Nýlega gekk hér fram hjá gestaglugganum sjálfur Jón Vídalín. Í tveimur bindum. Annað er ævisaga og hitt ritsafn. Skálholtsútgáfan gaf út.
Ekki á hverjum degi sem slíkir höfðingjar og alþýðuvinir í einum og sama manninum ganga í hús. Á þessu ári er minnst að 300 ár eru liðin frá því að hann andaðist í Biskupsbrekku við Kaldadalsveg 1720 – hann var fæddur 1666. Að því tilefni var sett upp við brekku biskups listaverk af Vídalín sem Húsafellslistamaðurinn Páll gerði. Dulúðugt verk, myndi einhver segja.
Tveggjabinda Vídalín er býsna mikið rit þegar blaðsíðufjöldi er lagður saman, rúmlega fjórtán hundruð síður.
Kápa Vídalíns sveiflaðist fagurlega við gestagluggann, litfögur og prúð. Listamaðurinn sem á heiður af henni er Finnur Jónsson, og finna má frummyndina, steindan glugga í Bessastaðakirkju.
Gestaglugginn les Vídalín hægt og bítandi. Þetta er bók sem almenningur mun síður lesa en sagnfræðingar og áhugafólk um sögu. Þetta verk hrópar strax á hundrað blaðsíðna bók, fallega myndskreytta og vel upp setta og gagnyrta, sem fjallar um Jón Vídalín – „handa íslenzkri alþýðu“ eins og oft var letrað í bækur hér fyrrum með skarpri setunni til ískyggilegrar áréttingar. Slík bók myndi koma honum til þjóðarinnar. Hvað um það. Nú hefur þetta verk hreiðrað um sig á borði við gestagluggann og lestur mjakast – er tekinn í slumpum – og stundum er tekið reyndar á sprett í hornalestri – og meðfram læðist sú hugsun hvort eigi ekki að bíða með lesturinn þegar svimi færir yfir höfuð af hornalestursþeysireiðinni. Slík bið getur reynst hættuleg og tveggjabinda Vídalín bara týnst. Mörg verk hafa verið gleypt af þessum örlögum – sum aldrei fundist aftur. En þá er betra að rísla við lesturinn eins og gamla og brotna skrá sem þarf að opna því margir sprettir eru þar góðir og forvitnilegir. Oft fer höfundur reyndar með lesandahróið í mislanga söguleiðangra út frá efninu þótt það tengist því að nokkru leyti – en það er oft á tíðum almenn saga og vill Vídalín verða dálítið viðskila í þeim túrum. En hann birtist svo óvænt lesanda til ómældrar ánægju við heiðarbrún enda var nú lestrinum ætlað að kynnast karlinum, hans herradómi.
Lesandinn við gestagluggann hefur ekki sagnfræðilegt ímyndunarafl eða þekkingu til að skera úr um eitt og annað sagnfræðilegt spursmál sem höfundur snýst um mislengi – sem stundum eru nú kannski ekki þung á metunum þegar horft er á heildarsamhengið – eins og til að mynda meint leiðindi sr. Jóns Halldórssonar, prófasts í Hítardal, gagnvart meistara Vídalín.
Vídalín verður allþaulsetinn við gestagluggann og verða sögð nánari tíðindi síðar af örlögum hans. Ljúfur verður leiður ef lengi annars fleti situr á, var sagt í eina tíð. Vonum að svo verði ekki. Nánar verður sagt síðar frá setu Vídalíns við gluggann. Farið ekki langt.
Steindur gluggi í Bessastaðakirkju: Jón Vídalín. Gluggann gerði Finnur Jónsson (1892-1993)
Nýlega gekk hér fram hjá gestaglugganum sjálfur Jón Vídalín. Í tveimur bindum. Annað er ævisaga og hitt ritsafn. Skálholtsútgáfan gaf út.
Ekki á hverjum degi sem slíkir höfðingjar og alþýðuvinir í einum og sama manninum ganga í hús. Á þessu ári er minnst að 300 ár eru liðin frá því að hann andaðist í Biskupsbrekku við Kaldadalsveg 1720 – hann var fæddur 1666. Að því tilefni var sett upp við brekku biskups listaverk af Vídalín sem Húsafellslistamaðurinn Páll gerði. Dulúðugt verk, myndi einhver segja.
Tveggjabinda Vídalín er býsna mikið rit þegar blaðsíðufjöldi er lagður saman, rúmlega fjórtán hundruð síður.
Kápa Vídalíns sveiflaðist fagurlega við gestagluggann, litfögur og prúð. Listamaðurinn sem á heiður af henni er Finnur Jónsson, og finna má frummyndina, steindan glugga í Bessastaðakirkju.
Gestaglugginn les Vídalín hægt og bítandi. Þetta er bók sem almenningur mun síður lesa en sagnfræðingar og áhugafólk um sögu. Þetta verk hrópar strax á hundrað blaðsíðna bók, fallega myndskreytta og vel upp setta og gagnyrta, sem fjallar um Jón Vídalín – „handa íslenzkri alþýðu“ eins og oft var letrað í bækur hér fyrrum með skarpri setunni til ískyggilegrar áréttingar. Slík bók myndi koma honum til þjóðarinnar. Hvað um það. Nú hefur þetta verk hreiðrað um sig á borði við gestagluggann og lestur mjakast – er tekinn í slumpum – og stundum er tekið reyndar á sprett í hornalestri – og meðfram læðist sú hugsun hvort eigi ekki að bíða með lesturinn þegar svimi færir yfir höfuð af hornalestursþeysireiðinni. Slík bið getur reynst hættuleg og tveggjabinda Vídalín bara týnst. Mörg verk hafa verið gleypt af þessum örlögum – sum aldrei fundist aftur. En þá er betra að rísla við lesturinn eins og gamla og brotna skrá sem þarf að opna því margir sprettir eru þar góðir og forvitnilegir. Oft fer höfundur reyndar með lesandahróið í mislanga söguleiðangra út frá efninu þótt það tengist því að nokkru leyti – en það er oft á tíðum almenn saga og vill Vídalín verða dálítið viðskila í þeim túrum. En hann birtist svo óvænt lesanda til ómældrar ánægju við heiðarbrún enda var nú lestrinum ætlað að kynnast karlinum, hans herradómi.
Lesandinn við gestagluggann hefur ekki sagnfræðilegt ímyndunarafl eða þekkingu til að skera úr um eitt og annað sagnfræðilegt spursmál sem höfundur snýst um mislengi – sem stundum eru nú kannski ekki þung á metunum þegar horft er á heildarsamhengið – eins og til að mynda meint leiðindi sr. Jóns Halldórssonar, prófasts í Hítardal, gagnvart meistara Vídalín.
Vídalín verður allþaulsetinn við gestagluggann og verða sögð nánari tíðindi síðar af örlögum hans. Ljúfur verður leiður ef lengi annars fleti situr á, var sagt í eina tíð. Vonum að svo verði ekki. Nánar verður sagt síðar frá setu Vídalíns við gluggann. Farið ekki langt.
Steindur gluggi í Bessastaðakirkju: Jón Vídalín. Gluggann gerði Finnur Jónsson (1892-1993)