Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins og umræður eru líflegar. Saga, samtíð og framtíð fléttast saman á spennandi hátt og vekja umhugsun um þjóðkirkju nútímans

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Ásmund Guðmundsson, biskup Íslands 1954-1959, og hér má lesa helstu stiklur úr því:

Biskupsembætti í lit: Ásmundur biskup Guðmundsson 1954–1959

Þegar litið er yfir þá biskupa sem hafa þjónað í íslensku þjóðkirkjunni frá árinu 1908 vekur tvennt athygli. Annars vegar eru þeir allir fulltrúar frjálslyndrar guðfræði, eða nýguðfræði eins og hún var einnig nefnd. Hitt er svo það, að þar hafa valist til skiptis annars vegar framkvæmdamenn sem hafa endurmótað og skipulagt kirkjuna og hins vegar fræðimenn og kennarar sem hafa túlkað og mótað þessa guðfræðistefnu.

Þórhallur Bjarnarson (1855–1916/1908–1916):
Mótar og skipuleggur þjóðkirkjuna í ljósi nýrra aðstæðna
Jafnar kjör presta
Skilgreinir samskiptin við ríkisvaldið, einkum þau fjárhagslegu
Jón Helgason (1866–1942/1917–1938):
Stórtækur höfundur og þýðandi
Útgáfa og hugmyndafræði
Kennsla og mótun guðfræði kirkjunnar
Listamaður
Sigurgeir Sigurðsson (1890–1953/1939–1953)
Umfangsmikil löggjöf um kirkjuleg málefni
Nýjar sóknir stofnsettar
Umfangsmiklar kirkjubyggingar
Æskulýðsmál, tónlistarstarf og annað safnaðarstarf
Ásmundur Guðmundsson (1888–1969/1954–1959)
Fræðimaður
Kennari
Afkastamikill höfundur og þýðandi

Sr. Ásmundur var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík – skjáskot – Fálkinn 25. júní 1954

Umfjöllun um Ásmund Guðmundsson tekur mið af því hversu skýr hann var í afstöðu sinni til frjálslyndrar guðfræði og hversu vel má greina einkenni hennar í textum hans. Jafnframt beitti hann sér fyrir því að andstæðir hópar guðfræðinga leyfðu ekki ágreiningsmálum að skapa fjandskap sín á milli. Þvert á móti væru slík skoðanaskipti til marks um heilbrigt ástand innan kirkjunnar og að baki ólíkum hugmyndum leyndist sameiginleg sýn á kirkju og mannlíf.

Myndin af honum er sú í röð einkennismynda biskupa 20. aldarinnar sem skartar litum. Það þykir höfundi þessara orða um margt lýsandi fyrir afstöðu hans og opið hugarfar. Sú hugsun virðist ekki hafa verið ráðandi í huga hans að einhugur þyrfti að ríkja. Þvert á móti kann hann að hafa borið skynbragð á þann skapandi kraft sem felst í ágreiningi og ólíkum hugmyndum. Fyrir vikið verður þessi yfirskrift fyrir valinu: „Biskupsembætti í lit.“

Þegar talað er um frjálslynda guðfræði er einkum átt við þá hugmyndafræði sem bar eftirfarandi einkenni:

  • Kenningar kirkjunnar og Biblían eru viðfangsefni vísindalegrar ritskýringar.
  • Trúarjátningar, hefðir og helgisiðir þarf að meta í sögulegu ljósi og gagnrýni.
  • Bjartsýn afstaða til samfélagsins liggur til grundvallar, hugtök á borð við syndina hafa þar minna vægi og þykja jafnvel hafa misst gildi sitt.
  • Trúin er persónubundin og helsta trúarjátning hverrar manneskju felst í því líferni sem hún stundar.
  • Leitast er við að samþætta guðfræðihugmyndir við þá strauma og þær stefnur sem eru ríkjandi hverju sinni. Í tilviki guðfræðinga á fyrri hluta og fram yfir miðja 20. öld ber þar einkum á þjóðernishugmyndum og framfarahyggju.
  • Í anda guðfræðingsins F. Schleiermachers (1768–1834) er það ekki helsta hlutverk kirkjunnar að stunda trúboð heldur að vera vettvangur fyrir trúarlega sannfæringu fólks og trúarlega þörf.

Þessir þættir mótuðu störf og boðun Ásmundar Guðmundssonar.

Líf hans og uppvöxtur bar þess merki hversu góðar aðstæður honum voru búnar til náms og þroska. Hann fæddist 6. október 1888 að Reykholti í Borgarbyggð. Hann var af klerkaættum. Faðir hans var séra Guðmundur Helgason frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi og prófastur. Móðir hans var Þóra Ágústa Ásmundsdóttir, dóttir Ásmundar Jónssonar prófasts að Odda á Rangárvöllum. Ásmundur lærði við Menntaskólann í Reykjavík og bjó á þeim tíma hjá Þórhalli Bjarnarsyni prestaskólakennara og síðar biskupi að Laufási við Laufásveg

Hann gekk í hjónaband með Steinunni Sigríði Magnúsdóttur (1894-1976) frá Gilsbakka Hvítársíðu

Þau eignuðust sjö börn, þrjár dætur og fjóra syni. Sá yngsti úr þessum hópi, Tryggvi segir svo frá í bókinni Faðir minn presturinn:

„Það er erfitt fyrir son að lýsa föður sínum þannig að fáist hlutlægt mat. Faðir minn var kominn yfir fimmtugt þegar ég fyrst hafði kynni af honum. […] Hann var óvenju starfsamur, og ég held að það hafi verið eina boðorðið sem hann braut vísvitandi, að vinna á sunnudögum. […] Hann var einstaklega dagfarsprúður á heimili en þú talsverður skaphitamaður, en rann fljótt reiðin.“

Ásmundur Guðmundsson (1888-1969) – mynd tekin í Hveragerði um 1963 – rétthafi myndar: Ásmundur Jakobsson

Ásmundur las við fremstu skóla þess tíma. Hann varð stúdent sumarið 1908. Þá lauk hann cand. phil. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1909 og tók þar próf í hebresku. Hann hóf nám við Prestaskólann sem varð að Guðfræðideild Háskóla Íslands þegar Háskólinn var stofnaður 1911. Ári síðar lauk hann prófi í guðfræði og var hann í fyrsta árganginum, sem útskrifaðist úr háskólanum. Hann sótti framhaldsnám í guðfræði við háskólana í Berlín og Jena sumarið 1929. Það ár dvaldi hann við nám í Róm og árið 1934 las hann við háskólana í Oxford og Cambridge.

Ásmundur hóf prestsskap sinn í Vatnabyggðum Saskatchewan í Kanada árin 1912-14 og í Íslendingabyggðum í Alberta um tíma 1914. Mikil gróska var í trúmálum á þeim tíma og má nefna í því sambandi únítara sem fóru mikinn og höfðu víðtæk áhrif. Meðal Íslendinga sem hömpuðu þeim hugmyndum má nefna Matthías Jochumsson. Ásmundur kenndi og stundaði ritstörf 1914-15 hér heima. Hann var aðstoðarprestur og síðar sóknarprestur að Helgafelli við Stykkishólm frá sumrinu 1915. Hann gegndi einnig embætti skólastjóra á Eiðum árið 1919. Hann var skipaður dósent við Háskóla Íslands árið 1928 í kjölfar andláts Haraldar Níelssonar og sex árum síðar var hann gerður að prófessor.

Eftir andlát Sigurgeirs biskups Sigurðssonar var hann kosinn biskup Íslands í ársbyrjun 1954 og vígður um sumarið af séra Bjarna Jónssyni, vígslubiskupi. Til gamans má sýna hvernig atkvæðin féllu í kosningunum, en hann var annar biskupinn sem kjörinn var bindandi kosningu presta þjóðkirkjunnar.

Hér má sjá tvo presta, þá Sigurbjörn Einarsson og Pétur Sigurgeirsson sem sjálfir áttu eftir að gegna embætti biskups

Ásmundur var afkastamikill höfundur og þýðandi og bera verk hans merki þess að hann lagði sig fram um að miðla þekkingu sinni og nálgun til breiðra hópa lesenda. Þannig ritskýrði hann Fjallræðu Jesú og var verkið ætlað kennaranemum sem sjálfir gætu þá miðlað þekkingunni áfram til nemenda. Einnig er vert að nefna lítið kver um heimilisguðrækni frá 1927 sem Ásmundur tók þátt í að rita, þegar húslestrar voru á undanhaldi. Hér má nefna nokkur af helstu ritum hans:

  • Frá heimi fagnaðarerindisins: helgidagaræður frá 1. sunnudegi í aðventu. til 2. páskadags, Reykjavík 1919.
  • Ágrip af almennri trúarbragðasögu: minnisgreinar, Reykjavík 1935.
  • Samstofna guðspjöllin. Uppruni þeirra og afstaða sín í milli, Reykjavík 1938.
  • Haraldur Níelsson, Reykjavík 1938.
  • Markúsarguðspjall: skýringar, Reykjavík 1942.
  • Heimilisguðrækni: Nokkrar bendingar til heimilanna. Prentsm. Gutenberg, Reykjavík 1927.
  • Saga Ísraelsþjóðarinnar, Reykjavík 1948.
  • Fjallræða Jesú og dæmisögur: skýringar, Reykjavík 1948
  • Frá heimi fagnaðarerindisins: helgidagaræður: nýtt safn, Ísafold, Reykjavík 1959.
  • Æfi Jesú, Reykjavík 1964.

Þá þýddi hann verk eftir nokkra höfunda: Meðal þeirra má nefna:

  • Adolf von Harnack
  • Kaj Munk
  • Selma Lagerlöf
  • Kristian Schjelderup
  • David Åhlén

Eins og fyrr getur aðhylltist Ásmundur frjálslynda guðfræði og má sjá í ritum hans hversu staðfastur hann var í þeirri viðleitni að miðla henni áfram.

Í Hirðisbréfinu talar hann um ,,guðfræðivísindin“ og heldur fram þeim sjónarmiðum að ekkert ætti að standa í veginum fyrir því að guðfræðingar leiti sannleikans í rannsóknum sínum:

„Guðfræðivísindin hafa verið heilög fræði í augum mínum. Og þau hefi ég viljað stunda óháður öllum kennisetningum og spyrja um það eitt, hvað væri satt og rétt. Ég hefi talið rannsókn Heilagrar ritningar, frjálsa og óháða, ekki aðeins leyfilega, heldur beinlínis skyldu […] Einlæg sannleiksleit leiðir æfinlega til góðs, og sá finnur, er leitar.“

Á þessum tímum höfðu guðfræðingar skipað sér í fylkingar eftir afstöðu til guðfræðikenninga. Bræðralag: kristilegt félag stúdenta var hópur nýguðfræðinga og var félagið stofnað árið 1945 á heimili Ásmundar. Andstætt hinum frjálslyndu mynduðu íhaldssamari kennimenn félagið, Samtök játningartrúrra presta. Í stefnuyfirlýsingu kváðust þeir leita í játningar kirkjunnar og töldu brýnt að guðfræðingar myndu ekki víkja út af þeirri braut. Í Hirðisbréfinu hefur Ásmundur orð á þessari stöðu sem komin var upp:

„Allt frá æsku man ég ágreining um trúmál innan kirkjunnar hér á landi. [Nýja guðfræðin] náði skjótt mikilli útbreiðslu, enda var jarðvegurinn nokkuð undirbúinn m.a. fyrir áhrif frá séra Matthíasi Jochumssyni og af prédikunum séra Páls Sigurðssonar í Gaulverjabæ. Menn skiptust í tvo flokka, og deilur urðu harðar […] Ég óttast það ekki hið minnsta, þótt menn sæki og verji skoðanir sínar af kappi, ef andi sanngirni og umburðarlyndis fær að vera þar með í verki og þeir lifa eftir áminningunni postullegu: Allt hjá yður sé gert í kærleika. […] Eining getur ríkt að baki ólíkum skoðunum.“

Hugmyndir nýguðfræðinga vöktu mismikla hrifningu og fræg eru orð séra Árna Þórarinssonar um Ásmund: „Ási er verri því að hann gæti afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því.“

Í grein sinni, „Kristindómurinn bregst aldrei“ sem hann birti í Kirkjuritinu árið 1950 segir hann einu játninguna sem fólk eigi að bindast, sé „játning lífernisins“. Hann boðar þess vegna að fólk eigi að endurspegla trúarafstöðu sína í góðu hátterni og framkomu hvert við annað.

Ásmundur bar sterka hvöt til þess að eining ríkti í íslensku samfélagi og hafði áhyggjur af því hvert þjóðin stefndi. Hann taldi kirkjuna gegna lykilhlutverki í því að stuðla að tímabærri vakningu í þeim efnum:

„Þetta er hlutverk kirkjunnar, hlutverk yðar, kristinna heimila og skóla. Andlegrar vakningar er brýn þörf — trúarlegrar og siðferðilegrar endurnýjunar hjá þjóðinni. Þegar loks roðnar af nýjum frelsisdegi yfir Íslandi, þá eru forystumennirnir trúmenn miklir, sem vinna viðreisnarstarf sitt í trausti og von á Guð vors lands. Öll þjóðin veitir þeim síðan fylgd, í sömu björtu, sigursælu trú.“

Hér má sjá hversu þjóðlegar hugmyndir fléttast inn í boðskap Ásmundar. Erindi kirkjunnar snýr að fólkinu í landinu og hann.

„Stundum hefur sú trú verið nefnd skynsemistrú og talin Íslendingum til lasts. En í réttum skilningi er þetta mikið lof. Við þurfum að standa vörð um þessa sönnu, glöðu, heilbrigðu og þjóðlegu trú feðra vorra og mæðra — reyna að styðja að því af alefli, að hún verði dýrasti arfurinn uppvaxandi kynslóð og kynslóðum, laus við erlendar stælingar, ósnortinn af þröngsýnum áróðri eða dómsýki manna, runninn frá sjálfri uppsprettu lífsins í barnslega hreinum hjörtum.“

Ásmundur hafði eins og títt var um samtímamenn hans sterka þjóðerniskennd. Þetta er vitaskuld á þeim tíma þar sem þjóðin reis til sjálfstæðis frá Dönum. Tíðarandinn beindist mjög að sérstöðu Íslands og Íslendinga. Einstaklingar sem voru ráðandi í umræðunni beindu mjög orðum sínum og boðskap inn á þær brautir. Í því sambandi lagði Ásmundur kapp á að þjóðin væri samstíga og einhuga undir forystu kristinnar kirkju: „Vér ætlum oss að standa saman,“ segir hann í Hirðisbréfinu.

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson talar um samspil kristni og þjóðerniskenndar í bók sinni Trú, von og þjóð frá árinu 2014. Hann færir rök fyrir því að í huga leiðandi kennimanna um miðbik síðustu aldar hafi þjóðríkið haft ákveðið trúarlegt inntak. Hann spyr hvort þjóðin hafi verið eins konar kristsgervingur: „Þessi útópíska sýn hefur á sér yfirbragð einríkiskenningarinnar.“ Með því er átt við þá trúarafstöðu þar sem hið veraldlega er viðfang átrúnaðarins og heimurinn fær því ákveðið hjálpræðisgildi. Að mati Sigurjóns Árna fetar Ásmundur sömu braut og aðrir fulltrúar nýguðfræðinnar þar sem hann „setur þjóð og kristni í eitt“.

Vitaskuld voru hörmungar 20. aldarinnar, einkum heimsstyrjaldirnar, skipbrot fyrir bjartsýna afstöðu frjálslyndra guðfræðinga. Mannleg samfélög voru ekki á þroskabraut í átt að Guðs ríkinu. Þvert á móti þótti vera kominn tími til að gefa gaum sígildum hugmyndum kristninnar á borð við illskuna, syndina og fall mannsins.

Ásmundur Guðmundsson var síðastur í röð boðbera frjálslyndrar guðfræði og jafnframt hefur ekki enn valist til forystu í kirkjunni einstaklingur sem hefur helgað sig kennslu og fræðistörfum. Hann sat aðeins fimm ár á biskupsstóli og nýtti þann tíma til að miðla hugmyndum sínum um leið og hann leitaðist við að skapa einingu og sátt innan kirkjunnar, þrátt fyrir þann hugmyndafræðilega ágreining sem einkenndi stétt presta og guðfræðinga.

Leiða má að því líkum að akademískur bakgrunnur Ásmundar hafi mótað þá afstöðu hans að ólíkar skoðanir um tiltekin grundvallarmál væru ekki háskalegar kirkjunni. Þvert á móti mætti líta á þær sem eðlilegan þátt lifandi samfélags.

Neskirkja í Reykjavík vígð – skjáskot – Fálkinn 2. maí 1957

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Krossgötur í Neskirkju eru vel sóttar af áhugasömu fólki úr öllum áttum samfélagsins og umræður eru líflegar. Saga, samtíð og framtíð fléttast saman á spennandi hátt og vekja umhugsun um þjóðkirkju nútímans

Krossgötur eru öflugur fræðsluvettvangur í Neskirkju.

Þar eru vikulega flutt erindi og boðið upp á umræður og kaffiveitingar.

Dagskrá vetrarins á Krossgötum liggur fyrir og er mjög svo fjölbreytileg og áhugaverð. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi á sviði trúar og samfélags, menningar og lista.

Dr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, flutti á Krossgötum í vikubyrjun athyglisvert erindi um sr. Ásmund Guðmundsson, biskup Íslands 1954-1959, og hér má lesa helstu stiklur úr því:

Biskupsembætti í lit: Ásmundur biskup Guðmundsson 1954–1959

Þegar litið er yfir þá biskupa sem hafa þjónað í íslensku þjóðkirkjunni frá árinu 1908 vekur tvennt athygli. Annars vegar eru þeir allir fulltrúar frjálslyndrar guðfræði, eða nýguðfræði eins og hún var einnig nefnd. Hitt er svo það, að þar hafa valist til skiptis annars vegar framkvæmdamenn sem hafa endurmótað og skipulagt kirkjuna og hins vegar fræðimenn og kennarar sem hafa túlkað og mótað þessa guðfræðistefnu.

Þórhallur Bjarnarson (1855–1916/1908–1916):
Mótar og skipuleggur þjóðkirkjuna í ljósi nýrra aðstæðna
Jafnar kjör presta
Skilgreinir samskiptin við ríkisvaldið, einkum þau fjárhagslegu
Jón Helgason (1866–1942/1917–1938):
Stórtækur höfundur og þýðandi
Útgáfa og hugmyndafræði
Kennsla og mótun guðfræði kirkjunnar
Listamaður
Sigurgeir Sigurðsson (1890–1953/1939–1953)
Umfangsmikil löggjöf um kirkjuleg málefni
Nýjar sóknir stofnsettar
Umfangsmiklar kirkjubyggingar
Æskulýðsmál, tónlistarstarf og annað safnaðarstarf
Ásmundur Guðmundsson (1888–1969/1954–1959)
Fræðimaður
Kennari
Afkastamikill höfundur og þýðandi

Sr. Ásmundur var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík – skjáskot – Fálkinn 25. júní 1954

Umfjöllun um Ásmund Guðmundsson tekur mið af því hversu skýr hann var í afstöðu sinni til frjálslyndrar guðfræði og hversu vel má greina einkenni hennar í textum hans. Jafnframt beitti hann sér fyrir því að andstæðir hópar guðfræðinga leyfðu ekki ágreiningsmálum að skapa fjandskap sín á milli. Þvert á móti væru slík skoðanaskipti til marks um heilbrigt ástand innan kirkjunnar og að baki ólíkum hugmyndum leyndist sameiginleg sýn á kirkju og mannlíf.

Myndin af honum er sú í röð einkennismynda biskupa 20. aldarinnar sem skartar litum. Það þykir höfundi þessara orða um margt lýsandi fyrir afstöðu hans og opið hugarfar. Sú hugsun virðist ekki hafa verið ráðandi í huga hans að einhugur þyrfti að ríkja. Þvert á móti kann hann að hafa borið skynbragð á þann skapandi kraft sem felst í ágreiningi og ólíkum hugmyndum. Fyrir vikið verður þessi yfirskrift fyrir valinu: „Biskupsembætti í lit.“

Þegar talað er um frjálslynda guðfræði er einkum átt við þá hugmyndafræði sem bar eftirfarandi einkenni:

  • Kenningar kirkjunnar og Biblían eru viðfangsefni vísindalegrar ritskýringar.
  • Trúarjátningar, hefðir og helgisiðir þarf að meta í sögulegu ljósi og gagnrýni.
  • Bjartsýn afstaða til samfélagsins liggur til grundvallar, hugtök á borð við syndina hafa þar minna vægi og þykja jafnvel hafa misst gildi sitt.
  • Trúin er persónubundin og helsta trúarjátning hverrar manneskju felst í því líferni sem hún stundar.
  • Leitast er við að samþætta guðfræðihugmyndir við þá strauma og þær stefnur sem eru ríkjandi hverju sinni. Í tilviki guðfræðinga á fyrri hluta og fram yfir miðja 20. öld ber þar einkum á þjóðernishugmyndum og framfarahyggju.
  • Í anda guðfræðingsins F. Schleiermachers (1768–1834) er það ekki helsta hlutverk kirkjunnar að stunda trúboð heldur að vera vettvangur fyrir trúarlega sannfæringu fólks og trúarlega þörf.

Þessir þættir mótuðu störf og boðun Ásmundar Guðmundssonar.

Líf hans og uppvöxtur bar þess merki hversu góðar aðstæður honum voru búnar til náms og þroska. Hann fæddist 6. október 1888 að Reykholti í Borgarbyggð. Hann var af klerkaættum. Faðir hans var séra Guðmundur Helgason frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi og prófastur. Móðir hans var Þóra Ágústa Ásmundsdóttir, dóttir Ásmundar Jónssonar prófasts að Odda á Rangárvöllum. Ásmundur lærði við Menntaskólann í Reykjavík og bjó á þeim tíma hjá Þórhalli Bjarnarsyni prestaskólakennara og síðar biskupi að Laufási við Laufásveg

Hann gekk í hjónaband með Steinunni Sigríði Magnúsdóttur (1894-1976) frá Gilsbakka Hvítársíðu

Þau eignuðust sjö börn, þrjár dætur og fjóra syni. Sá yngsti úr þessum hópi, Tryggvi segir svo frá í bókinni Faðir minn presturinn:

„Það er erfitt fyrir son að lýsa föður sínum þannig að fáist hlutlægt mat. Faðir minn var kominn yfir fimmtugt þegar ég fyrst hafði kynni af honum. […] Hann var óvenju starfsamur, og ég held að það hafi verið eina boðorðið sem hann braut vísvitandi, að vinna á sunnudögum. […] Hann var einstaklega dagfarsprúður á heimili en þú talsverður skaphitamaður, en rann fljótt reiðin.“

Ásmundur Guðmundsson (1888-1969) – mynd tekin í Hveragerði um 1963 – rétthafi myndar: Ásmundur Jakobsson

Ásmundur las við fremstu skóla þess tíma. Hann varð stúdent sumarið 1908. Þá lauk hann cand. phil. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1909 og tók þar próf í hebresku. Hann hóf nám við Prestaskólann sem varð að Guðfræðideild Háskóla Íslands þegar Háskólinn var stofnaður 1911. Ári síðar lauk hann prófi í guðfræði og var hann í fyrsta árganginum, sem útskrifaðist úr háskólanum. Hann sótti framhaldsnám í guðfræði við háskólana í Berlín og Jena sumarið 1929. Það ár dvaldi hann við nám í Róm og árið 1934 las hann við háskólana í Oxford og Cambridge.

Ásmundur hóf prestsskap sinn í Vatnabyggðum Saskatchewan í Kanada árin 1912-14 og í Íslendingabyggðum í Alberta um tíma 1914. Mikil gróska var í trúmálum á þeim tíma og má nefna í því sambandi únítara sem fóru mikinn og höfðu víðtæk áhrif. Meðal Íslendinga sem hömpuðu þeim hugmyndum má nefna Matthías Jochumsson. Ásmundur kenndi og stundaði ritstörf 1914-15 hér heima. Hann var aðstoðarprestur og síðar sóknarprestur að Helgafelli við Stykkishólm frá sumrinu 1915. Hann gegndi einnig embætti skólastjóra á Eiðum árið 1919. Hann var skipaður dósent við Háskóla Íslands árið 1928 í kjölfar andláts Haraldar Níelssonar og sex árum síðar var hann gerður að prófessor.

Eftir andlát Sigurgeirs biskups Sigurðssonar var hann kosinn biskup Íslands í ársbyrjun 1954 og vígður um sumarið af séra Bjarna Jónssyni, vígslubiskupi. Til gamans má sýna hvernig atkvæðin féllu í kosningunum, en hann var annar biskupinn sem kjörinn var bindandi kosningu presta þjóðkirkjunnar.

Hér má sjá tvo presta, þá Sigurbjörn Einarsson og Pétur Sigurgeirsson sem sjálfir áttu eftir að gegna embætti biskups

Ásmundur var afkastamikill höfundur og þýðandi og bera verk hans merki þess að hann lagði sig fram um að miðla þekkingu sinni og nálgun til breiðra hópa lesenda. Þannig ritskýrði hann Fjallræðu Jesú og var verkið ætlað kennaranemum sem sjálfir gætu þá miðlað þekkingunni áfram til nemenda. Einnig er vert að nefna lítið kver um heimilisguðrækni frá 1927 sem Ásmundur tók þátt í að rita, þegar húslestrar voru á undanhaldi. Hér má nefna nokkur af helstu ritum hans:

  • Frá heimi fagnaðarerindisins: helgidagaræður frá 1. sunnudegi í aðventu. til 2. páskadags, Reykjavík 1919.
  • Ágrip af almennri trúarbragðasögu: minnisgreinar, Reykjavík 1935.
  • Samstofna guðspjöllin. Uppruni þeirra og afstaða sín í milli, Reykjavík 1938.
  • Haraldur Níelsson, Reykjavík 1938.
  • Markúsarguðspjall: skýringar, Reykjavík 1942.
  • Heimilisguðrækni: Nokkrar bendingar til heimilanna. Prentsm. Gutenberg, Reykjavík 1927.
  • Saga Ísraelsþjóðarinnar, Reykjavík 1948.
  • Fjallræða Jesú og dæmisögur: skýringar, Reykjavík 1948
  • Frá heimi fagnaðarerindisins: helgidagaræður: nýtt safn, Ísafold, Reykjavík 1959.
  • Æfi Jesú, Reykjavík 1964.

Þá þýddi hann verk eftir nokkra höfunda: Meðal þeirra má nefna:

  • Adolf von Harnack
  • Kaj Munk
  • Selma Lagerlöf
  • Kristian Schjelderup
  • David Åhlén

Eins og fyrr getur aðhylltist Ásmundur frjálslynda guðfræði og má sjá í ritum hans hversu staðfastur hann var í þeirri viðleitni að miðla henni áfram.

Í Hirðisbréfinu talar hann um ,,guðfræðivísindin“ og heldur fram þeim sjónarmiðum að ekkert ætti að standa í veginum fyrir því að guðfræðingar leiti sannleikans í rannsóknum sínum:

„Guðfræðivísindin hafa verið heilög fræði í augum mínum. Og þau hefi ég viljað stunda óháður öllum kennisetningum og spyrja um það eitt, hvað væri satt og rétt. Ég hefi talið rannsókn Heilagrar ritningar, frjálsa og óháða, ekki aðeins leyfilega, heldur beinlínis skyldu […] Einlæg sannleiksleit leiðir æfinlega til góðs, og sá finnur, er leitar.“

Á þessum tímum höfðu guðfræðingar skipað sér í fylkingar eftir afstöðu til guðfræðikenninga. Bræðralag: kristilegt félag stúdenta var hópur nýguðfræðinga og var félagið stofnað árið 1945 á heimili Ásmundar. Andstætt hinum frjálslyndu mynduðu íhaldssamari kennimenn félagið, Samtök játningartrúrra presta. Í stefnuyfirlýsingu kváðust þeir leita í játningar kirkjunnar og töldu brýnt að guðfræðingar myndu ekki víkja út af þeirri braut. Í Hirðisbréfinu hefur Ásmundur orð á þessari stöðu sem komin var upp:

„Allt frá æsku man ég ágreining um trúmál innan kirkjunnar hér á landi. [Nýja guðfræðin] náði skjótt mikilli útbreiðslu, enda var jarðvegurinn nokkuð undirbúinn m.a. fyrir áhrif frá séra Matthíasi Jochumssyni og af prédikunum séra Páls Sigurðssonar í Gaulverjabæ. Menn skiptust í tvo flokka, og deilur urðu harðar […] Ég óttast það ekki hið minnsta, þótt menn sæki og verji skoðanir sínar af kappi, ef andi sanngirni og umburðarlyndis fær að vera þar með í verki og þeir lifa eftir áminningunni postullegu: Allt hjá yður sé gert í kærleika. […] Eining getur ríkt að baki ólíkum skoðunum.“

Hugmyndir nýguðfræðinga vöktu mismikla hrifningu og fræg eru orð séra Árna Þórarinssonar um Ásmund: „Ási er verri því að hann gæti afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því.“

Í grein sinni, „Kristindómurinn bregst aldrei“ sem hann birti í Kirkjuritinu árið 1950 segir hann einu játninguna sem fólk eigi að bindast, sé „játning lífernisins“. Hann boðar þess vegna að fólk eigi að endurspegla trúarafstöðu sína í góðu hátterni og framkomu hvert við annað.

Ásmundur bar sterka hvöt til þess að eining ríkti í íslensku samfélagi og hafði áhyggjur af því hvert þjóðin stefndi. Hann taldi kirkjuna gegna lykilhlutverki í því að stuðla að tímabærri vakningu í þeim efnum:

„Þetta er hlutverk kirkjunnar, hlutverk yðar, kristinna heimila og skóla. Andlegrar vakningar er brýn þörf — trúarlegrar og siðferðilegrar endurnýjunar hjá þjóðinni. Þegar loks roðnar af nýjum frelsisdegi yfir Íslandi, þá eru forystumennirnir trúmenn miklir, sem vinna viðreisnarstarf sitt í trausti og von á Guð vors lands. Öll þjóðin veitir þeim síðan fylgd, í sömu björtu, sigursælu trú.“

Hér má sjá hversu þjóðlegar hugmyndir fléttast inn í boðskap Ásmundar. Erindi kirkjunnar snýr að fólkinu í landinu og hann.

„Stundum hefur sú trú verið nefnd skynsemistrú og talin Íslendingum til lasts. En í réttum skilningi er þetta mikið lof. Við þurfum að standa vörð um þessa sönnu, glöðu, heilbrigðu og þjóðlegu trú feðra vorra og mæðra — reyna að styðja að því af alefli, að hún verði dýrasti arfurinn uppvaxandi kynslóð og kynslóðum, laus við erlendar stælingar, ósnortinn af þröngsýnum áróðri eða dómsýki manna, runninn frá sjálfri uppsprettu lífsins í barnslega hreinum hjörtum.“

Ásmundur hafði eins og títt var um samtímamenn hans sterka þjóðerniskennd. Þetta er vitaskuld á þeim tíma þar sem þjóðin reis til sjálfstæðis frá Dönum. Tíðarandinn beindist mjög að sérstöðu Íslands og Íslendinga. Einstaklingar sem voru ráðandi í umræðunni beindu mjög orðum sínum og boðskap inn á þær brautir. Í því sambandi lagði Ásmundur kapp á að þjóðin væri samstíga og einhuga undir forystu kristinnar kirkju: „Vér ætlum oss að standa saman,“ segir hann í Hirðisbréfinu.

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson talar um samspil kristni og þjóðerniskenndar í bók sinni Trú, von og þjóð frá árinu 2014. Hann færir rök fyrir því að í huga leiðandi kennimanna um miðbik síðustu aldar hafi þjóðríkið haft ákveðið trúarlegt inntak. Hann spyr hvort þjóðin hafi verið eins konar kristsgervingur: „Þessi útópíska sýn hefur á sér yfirbragð einríkiskenningarinnar.“ Með því er átt við þá trúarafstöðu þar sem hið veraldlega er viðfang átrúnaðarins og heimurinn fær því ákveðið hjálpræðisgildi. Að mati Sigurjóns Árna fetar Ásmundur sömu braut og aðrir fulltrúar nýguðfræðinnar þar sem hann „setur þjóð og kristni í eitt“.

Vitaskuld voru hörmungar 20. aldarinnar, einkum heimsstyrjaldirnar, skipbrot fyrir bjartsýna afstöðu frjálslyndra guðfræðinga. Mannleg samfélög voru ekki á þroskabraut í átt að Guðs ríkinu. Þvert á móti þótti vera kominn tími til að gefa gaum sígildum hugmyndum kristninnar á borð við illskuna, syndina og fall mannsins.

Ásmundur Guðmundsson var síðastur í röð boðbera frjálslyndrar guðfræði og jafnframt hefur ekki enn valist til forystu í kirkjunni einstaklingur sem hefur helgað sig kennslu og fræðistörfum. Hann sat aðeins fimm ár á biskupsstóli og nýtti þann tíma til að miðla hugmyndum sínum um leið og hann leitaðist við að skapa einingu og sátt innan kirkjunnar, þrátt fyrir þann hugmyndafræðilega ágreining sem einkenndi stétt presta og guðfræðinga.

Leiða má að því líkum að akademískur bakgrunnur Ásmundar hafi mótað þá afstöðu hans að ólíkar skoðanir um tiltekin grundvallarmál væru ekki háskalegar kirkjunni. Þvert á móti mætti líta á þær sem eðlilegan þátt lifandi samfélags.

Neskirkja í Reykjavík vígð – skjáskot – Fálkinn 2. maí 1957

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir