Það lætur sr. Þorvaldi Víðissyni vel að skrifa lipran og skýran texta um andleg málefni. Bókin Gimsteinninn – Sælir eru friðflytjendur er gott dæmi um það en Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar gaf hana út fyrir nokkru.

Á ófriðartímum eins og nú standa yfir er sannarlega þörf á bók sem fjallar um frið í stuttu og aðgengilegu máli. Friðurinn er að sjálfsögðu settur í kristið samhengi því að ef einhver hreyfing í nútímanum boðar frið á jörðu þá er það kirkjan. Boðar frið og kærleika sem almenningur kallar eftir og forystufólk í samfélaginu eins og fram kom við þingsetningu í ræðum forseta Íslands og biskups Íslands. Frið í heimi og frið í sálum mannanna.

Stíll bókarinnar tekur mið af samtali. Höfundur talar við lesanda, fræðir hann og spyr. Þetta samtal fer fram á jafnréttisgrundvelli og án alls yfirlætis. Trúin er hornsteinn sem höfundur þreytist ekki á að draga fram án þess að vera staglkenndur eða væminn. Textinn er hreinn og beinn, sléttur og felldur en beinskeyttur þar sem við á. Auk þess er hann á köflum ljóðrænn og tekur mörg góð dæmi úr lífi fólks og náttúru í umfjölluninni. Allt dæmi sem fólk þekkir vel og tengir strax við.

Skýringar á einstaka biblíutilvitnunum eru glöggar og skýrar. Lesandi nær þeim vel án þess að þurfa að vaða í gegnum langorðar vangaveltur. Það hjálpar líka lesanda að textinn er brotinn upp á blaðsíðunum og þess vegna geta þau sem vel eru læs náð í snatri því sem höfundur er að segja á sama hátt og þau sem glíma við einhverja lestrarörðugleika feta sig á sínum hraða niður textann: stuttar setningar og kannski eitt orð í línu eru góðar vörður í lestri fyrir alla. Þetta er afbragð og ætti til dæmis að geta náð vel til fermingarbarna en oft heyrast stunur kennilýðsins yfir því að ekki þýði að afhenda þeim bækur þar sem þau mörg hver séu illa læs. Þetta hjálpar til. Auk þess er bókin tilvalin til hópstarfs í fermingarfræðslu og reyndar líka fullorðinsfræðslu kirkjunnar þar sem henni er fyrir að fara.

Tengingar við nútímann eru margar og góðar. Herra Hnetusmjör kemur við sögu og Miklihvellur. Eins áhyggjuefni um á hvaða leið heimurinn er þar sem hlýnun jarðar vekur kvíða og ótta. Hér talar höfundur skýrt og segir verkefni hvers og eins vera að gera heiminn að fallegum stað þar sem hlúð er að lífinu. Já, hvorki meira né minna en að gera heiminn að Paradís í umhverfi hvers og eins. Það kann kannski að vera langsótt en fer þó allt eftir því hvernig Paradísin er skilgreind. Íhugunin á bls. 66-71 er bæði falleg og öflug í látleysi sínu en þar er elskan, kærleikurinn, í fyrirrúmi. Vel fer á því að ljúka bókinni með kærleiksóði postulans.

Kirkjublaðið.is mælir eindregið með þessari snotru og snjöllu bók. Jafnframt er höfundur hvattur til að halda þessari góðu iðju sinni áfram því að árangur hennar á fullt erindi til kirkjufólks og annarra sem hafa áhuga á því að bæta mannlífið. Gimsteinninn er líka góð búbót fyrir söfnuði til nota í fræðslustarfi sínu sem er einmitt að hefjast víða um þessar mundir.

Kirkja sem ekki fræðir lognast út af.

Gimsteinninn – Sælir eru friðflytjendur, eftir Þorvald Víðisson, Skálholtsútgáfan-útgáfufélag þjóðkirkjunnar, 2024, 73 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það lætur sr. Þorvaldi Víðissyni vel að skrifa lipran og skýran texta um andleg málefni. Bókin Gimsteinninn – Sælir eru friðflytjendur er gott dæmi um það en Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar gaf hana út fyrir nokkru.

Á ófriðartímum eins og nú standa yfir er sannarlega þörf á bók sem fjallar um frið í stuttu og aðgengilegu máli. Friðurinn er að sjálfsögðu settur í kristið samhengi því að ef einhver hreyfing í nútímanum boðar frið á jörðu þá er það kirkjan. Boðar frið og kærleika sem almenningur kallar eftir og forystufólk í samfélaginu eins og fram kom við þingsetningu í ræðum forseta Íslands og biskups Íslands. Frið í heimi og frið í sálum mannanna.

Stíll bókarinnar tekur mið af samtali. Höfundur talar við lesanda, fræðir hann og spyr. Þetta samtal fer fram á jafnréttisgrundvelli og án alls yfirlætis. Trúin er hornsteinn sem höfundur þreytist ekki á að draga fram án þess að vera staglkenndur eða væminn. Textinn er hreinn og beinn, sléttur og felldur en beinskeyttur þar sem við á. Auk þess er hann á köflum ljóðrænn og tekur mörg góð dæmi úr lífi fólks og náttúru í umfjölluninni. Allt dæmi sem fólk þekkir vel og tengir strax við.

Skýringar á einstaka biblíutilvitnunum eru glöggar og skýrar. Lesandi nær þeim vel án þess að þurfa að vaða í gegnum langorðar vangaveltur. Það hjálpar líka lesanda að textinn er brotinn upp á blaðsíðunum og þess vegna geta þau sem vel eru læs náð í snatri því sem höfundur er að segja á sama hátt og þau sem glíma við einhverja lestrarörðugleika feta sig á sínum hraða niður textann: stuttar setningar og kannski eitt orð í línu eru góðar vörður í lestri fyrir alla. Þetta er afbragð og ætti til dæmis að geta náð vel til fermingarbarna en oft heyrast stunur kennilýðsins yfir því að ekki þýði að afhenda þeim bækur þar sem þau mörg hver séu illa læs. Þetta hjálpar til. Auk þess er bókin tilvalin til hópstarfs í fermingarfræðslu og reyndar líka fullorðinsfræðslu kirkjunnar þar sem henni er fyrir að fara.

Tengingar við nútímann eru margar og góðar. Herra Hnetusmjör kemur við sögu og Miklihvellur. Eins áhyggjuefni um á hvaða leið heimurinn er þar sem hlýnun jarðar vekur kvíða og ótta. Hér talar höfundur skýrt og segir verkefni hvers og eins vera að gera heiminn að fallegum stað þar sem hlúð er að lífinu. Já, hvorki meira né minna en að gera heiminn að Paradís í umhverfi hvers og eins. Það kann kannski að vera langsótt en fer þó allt eftir því hvernig Paradísin er skilgreind. Íhugunin á bls. 66-71 er bæði falleg og öflug í látleysi sínu en þar er elskan, kærleikurinn, í fyrirrúmi. Vel fer á því að ljúka bókinni með kærleiksóði postulans.

Kirkjublaðið.is mælir eindregið með þessari snotru og snjöllu bók. Jafnframt er höfundur hvattur til að halda þessari góðu iðju sinni áfram því að árangur hennar á fullt erindi til kirkjufólks og annarra sem hafa áhuga á því að bæta mannlífið. Gimsteinninn er líka góð búbót fyrir söfnuði til nota í fræðslustarfi sínu sem er einmitt að hefjast víða um þessar mundir.

Kirkja sem ekki fræðir lognast út af.

Gimsteinninn – Sælir eru friðflytjendur, eftir Þorvald Víðisson, Skálholtsútgáfan-útgáfufélag þjóðkirkjunnar, 2024, 73 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir