Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Þetta áhugaverða erindi sem hér er birt flutti dr. Hjalti Hugason á Krossgötum fyrir skemmstu.

Í október 1908 var Þórhallur Bjarnarson vígður til biskups af forvera sínum, Hallgrími Sveinssyni, sem klæddi sig upp úr banalegunni til að framkvæma athöfnina.[1] Vígslan var söguleg að því leyti að aðeins einu sinni áður hafði biskupsvígsla farið fram á landinu. Það var á 17. öld þegar konungur ákvað að Brynjólfur Sveinsson skyldi vígja Bauka-Jón Vigfússon til embættisins í Hólabiskupsdæmi en hann var afdankaður sýslumaður og hafði auk þess staðið í ólöglegri verslun. Torvelt er að skýra hvers vegna Jóni var veitt embættið. Hitt er augljóst að ekki hafi þótt við hæfi að jafn vafasamur pappír og hann var fengi hina háæruverðugu vígslu af Sjálandsbiskupi og þá væntanlega að konungi viðstöddum. Hin kirkjulegu embætti voru svo sem ekki alltaf hátt skrifuð á einveldistímanum.

Þórhallur Bjarnarson (1855-1916) – biskup Íslands 1908-1916

Það stóð allt öðruvísi á þegar Þórhallur vígðist hér innanlands og frumkvæðið var frá honum sjálfum komið. Á þessum tíma var sjálfstæðisbaráttan og þjóðbyggingin á fullu. Mörgum þótti því ekki við hæfi að biskup landsins sækti vígslu sína til Danmerkur. Árið eftir voru svo lög um vígslubiskupa samþykkt og fyrsti vígslubiskup í Skálholtsstifti vígður. Árið þar á eftir var fyrsti vígslubiskupinn fyrir norðan vígður og íslenska þjóð(ernis)kirkjan var þar með komin á laggirnar. — Þau sem hafa gaman af samkirkjupælingum mættu velta því fyrir sér hvort hin postullega vígsluröð hér á landi hafi ekki einmitt rofnað þarna en færa má rök fyrir að hún hafi lifað af umrót siðbótartímans.

Þórhallur Bjarnarson er hér ekki nefndur fyrsti tuttugustu aldar biskupinn vegna þess að hann varð fyrstur til að taka við embættinu á þessari nýbyrjuðu öld. Þvert á móti liggja til þess mun þungvægari efnisleg rök. Í sagnfræði merkir öld heldur ekki alltaf hundrað ár. Þvert á móti er oft talað um „langar“ og „stuttar aldir“ og fræðilegt mat þá látið ráða úrslitum um hvenær „aldamót“ verða.

Ný kirkja

Ástæða þess að Þórhallur er hér talinn marka upphaf tuttugustu aldar í kirkjusögu þjóðarinnar er að hann varð biskup í „nýrri kirkju“. Í stað ríkiskirkju fyrri alda hafði þjóðkirkjuskipan verið komið á með stjórnarskránni 1874. Þá var væntanlega flestum hulið hvað í þeirri stefnuyfirlýsingu fælist. Grunnur var síðar lagður að íslenskri þjóðkirkjuskipan með tveimur umfangsmiklum löggjafarskorpum á níunda áratug nítjándu aldar og fyrsta áratugi þeirrar tuttugustu, nánar til tekið 1904–1907. Á þessum tíma var lagaramminn um starf þjóðkirkjunnar lagaður að stjórnarskrárákvæðinu um þjóðkirkjuna.

Þórhallur Bjarnarson var því fyrsti biskupinn sem tók við biskupsembætti í þjóðkirkjunni í þeirri mynd sem hún starfaði allt til 1997 er fyrstu samfelldu þjóðkirkjulögin voru samþykkt.

Kirkja í nýju umhverfi

Um það leyti sem Þórhallur Bjarnarson tók við biskupsembættinu starfaði kirkjan líka við nýjar félags- og menningarlegar aðstæður. Einstaklingshyggja og hugmyndir fólks um réttindi og skyldur einstaklinga hafði rutt sér til rúms. Hingað til hafði verið litið svo á að fólki bæri að lúta leiðsögn kirkjunnar í trúar- og siðferðislegum málefnum. Nú var lögð aukin áhersla á að einstaklingnum bæri að breyta fremur eftir sannfæringu og samvisku sinni en boðum og bönnum kirkjunnar. Þá var skynsemi einstaklingsins veitt þyngra vægi en kennisetningum fyrri alda.

Kirkjan átti í erfiðleikum með að fóta sig í þessum nýja veruleika en Þórhallur freistaði þess að mæta honum á jákvæðan máta. Einhverju sinni kvað hann svo að orði að kirkjan kynni ekki „mál nútímans.“ Það taldi hann að hún yrði að læra. Því aðhylltist hann nýja guðfræði og nýja starfshætti. Starf KFUM og KFUK meðal nýs þjóðfélagshóps, unglinga, hófst einmitt að hans frumkvæði. — Hann barmaði sér með öðrum orðum ekki yfir áskorunum nýrra tíma heldur reyndi að mæta þeim á þeirra forsendum.

Kirkja í óljósum tengslum við ríkið

Strax í kjölfar þess að tekið var að ræða um þjóðkirkju á Íslandi vaknaði spurningin um framtíðartengsl hennar við ríkisvaldið. Samstaða ríkti um að þjóðkirkja framtíðarinnar yrði að njóta víðtæks sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu til að geta „náð markmiði sínu“ eða þjónað því hlutverki sem henni var ætlað. Skiptra skoðana gætti á hinn bóginn hversu langt þyrfti að ganga í þessa átt.

Ýmsir voru þeirrar skoðunar að nægja mundi að stofnað yrði kirkjuþing sem farið gæti með stjórn þjóðkirkjunnar sem þar með flyttist frá veraldlegum stjórnvöldum til kirkjunnar sjálfrar. Aðrir töldu að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju væri forsenda þess að þjóðkirkja kæmist á. Þegar um 1880 sammæltust kirkjunnar menn um að sjálfstæð þjóðkirkja í áframhaldandi tengslum við ríkisvaldið væri sú skipan sem keppa bæri að.— Sem sé: farið skyldi bil beggja. Þetta er enn stefna þjóðkirkjunnar.

Þórhallur Bjarnarson leit öðruvísi á. Hann taldi í ljósi umræðunnar að samband ríkis og kirkju hlyti að verða rofið og það fyrr en síðar. Hann var heldur ekki í vafa um að það mundi reynast kirkjunni vel. Auk þess var hann sannfærður um að kirkjan yrði að taka þátt í umræðunni um aðskilnað og móta þróunina í sem ríkustum mæli. Áhugavert er að sjá að á þessu sviði var Þórhallur róttækari en kirkjan sem hann veitti forystu og að skoðanir hans þróuðust auk þess í átt til enn frekari róttækni meðan hann gegndi biskupsembættinu.

Hugmyndir Þórhallar um aðskilnað

Árið 1893 lýsti Þórhallur sem þá var prestaskólakennari þeirri framtíðarsýn eða jafnvel hugsjón að hin evangelísk lútherska kirkja fósturjarðar vorrar verði með öllu sjálfstætt félag fyrir sig. Á þessum tíma var þjóðkirkjan enn hreinræktuð ríkisstofnun. Hér lætur hann því í ljós framsækna kirkjusýn er hann lætur sig dreyma um kirkjuna sem sjálfstæða félagshreyfingu. Á þessum tíma taldi hann að um aðskilnað ríkis og kirkju hlyti að fara eftir því sem hann nefndi „rétta laga leið“. Með því átti hann við að stjórnarskrárákvæðum og lögum yrði breytt á þann veg að í stað ríkis- eða þjóðkirkjunnar kæmi lúthersk fríkirkja sem næði til landsins alls.

Á árunum 1904–1906 starfaði á vegum Alþingis kirkjumálanefnd sem samdi heilan bunka af lagafrumvörpum og fengu þau öll brautargengi 1907 að einu undanskildu. Það var frumvarp um stofnun kirkjuþings. Þá kvað Þórhallur að þótt öllum frumvörpunum hefði verið hafnað nema þessu eina hefði það verið heillavænlegra. Kirkjuþing hefði að hans mati nýst sem fyrsta skref í átt til hinnar sjálfstæðu kirkju og opnað leið til að koma öllum þeim breytingum fram sem hin frumvörpin miðuðu að.

Eftir að Þórhallur hafði tekið við biskupsembættinu eða 1911 reifaði hann ný sjónarmið. Nú leit hann svo á að samstæð fríkirkja væri ekki endilega sú skipan sem þyrfti að taka við eftir aðskilnað. Þvert á móti væri það fyrirkomulag fyllilega raunhæft að hver og einn söfnuður væri algerlega sjálfstæð eining út af fyrir sig. Söfnuðirnir gætu síðan bundist þeim samtökum og stundað þá samvinnu sem þeim litist heppilegast. Kirkjuþingi væri þar með ofaukið.

Við aðskilnað taldi hann að ríkisvaldið ætti að taka við öllum jarðeignum kirkjunnar gegn því að greiða vexti af þeim höfuðstól um aldur og ævi. Það gagngjald skyldi svo renna til allra kristinna trúfélaga í landinu burtséð frá því hvort þau væru lúthersk eða ekki. Þetta rökstuddi hann með því að jarðeignirnar hefðu á miðöldum verið gefnar til að standa straum af kristnu (þá rómversku) helgihaldi. Þeim ákvæðum gefenda þyrfti að fylgja þótt ytri aðstæður breyttust.

Biskupinn of róttækur fyrir kirkjuna

Í upphafi biskupstíðar sinnar efndi Þórhallur til víðtækrar opinnar umræðu um framtíð kirkjunnar. Það gerði hann á ýmsan hátt en ekki síst með almennum prestastefnum sem hann kallaði til á Þingvöllum 1909 og á Hólum 1910. Um langan tíma hafði prestastefnan verið fámenn samkoma sem kom saman í Reykjavík og var sótt af próföstum frá Rangárvöllum vestur í Borgarfjörð ásamt fáeinum prestum. Hún hafði nokkur lögboðin hlutverk en gegndi engu stefnumarkandi hlutverki.

Samband ríkis og kirkju var fyrirferðarmikið mál á báðum almennu stefnunum. Þar kom í ljós að prestastéttin fylgdi biskupi ekki að öllu leyti að málum. Meirihlutinn hélt sem sé fast við þá stefnu sem þegar hafði verið mörkuð: að hér skyldi stefnt að sjálfstæðri þjóðkirkju í áframhaldandi tengslum við ríkisvaldið. Þegar stjórnin hafnaði frumvarpinu um kirkjuþing 1907 hafði hún einnig gefið til kynna að sjálfstæði kirkjunnar ættu að vera takmörk sett.

Þórhallur Bjarnarson var skynsamur og hófsamur embættismaður sem mat stöðuna af raunsæi. Hann starfaði það sem eftir var innan þeirra marka sem honum voru sett. Hann skipti þó ekki um skoðun og innst inni virðist hann hafa litið svo á að prestastéttin keppti að aukinni sjálfstjórn kirkjunnar án þess að vera til þess búin að axla ábyrgð á sjálfstæðri kirkju.

Fyrsti biskup tuttugustu og fyrstu aldarinnar?

Hér hefur Þórhallur Bjarnarson verið útnefndur fyrsti tuttugustu aldar biskupinn vegna þess að hann leiddi „nýja kirkju“ sem starfaði í nýju menningarlegu umhverfi á tímum þegar mikið var rætt um breytt tengsl ríkis og kirkju. Mestu skiptir þó að sjónarhorn hans beindist alltaf fram á við. Hann horfði ekki reiður um öxl og syrgði forna frægð kirkjunnar. Þvert á móti vildi hann taka þátt í mótun hennar til framtíðar.

Saga Þórhallar Bjarnasonar hefur verið rifjuð upp nú vegna nýafstaðinna biskupsskipta. Nú þegar má slá því föstu að fyrsti biskup tuttugustu og fyrstu aldarinnar sé enn ókominn fram. Hingað til hafa biskuparnir fremur horft aftur en fram á við. — Nú getum við vænst breytinga í þessu efni. Áskoranirnar sem nýr biskup mætir verða ugglaust aðrar en fyrir rúmri öld. Ýmislegt er þó áþekkt eins og t.d. þróun „nýrrar“ eða a.m.k. uppfærðrar kirkju á grundvelli þjóðkirkjulaganna frá 2021 og nýrrar skipanar á yfirstjórn kirkjunnar sem enn hefur tæpast komist til fullrar framkvæmdar vegna breytingafælni.

Laufás við Eyjafjörð – þar fæddist Þórhallur Bjarnarson 2. desember 1855

Tilvísun:

[1] Greinin er byggð á erindi sem haldið var í Neskirkju í Reykjavík 9. september s.l. Í henni er einnig stuðst við tvo greinaflokka um þróun trúfrelsis og þjóðkirkjuskipunar sem og aðskilnað ríkis og kirkju eftir sama höfund í Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 22–24 og 49–50.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Þetta áhugaverða erindi sem hér er birt flutti dr. Hjalti Hugason á Krossgötum fyrir skemmstu.

Í október 1908 var Þórhallur Bjarnarson vígður til biskups af forvera sínum, Hallgrími Sveinssyni, sem klæddi sig upp úr banalegunni til að framkvæma athöfnina.[1] Vígslan var söguleg að því leyti að aðeins einu sinni áður hafði biskupsvígsla farið fram á landinu. Það var á 17. öld þegar konungur ákvað að Brynjólfur Sveinsson skyldi vígja Bauka-Jón Vigfússon til embættisins í Hólabiskupsdæmi en hann var afdankaður sýslumaður og hafði auk þess staðið í ólöglegri verslun. Torvelt er að skýra hvers vegna Jóni var veitt embættið. Hitt er augljóst að ekki hafi þótt við hæfi að jafn vafasamur pappír og hann var fengi hina háæruverðugu vígslu af Sjálandsbiskupi og þá væntanlega að konungi viðstöddum. Hin kirkjulegu embætti voru svo sem ekki alltaf hátt skrifuð á einveldistímanum.

Þórhallur Bjarnarson (1855-1916) – biskup Íslands 1908-1916

Það stóð allt öðruvísi á þegar Þórhallur vígðist hér innanlands og frumkvæðið var frá honum sjálfum komið. Á þessum tíma var sjálfstæðisbaráttan og þjóðbyggingin á fullu. Mörgum þótti því ekki við hæfi að biskup landsins sækti vígslu sína til Danmerkur. Árið eftir voru svo lög um vígslubiskupa samþykkt og fyrsti vígslubiskup í Skálholtsstifti vígður. Árið þar á eftir var fyrsti vígslubiskupinn fyrir norðan vígður og íslenska þjóð(ernis)kirkjan var þar með komin á laggirnar. — Þau sem hafa gaman af samkirkjupælingum mættu velta því fyrir sér hvort hin postullega vígsluröð hér á landi hafi ekki einmitt rofnað þarna en færa má rök fyrir að hún hafi lifað af umrót siðbótartímans.

Þórhallur Bjarnarson er hér ekki nefndur fyrsti tuttugustu aldar biskupinn vegna þess að hann varð fyrstur til að taka við embættinu á þessari nýbyrjuðu öld. Þvert á móti liggja til þess mun þungvægari efnisleg rök. Í sagnfræði merkir öld heldur ekki alltaf hundrað ár. Þvert á móti er oft talað um „langar“ og „stuttar aldir“ og fræðilegt mat þá látið ráða úrslitum um hvenær „aldamót“ verða.

Ný kirkja

Ástæða þess að Þórhallur er hér talinn marka upphaf tuttugustu aldar í kirkjusögu þjóðarinnar er að hann varð biskup í „nýrri kirkju“. Í stað ríkiskirkju fyrri alda hafði þjóðkirkjuskipan verið komið á með stjórnarskránni 1874. Þá var væntanlega flestum hulið hvað í þeirri stefnuyfirlýsingu fælist. Grunnur var síðar lagður að íslenskri þjóðkirkjuskipan með tveimur umfangsmiklum löggjafarskorpum á níunda áratug nítjándu aldar og fyrsta áratugi þeirrar tuttugustu, nánar til tekið 1904–1907. Á þessum tíma var lagaramminn um starf þjóðkirkjunnar lagaður að stjórnarskrárákvæðinu um þjóðkirkjuna.

Þórhallur Bjarnarson var því fyrsti biskupinn sem tók við biskupsembætti í þjóðkirkjunni í þeirri mynd sem hún starfaði allt til 1997 er fyrstu samfelldu þjóðkirkjulögin voru samþykkt.

Kirkja í nýju umhverfi

Um það leyti sem Þórhallur Bjarnarson tók við biskupsembættinu starfaði kirkjan líka við nýjar félags- og menningarlegar aðstæður. Einstaklingshyggja og hugmyndir fólks um réttindi og skyldur einstaklinga hafði rutt sér til rúms. Hingað til hafði verið litið svo á að fólki bæri að lúta leiðsögn kirkjunnar í trúar- og siðferðislegum málefnum. Nú var lögð aukin áhersla á að einstaklingnum bæri að breyta fremur eftir sannfæringu og samvisku sinni en boðum og bönnum kirkjunnar. Þá var skynsemi einstaklingsins veitt þyngra vægi en kennisetningum fyrri alda.

Kirkjan átti í erfiðleikum með að fóta sig í þessum nýja veruleika en Þórhallur freistaði þess að mæta honum á jákvæðan máta. Einhverju sinni kvað hann svo að orði að kirkjan kynni ekki „mál nútímans.“ Það taldi hann að hún yrði að læra. Því aðhylltist hann nýja guðfræði og nýja starfshætti. Starf KFUM og KFUK meðal nýs þjóðfélagshóps, unglinga, hófst einmitt að hans frumkvæði. — Hann barmaði sér með öðrum orðum ekki yfir áskorunum nýrra tíma heldur reyndi að mæta þeim á þeirra forsendum.

Kirkja í óljósum tengslum við ríkið

Strax í kjölfar þess að tekið var að ræða um þjóðkirkju á Íslandi vaknaði spurningin um framtíðartengsl hennar við ríkisvaldið. Samstaða ríkti um að þjóðkirkja framtíðarinnar yrði að njóta víðtæks sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu til að geta „náð markmiði sínu“ eða þjónað því hlutverki sem henni var ætlað. Skiptra skoðana gætti á hinn bóginn hversu langt þyrfti að ganga í þessa átt.

Ýmsir voru þeirrar skoðunar að nægja mundi að stofnað yrði kirkjuþing sem farið gæti með stjórn þjóðkirkjunnar sem þar með flyttist frá veraldlegum stjórnvöldum til kirkjunnar sjálfrar. Aðrir töldu að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju væri forsenda þess að þjóðkirkja kæmist á. Þegar um 1880 sammæltust kirkjunnar menn um að sjálfstæð þjóðkirkja í áframhaldandi tengslum við ríkisvaldið væri sú skipan sem keppa bæri að.— Sem sé: farið skyldi bil beggja. Þetta er enn stefna þjóðkirkjunnar.

Þórhallur Bjarnarson leit öðruvísi á. Hann taldi í ljósi umræðunnar að samband ríkis og kirkju hlyti að verða rofið og það fyrr en síðar. Hann var heldur ekki í vafa um að það mundi reynast kirkjunni vel. Auk þess var hann sannfærður um að kirkjan yrði að taka þátt í umræðunni um aðskilnað og móta þróunina í sem ríkustum mæli. Áhugavert er að sjá að á þessu sviði var Þórhallur róttækari en kirkjan sem hann veitti forystu og að skoðanir hans þróuðust auk þess í átt til enn frekari róttækni meðan hann gegndi biskupsembættinu.

Hugmyndir Þórhallar um aðskilnað

Árið 1893 lýsti Þórhallur sem þá var prestaskólakennari þeirri framtíðarsýn eða jafnvel hugsjón að hin evangelísk lútherska kirkja fósturjarðar vorrar verði með öllu sjálfstætt félag fyrir sig. Á þessum tíma var þjóðkirkjan enn hreinræktuð ríkisstofnun. Hér lætur hann því í ljós framsækna kirkjusýn er hann lætur sig dreyma um kirkjuna sem sjálfstæða félagshreyfingu. Á þessum tíma taldi hann að um aðskilnað ríkis og kirkju hlyti að fara eftir því sem hann nefndi „rétta laga leið“. Með því átti hann við að stjórnarskrárákvæðum og lögum yrði breytt á þann veg að í stað ríkis- eða þjóðkirkjunnar kæmi lúthersk fríkirkja sem næði til landsins alls.

Á árunum 1904–1906 starfaði á vegum Alþingis kirkjumálanefnd sem samdi heilan bunka af lagafrumvörpum og fengu þau öll brautargengi 1907 að einu undanskildu. Það var frumvarp um stofnun kirkjuþings. Þá kvað Þórhallur að þótt öllum frumvörpunum hefði verið hafnað nema þessu eina hefði það verið heillavænlegra. Kirkjuþing hefði að hans mati nýst sem fyrsta skref í átt til hinnar sjálfstæðu kirkju og opnað leið til að koma öllum þeim breytingum fram sem hin frumvörpin miðuðu að.

Eftir að Þórhallur hafði tekið við biskupsembættinu eða 1911 reifaði hann ný sjónarmið. Nú leit hann svo á að samstæð fríkirkja væri ekki endilega sú skipan sem þyrfti að taka við eftir aðskilnað. Þvert á móti væri það fyrirkomulag fyllilega raunhæft að hver og einn söfnuður væri algerlega sjálfstæð eining út af fyrir sig. Söfnuðirnir gætu síðan bundist þeim samtökum og stundað þá samvinnu sem þeim litist heppilegast. Kirkjuþingi væri þar með ofaukið.

Við aðskilnað taldi hann að ríkisvaldið ætti að taka við öllum jarðeignum kirkjunnar gegn því að greiða vexti af þeim höfuðstól um aldur og ævi. Það gagngjald skyldi svo renna til allra kristinna trúfélaga í landinu burtséð frá því hvort þau væru lúthersk eða ekki. Þetta rökstuddi hann með því að jarðeignirnar hefðu á miðöldum verið gefnar til að standa straum af kristnu (þá rómversku) helgihaldi. Þeim ákvæðum gefenda þyrfti að fylgja þótt ytri aðstæður breyttust.

Biskupinn of róttækur fyrir kirkjuna

Í upphafi biskupstíðar sinnar efndi Þórhallur til víðtækrar opinnar umræðu um framtíð kirkjunnar. Það gerði hann á ýmsan hátt en ekki síst með almennum prestastefnum sem hann kallaði til á Þingvöllum 1909 og á Hólum 1910. Um langan tíma hafði prestastefnan verið fámenn samkoma sem kom saman í Reykjavík og var sótt af próföstum frá Rangárvöllum vestur í Borgarfjörð ásamt fáeinum prestum. Hún hafði nokkur lögboðin hlutverk en gegndi engu stefnumarkandi hlutverki.

Samband ríkis og kirkju var fyrirferðarmikið mál á báðum almennu stefnunum. Þar kom í ljós að prestastéttin fylgdi biskupi ekki að öllu leyti að málum. Meirihlutinn hélt sem sé fast við þá stefnu sem þegar hafði verið mörkuð: að hér skyldi stefnt að sjálfstæðri þjóðkirkju í áframhaldandi tengslum við ríkisvaldið. Þegar stjórnin hafnaði frumvarpinu um kirkjuþing 1907 hafði hún einnig gefið til kynna að sjálfstæði kirkjunnar ættu að vera takmörk sett.

Þórhallur Bjarnarson var skynsamur og hófsamur embættismaður sem mat stöðuna af raunsæi. Hann starfaði það sem eftir var innan þeirra marka sem honum voru sett. Hann skipti þó ekki um skoðun og innst inni virðist hann hafa litið svo á að prestastéttin keppti að aukinni sjálfstjórn kirkjunnar án þess að vera til þess búin að axla ábyrgð á sjálfstæðri kirkju.

Fyrsti biskup tuttugustu og fyrstu aldarinnar?

Hér hefur Þórhallur Bjarnarson verið útnefndur fyrsti tuttugustu aldar biskupinn vegna þess að hann leiddi „nýja kirkju“ sem starfaði í nýju menningarlegu umhverfi á tímum þegar mikið var rætt um breytt tengsl ríkis og kirkju. Mestu skiptir þó að sjónarhorn hans beindist alltaf fram á við. Hann horfði ekki reiður um öxl og syrgði forna frægð kirkjunnar. Þvert á móti vildi hann taka þátt í mótun hennar til framtíðar.

Saga Þórhallar Bjarnasonar hefur verið rifjuð upp nú vegna nýafstaðinna biskupsskipta. Nú þegar má slá því föstu að fyrsti biskup tuttugustu og fyrstu aldarinnar sé enn ókominn fram. Hingað til hafa biskuparnir fremur horft aftur en fram á við. — Nú getum við vænst breytinga í þessu efni. Áskoranirnar sem nýr biskup mætir verða ugglaust aðrar en fyrir rúmri öld. Ýmislegt er þó áþekkt eins og t.d. þróun „nýrrar“ eða a.m.k. uppfærðrar kirkju á grundvelli þjóðkirkjulaganna frá 2021 og nýrrar skipanar á yfirstjórn kirkjunnar sem enn hefur tæpast komist til fullrar framkvæmdar vegna breytingafælni.

Laufás við Eyjafjörð – þar fæddist Þórhallur Bjarnarson 2. desember 1855

Tilvísun:

[1] Greinin er byggð á erindi sem haldið var í Neskirkju í Reykjavík 9. september s.l. Í henni er einnig stuðst við tvo greinaflokka um þróun trúfrelsis og þjóðkirkjuskipunar sem og aðskilnað ríkis og kirkju eftir sama höfund í Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 22–24 og 49–50.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir