Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Sigurgeir Sigurðsson, biskup Ísland 1939-1953, og hér má lesa helstu stiklur úr því:

,,Í guðfræðideildinni var hátt til lofts og vítt til veggja,” segir Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953) í minningum sínum frá þeim mótunarárum sem háskólanámið var. Hann lýsir andrúmsloftinu þar sem ,,sannleiksást, eldlegum áhuga, trú á Guð og höfund tilverunnar og ást og lotning fyrir Kristi, konungi lífsins og sannleikans”. Kristindómurinn var í huga hans ,,það eina eftirsóknarverða, hinn bjargandi og frelsandi máttur einstaklingsins og þjóðanna í heild.”

Kennarar deildarinnar á þeim tíma voru helstu talsmenn frjálslyndrar guðfræði, eða „nýguðfræði“ eins og hún var einnig nefnd. Þar má nefna Harald Níelsson (1868 -1928), Jón biskup Helgason (1866-1942) og Sigurð P. Sívertsen (1868-1938). Þeir höfðu mikil áhrif á Sigurgeir og aðhylltist hann sjálfur þá guðfræðistefnu.

Óhætt er að segja að biskupstíð Sigurgeirs hafi einkennst af róttækum breytingum bæði innanlands og í hinu alþjóðlega samhengi. Heimsstyrjaldarárin mótuðu mjög störf hans en hann var í nánum tengslum við yfirmenn hersins hér á Íslandi og í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar ræddi hann við ráðamenn vestanhafs. Sigurgeir var „hraðskilnaðarmaður“ og barðist fyrir því að Ísland segði skilið við Danaveldi.

Þá var mikil gróska í menntunar- og félagsmálum á landinu í biskupstíð hans og má greina hvernig Sigurgeir lagði sig fram um að endurmóta skipulag og uppbyggingu kirkjunnar í því skyni að hún gæti mætt nýjum aðstæðum.

Við upphaf starfsferils Sigurgeirs mátti greina þau baráttumál sem áttu eftir að einkenna þjónustu hans. Sem prestur og síðar prófastur á Ísafirði beitti hann sér fyrir æskulýðsstarfi, útgáfumálum og auknu samstarfi presta á svæðinu. Á þriðja og fjórða áratugnum hélt hann í náms- og kynnisferðir til Oxford á Englandi, Danmerkur og Þýskalands þar sem hann kynnti sér guðfræði og kirkjulegt starf.

Sigurgeir var skipaður biskup 29. nóvember 1938 og tók við embætti 1. janúar 1939. Hann var sá áttundi í röð biskupa frá því að landið varð eitt biskupsdæmi.

Sveinn Víkingur (1896-1971), sem var biskupsritari Sigurgeirs, lýsir honum með þessum orðum:

,,Bjartsýni hans á lífið og mennina, ást hans á fegurð og hreinleika, guðstraust hans og hin einlæga lotning fyrir Kristi og fagnaðarerindi hans, samfara alúð hans og góðfýsi — allt þetta hlaut að hafa áhrif á söfnuð hans og alla þá, sem kynntust honum, enda var hann elskaður og virtur jafnt af ungum sem gömlum.”

Guðrún Pétursdóttir, eiginkona Sigurgeirs biskups

Þá má segja frá því til gamans í ljósi þess að nýverið var biskupsgarðurinn að Bergstaðastræti 75 seldur að Sigurgeir var fyrsti biskupinn sem fékk húsnæði í Reykjavík. Ríkið keypti húsið Gimli við Lækjargötu sem varð bústaður hans og eiginkonu hans Guðrúnar Pétursdóttur (1893-1979) til loka embættistímans. Biskupar höfðu fram að því búið í eigin húsum eftir að embættið fluttist til Reykjavíkur. Þetta þótti vera viðurkenning á því að ríkinu bæri að sjá biskupi fyrir ,,sómasamlegu aðsetri í höfuðstaðnum”. Að sögn Sveins voru þau hjónin gestrisin og miklir höfðingjar heim að sækja! Þau hjónin áttu fjögur börn, þar á meðal Pétur Sigurgeirsson (1919-2010) sem síðar varð biskup.

Þegar leið á biskupstíð Sigurgeirs tók að bera á hugmyndafræðilegum ágreiningi meðal guðfræðinga. Sjálfur hafði hann beitt sér fyrir stofnun Kristilegs félags stúdenta sem stofnað var í ársbyrjun 1945. Félagsmenn deildu þeirri sýn að þar skyldi vera ,,hátt til lofts og vítt til veggja“. Enn fremur lýstu þeir því yfir að félagið skyldi opið „öllum mönnum með ólíkar trúarskoðanir“. Stofnfundurinn fór fram á heimili Ásmundar Guðmundssonar (1888-1969) sem var einn merkisberi frjálslyndrar guðfræði og átti eftir að verða eftirmaður Sigurgeirs.

Meðal félaga var Geirþrúður Bernhöft (1921-1987), fyrsta konan sem lauk embættisprófi í guðfræði á Íslandi. Sigurgeir hvatti hana til að sækja um prestsembætti en hugmyndin um að vígja konu til prests leiddi til nokkurra mótmæla meðal presta og hótuðu einhverjir að segja embætti sínu lausu ef af því yrði.

Árið 1948 stofnuðu svo íhaldssamir guðfræðingar Samtök játningatrúrra presta. Í stefnuyfirlýsingu segir: „Samtökin byggja á kenningargrundvelli lútherska heimssambandsins. En það viðurkennir Heilaga Ritningu, Gamla og Nýja testamentið, einu heimild og óskeikulan mælikvarða allrar kenningar kirkjunnar og starfs og álítur játningarrit lútherskrar kirkju, sérstaklega hina óbreyttu Ágsborgarjátningu og fræði Lúthers, hreina útleggingu Guðs orðs.“

Svo segir í Kristni sögu, IV. bindi, bls. 308:
,,Biskupinn sem þá var Sigurgeir Sigurðsson, brást hart við stofnun þessa félags þar sem hann taldi að hún gæti valdið klofningi í kirkjunni, en hann lagði mikla áherslu á að kirkjan kæmi fram sem sameiningarafl og taldi að leiðtogar hins nýja félags hefðu farið á bak við sig.”

Sigurgeir var á öndverðum við afstöðu þessara guðfræðinga og hafði þar að auki jákvæðari afstöðu til ýmissa ágreiningsmála en forveri hans, Jón Helgason, hafði haft. Má í því sambandi nefna spíritismann. Í Hirðisbréfi sínu segir Sigurgeir:

„Spíritisminn hefir komið mörgum til hjálpar í hinni andlegu leit. Hann hefir veitt huggun og djörfung ótal mörgum syrgjandi og sorgmæddum sálum. Hann hefir sannfært marga meðal vor um, að látnir lifi, að lífið haldi áfram og að endurfundir eru fram undan. Hann hefir vakið marga af svefni efnishyggjunnar og breytt öllu viðhorfi lífsins í augum þeirra, gefið þeim nýja veröld“

Hann beitti sér fyrir bætti fjárhagsstöðu kirkna og presta og lagði grunninn að frekari uppbyggingu sókna. Í nýársræðu frá árinu 1953, þegar komið var að lokum starfstíma hans og raunar ævi, segir hann frá uppbyggingunni:

„Í Reykjavík eru þrír nýir söfnuðir myndaðir, er skipa sér í fylkingar um kirkjulegt starf. Tvö önnur prestaköll urðu til á árinu sem leið, í Keflavík og í Hrísey og nýir starfsmenn koma fram.

Kirkjan, þjónar hennar og söfnuðir munu standa fastar saman í starfi en áður. Þjóðin vill sterka, sameinaða og starfandi kirkju, þar sem af víðsýni og skilningi, bjartsýni og bróðurhug er starfað í anda Jesú Krists. Sundrungin veikir kirkjuna, en einingin eykur henni þrótt.

Ég árna sóknarprestum og öllum söfnuðum landsins heilla og blessunar Guðs á hinu nýbyrjaða ári“.

Það er svo í anda frjálslyndrar guðfræði að hann hvetur til fjölbreytts safnaðarstarfs og ber skynbragð á mikilvægi þess að hafa gott húsnæði fyrir slíka starfsemi. Í sama ávarpi segir hann:

„Störfin fyrir æskulýð landsins þarf að auka. Safnaðarhús eru naumast nokkur til. Þjóðkirkjuhúsið er enn óbyggt og svo mætti lengi telja. Maðurinn, sem ég gat um, og minntist á féleysi kirkjunnar er hugkvæmur. Hann sagði: ,,Ættum við ekki að efna til allsherjarkirkjudags einu sinni á ári til fjársöfnunar handa kirkjunni og starfi hennar?“ Án efa er þetta hugmynd, sem vert er að gefa gaum.“ (Heimild: Lifandi vitund: Predikanir, ávörp og greinar, eftir Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurgeirsson og Pétur Pétursson)

Á Þingvöllum 1944 þegar lýðveldi var lýst yfir

Þá var það til marks um víðsýni hans að hann beitti sér fyrir auknu samstarfi kirkjunnar á alþjóðlegum vettvangi. Hann var mikill baráttumaður fyrir samkirkjulegu starfi og einingarviðleitni kirkjudeilda. Hann átti í ríku samstarfi við fulltrúa varnarliðsins hér á landi og sótti heim forystufólk í Bandaríkjunum árið 1944. Í því sambandi var hann svo kallaður „hraðskilnaðarmaður“ í umræðunni um stofnun lýðveldis hér á landi. Það var vitanlega hápólitískt mál en má segja að guðfræðin hafi fléttast inn í þann ágreining. Fulltrúar íhaldssamra afla, á borð við séra Bjarna Jónsson (1881-1965), vildu halda tryggð við konungssambandið. Má í því sambandi nefna þau fornu sjónarmið að konungur sæki vald sitt beint frá Guði. Frjálslyndir beittu sér á hinn bóginn fyrir því að efla sjálfstæði landsins. Margt í máli þeirra bar keim af þjóðernishyggju og um það má fræðast í bók Sigurjóns Árna Eyjólfssonar: Trú, von og þjóð, þar sem hann ræðir slík áhrif í umræðu um miðbik 20. aldar.

Sú afstaða kom skýrt fram í ávarpi biskups á lýðveldishátíðinni, 17. júní 1944:

,,Fögur og háleit hugsjón hefur ræst. Ísland, landið sem ól okkur. Landið sem vér elskum meira en nokkurt annað land er alfrjálst land – og vér erum frjáls þjóð í frjálsu landi. Þetta er fagur dagur og fagnaðarríkur. Hamingja Íslands er mikil í dag.”

Eins og fram hefur komið urðu í tíð Sigurgeirs veigamiklar breytingar á íslensku þjóðkirkjunni samfara örri þróun á sviði samfélags og menningar í landinu. Meðal þess helsta ber að nefna: Skiptingu Reykjavíkur í prestaköll (sbr. lög nr. 76/1940). Lög um skipun prestakalla (nr. 31/1952). Prestssetur voru lögfest. Heimild var gefin um frekari skiptingu Reykjavíkur í prestaköll. Lög um söngmálastjóra þjóðkirkjunnar (nr. 73/1941). Lög um sóknargjöld (nr. 36/1948). Hækkun á gjöldum og vísitölutenging sóknargjalda.

Þá ber að nefna frumkvæði Sigurgeirs til æskulýðsstarfs, með barnaguðsþjónustum og margvíslegri útgáfu. Hann hvatti til útgáfu safnaðarblaða. Einnig fól hann kirkjuráði að kaupa sýningarvél sem söfnuðir gátu fengið til kvikmyndasýninga. Að hans frumkvæði var Kirkjubyggingasjóður settur á fót og aukin krafa var gerð um fagmennsku innan prestastéttar. Þá beitti hann sér fyrir auknum tengslum við systurkirkjur þjóðkirkjunnar, einkum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.

Loks var Sigurgeir virkur í baráttu sinni fyrir aðskilnaði frá dönsku krúnunni og hafði áhrif á það að Ísland varð lýðveldi sem staðfest var á Þingvöllum þann 17. júní 1944.

Endatafl: Biskup skákar með prúðmennsku og kóngur mát

Sigurgeir sótti norrænan biskupafund í Kaupmannahöfn nokkru eftir seinna stríð. Konungur Danmerkur, Kristján X., (1870-1947), bauð kennilýðnum til veislu mikillar eins og konunga er siður. Hann hugði gott til glóðarinnar þar sem einn biskupanna var Sigurgeir Sigurðsson. Konungur taldi að hann hefði svikið sig þar sem Sigurgeir fyllti flokk hraðskilnaðarmanna í sjálfstæðismálinu á Íslandi. Auk þess hafði Kristján X., skipað hann biskup 1939. Nú brá kóngur upp orðsins brandi gegn biskupi Íslands og reyndi að klekkja á honum með móðgunum og háði. En biskup Íslands, sem alinn var upp í Túnprýði á Eyrarbakka, bar æskuslóðum fagurt vitni og lét ekki einn danskan kóng slá sig út af laginu. Móðganir konungs hrifu ekki og lét Sigurgeir þær sem vind um eyru þjóta enda sjálfstæður maður og prúður.

Því má segja að lýsing Sigurgeirs á andrúmsloftinu í guðfræðideildinni þegar hann var þar við nám hafi fylgt honum í embættisstörfun. Þar var að sama skapi „hátt til lofts og vítt til veggja“.

Frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir (1893-1979), Guðlaug 1927-,2020), Sigurgeir Sigurðsson. Sigurður Sigurgeirsson (1920-1986), , Svanhildur Sigurgeirsdóttir (1925-1998), Pétur Sigurgeirsson (1919-2010)

Frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir (1893-1979), Guðlaug Sigurgeirsdóttir (1927-2020), Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953), Sigurður Sigurgeirsson (1920-1986), Svanhildur Sigurgeirsdóttir (1925-1998), Pétur Sigurgeirsson (1919-2010)

Sigurgeir Sigurðsson gaf út Kirkjublaðið frá 1943 og í síðasta tölublaði þess var hans minnst

Skipunarbréf Sigurgeirs biskups sem Kristján X. gaf út                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                     

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Sigurgeir Sigurðsson, biskup Ísland 1939-1953, og hér má lesa helstu stiklur úr því:

,,Í guðfræðideildinni var hátt til lofts og vítt til veggja,” segir Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953) í minningum sínum frá þeim mótunarárum sem háskólanámið var. Hann lýsir andrúmsloftinu þar sem ,,sannleiksást, eldlegum áhuga, trú á Guð og höfund tilverunnar og ást og lotning fyrir Kristi, konungi lífsins og sannleikans”. Kristindómurinn var í huga hans ,,það eina eftirsóknarverða, hinn bjargandi og frelsandi máttur einstaklingsins og þjóðanna í heild.”

Kennarar deildarinnar á þeim tíma voru helstu talsmenn frjálslyndrar guðfræði, eða „nýguðfræði“ eins og hún var einnig nefnd. Þar má nefna Harald Níelsson (1868 -1928), Jón biskup Helgason (1866-1942) og Sigurð P. Sívertsen (1868-1938). Þeir höfðu mikil áhrif á Sigurgeir og aðhylltist hann sjálfur þá guðfræðistefnu.

Óhætt er að segja að biskupstíð Sigurgeirs hafi einkennst af róttækum breytingum bæði innanlands og í hinu alþjóðlega samhengi. Heimsstyrjaldarárin mótuðu mjög störf hans en hann var í nánum tengslum við yfirmenn hersins hér á Íslandi og í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar ræddi hann við ráðamenn vestanhafs. Sigurgeir var „hraðskilnaðarmaður“ og barðist fyrir því að Ísland segði skilið við Danaveldi.

Þá var mikil gróska í menntunar- og félagsmálum á landinu í biskupstíð hans og má greina hvernig Sigurgeir lagði sig fram um að endurmóta skipulag og uppbyggingu kirkjunnar í því skyni að hún gæti mætt nýjum aðstæðum.

Við upphaf starfsferils Sigurgeirs mátti greina þau baráttumál sem áttu eftir að einkenna þjónustu hans. Sem prestur og síðar prófastur á Ísafirði beitti hann sér fyrir æskulýðsstarfi, útgáfumálum og auknu samstarfi presta á svæðinu. Á þriðja og fjórða áratugnum hélt hann í náms- og kynnisferðir til Oxford á Englandi, Danmerkur og Þýskalands þar sem hann kynnti sér guðfræði og kirkjulegt starf.

Sigurgeir var skipaður biskup 29. nóvember 1938 og tók við embætti 1. janúar 1939. Hann var sá áttundi í röð biskupa frá því að landið varð eitt biskupsdæmi.

Sveinn Víkingur (1896-1971), sem var biskupsritari Sigurgeirs, lýsir honum með þessum orðum:

,,Bjartsýni hans á lífið og mennina, ást hans á fegurð og hreinleika, guðstraust hans og hin einlæga lotning fyrir Kristi og fagnaðarerindi hans, samfara alúð hans og góðfýsi — allt þetta hlaut að hafa áhrif á söfnuð hans og alla þá, sem kynntust honum, enda var hann elskaður og virtur jafnt af ungum sem gömlum.”

Guðrún Pétursdóttir, eiginkona Sigurgeirs biskups

Þá má segja frá því til gamans í ljósi þess að nýverið var biskupsgarðurinn að Bergstaðastræti 75 seldur að Sigurgeir var fyrsti biskupinn sem fékk húsnæði í Reykjavík. Ríkið keypti húsið Gimli við Lækjargötu sem varð bústaður hans og eiginkonu hans Guðrúnar Pétursdóttur (1893-1979) til loka embættistímans. Biskupar höfðu fram að því búið í eigin húsum eftir að embættið fluttist til Reykjavíkur. Þetta þótti vera viðurkenning á því að ríkinu bæri að sjá biskupi fyrir ,,sómasamlegu aðsetri í höfuðstaðnum”. Að sögn Sveins voru þau hjónin gestrisin og miklir höfðingjar heim að sækja! Þau hjónin áttu fjögur börn, þar á meðal Pétur Sigurgeirsson (1919-2010) sem síðar varð biskup.

Þegar leið á biskupstíð Sigurgeirs tók að bera á hugmyndafræðilegum ágreiningi meðal guðfræðinga. Sjálfur hafði hann beitt sér fyrir stofnun Kristilegs félags stúdenta sem stofnað var í ársbyrjun 1945. Félagsmenn deildu þeirri sýn að þar skyldi vera ,,hátt til lofts og vítt til veggja“. Enn fremur lýstu þeir því yfir að félagið skyldi opið „öllum mönnum með ólíkar trúarskoðanir“. Stofnfundurinn fór fram á heimili Ásmundar Guðmundssonar (1888-1969) sem var einn merkisberi frjálslyndrar guðfræði og átti eftir að verða eftirmaður Sigurgeirs.

Meðal félaga var Geirþrúður Bernhöft (1921-1987), fyrsta konan sem lauk embættisprófi í guðfræði á Íslandi. Sigurgeir hvatti hana til að sækja um prestsembætti en hugmyndin um að vígja konu til prests leiddi til nokkurra mótmæla meðal presta og hótuðu einhverjir að segja embætti sínu lausu ef af því yrði.

Árið 1948 stofnuðu svo íhaldssamir guðfræðingar Samtök játningatrúrra presta. Í stefnuyfirlýsingu segir: „Samtökin byggja á kenningargrundvelli lútherska heimssambandsins. En það viðurkennir Heilaga Ritningu, Gamla og Nýja testamentið, einu heimild og óskeikulan mælikvarða allrar kenningar kirkjunnar og starfs og álítur játningarrit lútherskrar kirkju, sérstaklega hina óbreyttu Ágsborgarjátningu og fræði Lúthers, hreina útleggingu Guðs orðs.“

Svo segir í Kristni sögu, IV. bindi, bls. 308:
,,Biskupinn sem þá var Sigurgeir Sigurðsson, brást hart við stofnun þessa félags þar sem hann taldi að hún gæti valdið klofningi í kirkjunni, en hann lagði mikla áherslu á að kirkjan kæmi fram sem sameiningarafl og taldi að leiðtogar hins nýja félags hefðu farið á bak við sig.”

Sigurgeir var á öndverðum við afstöðu þessara guðfræðinga og hafði þar að auki jákvæðari afstöðu til ýmissa ágreiningsmála en forveri hans, Jón Helgason, hafði haft. Má í því sambandi nefna spíritismann. Í Hirðisbréfi sínu segir Sigurgeir:

„Spíritisminn hefir komið mörgum til hjálpar í hinni andlegu leit. Hann hefir veitt huggun og djörfung ótal mörgum syrgjandi og sorgmæddum sálum. Hann hefir sannfært marga meðal vor um, að látnir lifi, að lífið haldi áfram og að endurfundir eru fram undan. Hann hefir vakið marga af svefni efnishyggjunnar og breytt öllu viðhorfi lífsins í augum þeirra, gefið þeim nýja veröld“

Hann beitti sér fyrir bætti fjárhagsstöðu kirkna og presta og lagði grunninn að frekari uppbyggingu sókna. Í nýársræðu frá árinu 1953, þegar komið var að lokum starfstíma hans og raunar ævi, segir hann frá uppbyggingunni:

„Í Reykjavík eru þrír nýir söfnuðir myndaðir, er skipa sér í fylkingar um kirkjulegt starf. Tvö önnur prestaköll urðu til á árinu sem leið, í Keflavík og í Hrísey og nýir starfsmenn koma fram.

Kirkjan, þjónar hennar og söfnuðir munu standa fastar saman í starfi en áður. Þjóðin vill sterka, sameinaða og starfandi kirkju, þar sem af víðsýni og skilningi, bjartsýni og bróðurhug er starfað í anda Jesú Krists. Sundrungin veikir kirkjuna, en einingin eykur henni þrótt.

Ég árna sóknarprestum og öllum söfnuðum landsins heilla og blessunar Guðs á hinu nýbyrjaða ári“.

Það er svo í anda frjálslyndrar guðfræði að hann hvetur til fjölbreytts safnaðarstarfs og ber skynbragð á mikilvægi þess að hafa gott húsnæði fyrir slíka starfsemi. Í sama ávarpi segir hann:

„Störfin fyrir æskulýð landsins þarf að auka. Safnaðarhús eru naumast nokkur til. Þjóðkirkjuhúsið er enn óbyggt og svo mætti lengi telja. Maðurinn, sem ég gat um, og minntist á féleysi kirkjunnar er hugkvæmur. Hann sagði: ,,Ættum við ekki að efna til allsherjarkirkjudags einu sinni á ári til fjársöfnunar handa kirkjunni og starfi hennar?“ Án efa er þetta hugmynd, sem vert er að gefa gaum.“ (Heimild: Lifandi vitund: Predikanir, ávörp og greinar, eftir Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurgeirsson og Pétur Pétursson)

Á Þingvöllum 1944 þegar lýðveldi var lýst yfir

Þá var það til marks um víðsýni hans að hann beitti sér fyrir auknu samstarfi kirkjunnar á alþjóðlegum vettvangi. Hann var mikill baráttumaður fyrir samkirkjulegu starfi og einingarviðleitni kirkjudeilda. Hann átti í ríku samstarfi við fulltrúa varnarliðsins hér á landi og sótti heim forystufólk í Bandaríkjunum árið 1944. Í því sambandi var hann svo kallaður „hraðskilnaðarmaður“ í umræðunni um stofnun lýðveldis hér á landi. Það var vitanlega hápólitískt mál en má segja að guðfræðin hafi fléttast inn í þann ágreining. Fulltrúar íhaldssamra afla, á borð við séra Bjarna Jónsson (1881-1965), vildu halda tryggð við konungssambandið. Má í því sambandi nefna þau fornu sjónarmið að konungur sæki vald sitt beint frá Guði. Frjálslyndir beittu sér á hinn bóginn fyrir því að efla sjálfstæði landsins. Margt í máli þeirra bar keim af þjóðernishyggju og um það má fræðast í bók Sigurjóns Árna Eyjólfssonar: Trú, von og þjóð, þar sem hann ræðir slík áhrif í umræðu um miðbik 20. aldar.

Sú afstaða kom skýrt fram í ávarpi biskups á lýðveldishátíðinni, 17. júní 1944:

,,Fögur og háleit hugsjón hefur ræst. Ísland, landið sem ól okkur. Landið sem vér elskum meira en nokkurt annað land er alfrjálst land – og vér erum frjáls þjóð í frjálsu landi. Þetta er fagur dagur og fagnaðarríkur. Hamingja Íslands er mikil í dag.”

Eins og fram hefur komið urðu í tíð Sigurgeirs veigamiklar breytingar á íslensku þjóðkirkjunni samfara örri þróun á sviði samfélags og menningar í landinu. Meðal þess helsta ber að nefna: Skiptingu Reykjavíkur í prestaköll (sbr. lög nr. 76/1940). Lög um skipun prestakalla (nr. 31/1952). Prestssetur voru lögfest. Heimild var gefin um frekari skiptingu Reykjavíkur í prestaköll. Lög um söngmálastjóra þjóðkirkjunnar (nr. 73/1941). Lög um sóknargjöld (nr. 36/1948). Hækkun á gjöldum og vísitölutenging sóknargjalda.

Þá ber að nefna frumkvæði Sigurgeirs til æskulýðsstarfs, með barnaguðsþjónustum og margvíslegri útgáfu. Hann hvatti til útgáfu safnaðarblaða. Einnig fól hann kirkjuráði að kaupa sýningarvél sem söfnuðir gátu fengið til kvikmyndasýninga. Að hans frumkvæði var Kirkjubyggingasjóður settur á fót og aukin krafa var gerð um fagmennsku innan prestastéttar. Þá beitti hann sér fyrir auknum tengslum við systurkirkjur þjóðkirkjunnar, einkum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.

Loks var Sigurgeir virkur í baráttu sinni fyrir aðskilnaði frá dönsku krúnunni og hafði áhrif á það að Ísland varð lýðveldi sem staðfest var á Þingvöllum þann 17. júní 1944.

Endatafl: Biskup skákar með prúðmennsku og kóngur mát

Sigurgeir sótti norrænan biskupafund í Kaupmannahöfn nokkru eftir seinna stríð. Konungur Danmerkur, Kristján X., (1870-1947), bauð kennilýðnum til veislu mikillar eins og konunga er siður. Hann hugði gott til glóðarinnar þar sem einn biskupanna var Sigurgeir Sigurðsson. Konungur taldi að hann hefði svikið sig þar sem Sigurgeir fyllti flokk hraðskilnaðarmanna í sjálfstæðismálinu á Íslandi. Auk þess hafði Kristján X., skipað hann biskup 1939. Nú brá kóngur upp orðsins brandi gegn biskupi Íslands og reyndi að klekkja á honum með móðgunum og háði. En biskup Íslands, sem alinn var upp í Túnprýði á Eyrarbakka, bar æskuslóðum fagurt vitni og lét ekki einn danskan kóng slá sig út af laginu. Móðganir konungs hrifu ekki og lét Sigurgeir þær sem vind um eyru þjóta enda sjálfstæður maður og prúður.

Því má segja að lýsing Sigurgeirs á andrúmsloftinu í guðfræðideildinni þegar hann var þar við nám hafi fylgt honum í embættisstörfun. Þar var að sama skapi „hátt til lofts og vítt til veggja“.

Frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir (1893-1979), Guðlaug 1927-,2020), Sigurgeir Sigurðsson. Sigurður Sigurgeirsson (1920-1986), , Svanhildur Sigurgeirsdóttir (1925-1998), Pétur Sigurgeirsson (1919-2010)

Frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir (1893-1979), Guðlaug Sigurgeirsdóttir (1927-2020), Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953), Sigurður Sigurgeirsson (1920-1986), Svanhildur Sigurgeirsdóttir (1925-1998), Pétur Sigurgeirsson (1919-2010)

Sigurgeir Sigurðsson gaf út Kirkjublaðið frá 1943 og í síðasta tölublaði þess var hans minnst

Skipunarbréf Sigurgeirs biskups sem Kristján X. gaf út                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                     

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir