Það hefur verið sérstök upplifun fyrir menntaðan sjúkrahúsprest á besta aldri að leggjast inn á sjúkrahús alvarlega veikur. Sjá skyndilega starfsvettvang sinn út frá sjónarhóli sjúklinganna.

Vigfús Bjarni Albertsson, lengi starfandi sjúkrahúsprestur en nú í forsvari fyrir Sálgæslu- og fjölskylduþjónusta kirkjunnar, segir reynslusögu sína í nýútkominni bók: Hver vegur að heiman er vegur heim, og dregur ýmsa lærdóma af henni í samtali við lesandann.

Þau eru mörg sem vinna við aðhlynningu fólks, hvort heldur líkamlega eða andlega, sem gæta ekki að heilsu sjálfra sín. Hlusta ekki á líkamann, eins og það er kallað. Þau eru drifin áfram af vinnu sinni og elsku til náungans og skella skolleyrum við því þegar eigin líkamsklukka er farin að tifa með óeðlilegum hætti. Vigfús Bjarni gaf ekki gaum að líkamsklukku sinni í tvö ár og hélt ótrauður áfram. Hugsaði eflaust með sér að þetta hlyti að rjátlast af honum. Kappsamur maður í störfum sínum og ötull í hverju verki, ofvirkur að eigin sögn og ekki alltaf auðveldur til samfylgdar.

Hurð skall nærri hælum þessa heims og annars í lífi Vigfúsar Bjarna. Alvarleg hjartveiki hafði grafið um sig en inngrip heilbrigðisstarfsfólks í líf hans björguðu honum.

Vigfús Bjarni lítur yfir farinn veikindaveg í þessari bók. Hann rekur veikindareynslu sína á ríflega fyrstu fjörutíu blaðsíðum bókarinnar og segir: „Það er haltur maður sem skrifar þessa bók en hann býður þér á ferðalag um minningar og hugleiðingar“ (bls. 45). Höfundur segir vel frá og frásögnin rennur vel. Hann er hlýr í orðum sínum, auðmjúkur og heiðarlegur. Greinir frá erfiðum stundum þegar honum finnst allt mótdrægt og hans nánustu ekki skilja sig þegar þungur hugur samfara hægum bata gerir vart við sig en höfundur vill að hlutirnir gangi, eins og sagt er, hann hefur ekki þolinmæði. En sjúkrasaga hans fer vel á endanum – og hann er reynslunni ríkari og miðlar öðrum með ljómandi góðum hætti í þessari bók.

Þessi reynsla höfundar sem í sjálfu sér er ekki einstök því margur hefur farið í gegnum slíkan eld og komist lífs af, notar hann sem efnivið til að miðla til annarra sem þurft hafa að horfast í augu við hvers kyns veikindi og þjáningar.

Það er sem lesandi sjái höfund fyrir sér á vettvangi sálgæslunnar. Hann er yfirvegaður og lætur fátt koma sér í opna skjöldu. Er vel innrammaður í persónuleika sinn sem vandaður sálgætir, velvitandi af kostum sínum og vanköntum; íhugull með trú og mannúð í farteskinu. Umfram allt er einhvers konar raunsæi mennskunnar samfléttað störfum höfundar svo skjólstæðingar finna góðan samhljóm við rödd hans. Hann hreykir sér ekki upp heldur er hlustandinn, presturinn, sem græða vill sár og rétta fram hjálparhönd en gerir sér jafnframt ljóst að hann sjálfur vinnur ekki nein kraftaverk. Sjálfur er hann þakklátur fyrir það sem skjólstæðingar hans kenna honum í mannlegum samskiptum við þungbærar aðstæður.

Höfundur dregur fram mörg dæmi úr reynslusögum sínum af vettvangi sálgæslunnar. Þau falla vel að heildarfrásögninni og eru nefnd til skýringar eða til áréttingar á því sem hann vill koma fram. Áhrifarík er til dæmis myndin sem hann dregur upp af samskiptum sínum við föður sem misst hafði barn sitt: harkalegt faðmlag hans við prestinn í fyrstu mýktist svo smám saman því það var „glíma hins þjáða manns“ (bls. 99) .

Sálgæsluviðtöl reyna ekki aðeins á viðmælendurna heldur og prestinn sjálfan. Hann þarf til dæmis að vera hugrakkur eins og höfundur nefnir sem kannski fáir leiða hugann að. Í sálgæslu þarf nefnilega oft að spyrja óþægilegra spurninga og krefjandi, til dæmis í fjölskylduviðtölum, í því skyni að fá allt fram í dagsljósið og afhjúpa meðal annars þau sem beita fjölskylduna kúgun og lygum.

Höfundur er líka skemmtilega persónulegur í samtölum sínum við lesandann. Segir til dæmis frá langafa sínum sem gaf mynd af séra Hallgrími Péturssyni til Húsavíkurkirkju sem þakklæti fyrir endurheimt heilsu sinnar (bls. 145). Þessi persónulegi samtalsstíll bókarinnar gerir hana einkar læsilega og áhugaverða og er hin bjarta hlið hennar sem annars dvelur eðli máls samkvæmt við mannanna mörgu mein.

Það er mikilvægt fyrir prest sem starfar með fólki úr ólíkum áttum að vera opinn fyrir andlegum straumum og hreyfingum. Það er höfundur. Enda þótt höfundur setji fram guðshugmynd sína í stysta svari sínu sem: Guð birtist í öllu fólki, þá er hún líka flóknari. Guðshugmynd hans birtist líka í þrenningunni án þess að það sé útskýrt frekar enda gjarnan haft eftir Lúther gamla að sá sem gæti útskýrt þrenninguna væri hálfu nær helvíti en hinn sem það gæti ekki. Síðan víkur höfundur að guðsmynd sinni sem birtist í því að reynsla læknar reynslu, eins og hann orðar það. Reynsla annars sem hefur gengið í gegnum þjáningar og lifað af getur fleytt áfram til annarra von um betri tíð  á sama hátt og Kristur á krossinum veitir von um upprisu til lífs. Það eru margar guðshugmyndir sem mæta starfsfólki á sviði sálgæslu á hverjum degi og allar eru jafnréttháar. Hvort sem einhver lítur á náttúruna sem opinberunarstað almættisins, tilbiður guð eingyðistrúarbragða eða heiðin goð, eða þá einhvers konar trúleysi að ógleymdum Mammon. Allar þessar hugmyndir og fleiri fylgja manneskjunum. Það kemur og enda skýrt fram hjá höfundi að sálgætir eigi ekki að stunda trúboð þó að trúaður sé – lífsskoðanir eru virtar og þeim gefið það svigrúm sem þær þurfa.

Þessi bók hentar fólki vel sem stendur andspænis ýmsum erfiðleikum í lífi sínu. Rólyndislegur rabbstíll bókarinnar tekur vel utan um lesandann og hann finnur sig öruggan. Höfundur er vel jarðtengdur og felur ekki trú sína né heldur læðir henni inn á aðra eða þröngvar. Hann er til í samtal og stuðning, leggur sjálfan sig þar fram. Það er mannleg nálgun gagnvart fólki sem horfist í augu við alvarlega sjúkdóma og í sumum tilvikum dauða.

Á þessum vettvangi hafa prestar og söfnuðir verið iðulega hvattir til að nýta sér í safnaðarstarfi ýmsar bækur sem hér hefur verið fjallað um, til dæmis ljóðabækur og þann heim sem þær sýna. Kirkjublaðið.is er ekki af baki dottið og skorar á presta, djákna og söfnuði að huga að þessari bók og nota hana til að mynda sem efnivið í leshringi í kirkjunum í fullorðinsstarfi. Hún er mjög svo heppileg til þess því að allir hafa frá einhverju að segja sem hefur verið þeim erfitt á lífsleiðinni og geta tengt við margt sem Vigfús Bjarni víkur að í bókinni og bætt við þann reynslubrunn.

Niðurstaða
Hver vegur að heiman er vegur heim, er þörf bók og hentar öllum sem standa andspænis margvíslegum erfiðleikum í lífi og starfi. Höfundur skrifar lipran stíl og nær augum og eyrum lesanda afar vel. Hann er auðmjúkur, hógvær, talar af eigin reynslu án nokkurrar dómsýki eða yfirlætis. Lesandi finnur að hér talar kristinn mannvinur sem réttir fram trausta hjálparhönd og hlýja. Bók sem allt kirkjufólk ætti að lesa og kennilýðurinn að rétta að fólki í erfiðum aðstæðum.

Vigfús Bjarni Albertsson, Hver vegur að heiman er vegur heim, Skálholtsútgáfan 2024, 173 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það hefur verið sérstök upplifun fyrir menntaðan sjúkrahúsprest á besta aldri að leggjast inn á sjúkrahús alvarlega veikur. Sjá skyndilega starfsvettvang sinn út frá sjónarhóli sjúklinganna.

Vigfús Bjarni Albertsson, lengi starfandi sjúkrahúsprestur en nú í forsvari fyrir Sálgæslu- og fjölskylduþjónusta kirkjunnar, segir reynslusögu sína í nýútkominni bók: Hver vegur að heiman er vegur heim, og dregur ýmsa lærdóma af henni í samtali við lesandann.

Þau eru mörg sem vinna við aðhlynningu fólks, hvort heldur líkamlega eða andlega, sem gæta ekki að heilsu sjálfra sín. Hlusta ekki á líkamann, eins og það er kallað. Þau eru drifin áfram af vinnu sinni og elsku til náungans og skella skolleyrum við því þegar eigin líkamsklukka er farin að tifa með óeðlilegum hætti. Vigfús Bjarni gaf ekki gaum að líkamsklukku sinni í tvö ár og hélt ótrauður áfram. Hugsaði eflaust með sér að þetta hlyti að rjátlast af honum. Kappsamur maður í störfum sínum og ötull í hverju verki, ofvirkur að eigin sögn og ekki alltaf auðveldur til samfylgdar.

Hurð skall nærri hælum þessa heims og annars í lífi Vigfúsar Bjarna. Alvarleg hjartveiki hafði grafið um sig en inngrip heilbrigðisstarfsfólks í líf hans björguðu honum.

Vigfús Bjarni lítur yfir farinn veikindaveg í þessari bók. Hann rekur veikindareynslu sína á ríflega fyrstu fjörutíu blaðsíðum bókarinnar og segir: „Það er haltur maður sem skrifar þessa bók en hann býður þér á ferðalag um minningar og hugleiðingar“ (bls. 45). Höfundur segir vel frá og frásögnin rennur vel. Hann er hlýr í orðum sínum, auðmjúkur og heiðarlegur. Greinir frá erfiðum stundum þegar honum finnst allt mótdrægt og hans nánustu ekki skilja sig þegar þungur hugur samfara hægum bata gerir vart við sig en höfundur vill að hlutirnir gangi, eins og sagt er, hann hefur ekki þolinmæði. En sjúkrasaga hans fer vel á endanum – og hann er reynslunni ríkari og miðlar öðrum með ljómandi góðum hætti í þessari bók.

Þessi reynsla höfundar sem í sjálfu sér er ekki einstök því margur hefur farið í gegnum slíkan eld og komist lífs af, notar hann sem efnivið til að miðla til annarra sem þurft hafa að horfast í augu við hvers kyns veikindi og þjáningar.

Það er sem lesandi sjái höfund fyrir sér á vettvangi sálgæslunnar. Hann er yfirvegaður og lætur fátt koma sér í opna skjöldu. Er vel innrammaður í persónuleika sinn sem vandaður sálgætir, velvitandi af kostum sínum og vanköntum; íhugull með trú og mannúð í farteskinu. Umfram allt er einhvers konar raunsæi mennskunnar samfléttað störfum höfundar svo skjólstæðingar finna góðan samhljóm við rödd hans. Hann hreykir sér ekki upp heldur er hlustandinn, presturinn, sem græða vill sár og rétta fram hjálparhönd en gerir sér jafnframt ljóst að hann sjálfur vinnur ekki nein kraftaverk. Sjálfur er hann þakklátur fyrir það sem skjólstæðingar hans kenna honum í mannlegum samskiptum við þungbærar aðstæður.

Höfundur dregur fram mörg dæmi úr reynslusögum sínum af vettvangi sálgæslunnar. Þau falla vel að heildarfrásögninni og eru nefnd til skýringar eða til áréttingar á því sem hann vill koma fram. Áhrifarík er til dæmis myndin sem hann dregur upp af samskiptum sínum við föður sem misst hafði barn sitt: harkalegt faðmlag hans við prestinn í fyrstu mýktist svo smám saman því það var „glíma hins þjáða manns“ (bls. 99) .

Sálgæsluviðtöl reyna ekki aðeins á viðmælendurna heldur og prestinn sjálfan. Hann þarf til dæmis að vera hugrakkur eins og höfundur nefnir sem kannski fáir leiða hugann að. Í sálgæslu þarf nefnilega oft að spyrja óþægilegra spurninga og krefjandi, til dæmis í fjölskylduviðtölum, í því skyni að fá allt fram í dagsljósið og afhjúpa meðal annars þau sem beita fjölskylduna kúgun og lygum.

Höfundur er líka skemmtilega persónulegur í samtölum sínum við lesandann. Segir til dæmis frá langafa sínum sem gaf mynd af séra Hallgrími Péturssyni til Húsavíkurkirkju sem þakklæti fyrir endurheimt heilsu sinnar (bls. 145). Þessi persónulegi samtalsstíll bókarinnar gerir hana einkar læsilega og áhugaverða og er hin bjarta hlið hennar sem annars dvelur eðli máls samkvæmt við mannanna mörgu mein.

Það er mikilvægt fyrir prest sem starfar með fólki úr ólíkum áttum að vera opinn fyrir andlegum straumum og hreyfingum. Það er höfundur. Enda þótt höfundur setji fram guðshugmynd sína í stysta svari sínu sem: Guð birtist í öllu fólki, þá er hún líka flóknari. Guðshugmynd hans birtist líka í þrenningunni án þess að það sé útskýrt frekar enda gjarnan haft eftir Lúther gamla að sá sem gæti útskýrt þrenninguna væri hálfu nær helvíti en hinn sem það gæti ekki. Síðan víkur höfundur að guðsmynd sinni sem birtist í því að reynsla læknar reynslu, eins og hann orðar það. Reynsla annars sem hefur gengið í gegnum þjáningar og lifað af getur fleytt áfram til annarra von um betri tíð  á sama hátt og Kristur á krossinum veitir von um upprisu til lífs. Það eru margar guðshugmyndir sem mæta starfsfólki á sviði sálgæslu á hverjum degi og allar eru jafnréttháar. Hvort sem einhver lítur á náttúruna sem opinberunarstað almættisins, tilbiður guð eingyðistrúarbragða eða heiðin goð, eða þá einhvers konar trúleysi að ógleymdum Mammon. Allar þessar hugmyndir og fleiri fylgja manneskjunum. Það kemur og enda skýrt fram hjá höfundi að sálgætir eigi ekki að stunda trúboð þó að trúaður sé – lífsskoðanir eru virtar og þeim gefið það svigrúm sem þær þurfa.

Þessi bók hentar fólki vel sem stendur andspænis ýmsum erfiðleikum í lífi sínu. Rólyndislegur rabbstíll bókarinnar tekur vel utan um lesandann og hann finnur sig öruggan. Höfundur er vel jarðtengdur og felur ekki trú sína né heldur læðir henni inn á aðra eða þröngvar. Hann er til í samtal og stuðning, leggur sjálfan sig þar fram. Það er mannleg nálgun gagnvart fólki sem horfist í augu við alvarlega sjúkdóma og í sumum tilvikum dauða.

Á þessum vettvangi hafa prestar og söfnuðir verið iðulega hvattir til að nýta sér í safnaðarstarfi ýmsar bækur sem hér hefur verið fjallað um, til dæmis ljóðabækur og þann heim sem þær sýna. Kirkjublaðið.is er ekki af baki dottið og skorar á presta, djákna og söfnuði að huga að þessari bók og nota hana til að mynda sem efnivið í leshringi í kirkjunum í fullorðinsstarfi. Hún er mjög svo heppileg til þess því að allir hafa frá einhverju að segja sem hefur verið þeim erfitt á lífsleiðinni og geta tengt við margt sem Vigfús Bjarni víkur að í bókinni og bætt við þann reynslubrunn.

Niðurstaða
Hver vegur að heiman er vegur heim, er þörf bók og hentar öllum sem standa andspænis margvíslegum erfiðleikum í lífi og starfi. Höfundur skrifar lipran stíl og nær augum og eyrum lesanda afar vel. Hann er auðmjúkur, hógvær, talar af eigin reynslu án nokkurrar dómsýki eða yfirlætis. Lesandi finnur að hér talar kristinn mannvinur sem réttir fram trausta hjálparhönd og hlýja. Bók sem allt kirkjufólk ætti að lesa og kennilýðurinn að rétta að fólki í erfiðum aðstæðum.

Vigfús Bjarni Albertsson, Hver vegur að heiman er vegur heim, Skálholtsútgáfan 2024, 173 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir