Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.
Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.
Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.
Dr. Haraldur Hreinsson, lektor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands 1959-1981, og hér má lesa helstu stiklur úr því:
Sigurbjörn Einarsson var fæddur árið 1911 í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu og fór til náms í Reykjavík árið 1926 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum þar og hóf guðfræðinám við Háskóla Íslands en fór síðan utan til náms, til Uppsala í Svíþjóð og útskrifaðist með kand. fil. gráðu í trúarbragðasögu árið 1937. Hann lauk svo kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands ári síðar og fór svo strax í prestsskap á Breiðabólsstað á Snæfellsnesi þaðan sem leiðin lá í Hallgrímsprestakall sem þá var nýstofnað og varð þar annar tveggja presta. Hann var ráðinn dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1944 eftir að hafa starfað þar í afleysingum í eitt ár og varð svo prófessor þar árið 1949. Því embætti gegndi hann þar til hann varð biskup Íslands árið 1959. Á sjötugu steig Sigurbjörn af biskupsstóli árið 1981. Sigurbjörn lést árið 2008 í hárri elli, 97 ára gamall.
Yfirlit á borð við þetta gefur takmarkaða mynd af þeim mikla fjölda verkefna sem Sigurbjörn tókst á hendur. Fyrsta bók hans kom út árið 1940, Kirkja Krists í ríki Hitlers; hann stofnaði ásamt fleirum bókaútgáfuna Lilju árið 1943 og stofnaði guðfræðitímaritið Víðförla árið 1947 og var á þessum árum einnig virkur í pólitískri baráttu í hinum svokölluðu þjóðvarnarmálum, gegn hersetu og Atlantshafsbandalaginu. Á sjötta áratugnum gaf Sigurbjörn út rit um trúarbragðasögu og ritskýringarrit auk eigin predikana og á þeim tíma var hann einn helsti hvatamaður að uppbyggingu í Skálholti. Eftir að Sigurbjörn varð biskup setti hann sýn sína á trúarlíf og samfélag í ræðu og riti eins og við var að búast, stóð í trúvörn, t.d. gegn Vottum Jehóva. Áhrif hans á ásýnd þjóðkirkjunnar voru mikil, hann var t.d. fyrsti biskupinn sem talaði til Íslendinga í sjónvarpssal. Þessi áhrif birtust með hinum fjölbreytilegasta hætti á biskupstíma hans, m.a. í sálmabók frá 1972, handbók presta frá 1981 og biblíuþýðingu frá 1981. Sigurbjörn var sjálfur einnig afkastamikill þýðandi – þar ber einna hæst þýðingu hans á Játningum Ágústínusar – og með aldrinum einbeitti hann sér sífellt meir að sálmakveðskap með öðrum ritstörfum. Taka skal fram að þetta er ekki tæmandi listi.
Framan af ferlinum var Sigurbjörn umdeildur maður. Hann var virkur í samfélagspólitískri umræðu um þjóðvarnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu og hersetu á Íslandi og tók sæti á lista Alþýðuflokksins fyrir kosningar árið 1946. Hann gaf engan afslátt í hinum ýmsu átökum og ritdeilum og átti þess vegna andstæðinga. Hann var t.d. kallaður „hinn smurði Moskvuagent“ af Valtý Stefánssyni ritstjóra Morgunblaðsins og Níels Dungal prófessor í læknisfræði fór um hann hörðum orðum. Eftir því sem árin liðu, og einkum þegar líða tók á biskupstíð hans og kannski sérstaklega eftir að henni lauk, tók meiri sátt að ríkja um Sigurbjörn. Með tímanum varð hann afar ástsæll meðal Íslendinga og komst á virðingarstall sem aðeins fáir hafa komist á í íslenskum samtíma. Í opinberri umræðu var hann reglulega nefndur í sömu andrá og allra vinsælasta forystufólk landsins, Vigdís Finnbogadóttir, Halldór Laxness og Jóhannes Kjarval, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Hvað skýrir þessa sérstöku stöðu Sigurbjörns Einarssonar á síðasta hluta ferils hans? Vinsældir hans eru að mörgu leyti merkilegar frá sögulegum og félagslegum sjónarhóli en það eitt er víst að fyrir þeim eru margar ástæður. Þannig verður ekki gert lítið úr því að Sigurbjörn Einarsson var mikill hæfileikamaður á ýmsum sviðum, eins og Gunnar Kristjánsson, hans harðasti gagnrýnandi undanfarna áratugi ritaði: „þar var enginn meðalmaður á ferð“. Önnur skýring er sú að þau pólitísku átök sem Sigurbjörn stóð í voru frekar snemma á ferli hans þannig að það snjóaði yfir þau eftir því sem árin liðu og þeim sem höfðu horn í síðu hans fækkaði og á sama tíma fjölgaði í hópi þeirra sem þótti mikið til hans koma og í kringum hann var líka áhrifamikið fólk innan og utan kirkju sem var sammála þeim áherslum sem hann stóð fyrir. Að síðustu má benda á þá þjóðlegu kristni sem Sigurbjörn setti markvisst fram og virðist hafa snert streng í hjarta hinnar ungu og nýsjálfstæðu íslensku þjóðar á síðari hluta 20. aldar. Í hirðisbréfi Sigurbjörns, Ljós yfir land, kom t.d. eftirfarandi fram:
Því er kirkjan til í dag, að þetta er satt í dag. Því er kirkjan hér, á þessum endimörkum heimsbyggðar, á landinu yzt við heimsskaut norður. Hér hefur hún verið í nær þúsund ár, af því að Jesús Kristur var með oss. (Ljós yfir land, bls. 12).
Frá upphafi var áberandi í hans málflutningi tiltekin söguskoðun eða sögusýn sem draga má saman undir með orðasambandinu „Samleið kirkju og þjóðar“. Í þessari sýn felst sú hugmynd að á milli íslenskrar þjóðar og íslenskrar kristni sé náið samband sem rekja má allt aftur til þess að þegar land byggðist með kristnu landnámsfólki og hafi síðan verið formlega meitlað í stein um aldamótin 1000 á Alþingi. Þetta samband hafi svo haldist allar götur upp frá því og að þannig hafi orðið til sérstök íslensk kristni mótuð af íslenskum aðstæðum. Áherslan á „samleið kirkju og þjóðar“ birtist með ýmsum hætti í verkum Sigurbjörns, t.d. í áherslu hans á íslenska miðaldaarfinn en hann var aðalhvatamaðurinn að endurreisn hins forna biskupsstóls í Skálholti. Við vígslu Skálholtskirkju árið 1963 ritaði hann:
Skálholt sögunnar er ekki bundið stað né stundu. Og meira enn er Skálholt, stærra en sagan. Það er alls staðar um Ísland, í hverjum íslenzkum barmi (Úr predikun við vígslu Skálholtskirkju 1963).
Þessi sögusýn birtist einnig í þungri áherslu á verk Hallgríms Péturssonar sem sameinaði að mati Sigurbjörns tvo mikilvæga þræði í íslenskri þjóðarsál, kristna trú og bókmenningu. Sigurbjörn var fyrstur til að lesa Passíusálmana í Ríkisútvarpið og varð þannig upphafsmaður hefðar sem enn lifir í íslenskri menningu. Í verkum sínum vitnaði Sigurbjörn óspart í verk Hallgríms. Hallgrímur Pétursson var, svo notuð séu orð Sigurbjörns sjálfs, „mesti velgerðarmaður íslenskrar kristni“ (úr predikun á Skólavörðuholti 1944). Leiða má að því líkur að vinsældir Sigurbjörns byggi að umtalsverðu leyti einmitt á því sama og hann sá í Hallgrími og verkum hans, þ.e. kraftmiklu samspili kristinnar trúar og ritlistarinnar.
Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.
Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.
Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.
Dr. Haraldur Hreinsson, lektor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands 1959-1981, og hér má lesa helstu stiklur úr því:
Sigurbjörn Einarsson var fæddur árið 1911 í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu og fór til náms í Reykjavík árið 1926 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum þar og hóf guðfræðinám við Háskóla Íslands en fór síðan utan til náms, til Uppsala í Svíþjóð og útskrifaðist með kand. fil. gráðu í trúarbragðasögu árið 1937. Hann lauk svo kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands ári síðar og fór svo strax í prestsskap á Breiðabólsstað á Snæfellsnesi þaðan sem leiðin lá í Hallgrímsprestakall sem þá var nýstofnað og varð þar annar tveggja presta. Hann var ráðinn dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1944 eftir að hafa starfað þar í afleysingum í eitt ár og varð svo prófessor þar árið 1949. Því embætti gegndi hann þar til hann varð biskup Íslands árið 1959. Á sjötugu steig Sigurbjörn af biskupsstóli árið 1981. Sigurbjörn lést árið 2008 í hárri elli, 97 ára gamall.
Yfirlit á borð við þetta gefur takmarkaða mynd af þeim mikla fjölda verkefna sem Sigurbjörn tókst á hendur. Fyrsta bók hans kom út árið 1940, Kirkja Krists í ríki Hitlers; hann stofnaði ásamt fleirum bókaútgáfuna Lilju árið 1943 og stofnaði guðfræðitímaritið Víðförla árið 1947 og var á þessum árum einnig virkur í pólitískri baráttu í hinum svokölluðu þjóðvarnarmálum, gegn hersetu og Atlantshafsbandalaginu. Á sjötta áratugnum gaf Sigurbjörn út rit um trúarbragðasögu og ritskýringarrit auk eigin predikana og á þeim tíma var hann einn helsti hvatamaður að uppbyggingu í Skálholti. Eftir að Sigurbjörn varð biskup setti hann sýn sína á trúarlíf og samfélag í ræðu og riti eins og við var að búast, stóð í trúvörn, t.d. gegn Vottum Jehóva. Áhrif hans á ásýnd þjóðkirkjunnar voru mikil, hann var t.d. fyrsti biskupinn sem talaði til Íslendinga í sjónvarpssal. Þessi áhrif birtust með hinum fjölbreytilegasta hætti á biskupstíma hans, m.a. í sálmabók frá 1972, handbók presta frá 1981 og biblíuþýðingu frá 1981. Sigurbjörn var sjálfur einnig afkastamikill þýðandi – þar ber einna hæst þýðingu hans á Játningum Ágústínusar – og með aldrinum einbeitti hann sér sífellt meir að sálmakveðskap með öðrum ritstörfum. Taka skal fram að þetta er ekki tæmandi listi.
Framan af ferlinum var Sigurbjörn umdeildur maður. Hann var virkur í samfélagspólitískri umræðu um þjóðvarnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu og hersetu á Íslandi og tók sæti á lista Alþýðuflokksins fyrir kosningar árið 1946. Hann gaf engan afslátt í hinum ýmsu átökum og ritdeilum og átti þess vegna andstæðinga. Hann var t.d. kallaður „hinn smurði Moskvuagent“ af Valtý Stefánssyni ritstjóra Morgunblaðsins og Níels Dungal prófessor í læknisfræði fór um hann hörðum orðum. Eftir því sem árin liðu, og einkum þegar líða tók á biskupstíð hans og kannski sérstaklega eftir að henni lauk, tók meiri sátt að ríkja um Sigurbjörn. Með tímanum varð hann afar ástsæll meðal Íslendinga og komst á virðingarstall sem aðeins fáir hafa komist á í íslenskum samtíma. Í opinberri umræðu var hann reglulega nefndur í sömu andrá og allra vinsælasta forystufólk landsins, Vigdís Finnbogadóttir, Halldór Laxness og Jóhannes Kjarval, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Hvað skýrir þessa sérstöku stöðu Sigurbjörns Einarssonar á síðasta hluta ferils hans? Vinsældir hans eru að mörgu leyti merkilegar frá sögulegum og félagslegum sjónarhóli en það eitt er víst að fyrir þeim eru margar ástæður. Þannig verður ekki gert lítið úr því að Sigurbjörn Einarsson var mikill hæfileikamaður á ýmsum sviðum, eins og Gunnar Kristjánsson, hans harðasti gagnrýnandi undanfarna áratugi ritaði: „þar var enginn meðalmaður á ferð“. Önnur skýring er sú að þau pólitísku átök sem Sigurbjörn stóð í voru frekar snemma á ferli hans þannig að það snjóaði yfir þau eftir því sem árin liðu og þeim sem höfðu horn í síðu hans fækkaði og á sama tíma fjölgaði í hópi þeirra sem þótti mikið til hans koma og í kringum hann var líka áhrifamikið fólk innan og utan kirkju sem var sammála þeim áherslum sem hann stóð fyrir. Að síðustu má benda á þá þjóðlegu kristni sem Sigurbjörn setti markvisst fram og virðist hafa snert streng í hjarta hinnar ungu og nýsjálfstæðu íslensku þjóðar á síðari hluta 20. aldar. Í hirðisbréfi Sigurbjörns, Ljós yfir land, kom t.d. eftirfarandi fram:
Því er kirkjan til í dag, að þetta er satt í dag. Því er kirkjan hér, á þessum endimörkum heimsbyggðar, á landinu yzt við heimsskaut norður. Hér hefur hún verið í nær þúsund ár, af því að Jesús Kristur var með oss. (Ljós yfir land, bls. 12).
Frá upphafi var áberandi í hans málflutningi tiltekin söguskoðun eða sögusýn sem draga má saman undir með orðasambandinu „Samleið kirkju og þjóðar“. Í þessari sýn felst sú hugmynd að á milli íslenskrar þjóðar og íslenskrar kristni sé náið samband sem rekja má allt aftur til þess að þegar land byggðist með kristnu landnámsfólki og hafi síðan verið formlega meitlað í stein um aldamótin 1000 á Alþingi. Þetta samband hafi svo haldist allar götur upp frá því og að þannig hafi orðið til sérstök íslensk kristni mótuð af íslenskum aðstæðum. Áherslan á „samleið kirkju og þjóðar“ birtist með ýmsum hætti í verkum Sigurbjörns, t.d. í áherslu hans á íslenska miðaldaarfinn en hann var aðalhvatamaðurinn að endurreisn hins forna biskupsstóls í Skálholti. Við vígslu Skálholtskirkju árið 1963 ritaði hann:
Skálholt sögunnar er ekki bundið stað né stundu. Og meira enn er Skálholt, stærra en sagan. Það er alls staðar um Ísland, í hverjum íslenzkum barmi (Úr predikun við vígslu Skálholtskirkju 1963).
Þessi sögusýn birtist einnig í þungri áherslu á verk Hallgríms Péturssonar sem sameinaði að mati Sigurbjörns tvo mikilvæga þræði í íslenskri þjóðarsál, kristna trú og bókmenningu. Sigurbjörn var fyrstur til að lesa Passíusálmana í Ríkisútvarpið og varð þannig upphafsmaður hefðar sem enn lifir í íslenskri menningu. Í verkum sínum vitnaði Sigurbjörn óspart í verk Hallgríms. Hallgrímur Pétursson var, svo notuð séu orð Sigurbjörns sjálfs, „mesti velgerðarmaður íslenskrar kristni“ (úr predikun á Skólavörðuholti 1944). Leiða má að því líkur að vinsældir Sigurbjörns byggi að umtalsverðu leyti einmitt á því sama og hann sá í Hallgrími og verkum hans, þ.e. kraftmiklu samspili kristinnar trúar og ritlistarinnar.