Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins og umræður eru líflegar. Saga, samtíð og framtíð fléttast saman á spennandi hátt og vekja umhugsun um þjóðkirkju nútímans.

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

„Það er skemmtilegt að vera biskup,“ var yfirskrift áhugaverðs erindis sem dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur emeritus,  flutti á Krossgötum í vikunni og lesa má hér:

Góðir gestir!

Það er mér sönn ánægja að verða við ósk sóknarprestsins, séra Skúla Ólafssonar, um að flytja hér stutt erindi um dr. Jón Helgason biskup. Ástæðan er án efa sú að nú er að ljúka hátt í fjögurra ára vinnu minni við að skrifa ævisögu Jóns Helgasonar. Það merkir að ákveðinni yfirsýn er náð yfir litríkan og farsælan lífsferil – og jafnframt komið að útgáfu ritverksins.

Jón Helgason var biskup Íslands milli heimsstyrjaldanna, var vígður til embættis fyrir rúmri öld, árið 1917, og lét af embætti fyrir aldurs sakir 21 ári síðar, 1938.

Ég get ekki sagt að ég hafi þekkt mikið til lífshlaups eða verka Jóns Helgasonar, þegar afkomendur hans komu til mín vorið 2019 og báðu mig að skrifa ævisögu hans. Að vísu hafði ég lesið hið mikla og vandaða ritverk hans, Kirkjusögu Íslands, í guðfræðináminu við Háskóla Íslands. Engu að síður kom fljótlega í ljós að verkefnið fjallaði um einn af okkar áhugaverðustu biskupum nánast hvernig sem á málið er litið.

Dr. Jón Helgason (1866-1942), biskup Íslands 1917-1938 

Hann var afkastamaður hinn mesti og fjölhæfur, eins og glöggt má sjá af þeim bókum, sem hann ritaði um sína daga. Einnig af þeirri staðreynd að hann náði að vísitera nánast allar kirkjur landsins sem biskup Íslands. Hann var vel menntaður guðfræðingur og vel kunnugur guðfræðilegum umræðum á meginlandinu, hann var prófessor við Háskóla Íslands og rektor þeirrar stofnunar 1914-1915. Í minningargreinum, sem ritaðar voru að honum látnum, var oftar en einu sinni gefið í skyn að hann hefði verið einn af okkar athyglisverðustu biskupum. Þá var minnst á menntun hans, fjölhæfni, afköst og farsæld í embætti. Það getur því varla talist tímaskekkja að rifja upp eitt og annað um Jón Helgason – ekki síst þegar íslenska þjóðkirkjan hefur nýlega kosið sér nýjan biskup og málið því óbeint á dagskrá. Þar á ég við að biskupaskipti kalla á umræðu um biskupsembættið, hvers væntir kirkjan af nýjum biskupi, hvert stefnir nýr biskup í hinu forna embætti?

Þau fjögur ár, sem ég hef unnið að ritun sögu Jóns Helgasonar, hafa gert það að verkum að ég undrast ekki lengur aðdáunarorð samtímamanna hans og samverkamanna. Þau beinast öðru fremur að biskupsdómi hans og forystuhæfileikum á þeim vettvangi en einnig ritverkum hans, m.a. þeim sögulegu ritverkum, sem fjalla ekki beint um kirkjusögu heldur t.d. sögu Reykjavíkur. Ég verð að viðurkenna að styrkur hans sem fræðimanns, þ.e.a.s. sem guðfræðings, kom mér talsvert á óvart.

Loks var Jón Helgason í hópi merkra hérlendra myndlistarmanna á sinni tíð, þar má nefna málverk og teikningar af hinni gömlu Reykjavík og öllum kirkjum landsins nema þrem. Hann naut ekki aðeins virðingar presta og leikmanna á vettvangi kirkjunnar heldur einnig þjóðarinnar. Það má meðal annars greina af því, sem samtímamenn hans rituðu um hann og störf hans þegar hann kvaddi þennan heim árið 1942. Í þessu samhengi vil ég einnig minna á að Jón Helgason beitti sér fyrir öðrum málum á hinu almenna sviði þjóðfélagsmála. Hann beitti sér fyrir framförum í hjúkrunarmálum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og studdist þar við eigin kynni af þeim málum erlendis. Þegar fjallað er um Jón Helgason biskup er því af nógu að taka.

Í þessu stutta erindi langar mig til að glíma við þrjár spurningar, sem ég tel að áheyrendum muni þykja nokkuð áhugaverðar. Spurningarnar sem ég hef í huga eru þessar:

Hvað hafði Jón Helgason helst til síns ágætis?

Hvað einkenndi helst störf hans í biskupsembætti?

Um hvaða hugmyndafræði snerist guðfræði hans?

Þetta eru allt talsvert viðamiklar spurningar og ljóst að þeim verður ekki svarað til neinnar hlítar í einu stuttu erindi. Engu að síður finnst mér, að þær gætu gefið innsýn inn í líf og starf Jóns biskups Helgasonar og jafnframt opnað umræðu um biskupshlutverkið almennt, ekki síst um þessar mundir þegar það er sérstaklega á dagskrá.

Hvað hafði Jón Helgason helst til síns ágætis?

Í afmælisgrein um dr. Jón Helgason biskup sjötugan eftir séra Bjarna Jónsson (1881-1965) dómkirkjuprest, síðar vígslubiskup, segir:

„… hér er meir en meðalmaður, hér er víkingur í ritstörfum, vísindamaður, sem alltaf er vakandi, listamaður, sem hefir glatt marga með sínu listfenga starfi.“[1]

Eins og fram kemur síðar í þessu erindi voru þeir séra Bjarni og dr. Jón samstarfsmenn um alllangt skeið við dómkirkjuna í Reykjavík og þekktust því vel, en þeir voru einnig, hvor um sig, fulltrúar andstæðra sjónarmiða í guðfræði þess tíma. Á þeim vettvangi kom iðulega til talsverðra átaka milli andstæðra fylkinga.

Dr. Magnús Jónsson (1887-1958), prófessor í guðfræði, alþingismaður og ráðherra, formaður Prestafélags Íslands svo eitthvað sé talið, ritaði minningargrein í Morgunblaðið í tilefni af andláti dr. Jóns Helgasonar og segir þar að nú sé einn svipmesti maður þjóðkirkjunnar um langt skeið horfinn af sjónarsviðinu. Þótt ekki sé auðvelt að spá fyrir um dóma sögunnar, þá telur dr. Magnús að dr. Jóni verði skipað til sætis ofarlega í röð evangelískra biskupa hér á landi og að sumu leyti verði hann talinn í fremstu röð. Í því sambandi nefnir hann stjórnvisku hans og lærdóm. Hvað hið síðarnefnda varðar telur hann að þar sé Jón Helgason í fremstu röð. Dr. Magnús segir að starf hans hafi verið margþætt og hann hafi verið víkingur að dugnaði, að hverju sem hann gekk: „Um slíkan mann mætti rita heila bók“ segir síðan orðrétt.[2] Og vel að merkja: Áhugavert viðtal við Jón Helgason um biskupsdóm hans birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1939 og bar heitið: „Það er skemtilegt að vera biskup.“[3]

Jón Helgason hafði eitt og annað sér til ágætis, m.a. naut hann þess að alast upp á virtu prestsheimili. Hann var sonur hjónanna séra Helga Hálfdánarsonar prests og sálmaskálds og konu hans Þórhildar Tómasdóttur, en faðir hennar var Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson.

Jón Helgason fæddist í Görðum á Álftanesi þar sem faðir hans var þá sóknarprestur en áður hafði séra Helgi Hálfdánarson verið sóknarprestur í Brautarholti á Kjalarnesi. Jón Helgason leit fyrst dagsins ljós réttum tveim öldum eftir að meistari Jón Vídalín fæddist á þeim sama stað. Það kom fljótt í ljós að Jón Helgason var góðum gáfum gæddur, fjölhæfur og mikill námsmaður. Hann var því settur til mennta þegar hann hafði aldur til, fyrst hér á landi en að því loknu lauk hann guðfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla.

Þegar þjónustu séra Helga Hálfdánarsonar lauk í Görðum á Álftanesi fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og bjó í Bankastræti 7 næstu árin. Síðar byggðu þau hjónin Jón og Marta Maria húsið að Tjarnargötu 26, sem er annað húsið norðan við Ráðherrabústaðinn. Heimili þeirra hjóna og barna þeirra fimm, var opið heimili, þar var einnig skrifstofa biskups og þangað lögðu prestar utan af landi leið sína þegar þeir áttu erindi til borgarinnar. – Jón Helgason ritaði manna mest um sögu Reykjavíkur um sína tíð og skildi eftir sig dýrmætan fjársjóð mynda, teikninga og málverka, þar sem þeirri sögu er til haga haldið.

Hér gefst ekki tími til að rekja ævisögu Jóns Helgasonar og verður því farið fljótt yfir sögu. Námsárin í Kaupmannahöfn reyndust honum afar farsæll tími, hann stóð sig vel í námi við Hafnarháskóla og fékk m.a. viðurkenningu fyrir námsárangur, sem hann nýtti til nokkurra mánaða dvalar í Þýskalandi þar sem hann kynnti sér guðfræði samtímans og sömuleiðis kirkjulífið. En jafnframt naut hann þess í ferðinni að skoða listasöfn og kynna sér hinar fögru listir, ekki hvað síst á vettvangi kirkjunnar. Um þá ferð skrifaði hann áhugaverða og ítarlega ferðasögu.

Hvað einkenndi helst störf hans í biskupsembætti?

Þegar heim frá Kaupmannahöfn var komið sat Jón Helgason ekki auðum höndum, hann var beðinn um að taka að sér kennslu við guðfræðideild Háskóla Íslands og samtímis var hann beðinn um að gegna starfi aðstoðarprests við Dómkirkjuna.

Jón Helgason sinnti ekki aðeins guðfræði og kirkju heldur var hann virkur á ýmsum sviðum hins vaxandi samfélags. Hann tók þátt í hinni opnu umræðu um myndlist, sem fram fór í samfélaginu á hans tíma og var jafnframt einn af stofnendum Listvinafélagsins. Þá gaf hann sig einnig að líknarmálum og heilbrigðisþjónustu og var virkur aðili í þróun þeirra mála í höfuðborginni. Um og upp úr aldamótunum átti hann frumkvæði að stofnun Hjúkrunarfélags Reykjavíkur. Í kynningu á starfi félagsins segir að það leitist við að ná tilgangi sínum með því að halda á sinn kostnað æfðar hjúkrunarkonur, eina eða fleiri, eftir því sem efni leyfi og þörf gerist. Þetta var Jóni Helgasyni mikið metnaðarmál sem hann sinnti alla tíð.

Um hvaða hugmyndafræði snerist guðfræði Jóns Helgasonar?

Það segir sína sögu um Jón Helgason að honum veittist auðvelt að eiga samstarf við þá sem voru á öndverðum meiði við hann í guðfræði. Þetta voru tímar þegar ný guðfræði var að ryðja sér til rúms, frjálslynda guðfræðin, sem hér á landi var iðulega nefnd nýguðfræðin. Hér gefst ekki tími til að skilgreina í hverju munurinn á henni og þeirri guðfræði sem fyrir var felst – en einhverjum kynni að detta í hug að munurinn hafi ekki verið svo ýkja mikill þegar allt kemur til alls og horft er til farsæls samstarfs þeirra séra Bjarna Jónssonar og séra Jóns Helgasonar.

En munurinn var verulegur, í reynd var nýr tími að renna upp í sögu guðfræðinnar. Námstíminn við Hafnarháskóla opnaði augu Jóns Helgasonar fyrir því að nýr tími var í uppsiglingu á vettvangi guðfræði og kirkju. Þegar Jón Helgason er að nema guðfræði við Hafnarháskóla er þegar orðin umtalsverð gróska í fornleifarannsóknum á þeim svæðum við Miðjarðarhafið, sem kalla mætti sögusvið Biblíunnar. Þær rannsóknir breyttu miklu og juku þekkingu manna á sögusviði Biblíunnar verulega. Einnig kemur hér til skilningur á trúnni sem slíkri og þá er munurinn annars vegar sá, að viðtekinn skilningur á trú var afar Biblíutengdur en hins vegar komu fram á sjónarsviðið heimspekingar, einkum í enska heiminum og í Þýskalandi. Í þeirra fræðum er litið á trúna út frá þörf mannsins fyrir að finna fótfestu í tilvist sinni, til hvers lifi ég, hvernig stendur á því að allir menn virðast spyrja svipaðra spurninga um lífið og tilgang þess? Og hvernig tengjast hinar heimspekilegu spurningar mannsins þeirri trúarhefð sem Biblían ber vitni um?

Í þessum breytta heimi við lok nítjándu aldar stóð kirkjan frammi fyrir þeirri stóru spurningu hvaða tungutak hæfði hinni trúarlegu orðræðu best í breyttum og síbreytilegum heimi. Átti að tala tungumál liðins tíma, fastmótaðra kenninga, sögulegra játninga, hefða og helgisiða – eða átti að laga sig að nýrri þekkingu og túlka boðskapinn í gjaldgengum hugtökum líðandi stundar? Hver var skylda ungra guðfræðinga á umbrotatímum, hvar voru traustar heimildir um tímalaust inntak trúarinnar, sem gjaldgengt var á slíkum tímum – ekki síður en öðrum? Og hvert horfðu framsæknir guðfræðingar á óvissutímum í lífi einstaklinga og samfélags?

Helsti guðfræðingur mótmælenda í upphafi nítjándu aldar – og jafnframt ættfaðir frjálslyndrar guðfræði – var Þjóðverjinn Friedrich Schleiermacher. Nafn hans tengist sögu Jóns Helgasonar. Það er tímanna tákn að Schleiermacher hafi nú, á okkar tímum, enn verið á dagskrá í guðfræði mótmælenda um alllangt skeið. Reyndar virðist Jón Helgason ekki hafa heillast af Schleiermacher eins og vænta hefði mátt miðað við hrifningu móðurafans, Tómasar Sæmundssonar og annarra Fjölnismanna. Það kemur fram í handskrifuðum fyrirlestri sem hann flutti í Prestaskólanum í stílabók sem er árituð „Inngangur til trúfræðinnar. Jón Helgason“, án ártals. – Ég verð að bæta því hér við að afi Jóns Helgasonar, Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson, heimsótti Friedrich Schleiermacher í kirkju hans í Berlín og átti við hann ítarlegt samtal sem hann segir frá.

Í íslenskri kirkjusögu koma átök íhaldssamrar og frjálslyndrar guðfræði nítjándu aldar fram síðar en á meginlandinu. Það er fyrst með séra Matthíasi Jochumssyni (1835-1920), sem Íslendingar kynnast frjálslyndri guðfræði fyrir alvöru. Hann var fyrsti frjálslyndi guðfræðingurinn hér á landi og lengi eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Þó skal hér ekki gleymt samherjum hans og ber þá helst að nefna séra Pál Sigurðsson í Gaulverjabæ (1839 -1887) sem féll frá fyrir aldur fram. En þjóðskáldið plægði jarðveginn. Um aldamótin 1900 var tími frjálslyndu guðfræðinnar runninn upp í íslensku þjóðlífi og hafði sú stefna á að skipa öflugum, vel menntuðum guðfræðingum. Ekki skal gleyma guðfræðingnum Magnúsi Eiríkssyni (1806-1881) sem lengst af dvaldist í Danmörku á þessum umbrotatímum.

Það sem einkennir guðfræði Jóns Helgasonar og ekki aðeins guðfræði hans heldur einnig framgöngu hans og samskiptamáta við samtímamenn, hvort sem var á vettvangi kirkjustarfsins eða utan hans, er ákveðin menningarhefð sem rekja má í hans tilviki til móðurafans, Fjölnismannsins Tómasar Sæmundssonar. Þar á ég við samtalshefðina við menninguna, við samfélagið og við einstaklingana. Hann er túlkandi hennar ekki síður en boðandi, hann er mótaður af Schleiermacher – en rit hans eru enn afar mikils metin. Hann er í stöðugu samtali við manninn og menninguna: Erum við ekki öll á sama báti, eru það ekki stóru tilvistarspurningarnar sem liggja á okkur, þegar þær koma óboðnar inn í líf okkar og vekja grun um að lífið sé tilgangslaust, vekja löngun til að finna svör við spurningum hugans og hjartans – kemur ekki trúin inn í þennan spyrjandi heim með svör, með nýja tilvist, nýtt líf, nýtt innsæi?

Í þessum fyrri hluta erindisins hef ég beint sjónum að því sem mestu máli skiptir en það er guðfræðileg mótun og stefna Jóns biskups Helgasonar. En hvernig starfaði hann, hvað einkennir biskupstíma þessa frjálslynda biskups?

Þar er af mörgu að taka því að fáir biskupar hafa verið eins iðnir í embætti og Jón Helgason, reyndar var því haldið fram í minningargreinum um hann, að hann stæði flestum – ef ekki öllum – íslenskum biskupum framar í nokkrum þáttum, m.a. í afköstum, þar á meðal á ritvellinum. En fleira kemur til að hann fær háa einkunn fyrir afköst, hann var allra biskupa fremstur við að vísitera söfnuði landsins.

Eitt mikilvægasta skylduverk biskupa var og er að vísitera söfnuðina. Þannig hafði það verið frá upphafi kristni hér á landi. Föst regla komst á vísitasíur með erindisbréfi handa biskupum, sem út var gefið og dagsett er 1. júlí 1746, vafalítið að tilhlutun Ludvigs Harboes eftir dvöl hans hér á landi. Þar er biskupum gert að skyldu að fara yfirreið um sitt stifti, þannig að Hólabiskupi var ætlað að vísitera allar kirkjur í biskupsdæmi sínu á þremur árum, en Skálholtsbiskupi á 5-6 árum enda var það biskupsdæmi mun stærra og erfiðara yfirferðar en Hólabiskupsdæmi. Gert er ráð fyrir því að biskuparnir „vísiteri“ kirkjur sínar á hverju ári meðan heilsa og kraftar leyfi. Allt það sem heimtað er af biskupum í erindisbréfi þessu sýnir hve þýðingarmikil embættin hafa verið í augum kirkjustjórnarinnar, sem sendi erindisbréfið frá sér. Erindisbréfið ber því glöggt vitni, að það er runnið undan rifjum danska allsherjar- kirkjutilsjónarráðsins (sem sendi Harboe út hingað) og var mótað af þeirri trúarstefnu, sem þá ríkti í löndum og ríkjum Danakonungs, þ.e. píetismanum (heittrúarstefnunni). Aldrei mun þessu ákvæði erindisbréfsins um árlegar vísitasíuferðir hafa verið fylgt bókstaflega hér á landi, enda mátti það heita ógerningur eftir að biskupsdæmin höfðu verið sameinuð í eitt, en það gerðist rúmlega hálfri öld síðar (1802). Áður en Jón Helgason tók við embætti hafði engum forvera hans í hinum sameinuðu biskupsdæmum tekist að vísitera allar kirkjur landsins einu sinni, hvað þá oftar. Enginn hafði þó komist nær því en Hallgrímur Sveinsson (biskup 1889 til 1908), sem tókst að vísitera 194 kirkjur.

Jón Helgason telur að ástæðan fyrir því að niðurstaðan hafi verið svo góð sem raun ber vitni – en honum tókst að vísitera nánast allar kirkjur landsins á þrettán árum – hafi öðru fremur verið bættum samgöngum um land allt að þakka. Hann taldi að hann hefði getað náð enn lengra ef bifreiðaferðalögin hefðu verið orðin eins algeng og þau voru orðin þegar hann ritaði endurminningar sínar. Þegar hann átti skammt eftir í biskupsembætti voru slík ferðalög í reynd að hefjast. Hann varð því að gera sér að góðu að nota þarfasta þjóninn eins og forverar hans höfðu orðið að gera, en þó var það honum auðveldara en þeim vegna bættra samgangna. Í vísitasíum sínum fór hann aðeins akandi um Árnesprófastsdæmi, að undanteknum nokkrum sóknum.

Frá yfirreiðum sínum um landið átti hann margar endurminningar og voru þær allar hinar ánægjulegustu þegar hann horfði um öxl. Í því sambandi ritar hann að þegar hann hugsi til „þeirrar takmarkalausu elskusemi, sem ég átti þar að mæta, hvar sem ég kom, en þetta er því dásamlegra sem þessar ferðir mínar voru farnar á mesta annatíma ársins fyrir búendur til sveita, svo að afsakanlegt hefði verið þótt ég hefði reynzt sveitafólkinu allt annað en aufúsugestur.“ Hann segir enn fremur að hann hafi aldrei orðið annars var en að viðtökurnar hafi verið miklu líkari því að þægðin væri þeirra sem hann var að heimsækja um hábjargræðistímann. Hann metur vísitasíurnar þannig að mestu hafi skipt hversu lærdómsrík þessi ferðalög hans hafi verið honum sjálfum sem kirkjulegum tilsjónarmanni.

Lokaorð

Góðir áheyrendur!

Ég get ekki varist þeirri hugsun að Jón Helgason hafi á síðari tímum verið einn af okkar merkustu biskupum. Biskupar eru hver með sínum hætti, þannig hlýtur það ávallt að vera. Á hverjum tíma hlýtur kirkjan að velja til forystu þann sem hæfastur er og best til forystu fallinn. Þar er óneitanlega mikið í húfi og ábyrgð þeirra, sem velja, er mikil. Þegar vel tekst til eykur það trúverðugleika og styrk þjóðkirkjunnar. Megi sú verða raunin sem oftast þegar íslenska þjóðkirkjan velur sér leiðtoga og vísar honum til öndvegis.

Tilvísanir:

[1] Séra Bjarni Jónsson vígslubiskup, afmælisgrein um Jón Helgason sjötugan, Vísir 20. júní 1936, bls. 2.
[2] Dr. Magnús Jónsson, prófessor, minningargrein um Jón Helgason, Morgunblaðið 27. mars 1942, bls. 5-6.
[3]Jón Helgason, „Það er skemtilegt að vera biskup.“ Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939, bls. 25-29, 31.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins og umræður eru líflegar. Saga, samtíð og framtíð fléttast saman á spennandi hátt og vekja umhugsun um þjóðkirkju nútímans.

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

„Það er skemmtilegt að vera biskup,“ var yfirskrift áhugaverðs erindis sem dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur emeritus,  flutti á Krossgötum í vikunni og lesa má hér:

Góðir gestir!

Það er mér sönn ánægja að verða við ósk sóknarprestsins, séra Skúla Ólafssonar, um að flytja hér stutt erindi um dr. Jón Helgason biskup. Ástæðan er án efa sú að nú er að ljúka hátt í fjögurra ára vinnu minni við að skrifa ævisögu Jóns Helgasonar. Það merkir að ákveðinni yfirsýn er náð yfir litríkan og farsælan lífsferil – og jafnframt komið að útgáfu ritverksins.

Jón Helgason var biskup Íslands milli heimsstyrjaldanna, var vígður til embættis fyrir rúmri öld, árið 1917, og lét af embætti fyrir aldurs sakir 21 ári síðar, 1938.

Ég get ekki sagt að ég hafi þekkt mikið til lífshlaups eða verka Jóns Helgasonar, þegar afkomendur hans komu til mín vorið 2019 og báðu mig að skrifa ævisögu hans. Að vísu hafði ég lesið hið mikla og vandaða ritverk hans, Kirkjusögu Íslands, í guðfræðináminu við Háskóla Íslands. Engu að síður kom fljótlega í ljós að verkefnið fjallaði um einn af okkar áhugaverðustu biskupum nánast hvernig sem á málið er litið.

Dr. Jón Helgason (1866-1942), biskup Íslands 1917-1938 

Hann var afkastamaður hinn mesti og fjölhæfur, eins og glöggt má sjá af þeim bókum, sem hann ritaði um sína daga. Einnig af þeirri staðreynd að hann náði að vísitera nánast allar kirkjur landsins sem biskup Íslands. Hann var vel menntaður guðfræðingur og vel kunnugur guðfræðilegum umræðum á meginlandinu, hann var prófessor við Háskóla Íslands og rektor þeirrar stofnunar 1914-1915. Í minningargreinum, sem ritaðar voru að honum látnum, var oftar en einu sinni gefið í skyn að hann hefði verið einn af okkar athyglisverðustu biskupum. Þá var minnst á menntun hans, fjölhæfni, afköst og farsæld í embætti. Það getur því varla talist tímaskekkja að rifja upp eitt og annað um Jón Helgason – ekki síst þegar íslenska þjóðkirkjan hefur nýlega kosið sér nýjan biskup og málið því óbeint á dagskrá. Þar á ég við að biskupaskipti kalla á umræðu um biskupsembættið, hvers væntir kirkjan af nýjum biskupi, hvert stefnir nýr biskup í hinu forna embætti?

Þau fjögur ár, sem ég hef unnið að ritun sögu Jóns Helgasonar, hafa gert það að verkum að ég undrast ekki lengur aðdáunarorð samtímamanna hans og samverkamanna. Þau beinast öðru fremur að biskupsdómi hans og forystuhæfileikum á þeim vettvangi en einnig ritverkum hans, m.a. þeim sögulegu ritverkum, sem fjalla ekki beint um kirkjusögu heldur t.d. sögu Reykjavíkur. Ég verð að viðurkenna að styrkur hans sem fræðimanns, þ.e.a.s. sem guðfræðings, kom mér talsvert á óvart.

Loks var Jón Helgason í hópi merkra hérlendra myndlistarmanna á sinni tíð, þar má nefna málverk og teikningar af hinni gömlu Reykjavík og öllum kirkjum landsins nema þrem. Hann naut ekki aðeins virðingar presta og leikmanna á vettvangi kirkjunnar heldur einnig þjóðarinnar. Það má meðal annars greina af því, sem samtímamenn hans rituðu um hann og störf hans þegar hann kvaddi þennan heim árið 1942. Í þessu samhengi vil ég einnig minna á að Jón Helgason beitti sér fyrir öðrum málum á hinu almenna sviði þjóðfélagsmála. Hann beitti sér fyrir framförum í hjúkrunarmálum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og studdist þar við eigin kynni af þeim málum erlendis. Þegar fjallað er um Jón Helgason biskup er því af nógu að taka.

Í þessu stutta erindi langar mig til að glíma við þrjár spurningar, sem ég tel að áheyrendum muni þykja nokkuð áhugaverðar. Spurningarnar sem ég hef í huga eru þessar:

Hvað hafði Jón Helgason helst til síns ágætis?

Hvað einkenndi helst störf hans í biskupsembætti?

Um hvaða hugmyndafræði snerist guðfræði hans?

Þetta eru allt talsvert viðamiklar spurningar og ljóst að þeim verður ekki svarað til neinnar hlítar í einu stuttu erindi. Engu að síður finnst mér, að þær gætu gefið innsýn inn í líf og starf Jóns biskups Helgasonar og jafnframt opnað umræðu um biskupshlutverkið almennt, ekki síst um þessar mundir þegar það er sérstaklega á dagskrá.

Hvað hafði Jón Helgason helst til síns ágætis?

Í afmælisgrein um dr. Jón Helgason biskup sjötugan eftir séra Bjarna Jónsson (1881-1965) dómkirkjuprest, síðar vígslubiskup, segir:

„… hér er meir en meðalmaður, hér er víkingur í ritstörfum, vísindamaður, sem alltaf er vakandi, listamaður, sem hefir glatt marga með sínu listfenga starfi.“[1]

Eins og fram kemur síðar í þessu erindi voru þeir séra Bjarni og dr. Jón samstarfsmenn um alllangt skeið við dómkirkjuna í Reykjavík og þekktust því vel, en þeir voru einnig, hvor um sig, fulltrúar andstæðra sjónarmiða í guðfræði þess tíma. Á þeim vettvangi kom iðulega til talsverðra átaka milli andstæðra fylkinga.

Dr. Magnús Jónsson (1887-1958), prófessor í guðfræði, alþingismaður og ráðherra, formaður Prestafélags Íslands svo eitthvað sé talið, ritaði minningargrein í Morgunblaðið í tilefni af andláti dr. Jóns Helgasonar og segir þar að nú sé einn svipmesti maður þjóðkirkjunnar um langt skeið horfinn af sjónarsviðinu. Þótt ekki sé auðvelt að spá fyrir um dóma sögunnar, þá telur dr. Magnús að dr. Jóni verði skipað til sætis ofarlega í röð evangelískra biskupa hér á landi og að sumu leyti verði hann talinn í fremstu röð. Í því sambandi nefnir hann stjórnvisku hans og lærdóm. Hvað hið síðarnefnda varðar telur hann að þar sé Jón Helgason í fremstu röð. Dr. Magnús segir að starf hans hafi verið margþætt og hann hafi verið víkingur að dugnaði, að hverju sem hann gekk: „Um slíkan mann mætti rita heila bók“ segir síðan orðrétt.[2] Og vel að merkja: Áhugavert viðtal við Jón Helgason um biskupsdóm hans birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1939 og bar heitið: „Það er skemtilegt að vera biskup.“[3]

Jón Helgason hafði eitt og annað sér til ágætis, m.a. naut hann þess að alast upp á virtu prestsheimili. Hann var sonur hjónanna séra Helga Hálfdánarsonar prests og sálmaskálds og konu hans Þórhildar Tómasdóttur, en faðir hennar var Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson.

Jón Helgason fæddist í Görðum á Álftanesi þar sem faðir hans var þá sóknarprestur en áður hafði séra Helgi Hálfdánarson verið sóknarprestur í Brautarholti á Kjalarnesi. Jón Helgason leit fyrst dagsins ljós réttum tveim öldum eftir að meistari Jón Vídalín fæddist á þeim sama stað. Það kom fljótt í ljós að Jón Helgason var góðum gáfum gæddur, fjölhæfur og mikill námsmaður. Hann var því settur til mennta þegar hann hafði aldur til, fyrst hér á landi en að því loknu lauk hann guðfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla.

Þegar þjónustu séra Helga Hálfdánarsonar lauk í Görðum á Álftanesi fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og bjó í Bankastræti 7 næstu árin. Síðar byggðu þau hjónin Jón og Marta Maria húsið að Tjarnargötu 26, sem er annað húsið norðan við Ráðherrabústaðinn. Heimili þeirra hjóna og barna þeirra fimm, var opið heimili, þar var einnig skrifstofa biskups og þangað lögðu prestar utan af landi leið sína þegar þeir áttu erindi til borgarinnar. – Jón Helgason ritaði manna mest um sögu Reykjavíkur um sína tíð og skildi eftir sig dýrmætan fjársjóð mynda, teikninga og málverka, þar sem þeirri sögu er til haga haldið.

Hér gefst ekki tími til að rekja ævisögu Jóns Helgasonar og verður því farið fljótt yfir sögu. Námsárin í Kaupmannahöfn reyndust honum afar farsæll tími, hann stóð sig vel í námi við Hafnarháskóla og fékk m.a. viðurkenningu fyrir námsárangur, sem hann nýtti til nokkurra mánaða dvalar í Þýskalandi þar sem hann kynnti sér guðfræði samtímans og sömuleiðis kirkjulífið. En jafnframt naut hann þess í ferðinni að skoða listasöfn og kynna sér hinar fögru listir, ekki hvað síst á vettvangi kirkjunnar. Um þá ferð skrifaði hann áhugaverða og ítarlega ferðasögu.

Hvað einkenndi helst störf hans í biskupsembætti?

Þegar heim frá Kaupmannahöfn var komið sat Jón Helgason ekki auðum höndum, hann var beðinn um að taka að sér kennslu við guðfræðideild Háskóla Íslands og samtímis var hann beðinn um að gegna starfi aðstoðarprests við Dómkirkjuna.

Jón Helgason sinnti ekki aðeins guðfræði og kirkju heldur var hann virkur á ýmsum sviðum hins vaxandi samfélags. Hann tók þátt í hinni opnu umræðu um myndlist, sem fram fór í samfélaginu á hans tíma og var jafnframt einn af stofnendum Listvinafélagsins. Þá gaf hann sig einnig að líknarmálum og heilbrigðisþjónustu og var virkur aðili í þróun þeirra mála í höfuðborginni. Um og upp úr aldamótunum átti hann frumkvæði að stofnun Hjúkrunarfélags Reykjavíkur. Í kynningu á starfi félagsins segir að það leitist við að ná tilgangi sínum með því að halda á sinn kostnað æfðar hjúkrunarkonur, eina eða fleiri, eftir því sem efni leyfi og þörf gerist. Þetta var Jóni Helgasyni mikið metnaðarmál sem hann sinnti alla tíð.

Um hvaða hugmyndafræði snerist guðfræði Jóns Helgasonar?

Það segir sína sögu um Jón Helgason að honum veittist auðvelt að eiga samstarf við þá sem voru á öndverðum meiði við hann í guðfræði. Þetta voru tímar þegar ný guðfræði var að ryðja sér til rúms, frjálslynda guðfræðin, sem hér á landi var iðulega nefnd nýguðfræðin. Hér gefst ekki tími til að skilgreina í hverju munurinn á henni og þeirri guðfræði sem fyrir var felst – en einhverjum kynni að detta í hug að munurinn hafi ekki verið svo ýkja mikill þegar allt kemur til alls og horft er til farsæls samstarfs þeirra séra Bjarna Jónssonar og séra Jóns Helgasonar.

En munurinn var verulegur, í reynd var nýr tími að renna upp í sögu guðfræðinnar. Námstíminn við Hafnarháskóla opnaði augu Jóns Helgasonar fyrir því að nýr tími var í uppsiglingu á vettvangi guðfræði og kirkju. Þegar Jón Helgason er að nema guðfræði við Hafnarháskóla er þegar orðin umtalsverð gróska í fornleifarannsóknum á þeim svæðum við Miðjarðarhafið, sem kalla mætti sögusvið Biblíunnar. Þær rannsóknir breyttu miklu og juku þekkingu manna á sögusviði Biblíunnar verulega. Einnig kemur hér til skilningur á trúnni sem slíkri og þá er munurinn annars vegar sá, að viðtekinn skilningur á trú var afar Biblíutengdur en hins vegar komu fram á sjónarsviðið heimspekingar, einkum í enska heiminum og í Þýskalandi. Í þeirra fræðum er litið á trúna út frá þörf mannsins fyrir að finna fótfestu í tilvist sinni, til hvers lifi ég, hvernig stendur á því að allir menn virðast spyrja svipaðra spurninga um lífið og tilgang þess? Og hvernig tengjast hinar heimspekilegu spurningar mannsins þeirri trúarhefð sem Biblían ber vitni um?

Í þessum breytta heimi við lok nítjándu aldar stóð kirkjan frammi fyrir þeirri stóru spurningu hvaða tungutak hæfði hinni trúarlegu orðræðu best í breyttum og síbreytilegum heimi. Átti að tala tungumál liðins tíma, fastmótaðra kenninga, sögulegra játninga, hefða og helgisiða – eða átti að laga sig að nýrri þekkingu og túlka boðskapinn í gjaldgengum hugtökum líðandi stundar? Hver var skylda ungra guðfræðinga á umbrotatímum, hvar voru traustar heimildir um tímalaust inntak trúarinnar, sem gjaldgengt var á slíkum tímum – ekki síður en öðrum? Og hvert horfðu framsæknir guðfræðingar á óvissutímum í lífi einstaklinga og samfélags?

Helsti guðfræðingur mótmælenda í upphafi nítjándu aldar – og jafnframt ættfaðir frjálslyndrar guðfræði – var Þjóðverjinn Friedrich Schleiermacher. Nafn hans tengist sögu Jóns Helgasonar. Það er tímanna tákn að Schleiermacher hafi nú, á okkar tímum, enn verið á dagskrá í guðfræði mótmælenda um alllangt skeið. Reyndar virðist Jón Helgason ekki hafa heillast af Schleiermacher eins og vænta hefði mátt miðað við hrifningu móðurafans, Tómasar Sæmundssonar og annarra Fjölnismanna. Það kemur fram í handskrifuðum fyrirlestri sem hann flutti í Prestaskólanum í stílabók sem er árituð „Inngangur til trúfræðinnar. Jón Helgason“, án ártals. – Ég verð að bæta því hér við að afi Jóns Helgasonar, Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson, heimsótti Friedrich Schleiermacher í kirkju hans í Berlín og átti við hann ítarlegt samtal sem hann segir frá.

Í íslenskri kirkjusögu koma átök íhaldssamrar og frjálslyndrar guðfræði nítjándu aldar fram síðar en á meginlandinu. Það er fyrst með séra Matthíasi Jochumssyni (1835-1920), sem Íslendingar kynnast frjálslyndri guðfræði fyrir alvöru. Hann var fyrsti frjálslyndi guðfræðingurinn hér á landi og lengi eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Þó skal hér ekki gleymt samherjum hans og ber þá helst að nefna séra Pál Sigurðsson í Gaulverjabæ (1839 -1887) sem féll frá fyrir aldur fram. En þjóðskáldið plægði jarðveginn. Um aldamótin 1900 var tími frjálslyndu guðfræðinnar runninn upp í íslensku þjóðlífi og hafði sú stefna á að skipa öflugum, vel menntuðum guðfræðingum. Ekki skal gleyma guðfræðingnum Magnúsi Eiríkssyni (1806-1881) sem lengst af dvaldist í Danmörku á þessum umbrotatímum.

Það sem einkennir guðfræði Jóns Helgasonar og ekki aðeins guðfræði hans heldur einnig framgöngu hans og samskiptamáta við samtímamenn, hvort sem var á vettvangi kirkjustarfsins eða utan hans, er ákveðin menningarhefð sem rekja má í hans tilviki til móðurafans, Fjölnismannsins Tómasar Sæmundssonar. Þar á ég við samtalshefðina við menninguna, við samfélagið og við einstaklingana. Hann er túlkandi hennar ekki síður en boðandi, hann er mótaður af Schleiermacher – en rit hans eru enn afar mikils metin. Hann er í stöðugu samtali við manninn og menninguna: Erum við ekki öll á sama báti, eru það ekki stóru tilvistarspurningarnar sem liggja á okkur, þegar þær koma óboðnar inn í líf okkar og vekja grun um að lífið sé tilgangslaust, vekja löngun til að finna svör við spurningum hugans og hjartans – kemur ekki trúin inn í þennan spyrjandi heim með svör, með nýja tilvist, nýtt líf, nýtt innsæi?

Í þessum fyrri hluta erindisins hef ég beint sjónum að því sem mestu máli skiptir en það er guðfræðileg mótun og stefna Jóns biskups Helgasonar. En hvernig starfaði hann, hvað einkennir biskupstíma þessa frjálslynda biskups?

Þar er af mörgu að taka því að fáir biskupar hafa verið eins iðnir í embætti og Jón Helgason, reyndar var því haldið fram í minningargreinum um hann, að hann stæði flestum – ef ekki öllum – íslenskum biskupum framar í nokkrum þáttum, m.a. í afköstum, þar á meðal á ritvellinum. En fleira kemur til að hann fær háa einkunn fyrir afköst, hann var allra biskupa fremstur við að vísitera söfnuði landsins.

Eitt mikilvægasta skylduverk biskupa var og er að vísitera söfnuðina. Þannig hafði það verið frá upphafi kristni hér á landi. Föst regla komst á vísitasíur með erindisbréfi handa biskupum, sem út var gefið og dagsett er 1. júlí 1746, vafalítið að tilhlutun Ludvigs Harboes eftir dvöl hans hér á landi. Þar er biskupum gert að skyldu að fara yfirreið um sitt stifti, þannig að Hólabiskupi var ætlað að vísitera allar kirkjur í biskupsdæmi sínu á þremur árum, en Skálholtsbiskupi á 5-6 árum enda var það biskupsdæmi mun stærra og erfiðara yfirferðar en Hólabiskupsdæmi. Gert er ráð fyrir því að biskuparnir „vísiteri“ kirkjur sínar á hverju ári meðan heilsa og kraftar leyfi. Allt það sem heimtað er af biskupum í erindisbréfi þessu sýnir hve þýðingarmikil embættin hafa verið í augum kirkjustjórnarinnar, sem sendi erindisbréfið frá sér. Erindisbréfið ber því glöggt vitni, að það er runnið undan rifjum danska allsherjar- kirkjutilsjónarráðsins (sem sendi Harboe út hingað) og var mótað af þeirri trúarstefnu, sem þá ríkti í löndum og ríkjum Danakonungs, þ.e. píetismanum (heittrúarstefnunni). Aldrei mun þessu ákvæði erindisbréfsins um árlegar vísitasíuferðir hafa verið fylgt bókstaflega hér á landi, enda mátti það heita ógerningur eftir að biskupsdæmin höfðu verið sameinuð í eitt, en það gerðist rúmlega hálfri öld síðar (1802). Áður en Jón Helgason tók við embætti hafði engum forvera hans í hinum sameinuðu biskupsdæmum tekist að vísitera allar kirkjur landsins einu sinni, hvað þá oftar. Enginn hafði þó komist nær því en Hallgrímur Sveinsson (biskup 1889 til 1908), sem tókst að vísitera 194 kirkjur.

Jón Helgason telur að ástæðan fyrir því að niðurstaðan hafi verið svo góð sem raun ber vitni – en honum tókst að vísitera nánast allar kirkjur landsins á þrettán árum – hafi öðru fremur verið bættum samgöngum um land allt að þakka. Hann taldi að hann hefði getað náð enn lengra ef bifreiðaferðalögin hefðu verið orðin eins algeng og þau voru orðin þegar hann ritaði endurminningar sínar. Þegar hann átti skammt eftir í biskupsembætti voru slík ferðalög í reynd að hefjast. Hann varð því að gera sér að góðu að nota þarfasta þjóninn eins og forverar hans höfðu orðið að gera, en þó var það honum auðveldara en þeim vegna bættra samgangna. Í vísitasíum sínum fór hann aðeins akandi um Árnesprófastsdæmi, að undanteknum nokkrum sóknum.

Frá yfirreiðum sínum um landið átti hann margar endurminningar og voru þær allar hinar ánægjulegustu þegar hann horfði um öxl. Í því sambandi ritar hann að þegar hann hugsi til „þeirrar takmarkalausu elskusemi, sem ég átti þar að mæta, hvar sem ég kom, en þetta er því dásamlegra sem þessar ferðir mínar voru farnar á mesta annatíma ársins fyrir búendur til sveita, svo að afsakanlegt hefði verið þótt ég hefði reynzt sveitafólkinu allt annað en aufúsugestur.“ Hann segir enn fremur að hann hafi aldrei orðið annars var en að viðtökurnar hafi verið miklu líkari því að þægðin væri þeirra sem hann var að heimsækja um hábjargræðistímann. Hann metur vísitasíurnar þannig að mestu hafi skipt hversu lærdómsrík þessi ferðalög hans hafi verið honum sjálfum sem kirkjulegum tilsjónarmanni.

Lokaorð

Góðir áheyrendur!

Ég get ekki varist þeirri hugsun að Jón Helgason hafi á síðari tímum verið einn af okkar merkustu biskupum. Biskupar eru hver með sínum hætti, þannig hlýtur það ávallt að vera. Á hverjum tíma hlýtur kirkjan að velja til forystu þann sem hæfastur er og best til forystu fallinn. Þar er óneitanlega mikið í húfi og ábyrgð þeirra, sem velja, er mikil. Þegar vel tekst til eykur það trúverðugleika og styrk þjóðkirkjunnar. Megi sú verða raunin sem oftast þegar íslenska þjóðkirkjan velur sér leiðtoga og vísar honum til öndvegis.

Tilvísanir:

[1] Séra Bjarni Jónsson vígslubiskup, afmælisgrein um Jón Helgason sjötugan, Vísir 20. júní 1936, bls. 2.
[2] Dr. Magnús Jónsson, prófessor, minningargrein um Jón Helgason, Morgunblaðið 27. mars 1942, bls. 5-6.
[3]Jón Helgason, „Það er skemtilegt að vera biskup.“ Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939, bls. 25-29, 31.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir