– – – –

„Mér finnst alltaf svo fallegt þegar biskup fer með bæn og við syngjum öll saman áður en kirkjuþing byrjar.“

Fyrsti kaffitíminn á kirkjuþinginu var byrjaður og vitringarnir tólf sátu saman í herberginu sem þeir höfðu úthlutað sér í safnaðarheimilinu í stóru kirkjunni í Reykjavík. Þar var vítt til veggja og nóg pláss fyrir kristilegar hugleiðingar, bænir, sálma og ritningalestur. Vitringarnir byrjuðu alltaf á einhverju slíku því þeir vissu að framundan voru strangir dagar þar sem ræða þyrfti úthlutun á fjármunum kirkjunnar. Þá þyrfti sannarlega að krossa sig í bak og fyrir en leggja svo hina helgu bók á hilluna og einbeita sér að því að fjársjóðir kirkjunnar rötuðu örugglega á rétta staði.

Í morgunkaffinu var yfirleitt frekar fábrotið meðlæti, kaffi, kleinur og kremkex en þeir sem ekki höfðu haft tíma fyrir morgunmat voru fegnir þegar boðið var upp á flatbrauð með hangikjöti.

Nú stóð reyndar óvenju mikið til. Fólk sem ekki hafði lokið boðlegri kristilegri menntun hafði sig allt í einu nokkuð í frammi. Úr þeim hópi höfðu borist raddir um að rétt væri að grípa til alls konar sparnaðar og ráðdeildar. Einhver þeirra hafði meira að segja látið sér detta í hug að selja embættisbústað biskups sem hét því virðulega nafni Biskupsgarður og nota ef til vill eitthvað af peningunum í hinum dreifðu byggðum; boða kannski fagnaðarerindið og styrkja starfið í ófærðinni vestur á fjörðum?  En vitringarnir myndu ekki láta slíka ósvinnu henda.

„Það má vel vera að það þurfi eitthvað að gera úti á landi en við förum nú ekki að fórna Biskupsgarði til þess. Biskup verður að geta haldið uppi sómasamlegri risnu og tekið á móti gestum í hlýju og notalegu heimili,“ sögðu þeir og dæstu yfir svo langsóttri hugmynd. „Svo er nú ekki ónýtt að búa í svo virðulegu hverfi, þeir búa þarna allir sem sluppu frá bankahruninu.“ Þar með þurfti ekki að ræða þessa skrítnu hugmynd meir að öðru leyti en því að nokkrar umræður spunnust um það hvort ekki væri tímabært að yfirdekkja sófann á efri hæðinni. Líklega hefði ekkert verið átt við hann síðan á dögum Herra Sigurbjörns.

Tók þessi umræða nokkuð á svo rétt þótti að allir skyldu signa sig áður en næsta mál yrði tekið fyrir. Var það sala á höfuðstöðvum kirkjunnar. Samþykkti þingið orðalaust með afbrigðum að ræða það mál aðeins í einni umræðu og strax að henni lokinni var samþykkt með atkvæðum allra vitringa og fylgismanna að selja fasteignina jafnvel þótt þar töpuðust fáein hundruð milljóna. „Þjóðkirkjan á ekki stunda spákaupmennsku á fasteignamarkaði,“ sagði framsögumaður og hefði hlotið lófaklapp ef ekki væri bannað að klappa á kirkjuþingi.

-o0o-

Vitringarnir tólf höfðu lengi haft áhuga á að viðhalda embættum vígslubiskupa, bæði á Hólum og í Skálholti. Voru þeir nokkuð á eitt sáttir um að þótt ekki væri alveg augljóst til hvers embættin væru eiginlega þá væru þau virðuleg og á þann hátt jafnvel gagnleg. Slík embætti gæti verið gott að eiga í holu síðar á starfsævinni og geta kannski endað glæstan embættisferil á öðru hvoru hinna fornu setra. Þetta þótti þó rétt að ræða af varfærni og gæta að því að ólærðir menn og illa fróðir færu ekki að reyna að hlutast til um þær ágætu reglur sem um kjör vígslubiskupa giltu. Og barst þá talið óvænt að kjöri sjálfs biskups Íslands:

„Mér dettur nú í hug að það mætti spara umtalsvert fé og hætta þessum eilífu kosningum. Getur ekki bara einhver á skrifstofunni ráðið biskup? Við erum með fullt af hæfu fólki sem getur vel gert ráðningarsamninga jafnvel til lengri tíma. Er ekki bara upplagt að mannauðsstjórinn geri það á nokkurra ára fresti?“

„Já, einmitt eða hún á skiptiborðinu,“ sagði annar. „Gráupplagt,“ sagði sá þriðji. „Ég er aðeins hugsi,“ sagði sá fjórði en ekki hafði áður borið á þeim eiginleika hjá honum svo orð hans fengu engan hljómgrunn.

Að loknum ítarlegum umræðum töldu vitringarnir tólf samt öruggara að hafa þetta í eigin höndum og láta ekki svo mikilvægt vald í hendur á skrifstofufólki sem alveg væri óvíst að hefði nægilega guðfræðilega undirstöðu til að fást við svo vandasamt mál.

„Við skömmtum hvort sem er þá þrjá sem kjósa má um. Við þurfum bara að gæta þess að það fái ekki of margir ómenntaðir að kjósa, kannski væri betra að fækka þeim aðeins.“

„Það var nú einn ómenntaður eitthvað að tala um að allir í þjóðkirkjunni ættu að fá að kjósa biskup í lýðræðislegri kosningu. Ég er nú ekki búinn að vera svo lengi hér en hafið þið eitthvað rætt það?“ spurði hófsamur vitringur úr Hlíðahverfi sem hafði verið æskulýðsprestur og þótt liðtækur gítarleikari. En nú sló þögn á hópinn. Þegar vitringarnir höfðu jafnað sig,  tóku þeir allir til máls í einu, nema gítarleikarinn, og mæltu allir á sömu lund:

„Allt þjóðkirkjufólk? Kjósi biskup? Það eru tvöhundruð og þrjátíu þúsund manns. Það hljóta allir að sjá hvurslags öngþveiti það yrði. Það gætu jafnvel einhverjir rænt embættinu. Kannski sósíalistar eða einhverjir bísnissmenn. Svo yrði Þjóðkirkjan bara skráð í Kauphöllina og við hefðum ekkert með þetta að segja. Hverjir stjórna þá peningunum? Þetta má aldrei verða.“

Umræðurnar höfðu nú færst á mjög alvarlegt stig. Mikilvægir hagmunir vitringanna voru í húfi. „Við skulum rétta aðeins úr okkur,“ sagði ein lærða konan og stóð upp. Nú þyrfti að ráða ráðum sínum. Jólin sjálf framundan.

-o0o-

Liðu svo dagarnir á kirkjuþingi hver af öðrum en aldrei án bænar og blessunar í upphafi. Brjóst voru þanin  í sálmasöng og ævinlega öll erindin sungin til öryggis. Vitringarnir tólf tóku til máls í hverju máli og lögðu ætíð gott til enda voru þeir til allra manna vísastir sakir reynslu sinnar, menntunar en einkum góðvildar, réttsýni og launakjara. Gilti þá einu hvort fjallað var um skipulag, stjórnun, fjármál, lögfræði eða önnur fánýt fræði. Um allt þetta mátti  fá dygga leiðsögn hjá vitringunum tólf.

Á hverju sem gengi væri mikilvægast að ekki yrði hróflað við þeim greiða og sjálfsagða aðgangi sem þeir og skólasystkin þeirra höfðu alla tíð haft að fjárhirslum kirkjunnar í gegnum sinn góða bróður, hirði hirðanna. Af kristilegu harðfylgi var á þinginu stranglega komið í veg fyrir að nokkuð skipulag yrði tekið upp sem raskaði því frjálslega fyrirkomulagi. Samþykkt var að nær allir starfmenn skrifstofu biskups gætu ávísað á reikninga kirkjunnar en verklærðir menn sem gerðu áætlanir um endurbætur og útgjöld sniðgengnir. Allir sem vildu gott til leggja um fjármál og skipulag fengu aðfinnslur frá vitringunum fyrir asa og flýti, ekkert lægi á, kirkjan væri ekki eitthvert hasarskip, heldur virðuleg stofnun sem bærðist fyrir eigin afli.

Með svo einbeitta samstöðu tóku þingstörfin að ganga greiðlega þegar leið að lokadegi. Fullkomin sátt var um flesta hluti og hvergi skorti fé.  Sjálfsagt þótti að  þeir sem hefðu gegnt virðulegum embættum fjarri höfuðstaðnum fengu skikkanleg embætti í Reykjavík. Kontór og stól og jafnvel lyklaborð til að geta stöku sinnum skrifað ritbúta um hugðarefni sín ef tími gæfist á milli áríðandi utanferða og mannamóta við lútherska bræður og systur. Þegar þarna var komið á þinginu var stemningin orðin svo góð að ákveðið var með lófataki að aldrei skyldu færri fara utan en sex saman og aldrei vera skemur en sex daga í senn. Ferðadagar skyldu ekki teljast með. Voru þessar tölur síðar hækkaðar í sjö þegar einhver rak sig á að talan sex tilheyrði kannski ekki beinlínis hinni kristnu kirkju. Bættist þar við einn notalegur dagpeningadagur.

-o0o-

Nokkuð bakslag kom í selskapið eftir síðdegiskaffið. Ekki var þar þó við veitingarnar að sakast því boðið var upp á brauðtertur, pönnukökur og auðvitað stolt þjóðkirkjunnar, sjálfa marengstertuna.

En þegar fundur hófst á ný, færði maður nokkur ólærður en þó ekki ólæs, fram þá hugmynd hvort ekki mætti draga úr íburði og messuhaldi í höfuðborginni, einkum hinum þéttbýla svæði sem kennt er við byrjendanám og kallað 101. Taldi hann að vel mætti nú skipta messuhöldum á milli þessara kirkna sem allar væru í stuttu göngufæri hver frá annarri, þangað mættu fáir og því tilfallið að styrkja nú hinar dreifðu byggðir með svo sem eins og fáeinum embættum. Urðu um þetta heitar deilur en mest var þó kurr um þá fullyrðingu ólærða mannsins að komast mætti á milli þessara kirkna þurrum fótum á blankskóm, jafnvel um hávetur. Varð hann að bakka með þá fullyrðingu. Lauk þá málinu án frekari umræðna.

Var nú komið að lokum fjórða og síðasta  dags kirkjuþings. Að vanda var þá gripið til þess snjallræðis að fresta öllum málum til næsta þings sem fara skildi fram á vordögum, ekkert lægi samt á. Tóku þingmenn nú að faðmast og þakka drengilega framgöngu, árangursríkt þinghald, eindrægni, kærleika, sátt og samlyndi. Lögfræðikostnaðurinn kæmi síðar.

Vestfirðingurinn sem engan fékk aukaprestinn úr 101 Reykjavík hraðaði sér út á flugvöll ef svo vel vildi til að enn væri fært.

Honum þótti vora seint á haustþinginu.

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

– – – –

„Mér finnst alltaf svo fallegt þegar biskup fer með bæn og við syngjum öll saman áður en kirkjuþing byrjar.“

Fyrsti kaffitíminn á kirkjuþinginu var byrjaður og vitringarnir tólf sátu saman í herberginu sem þeir höfðu úthlutað sér í safnaðarheimilinu í stóru kirkjunni í Reykjavík. Þar var vítt til veggja og nóg pláss fyrir kristilegar hugleiðingar, bænir, sálma og ritningalestur. Vitringarnir byrjuðu alltaf á einhverju slíku því þeir vissu að framundan voru strangir dagar þar sem ræða þyrfti úthlutun á fjármunum kirkjunnar. Þá þyrfti sannarlega að krossa sig í bak og fyrir en leggja svo hina helgu bók á hilluna og einbeita sér að því að fjársjóðir kirkjunnar rötuðu örugglega á rétta staði.

Í morgunkaffinu var yfirleitt frekar fábrotið meðlæti, kaffi, kleinur og kremkex en þeir sem ekki höfðu haft tíma fyrir morgunmat voru fegnir þegar boðið var upp á flatbrauð með hangikjöti.

Nú stóð reyndar óvenju mikið til. Fólk sem ekki hafði lokið boðlegri kristilegri menntun hafði sig allt í einu nokkuð í frammi. Úr þeim hópi höfðu borist raddir um að rétt væri að grípa til alls konar sparnaðar og ráðdeildar. Einhver þeirra hafði meira að segja látið sér detta í hug að selja embættisbústað biskups sem hét því virðulega nafni Biskupsgarður og nota ef til vill eitthvað af peningunum í hinum dreifðu byggðum; boða kannski fagnaðarerindið og styrkja starfið í ófærðinni vestur á fjörðum?  En vitringarnir myndu ekki láta slíka ósvinnu henda.

„Það má vel vera að það þurfi eitthvað að gera úti á landi en við förum nú ekki að fórna Biskupsgarði til þess. Biskup verður að geta haldið uppi sómasamlegri risnu og tekið á móti gestum í hlýju og notalegu heimili,“ sögðu þeir og dæstu yfir svo langsóttri hugmynd. „Svo er nú ekki ónýtt að búa í svo virðulegu hverfi, þeir búa þarna allir sem sluppu frá bankahruninu.“ Þar með þurfti ekki að ræða þessa skrítnu hugmynd meir að öðru leyti en því að nokkrar umræður spunnust um það hvort ekki væri tímabært að yfirdekkja sófann á efri hæðinni. Líklega hefði ekkert verið átt við hann síðan á dögum Herra Sigurbjörns.

Tók þessi umræða nokkuð á svo rétt þótti að allir skyldu signa sig áður en næsta mál yrði tekið fyrir. Var það sala á höfuðstöðvum kirkjunnar. Samþykkti þingið orðalaust með afbrigðum að ræða það mál aðeins í einni umræðu og strax að henni lokinni var samþykkt með atkvæðum allra vitringa og fylgismanna að selja fasteignina jafnvel þótt þar töpuðust fáein hundruð milljóna. „Þjóðkirkjan á ekki stunda spákaupmennsku á fasteignamarkaði,“ sagði framsögumaður og hefði hlotið lófaklapp ef ekki væri bannað að klappa á kirkjuþingi.

-o0o-

Vitringarnir tólf höfðu lengi haft áhuga á að viðhalda embættum vígslubiskupa, bæði á Hólum og í Skálholti. Voru þeir nokkuð á eitt sáttir um að þótt ekki væri alveg augljóst til hvers embættin væru eiginlega þá væru þau virðuleg og á þann hátt jafnvel gagnleg. Slík embætti gæti verið gott að eiga í holu síðar á starfsævinni og geta kannski endað glæstan embættisferil á öðru hvoru hinna fornu setra. Þetta þótti þó rétt að ræða af varfærni og gæta að því að ólærðir menn og illa fróðir færu ekki að reyna að hlutast til um þær ágætu reglur sem um kjör vígslubiskupa giltu. Og barst þá talið óvænt að kjöri sjálfs biskups Íslands:

„Mér dettur nú í hug að það mætti spara umtalsvert fé og hætta þessum eilífu kosningum. Getur ekki bara einhver á skrifstofunni ráðið biskup? Við erum með fullt af hæfu fólki sem getur vel gert ráðningarsamninga jafnvel til lengri tíma. Er ekki bara upplagt að mannauðsstjórinn geri það á nokkurra ára fresti?“

„Já, einmitt eða hún á skiptiborðinu,“ sagði annar. „Gráupplagt,“ sagði sá þriðji. „Ég er aðeins hugsi,“ sagði sá fjórði en ekki hafði áður borið á þeim eiginleika hjá honum svo orð hans fengu engan hljómgrunn.

Að loknum ítarlegum umræðum töldu vitringarnir tólf samt öruggara að hafa þetta í eigin höndum og láta ekki svo mikilvægt vald í hendur á skrifstofufólki sem alveg væri óvíst að hefði nægilega guðfræðilega undirstöðu til að fást við svo vandasamt mál.

„Við skömmtum hvort sem er þá þrjá sem kjósa má um. Við þurfum bara að gæta þess að það fái ekki of margir ómenntaðir að kjósa, kannski væri betra að fækka þeim aðeins.“

„Það var nú einn ómenntaður eitthvað að tala um að allir í þjóðkirkjunni ættu að fá að kjósa biskup í lýðræðislegri kosningu. Ég er nú ekki búinn að vera svo lengi hér en hafið þið eitthvað rætt það?“ spurði hófsamur vitringur úr Hlíðahverfi sem hafði verið æskulýðsprestur og þótt liðtækur gítarleikari. En nú sló þögn á hópinn. Þegar vitringarnir höfðu jafnað sig,  tóku þeir allir til máls í einu, nema gítarleikarinn, og mæltu allir á sömu lund:

„Allt þjóðkirkjufólk? Kjósi biskup? Það eru tvöhundruð og þrjátíu þúsund manns. Það hljóta allir að sjá hvurslags öngþveiti það yrði. Það gætu jafnvel einhverjir rænt embættinu. Kannski sósíalistar eða einhverjir bísnissmenn. Svo yrði Þjóðkirkjan bara skráð í Kauphöllina og við hefðum ekkert með þetta að segja. Hverjir stjórna þá peningunum? Þetta má aldrei verða.“

Umræðurnar höfðu nú færst á mjög alvarlegt stig. Mikilvægir hagmunir vitringanna voru í húfi. „Við skulum rétta aðeins úr okkur,“ sagði ein lærða konan og stóð upp. Nú þyrfti að ráða ráðum sínum. Jólin sjálf framundan.

-o0o-

Liðu svo dagarnir á kirkjuþingi hver af öðrum en aldrei án bænar og blessunar í upphafi. Brjóst voru þanin  í sálmasöng og ævinlega öll erindin sungin til öryggis. Vitringarnir tólf tóku til máls í hverju máli og lögðu ætíð gott til enda voru þeir til allra manna vísastir sakir reynslu sinnar, menntunar en einkum góðvildar, réttsýni og launakjara. Gilti þá einu hvort fjallað var um skipulag, stjórnun, fjármál, lögfræði eða önnur fánýt fræði. Um allt þetta mátti  fá dygga leiðsögn hjá vitringunum tólf.

Á hverju sem gengi væri mikilvægast að ekki yrði hróflað við þeim greiða og sjálfsagða aðgangi sem þeir og skólasystkin þeirra höfðu alla tíð haft að fjárhirslum kirkjunnar í gegnum sinn góða bróður, hirði hirðanna. Af kristilegu harðfylgi var á þinginu stranglega komið í veg fyrir að nokkuð skipulag yrði tekið upp sem raskaði því frjálslega fyrirkomulagi. Samþykkt var að nær allir starfmenn skrifstofu biskups gætu ávísað á reikninga kirkjunnar en verklærðir menn sem gerðu áætlanir um endurbætur og útgjöld sniðgengnir. Allir sem vildu gott til leggja um fjármál og skipulag fengu aðfinnslur frá vitringunum fyrir asa og flýti, ekkert lægi á, kirkjan væri ekki eitthvert hasarskip, heldur virðuleg stofnun sem bærðist fyrir eigin afli.

Með svo einbeitta samstöðu tóku þingstörfin að ganga greiðlega þegar leið að lokadegi. Fullkomin sátt var um flesta hluti og hvergi skorti fé.  Sjálfsagt þótti að  þeir sem hefðu gegnt virðulegum embættum fjarri höfuðstaðnum fengu skikkanleg embætti í Reykjavík. Kontór og stól og jafnvel lyklaborð til að geta stöku sinnum skrifað ritbúta um hugðarefni sín ef tími gæfist á milli áríðandi utanferða og mannamóta við lútherska bræður og systur. Þegar þarna var komið á þinginu var stemningin orðin svo góð að ákveðið var með lófataki að aldrei skyldu færri fara utan en sex saman og aldrei vera skemur en sex daga í senn. Ferðadagar skyldu ekki teljast með. Voru þessar tölur síðar hækkaðar í sjö þegar einhver rak sig á að talan sex tilheyrði kannski ekki beinlínis hinni kristnu kirkju. Bættist þar við einn notalegur dagpeningadagur.

-o0o-

Nokkuð bakslag kom í selskapið eftir síðdegiskaffið. Ekki var þar þó við veitingarnar að sakast því boðið var upp á brauðtertur, pönnukökur og auðvitað stolt þjóðkirkjunnar, sjálfa marengstertuna.

En þegar fundur hófst á ný, færði maður nokkur ólærður en þó ekki ólæs, fram þá hugmynd hvort ekki mætti draga úr íburði og messuhaldi í höfuðborginni, einkum hinum þéttbýla svæði sem kennt er við byrjendanám og kallað 101. Taldi hann að vel mætti nú skipta messuhöldum á milli þessara kirkna sem allar væru í stuttu göngufæri hver frá annarri, þangað mættu fáir og því tilfallið að styrkja nú hinar dreifðu byggðir með svo sem eins og fáeinum embættum. Urðu um þetta heitar deilur en mest var þó kurr um þá fullyrðingu ólærða mannsins að komast mætti á milli þessara kirkna þurrum fótum á blankskóm, jafnvel um hávetur. Varð hann að bakka með þá fullyrðingu. Lauk þá málinu án frekari umræðna.

Var nú komið að lokum fjórða og síðasta  dags kirkjuþings. Að vanda var þá gripið til þess snjallræðis að fresta öllum málum til næsta þings sem fara skildi fram á vordögum, ekkert lægi samt á. Tóku þingmenn nú að faðmast og þakka drengilega framgöngu, árangursríkt þinghald, eindrægni, kærleika, sátt og samlyndi. Lögfræðikostnaðurinn kæmi síðar.

Vestfirðingurinn sem engan fékk aukaprestinn úr 101 Reykjavík hraðaði sér út á flugvöll ef svo vel vildi til að enn væri fært.

Honum þótti vora seint á haustþinginu.

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir