunnar starfar á vegum þjóðkirkjunnar og rekur öflugt hjálparstarf með faglegum hætti.

Sjá einnig umfjöllun um fátækt hér.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Fyrir nokkru sagði maður nokkur sem nýkominn var frá útlöndum að hann væri orðinn ósköp leiður á því að standa iðulega frammi fyrir betlurum og vita ekki alltaf hvað hann ætti að gera. Auðvitað hefði hann alltaf eitthvert klink á sér og stundum gæfi hann og stundum ekki. Svo kæmi hann heim og væri annað slagið að detta um betlara og hefði aldrei krónu á sér enda notaði hann ekki reiðufé heldur kort.

Almenningur hefur sennilega blendnar tilfinningar gagnvart götubetli. Sumir telja að betlarar séu að blanda öðrum inn í vandamál sín á förnum vegi en betlið tíðkast alla jafna í almannarými. Rannsóknir á betli hafa til dæmis leitt í ljós að margir fái samviskubit yfir því að gefa ekki betlurum og telji ósanngjarnt að þessi iðja alls ókunnugs fólks á almannafæri þurfi að hrella þau andlega. Svo eru þau sem líta á að betlarar ættu að hafa einhverja döngun í sér og fá sér almennilega vinnu. Markaðskerfi kapítalismans gerir kröfu um endurgjald fyrir vinnuframlag og í betli er því ekki til að dreifa. Ástandið skánar strax ef betlarinn heldur til dæmis á harmónikku og leikur þar af fingrum fram. Þá lítur margur svo á að músíkin sé framlag sem megi svo sem greiða fyrir.

Betl hefur tengst trú frá fornu fari. Betlimunkar fóru um og þágu ölmusu til þess að geta sinnt betur helgu lífi. Munkurinn hvarf frá hefðbundnu lífi og setti allt sitt traust á Guð. Þau sem ölmusu gáfu voru sem sendiboðar almættisins til þess sem kaus að iðka trú og biðja fyrir öðrum. Sama átti við pílagríma í kaþólskri tíð og lifðu þeir á bónbjörgum til að komast í áfangastað. Betlarar nútímans höfða margir til trúar vegfarenda eins og þeir sem sitja við kirkjudyr eða hafa stundum trúarlegar myndir í farteski sínu, sitja í bænastellingu og kalla á hjálp þess sem fer um. Sé eitthvert klink látið af hendi rakna skorti ekki guðsblessanir í bak og fyrir.

Lúthersk kirkja hefur talið að enginn þurfi að betla vegna þess að það sé hlutverk hins opinbera að sjá til þess að fólk hafi fyrir nauðþurftum. Það er umhugsunarverð og ögrandi lesning í einu rita Marteins Lúthers þar sem hann kemur inn á betl. Vissulega er sem oft áður stólpakjaftur á þeim gamla en kjarninn í máli hans er skýr:

Brýnustu nauðsyn ber til þess að útrýma öllu betli í hinum kristna dómi. Það á aldrei nokkur maður meðal kristinna manna að betla. Það væri líka léttur leikur að koma skikki á þessi mál, ef við hefðum kjark til þess að taka á þeim. Það á nefnilega að vera þannig að hver borg forsorgi sína fátæklinga og líði ekki ókunnuglega betlara, pílagrímsbræður eða betlimunkareglur – alveg sama hvaða nöfnum þeir nefnast. Hver einasta borg getur alltaf framfært sína fátæklinga; reynist hún þess ekki megnug á að áminna sveitafólkið í þorpunum í nágrenninu að láta sinn hlut ekki eftir liggja. Það fólk verður hvort sem er að forsorga umrenninga og annað illþýði, sem kallar sig betlara. Það mætti og aðgæta, hver sé í raun og veru fátækur og hver ekki.

(Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýðing Vilborg Ísleifsdóttir,
Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík, 2012, bls. 143 – 144).

Betl er sem sé ævagamalt í sögunni og fólk á öllum tímum hefur alltaf talið sjálfsagt að liðsinna þeim sem neyðast til að betla. Flestir átta sig á því að betlið eigi sér margvíslegar félagslegar aðstæður og sé stundum illviðráðanlegt sem samfélagið verði að taka á. Betlarar séu manneskjur og fyrir þeim verði að bera virðingu sem slíkum.

Engar rannsóknir liggja fyrir um betl á Íslandi í nútímanum en það virðist hafa færst í vöxt. Betl er ekki bannað með lögum á Íslandi og enginn hefur kallað mjög hátt eftir því sem betur fer. Bann við betli útrýmir því ekki úr borgarsamfélaginu þó svo að háværar raddir hafi í sumum löndum kallað eftir slíkum bönnum til að tryggja öryggi borgaranna. Frændur vorir Danir banna betl með lögum. Rannsóknir sýna hins vegar að lög gegn betli virka ekki til dæmis gagnvart samfélagshópum þar sem betl er hluti af menningu þeirra ein og hjá Rómafólki.

Fátækt fyrirfinnst á Norðurlöndum enda þótt þar sé við lýði velferðarkerfi. Svo á einnig við um Ísland. Ætla mætti að lágmarksframfærslueyrir sé öllum tryggður en auðvitað kann að vera misbrestur á því vegna ákveðinna aðstæðna auk þess sem hann dugar ekki öllum. Sumir tortryggja betlara á þeim forsendum að þeir séu að afla sér aukafjár þó að þeir þiggi framfærslu frá hinu opinbera sem eigi einmitt að þeirra áliti að gera betl óþarft.

Sennilega eru flestir sammála því að enginn þurfi að vera í þeirri stöðu að stunda betl í samfélagi velferðar. Þá er rétt að benda á ýmsar hjálparstofnanir sem liðsinna fólki sem býr við erfið kjör. Hjálparstarf kirkjunnar starfar á vegum þjóðkirkjunnar og rekur öflugt hjálparstarf með faglegum hætti.

Sjá einnig umfjöllun um fátækt hér.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir