Það er þörf á liprum og glöggum höfundum til að skrifa ævisögur og sér í lagi fólks sem lætur mikið að sér kveða í samfélaginu og nær háum aldri. Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, uppfyllir þá þörf með snilldarbrag í einu og öllu í nýrri ævisögu sem hann sendir frá sér. Sr. Friðrik og drengirnir hans – Saga æskulýðsleiðtoga, er einstaklega vel skrifuð og rennur vandaður textinn hratt og örugglega við lesturinn og dregur lesandann áfram frá einni blaðsíðu til annarrar. Bókin er umfangsmikið verk og að baki henni liggur mikil rannsóknarvinna sagnfræðingsins. Hún er 487 blaðsíður gefin út af Uglu.
Ævisaga sr. Friðriks er með hefðbundnum hætti af hendi höfundar þar sem lífsferill er rakinn á grundvelli þaulkannaðra heimilda og ályktanir dregnar af þeim af fræðilegri yfirvegun og snerpu. Ekkert er ofmælt um fram heimildir og þær látnar tala skýru máli svo lesandi geti ályktað út frá efni þeirra. Þetta er sagnfræðileg ævisaga þar sem fjallað er um sr. Friðrik Friðriksson með „kostum hans og göllum“ og Guðmundur tekur fram að kastljósinu sé „sérstaklega beint að dálæti hans á drengjum og samskiptum við þá.“ (Bls. 435).
Saga sr. Friðriks er merkileg lífssaga drengs sem ólst upp við kröpp kjör en komst til mennta og mikillar virðingar og áhrifa í íslensku samfélagi. En hún er ekki aðeins saga hans heldur og samfélagsins sem ól hann og þess samfélags sem hann gekk til þjónustu við sem kristilegur áhrifamaður, æskulýðsleiðtogi, prédikari og sálmaskáld (hann á fimmtán sálma í sálmabók þjóðkirkjunnar.) Ævisaga sr. Friðriks er skyldulesning alls kirkjufólks sem og annarra er unna góðri sagnfræði og hreinskiptinni samfélagsumræðu.
Sá þáttur sem vekur mesta athygli í sögu sr. Friðriks er samband hans og viðhorf til drengja og pilta. Mjög snemma í ævisögunni víkur höfundur að þessu og rekur fjölmörg dæmi um hug sr. Friðriks í þessu efni. Augljóst má vera af öllum þeim dæmum sem hann nefnir að sr. Friðrik var haldinn einhvers konar kynhneigð til drengja og pilta. Hann hefur iðulega á orði að þessi piltur eða hinn sé myndarlegur og fallegur; yndislegur; dásamlegur; stórir strákar. „Hvar sem hann kemur er laglega stráka að finna og skrifar hann oft niður nöfn þeirra og fæðingardag og ýmsar athugasemdir um þokka þeirra.“ (Bls. 241). Í bókmenntaþættinum Kiljunni var höfundur spurður hvort sr. Friðrik hafi misnotað drengi og svaraði hann svo: „Ég vona að svo hafi ekki verið.“ Um leið benti hann á átakanlega frásögn manns sem lesa má á blaðsíðu 432-433. Sú frásögn er ókræsileg. Hún ein og sér sem fest er þar á blað nægir til að slökkva á dýrðarljómanum í kringum sr. Friðrik. Þegar þetta er skrifað berast fréttir um að fleiri hafi leitað til Stígamóta en hann með frásagnir af óviðeigandi framkomu æskulýðsleiðtogans.
Kannski hefur dýrðarljóminn yfir sr. Friðriki verið sterkari en vitneskja fárra sem og orðrómur um þessa skuggahlið hans sem var kynferðislegur aðdráttur hans til drengja. Hugsanlega var það tíðarandinn sem því réð. Ummæli hans í eigin endurminningum eru nefnd sem bera merki um þessa hneigð hans til drengja og pilta sem og tilvitnun í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar, rithöfundar, þar sem hann getur um sögur sem gengið hafi um sr. Friðrik um dálæti hans á drengjum. (Bls. 439). Þótt einhvers konar þagnarmúr hafi verið reistur í kringum þessar kenndir var augljóslega hvíslast á um þær í hópi þeirra sem þekktu til. Í ljósi þessa er reyndar merkilegt að ekkert uppgjör við helgimynd sr. Friðriks skuli hafa farið fram innan þeirra félaga sem hann gegndi lykilhlutverki við að stofna eins og KFUM- og KFUK, knattspyrnufélögin Val og Hauka o.fl., á hinum síðustu árum þegar samfélagsumræða um hvers kyns áreitni gamla og nýja hefur farið fram.
Engum blandast hugur um að félögin sem sr. Friðrik ýtti úr vör ásamt öðrum hafi verið þörf og hann tímamótamaður í því efni; reyndar var hann heppinn að koma inn í samfélagið með þessar hugmyndir sínar á þeim tíma þegar félagsafþreying fyrir ungmenni var fremur fábrotin enda honum tekið fagnandi. Hann var knúinn áfram af trúarlegri sannfæringu og starf meðal ungmenna var akurinn sem hann kaus að verja kröftum sín til í anda þess sem hann hafði kynnst í Kaupmannahöfn. Drengjaskólinn sem hann kom á fót nokkru fyrir aldamótin hefur eflaust verið einn angi af því. Starf meðal stúlkna var honum fjarlægara og þegar hann lét tilleiðast að ýta því úr vör að frumkvæði ungrar stúlku þá sýndi hann því aldrei sama áhuga og drengjastarfinu. Ævisagan rekur vel félagsstarf sr. Friðriks og hvernig þar skiptust á skin og skúrir. Þetta var starf meðal drengja – hann sagðist enda eiga alla „stráka á Íslandi“ (Bls. 409. ). Hann var foringi þessara félaga og fór sínu fram án þess að hyggja alltaf að því hvort það væri skynsamlegt eins og þegar Melsteðshús var keypt. Ársdvöl hans í Kaupmannahöfn olli því að starf KFUM lagðist nánast af. Eins var sr. Friðrik afsagður sem prestur Holdsveikraspítalans eftir að hafa ekki látið sjá sig þar í tíu mánuði. Hann hirti ekki um svara bréfum. En heimkominn hófst hann handa um að endurreisa félagið.
Þó á ýmsu gengi í rekstri og skipulagi félaganna sem sr. Friðrik kom að þá skiluðu þau af sér góðum verkum þegar öllu var á botninn hvolft. Enn fremur hafði hann góð og uppbyggileg áhrif á marga drengi sem þeir hafa vitnað um. Falleg er frásögnin um hvernig hann sigraði hjarta vandræðadrengsins Willyar þegar hann dvaldi í Kanada (bls. 341-342). Engum blandast hugur um hjálpsemi hans og ekki þarf svo sem að lesa inn í hvert góðverk gagnvart ungum mönnum að þar hafi búið að baki einhver annarlegur hugur. Mörg dæmi eru um hvernig hann reynist öðrum vel.
Starf sr. Friðriks var merkilegt brautryðjendastarf og félög hans hafa mótað ungmenni á Íslandi. Enginn efast um gott starf þessara félaga og holl uppeldisleg áhrif þeirra. Trúarlegur þáttur þeirra í íþróttafélögunum vegur ekki eins þungt nú og fyrrum en vissulega skiptir hann höfuðmáli í starfi KFUM og K.
Sr. Friðrik var biblíufastur í anda heittrúarstefnu og trúartraust hans var algert eins og fram kemur til dæmis þegar hann hjúkraði berklaveikum vini sínum á skólaárum sínum og vitjaði sjúklinga í spænsku veikinni. Trúarvissa hans sagði honum að hann myndi ekki veikjast. Trú hans var heit og innileg og hann átti persónulegt samband við frelsara sinn. Hann tók almennt ekki þátt í guðfræðilegri umræðu þegar frjálslynd guðfræði var að brjótast fram en vatt sér fram á ritvöllinn og svaraði af hörku þegar prestur nokkur lagði til að trúarjátningar yrðu lagðar til hliðar í þjóðkirkjunni.
Það er athyglisvert hvernig höfundur lýsir því hvernig dýrðarljóminn um sr. Friðrik verður til. Ljóst er að hann bjó yfir því sem kallast persónutöfrar og það í ríkum mæli. Hann bjó yfir „seiðmagni.“ (Bls. 437). Rithöfundurinn Sigurður A. Magnússon talar í þessu sambandi um jákvæð öfl persónuleika sr. Friðriks „sem urðu uppistaðan í djúpum mannskilningi og innblásinni forystu.“ (Bls. 439). Fólk laðaðist að honum – drengir og piltar. Þeir í hópi drengjanna hans sem urðu áhrifamenn í samfélaginu báru ætíð lof á hann og hófu til skýjanna sem og aðrir hversdagslegri máttarstólpar samfélagins þar sem þeir stóðu hver við sinn sóla. Það hafði vissulega sín áhrif og smám myndaðist helgihjúpur í kringum hann sem kom skýrt fram við útför hans. Þessum ljóma hefur verið viðhaldið nær allt til þessa dags. Segir höfundur í bókarlok að „enginn Íslendingur hafi verið borinn eins miklu lofi og sr. Friðrik.“ (Bls. 435).
Skugginn í lífssögu sr. Friðriks er hins vegar kynferðisleg áreitnishneigð til drengja- og pilta sem hann hefur augljóslega gælt við og hrundið í verk en um það er til vitnisburður. Segja má að það séu meiri líkur en minni að hann hafi oftar látið til skarar skríða gagnvart einhverjum miðað við þann fjölda ungmenna sem hann umgekkst. Þess vegna þarf að biðjast afsökunar á slíkri áreitni svo sem hefð hefur skapast fyrir í samfélagi nútímans.
Ævisaga sr. Friðriks er þarfaverk. Ekki aðeins sem sagnfræðileg mynd af horfnum tíma og merkum lífsferli heldur og sem framlag til baráttu samtímans gegn leyndum óhæfuverkum sem fyrr eða síðar verða afhjúpuð.
Í raun sætir það nokkurri furðu að ekki hafi verið fyrr ráðist í slík skrif um jafn áhrifamikinn æskulýðsleiðtoga sem hafður var í svo miklum hávegum sem hann. Þó má ekki skilja svo að ekki hafi verið gefnar út bækur um hann.
Kápumyndin á ævisögu sr. Friðriks er firna áhrifamikil. Þar sést drengjaskari. Nafnlaus. Drengirnir hans sr. Friðriks sem höfðu bæði góða sögu af honum að segja og slæma sem var sjaldnast sögð. Það var ekki sá tími að drengir kvörtuðu undan kynferðislegri áreitni fullorðinna. Og utan hópsins eru tvær stúlkur enda áhugi æskulýðsleiðtogans daufari til starfs meðal þeirra en drengja.
Sr. Friðrik var goðsögn í lifanda lífi og svo að segja allt til þessa dags. Nú er hann fallinn af stalli. Viðhorf samfélagsins til þeirrar kenndar sem augljóslega bjó í æskulýðsleiðtoganum mikla er fordæming og einkum kynferðislegri áreitni sem hann sýndi drengjum og piltum undir einhvers konar kærleiksríkri helgi sinni sem guðsmaður. Hér sem oft áður kemur í ljós að sannleikurinn gerir menn frjálsa. Sannleikurinn gerir líka samfélagið frjálst. Þá þarf kjark til að horfast í augu við sannleikann.
Ljóst er að forystufólk í KFUM og KFUK verður að gera rækilega upp við stofnandann og leiðtogann sr. Friðrik Friðriksson. Nú þegar hafa þau sent frá sér yfirlýsingu og knattspyrnufélagið Valur. Það uppgjör er sárt og tregafullt. En ekkert hálfkák bjargar heiðri þessarar annars ágætu hreyfingar í nútímanum. Verja þarf hið vandaða og trausta starf samtakanna og þar á meðal rómað sumarbúðastarf sem tugþúsundir íslenskra ungmenna hafa sótt heim og notið vel. Syndir feðranna mega ekki grafa undan heiðarleika og einlægni þeirra sem tekið hafa við keflinu í kristilegu starfi meðal ungmenna.
Kirkjublaðið.is spáir því að þar sem sr. Friðrik er hrokkinn af stalli muni styttan af honum í Lækjargötu verða látin víkja en hún var sett upp árið 1955. Hvað verður hins vegar um Friðrikskapellu á Valsvellinum er flóknara mál. Nafninu má að minnsta kosti breyta.
Guðmundi Magnússyni, sagnfræðingi, eru færðar hamingjuóskir með framúrskarandi ævisögu og dirfsku því eins og fram hefur komið í fréttum var þessi vinna hans engan vegin auðveld og hann kominn á fremsta hlunn með að leggja hana frá sér. Sem betur gerði hann það ekki heldur leggur hana fram í nútímanum til að fræðast um merkilegt lífshlaup þessa manns og til að draga lærdóma af. Einn lærdómurinn er sá að fordæma allt kynferðisofbeldi hvaða nafni sem það nefnist og ekki síst ef það grefur um sig í skjóli stofnana og félaga sem hafa manngæsku í hávegum.
Eins og höfundur getur um í bókarlok þá verður að sjálfsögðu hver og einn að taka afstöðu til þeirrar sagnfræðilegu ævisögu sem hann leggur fram. Guðmundur segist leitast við að sýna sr. Friðrik án „tilfinningasemi og hlutdrægni“ til að átta sig betur á manninum sr. Friðriki. Þess vegna dregur hann fram styrkleika og veikleika. Sagnfræðilega ævisagan dregur því margt fram sem ekki áður hefur verið sagt upphátt vegna þess að helgiljóminn yfir sr. Friðriki hleypti því ekki í gegn. Nú hefur dökkur skuggi þokað ljómanum til hliðar.
Hér má sjá viðtal við við höfundinn, Guðmund Magnússon, í Kiljunni.
Það er þörf á liprum og glöggum höfundum til að skrifa ævisögur og sér í lagi fólks sem lætur mikið að sér kveða í samfélaginu og nær háum aldri. Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, uppfyllir þá þörf með snilldarbrag í einu og öllu í nýrri ævisögu sem hann sendir frá sér. Sr. Friðrik og drengirnir hans – Saga æskulýðsleiðtoga, er einstaklega vel skrifuð og rennur vandaður textinn hratt og örugglega við lesturinn og dregur lesandann áfram frá einni blaðsíðu til annarrar. Bókin er umfangsmikið verk og að baki henni liggur mikil rannsóknarvinna sagnfræðingsins. Hún er 487 blaðsíður gefin út af Uglu.
Ævisaga sr. Friðriks er með hefðbundnum hætti af hendi höfundar þar sem lífsferill er rakinn á grundvelli þaulkannaðra heimilda og ályktanir dregnar af þeim af fræðilegri yfirvegun og snerpu. Ekkert er ofmælt um fram heimildir og þær látnar tala skýru máli svo lesandi geti ályktað út frá efni þeirra. Þetta er sagnfræðileg ævisaga þar sem fjallað er um sr. Friðrik Friðriksson með „kostum hans og göllum“ og Guðmundur tekur fram að kastljósinu sé „sérstaklega beint að dálæti hans á drengjum og samskiptum við þá.“ (Bls. 435).
Saga sr. Friðriks er merkileg lífssaga drengs sem ólst upp við kröpp kjör en komst til mennta og mikillar virðingar og áhrifa í íslensku samfélagi. En hún er ekki aðeins saga hans heldur og samfélagsins sem ól hann og þess samfélags sem hann gekk til þjónustu við sem kristilegur áhrifamaður, æskulýðsleiðtogi, prédikari og sálmaskáld (hann á fimmtán sálma í sálmabók þjóðkirkjunnar.) Ævisaga sr. Friðriks er skyldulesning alls kirkjufólks sem og annarra er unna góðri sagnfræði og hreinskiptinni samfélagsumræðu.
Sá þáttur sem vekur mesta athygli í sögu sr. Friðriks er samband hans og viðhorf til drengja og pilta. Mjög snemma í ævisögunni víkur höfundur að þessu og rekur fjölmörg dæmi um hug sr. Friðriks í þessu efni. Augljóst má vera af öllum þeim dæmum sem hann nefnir að sr. Friðrik var haldinn einhvers konar kynhneigð til drengja og pilta. Hann hefur iðulega á orði að þessi piltur eða hinn sé myndarlegur og fallegur; yndislegur; dásamlegur; stórir strákar. „Hvar sem hann kemur er laglega stráka að finna og skrifar hann oft niður nöfn þeirra og fæðingardag og ýmsar athugasemdir um þokka þeirra.“ (Bls. 241). Í bókmenntaþættinum Kiljunni var höfundur spurður hvort sr. Friðrik hafi misnotað drengi og svaraði hann svo: „Ég vona að svo hafi ekki verið.“ Um leið benti hann á átakanlega frásögn manns sem lesa má á blaðsíðu 432-433. Sú frásögn er ókræsileg. Hún ein og sér sem fest er þar á blað nægir til að slökkva á dýrðarljómanum í kringum sr. Friðrik. Þegar þetta er skrifað berast fréttir um að fleiri hafi leitað til Stígamóta en hann með frásagnir af óviðeigandi framkomu æskulýðsleiðtogans.
Kannski hefur dýrðarljóminn yfir sr. Friðriki verið sterkari en vitneskja fárra sem og orðrómur um þessa skuggahlið hans sem var kynferðislegur aðdráttur hans til drengja. Hugsanlega var það tíðarandinn sem því réð. Ummæli hans í eigin endurminningum eru nefnd sem bera merki um þessa hneigð hans til drengja og pilta sem og tilvitnun í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar, rithöfundar, þar sem hann getur um sögur sem gengið hafi um sr. Friðrik um dálæti hans á drengjum. (Bls. 439). Þótt einhvers konar þagnarmúr hafi verið reistur í kringum þessar kenndir var augljóslega hvíslast á um þær í hópi þeirra sem þekktu til. Í ljósi þessa er reyndar merkilegt að ekkert uppgjör við helgimynd sr. Friðriks skuli hafa farið fram innan þeirra félaga sem hann gegndi lykilhlutverki við að stofna eins og KFUM- og KFUK, knattspyrnufélögin Val og Hauka o.fl., á hinum síðustu árum þegar samfélagsumræða um hvers kyns áreitni gamla og nýja hefur farið fram.
Engum blandast hugur um að félögin sem sr. Friðrik ýtti úr vör ásamt öðrum hafi verið þörf og hann tímamótamaður í því efni; reyndar var hann heppinn að koma inn í samfélagið með þessar hugmyndir sínar á þeim tíma þegar félagsafþreying fyrir ungmenni var fremur fábrotin enda honum tekið fagnandi. Hann var knúinn áfram af trúarlegri sannfæringu og starf meðal ungmenna var akurinn sem hann kaus að verja kröftum sín til í anda þess sem hann hafði kynnst í Kaupmannahöfn. Drengjaskólinn sem hann kom á fót nokkru fyrir aldamótin hefur eflaust verið einn angi af því. Starf meðal stúlkna var honum fjarlægara og þegar hann lét tilleiðast að ýta því úr vör að frumkvæði ungrar stúlku þá sýndi hann því aldrei sama áhuga og drengjastarfinu. Ævisagan rekur vel félagsstarf sr. Friðriks og hvernig þar skiptust á skin og skúrir. Þetta var starf meðal drengja – hann sagðist enda eiga alla „stráka á Íslandi“ (Bls. 409. ). Hann var foringi þessara félaga og fór sínu fram án þess að hyggja alltaf að því hvort það væri skynsamlegt eins og þegar Melsteðshús var keypt. Ársdvöl hans í Kaupmannahöfn olli því að starf KFUM lagðist nánast af. Eins var sr. Friðrik afsagður sem prestur Holdsveikraspítalans eftir að hafa ekki látið sjá sig þar í tíu mánuði. Hann hirti ekki um svara bréfum. En heimkominn hófst hann handa um að endurreisa félagið.
Þó á ýmsu gengi í rekstri og skipulagi félaganna sem sr. Friðrik kom að þá skiluðu þau af sér góðum verkum þegar öllu var á botninn hvolft. Enn fremur hafði hann góð og uppbyggileg áhrif á marga drengi sem þeir hafa vitnað um. Falleg er frásögnin um hvernig hann sigraði hjarta vandræðadrengsins Willyar þegar hann dvaldi í Kanada (bls. 341-342). Engum blandast hugur um hjálpsemi hans og ekki þarf svo sem að lesa inn í hvert góðverk gagnvart ungum mönnum að þar hafi búið að baki einhver annarlegur hugur. Mörg dæmi eru um hvernig hann reynist öðrum vel.
Starf sr. Friðriks var merkilegt brautryðjendastarf og félög hans hafa mótað ungmenni á Íslandi. Enginn efast um gott starf þessara félaga og holl uppeldisleg áhrif þeirra. Trúarlegur þáttur þeirra í íþróttafélögunum vegur ekki eins þungt nú og fyrrum en vissulega skiptir hann höfuðmáli í starfi KFUM og K.
Sr. Friðrik var biblíufastur í anda heittrúarstefnu og trúartraust hans var algert eins og fram kemur til dæmis þegar hann hjúkraði berklaveikum vini sínum á skólaárum sínum og vitjaði sjúklinga í spænsku veikinni. Trúarvissa hans sagði honum að hann myndi ekki veikjast. Trú hans var heit og innileg og hann átti persónulegt samband við frelsara sinn. Hann tók almennt ekki þátt í guðfræðilegri umræðu þegar frjálslynd guðfræði var að brjótast fram en vatt sér fram á ritvöllinn og svaraði af hörku þegar prestur nokkur lagði til að trúarjátningar yrðu lagðar til hliðar í þjóðkirkjunni.
Það er athyglisvert hvernig höfundur lýsir því hvernig dýrðarljóminn um sr. Friðrik verður til. Ljóst er að hann bjó yfir því sem kallast persónutöfrar og það í ríkum mæli. Hann bjó yfir „seiðmagni.“ (Bls. 437). Rithöfundurinn Sigurður A. Magnússon talar í þessu sambandi um jákvæð öfl persónuleika sr. Friðriks „sem urðu uppistaðan í djúpum mannskilningi og innblásinni forystu.“ (Bls. 439). Fólk laðaðist að honum – drengir og piltar. Þeir í hópi drengjanna hans sem urðu áhrifamenn í samfélaginu báru ætíð lof á hann og hófu til skýjanna sem og aðrir hversdagslegri máttarstólpar samfélagins þar sem þeir stóðu hver við sinn sóla. Það hafði vissulega sín áhrif og smám myndaðist helgihjúpur í kringum hann sem kom skýrt fram við útför hans. Þessum ljóma hefur verið viðhaldið nær allt til þessa dags. Segir höfundur í bókarlok að „enginn Íslendingur hafi verið borinn eins miklu lofi og sr. Friðrik.“ (Bls. 435).
Skugginn í lífssögu sr. Friðriks er hins vegar kynferðisleg áreitnishneigð til drengja- og pilta sem hann hefur augljóslega gælt við og hrundið í verk en um það er til vitnisburður. Segja má að það séu meiri líkur en minni að hann hafi oftar látið til skarar skríða gagnvart einhverjum miðað við þann fjölda ungmenna sem hann umgekkst. Þess vegna þarf að biðjast afsökunar á slíkri áreitni svo sem hefð hefur skapast fyrir í samfélagi nútímans.
Ævisaga sr. Friðriks er þarfaverk. Ekki aðeins sem sagnfræðileg mynd af horfnum tíma og merkum lífsferli heldur og sem framlag til baráttu samtímans gegn leyndum óhæfuverkum sem fyrr eða síðar verða afhjúpuð.
Í raun sætir það nokkurri furðu að ekki hafi verið fyrr ráðist í slík skrif um jafn áhrifamikinn æskulýðsleiðtoga sem hafður var í svo miklum hávegum sem hann. Þó má ekki skilja svo að ekki hafi verið gefnar út bækur um hann.
Kápumyndin á ævisögu sr. Friðriks er firna áhrifamikil. Þar sést drengjaskari. Nafnlaus. Drengirnir hans sr. Friðriks sem höfðu bæði góða sögu af honum að segja og slæma sem var sjaldnast sögð. Það var ekki sá tími að drengir kvörtuðu undan kynferðislegri áreitni fullorðinna. Og utan hópsins eru tvær stúlkur enda áhugi æskulýðsleiðtogans daufari til starfs meðal þeirra en drengja.
Sr. Friðrik var goðsögn í lifanda lífi og svo að segja allt til þessa dags. Nú er hann fallinn af stalli. Viðhorf samfélagsins til þeirrar kenndar sem augljóslega bjó í æskulýðsleiðtoganum mikla er fordæming og einkum kynferðislegri áreitni sem hann sýndi drengjum og piltum undir einhvers konar kærleiksríkri helgi sinni sem guðsmaður. Hér sem oft áður kemur í ljós að sannleikurinn gerir menn frjálsa. Sannleikurinn gerir líka samfélagið frjálst. Þá þarf kjark til að horfast í augu við sannleikann.
Ljóst er að forystufólk í KFUM og KFUK verður að gera rækilega upp við stofnandann og leiðtogann sr. Friðrik Friðriksson. Nú þegar hafa þau sent frá sér yfirlýsingu og knattspyrnufélagið Valur. Það uppgjör er sárt og tregafullt. En ekkert hálfkák bjargar heiðri þessarar annars ágætu hreyfingar í nútímanum. Verja þarf hið vandaða og trausta starf samtakanna og þar á meðal rómað sumarbúðastarf sem tugþúsundir íslenskra ungmenna hafa sótt heim og notið vel. Syndir feðranna mega ekki grafa undan heiðarleika og einlægni þeirra sem tekið hafa við keflinu í kristilegu starfi meðal ungmenna.
Kirkjublaðið.is spáir því að þar sem sr. Friðrik er hrokkinn af stalli muni styttan af honum í Lækjargötu verða látin víkja en hún var sett upp árið 1955. Hvað verður hins vegar um Friðrikskapellu á Valsvellinum er flóknara mál. Nafninu má að minnsta kosti breyta.
Guðmundi Magnússyni, sagnfræðingi, eru færðar hamingjuóskir með framúrskarandi ævisögu og dirfsku því eins og fram hefur komið í fréttum var þessi vinna hans engan vegin auðveld og hann kominn á fremsta hlunn með að leggja hana frá sér. Sem betur gerði hann það ekki heldur leggur hana fram í nútímanum til að fræðast um merkilegt lífshlaup þessa manns og til að draga lærdóma af. Einn lærdómurinn er sá að fordæma allt kynferðisofbeldi hvaða nafni sem það nefnist og ekki síst ef það grefur um sig í skjóli stofnana og félaga sem hafa manngæsku í hávegum.
Eins og höfundur getur um í bókarlok þá verður að sjálfsögðu hver og einn að taka afstöðu til þeirrar sagnfræðilegu ævisögu sem hann leggur fram. Guðmundur segist leitast við að sýna sr. Friðrik án „tilfinningasemi og hlutdrægni“ til að átta sig betur á manninum sr. Friðriki. Þess vegna dregur hann fram styrkleika og veikleika. Sagnfræðilega ævisagan dregur því margt fram sem ekki áður hefur verið sagt upphátt vegna þess að helgiljóminn yfir sr. Friðriki hleypti því ekki í gegn. Nú hefur dökkur skuggi þokað ljómanum til hliðar.
Hér má sjá viðtal við við höfundinn, Guðmund Magnússon, í Kiljunni.