Málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur:

Um myndskilning siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi í ljósi sögunnar

„Vel mega kristnir menn hafa vors herra líkneski, sællar Maríu, höfuðfeðranna og postulanna svo sem minnelsi….“ Gissur Einarsson biskup 11. jan. 1547

Þegar horft er til myndverka í íslenskum kirkjum fyrir og eftir að lúthersk kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. var samþykkt á Alþingi 1541, blasa ekki við nein sérstök „siðaskipti“ í myndheimi kirkjunnar. Við fyrstu sýn virðist þar flest við það sama og áður.

Engu að síður hefur umræða um málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur einatt komið upp þegar siðbótina á sextándu öld ber á góma. Þá hefur því verið haldið fram að myndlist hafi ekki aðeins verið Marteini Lúther og fylgjendum hans þyrnir í augum heldur einnig öðrum siðbótarmönnum, einkum þeim Jóhannesi Kalvín og Ulrich Zwingli. Í því samhengi hafa menn bent á myndbrjótana í Wittenberg í ársbyrjun 1522 þegar Lúther dvaldist ófrjáls maður í Wartburgarkastala víðs fjarri vettvangi atburða í Wittenberg. Siðbótarmenn hafi ekki aðeins verið myndbrjótar sem réðust gegn myndum í kirkjum heldur hafi þeir einnig staðið í vegi fyrir þróun myndlistar í löndum sínum. Hér á landi birtist þessi afstaða m.a. í ritverkinu Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld.[1]

Í þessari ritgerð verður fjallað um þetta efni, um málverksmyndir[2], skurðgoð (skúrgoð)[3] og líkneskjur, um myndskilning þýskra siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi. Horft verður til sögulegra heimilda, úttekta, vísitasíugjörða og myndefnis á söfnum. Viðhorf siðbótarmanna til myndlistar verða reifuð og einnig verður efnið skoðað í víðara samhengi, m.a. út frá hugtakinu skurðgoðadýrkun.

Þessar spurningar verða hafðar í huga: Urðu einhverjar breytingar á myndheimi kirkjunnar hér á landi? Þokaði kaþólskt myndefni fyrir lúthersku? Varð myndheimur kirkjuhússins annar og rýrari en áður hafði verið? Varð breyting á ornamenta og instrumenta kirkjuhússins – eða var allt að heita má óbreytt frá því sem verið hafði fyrir 1541?

Viðhorf íslenskra siðbótarmanna til myndlistar

Ein þekktasta frásögnin í sögu siðaskiptanna á Íslandi hermir frá för fyrsta lútherska biskupsins, Gissurar Einarssonar (um 1512-1548), en veturinn 1547-1548 reið hann frá Skálholti í Kaldaðarnes í Flóa til þess að taka niður róðukross sem þar var og fólk hafði sérstakan átrúnað á enda taldi hann sér skylt að berjast gegn tilbeiðslu helgigripa. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar (f. 1548, d. eftir 1634), prests í Hrepphólum og síðar annálaritara í Skálholti, segir svo um þann atburð.

Herra Gissur tók ofan krossinn í Kald(að)arnesi, á hvern þeir höfðu lengi heitið, og margar heitgaungur til hans gengið úr öllum sveitum; hann stóð þar í kórnum allt til daga herra Gísla [Jónssonar, d. 1587, biskup frá 1558], þá var hann hafður heim í Skálholt, og þar sundur klofinn og brenndur; þeir hinir gömlu sóktu þá eptir að ná spónum eður öskunni af honum, og létu innan í knýtilskauta [pyngju]. […] Í þeirri ferð, þá herra Gissur reið frá krossinum og hann hafði hann ofan tekið, kenndi hann sinnar banasóttar; þeir eldri útlögðu það svo að Guð hefndi á honum þess, það hann hefði tekið ofan krossinn. Með það reið hann heim í Skálholt; hvað lengi hann lá veit eg ekki; hann fékk góðan afgáng og vitið og mál allt til dauða […] hann var grafinn í kirkju sem áður er sagt.[4]

Inn í þessa frásögn skýtur Jón Egilsson nokkrum orðum um Þorláksskrín sem varðveitt var í Skálholti. Sú frásögn er þannig:

Hann [þ.e. Gissur Einarsson] setti og í afvikinn stað skrínið, því á mínum dögum þá fóru til hinir gömlu og struku á sér lófann um skrínið hér, og líkneskju, og svo um augun á sér síðan, eða þar sem þeir höfðu nokkuð mein á sér; en ef þeir næði því, að gánga undir, þá skyldi það vera full aflausn þeirra synda, og með öllu hreinir. Þeir höfðu hér prócessíur, að þeir kölluðu, og báru skrínið, en stundum Þorlákshönd, í kríngum kirkjugarðinn, og gekk þá allt fólk eptir með saung og lestrum. – Það verður ekki allt skrifað.[5]

Í frásögn Biskupaannála er ljóst að málið snýst ekki um myndlist heldur um dýrkun gripa sem biskupinn nefnir skurðgoðadýrkun; einnig er ljóst að annálaritaranum er kunnugt um margt fleira en fram kemur í lýsingum hans sem túlka mætti sem tilbeiðslu líkneskja. Í umburðarbréfi Gissurar Einarssonar í ársbyrjun 1547, er fjallað um líkneskjur og skurðgoðadýrkun. Það hefst með þessum orðum:

Bréf H(erra) Gissurar E(inars)s(onar) af líkneskjum [sent um stikktið]. Gissur Einarsson Superintendens Skálholts stikktis óskar sérhverjum góðfúsum lesara og heyrara þessa síns bréfs náðar og friðar af Gudi föður fyrir hans elskulegan son vorn herra Jesum Christum. Sakir þess að ég formerki fyllilega að sá blindleiki og hjátrúa fer enn nú ekki svo mjög minnkandi, sem vera skyldi, að fávíst fólk hér í stikktinu leitar sinnar velferdar hjá svo auðvirðilegum hlutum, sem er hjá einum og öðrum líkneskjum. Sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem að hér er í Kalldaðarnesi, með áheitum og fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti Guðs boðorðum og vorum trúar artikulum. Því Guð segir svo í Annarri bók Moyses 20. kapítula: Eigi skaltu þér skúrgoð [skurgod] gjöra eftir líkingu þeirri er á himni er, á jörðu eður undir jörðunni. Ei skaltu þaug dýrka né vegsama.[6]

Gissur biskup hefur greinilega ekki haft þungar áhyggjur af myndum, hins vegar vex honum dýrkun líkneskja og dauðra hluta í augum.[7] Gegn henni vill hann beita sér en þar var hann ekki einn á báti, baráttan gegn dýrkun mynda setur svip sinn á kirkjulíf rómversk-kaþólskra á meginlandinu við lok miðalda (1300-1525).[8]

Í umburðarbréfi Gissurar biskups kemur fram að hann er enginn öfgamaður í afstöðu til líkneskja eða mynda, sbr. 4. grein bréfsins:

Vel mega kristnir menn hafa vors herra líkneski, sællar Maríu, höfuðfeðranna og postulanna svo sem minnelsi, því þar til stoða þau að áminna oss. Því þá vér lítum mynd krossins eða upprisumynd Kristí þá jafnsnart kallast oss til minnis heilsusamlegur dauði Kristí og hans dýrðarleg upprisa, hverra hluta minning að er mjög nytsamleg og nauðsynleg. Undir þeirri grein segir Gregoríus [9]: það sem lesendum er skriftin það er ólærðum málverksmyndirnar. En þó skylldast kristnir menn ei aðeins af myndanna bókum að læra heldur af Bók Guðs sjálfs sem að eru Ritningarnar.

Rúmlega hálfri öld síðar horfa menn til liðins tíma og gera sér í hugarlund horfna paradís fortíðarinnar. „Aldasöngur“ Bjarna Jónssonar Borgfirðingaskálds er talinn ortur skömmu eftir 1600; þar horfir skáldið til hins liðna með eftirsjá, m.a. í þessu erindi:

Allt skrif og ornament
er nú rifið og brent,
bílæti Kristi brotin
blöð og líkneski rotin,
klukkur kólflausar standa,
kenning samt fögur að vanda.[10]

Fyrsti kafli í myndlistarsögu Björns Th. Björnssonar, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, hefst með tilvísun til „Aldasöngs“ eins og yfirskrift upphafskaflans sýnir, „Allt skrif og ornament…“[11] Höfundur tekur gagnrýnislaust undir hið dramatíska harmljóð um þau skemmdarverk sem lútherskir myndbrjótar og myndfælnir yfirgangsmenn hafi unnið á íslenskri myndmenningu. Í fyrsta kafla ritverksins er að finna fullyrðingar eins og þessa:

Hin forna, kirkjulega myndlist galt mikið afhroð með siðaskiptunum á 16. öld. Gissur Einarsson Skálholtsbiskup hafði trúlega tileinkað sér stefnu lútherskra myndbrotsmanna í Danmörku og Þýzkalandi, svo sem umburðarbréf hans frá 1547 sýnir bezt. Þar aðvarar hann kristið fólk „fyrir sakir sinnar sáluhjálpar og eilífrar velferðar“ að veita dýrkun „feysknum og fyrirfaranlegum líkneskjum“ og með fordæmi sjálfs sín í Kallaðarnesi hvetur hann alla til að hreinsa kirkjur sínar af pápiskum bílætum, höggva þau niður eða brenna. Fram til þess tíma hafði kirkjan verið helzti vettvangur og skjólshús myndlistar í landinu…[12]

Skjóta mætti hér inn þeirri spurningu hvort menn hafi fylgt fordæmi biskupsins í þessu efni? Og þá einnig: Hvert var fordæmi biskupsins þegar vel er að gáð?

Síðar talar höfundur um „myndfælni siðaskiptatímans“. [13] Eru rök fyrir því að siðbótartíminn hér á landi hafi verið „myndfælinn“? Samkvæmt höfundi er nú af sem áður var þegar „fjölmargar kirkjur voru alpentaðar myndum innan, líkneskjur dýrlinga stóðu hvarvetna yfir ölturum, þær áttu málaðar og skornar bríkur, saumuð myndtjöld og jafnvel laus málverk á tré og skinn.” [14] Höfundur gengur út frá því að siðbótin hafi verið myndbrotshreyfing sem hafði ekki auga fyrir myndlist og varaði við henni. Hann segir ennfremur: „Með siðaskiptunum var myndlistinni því ekki aðeins bægt frá fyrri vettvangi sínum, heldur var um leið höggvið á hina aldagömlu hefð trúarlegrar myndtúlkunar í öllum margbreytileika sínum.“[15] Eru óyggjandi rök fyrir því að sú hafi orðið raunin?

Í þessu efni endurspeglar Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld neikvæð viðhorf sem enn voru uppi tveimur áratugum eftir lýðveldistökuna – og eiga sér rætur mun lengra aftur í tímann – um eitt og annað sem átti að sýna hve óheppileg dönsk áhrif voru á íslenska menningu um aldir. Raunar vitnar höfundur ekki til neinna samtímaheimilda annarra en umburðarbréfs Gissurar Einarssonar sem beinist ekki gegn myndlist heldur skurðgoðadýrkun. Gagnrýni hans stendur því völtum fótum. Einnig mætti spyrja hvort myndbrotsmenn hafi verið á ferli Danmörku. Danski kirkjusagnfræðingurinn Martin Schwarz Lausten segir í bók sinni um einn öflugasta guðfræðing siðbótartímans í Danmörku, Niels Hemmingsen:

Í átökum siðbótartímans í Danmörku höfnuðu fyrstu siðbótarmennirnir kaþólskri „mynddýrkun“ eindregið, bæði af guðfræðilegum og efnahagslegum ástæðum en eftir að siðbótin hafði fest sig í sessi virðist sem almennt viðhorf konungs og kirkjuleiðtoga hafi mótast af „afslappaðri“ afstöðu Lúthers. [16]

Hvað sem líður sögutúlkun Björns Th. Björnssonar í áðurnefndu riti hans virðist reyndar lítið hafa breyst frá því sem áður hafði verið: listin var enn undir verndarvæng kirkjunnar, þar voru listamennirnir í öruggu skjóli. Eftirmaður Gissurar Einarssonar í Skálholti, Marteinn Einarsson, „lærði ungur málaralist á Englandi, að því er sagan hermir“[17]; svipuðu máli gegndi síðar um séra Hjalta Þorsteinsson í Vatnsfirði (1665-1754) sem gerði mörg myndverk fyrir kirkjur. [18] Björn Th. Björnsson bendir á séra Grím Skúlason síðar prófast sem dvaldist í Skálholti árin 1560-1578, og var „prestlærður og fágætlega drátthagur“.[19] Ekki virðist hafa verið þrengt að myndlistariðkun hans á sjálfum biskupsstólnum áratug eftir að lúthersk kristni var formlega tekin upp hér á landi. Fleiri kirkjunnar menn, sem unnu að myndlist, nefnir Björn Th. Björnsson, ekki aðeins úr prestastétt heldur eru þar einnig alþýðumálarar sem unnu verk af ýmsu tagi fyrir kirkjur. Þótt sú myndlist sem varðveist hefur í kirkjum beri ekki vitni um mikið ríkidæmi virðist hún ekki fátækari en við mátti búast í samfélagi sextándu aldar.

Búnaður kirknanna vítt og breitt um landið hlaut að endurspegla fábreytt og fátækt samfélag, annað hefði í alla staði verið afar óeðlilegt og kirkju siðbótarmanna síst til framdráttar hefði hún búið við menningarlegan lúxus sem sóknarbörnunum var framandi. Svo geta menn velt vöngum yfir því hvort „Aldasöngur“ Bjarna Jónssonar á Húsafelli sé áreiðanleg viðmiðun um glæsilega fortíð, þar er fátt til sönnunar.

Talsverðar rannsóknir á sögu siðbótarinnar, einkum erlendis, hafa aukið þekkingu á tímabilinu, m.a. á því efni sem hér er til umræðu. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur hafnar söguskoðun Björns Th. Björnssonar í verki sínu Mynd á þili (2005) og setur fram andstæða skoðun með þessum orðum: „Athygli vekur hve áhugasamir hinir fyrstu biskupar og kirkjuhöfðingjar á Íslandi á siðskiptaöld eru um myndlist.“[20] Í því sambandi rekur hún sögu nokkurra þeirra og annarra lærdómsmanna í þessu samhengi. Niðurstaða hennar er eindregin: „Sú algenga staðhæfing að listinni hafi við siðaskipti verið úthýst úr kirkjunum og höggvið á hefð trúarlegra minna fær ekki staðist.“[21]

Þóra Kristjánsdóttir segir einnig: „Vert er að vekja athygli á því að fleiri stórar myndir hafa varðveist frá 16. og 17. öld heldur en frá 18. og 19. öld.“ [22] Það beinir athyglinni að síðari öldum, þar sem spyrja mætti hvernig hlúð hafi verið að myndlist í kirkjum og hvaða öld hafi verið stórtækust í því að vanrækja myndlist kirkjuhúsanna. Um það mál verður ekki fjallað frekar hér.

Gengið á hólm við skurðgoðadýrkun

Telja má afar líklegt að Gissur hafi kynnst viðhorfum siðbótarmanna í Hamborg á námsárum sínum þar, væntanlega 1531–1534, einnig í Wittenberg. Þess ber að minnast að hann hafði ávallt góð sambönd við land siðbótarinnar, Þýskaland, á biskupstíð sinni. Myndlist og tilbeiðsla skurðgoða var sitthvað í augum Gissurar siðbótarmanns í Skálholti. Í umburðarbréfi sínu beinir hann spjótum sínum ekki að myndverkum heldur að tilbeiðslu á mannanna verkum. Þar styðst hann við boðorðin tíu, sbr. þessi orð bréfsins:

Því Guð segir svo í Annarri bók Moyses 20. kapítula: Eigi skaltu þér skúrgoð gjöra eftir líkingu þeirri er á himni er, á jörðu eður undir jörðunni. Ei skaltu þaug dýrka né vegsama. Hér þvert á móti gjöra menn, að þeir bæði dýrka þau og vegsama. Og sem postulinn vottar til Rómverja 1. kap., að þeir umsnúa dýrð óforgengilegs Guðs í forgengilegar líkneskjur, dýrka meir og þjóna skepnunni en skaparanum. Hvar fyrir að Guð hann yfirgefur þvílíka menn í fráleitt sinni […]. Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk upp á Guðs vegna, að fyrir sakir sinnar sáluhjálpar og eilífrar velferðar afláti allir og forðist slíkan hégóma og afskaplega hjátrú að veita svoddan dýrkan og vegsemd nokkurri skepnu, að heldur feysknum og fyrirfaranlegum líkneskjum sem vér skylldumst að veita alleinasta vorum skapara, óaflátanlega hann að heiðra, vegsama í sínum signuðum syni Jesú Kristi.[23]

Gissuri Einarssyni eru myndir ekki þyrnir í augum heldur skúrgoðið, tilbeiðsla forgengilegra mynda eða eins og það er orðað í bréfinu: með „áheitum og fórnfæringum og heitgöngum“. Hér ber að gæta vel að þeirri aðgreiningu sem siðbótarmenn gerðu á list samkvæmt listskilningi þeirra tíma og skurðgoðadýrkun.[24] Hvað hið síðarnefnda varðar var það rækilega fest í lög hér á landi allt frá kristnitökunni árið 1000 að forðast bæri skurðgoðadýrkun. Væntanlega hefur andúðin á slíku trúaratferli, sem tengdist heiðni, ekki átt upp á pallborðið hjá þeim sem vildu teljast kristnir, kaþólskir eða lútherskir.

Um kristniboð þeirra Friðriks biskups og Þorvalds víðförla segir svo í Kristnisögu: „Ekki létu menn skírast af þeira orðum í Vestfirðingafjórðungi, svá at menn viti þat, en í Norðlendingafjórðungi höfnuðu margir menn blótum ok brutu skurðguð sín, en sumir vildu eigi gjalda hoftolla.“[25] Um Stefni Þorgilsson segir í sömu bók: „Ok er hann sá at þat hafði engan framgang, þá tók hann at meiða hof ok hörga, en brjóta skurðguð. Þá söfnuðu heiðnir menn liði, ok komst hann þá á Kjalarnes nauðuliga ok var þar með frændum sínum.“ [26] Í frásögnum af kristnitökunni skortir ekki sögur af því tagi. Gissur er því ekki að slá nýjan streng í trúarmenningu Íslendinga þegar hann setur þetta efni á oddinn.

Af sömu ástæðu varaði Lúther við myndum og styttum af dýrlingum í kirkjum, hann hafði hins vegar ekkert á móti dýrlingum, þeir báru trúnni á Jesúm Krist vitni í lífi og starfi, einkum þeir sem höfðu þolað þjáningar vegna trúarinnar, myndir og styttur kölluðu hins vegar á tilbeiðslu að hans mati. Á heimili Lúthers og Katarínu voru helgir menn, karlar og konur, alla tíð hafðir í hávegum: Guðspjallamennirnir fjórir, heilög Anna, María guðsmóðir, heilagur Rochus, heilagur Kristófer, heilagur Franz frá Assisi o.fl. [27]

Meistari Vídalín hafði Maríu sömuleiðis í hávegum. Þrír húslestrar eru helgaðir Maríuhátíðum í Vídalínspostillu, það er á boðunardag Maríu, hreinsunarhátíð Maríu og vitjunardag Maríu.

Hins vegar var tilbeiðsla guðsmóðurinnar þeim báðum, Lúther og Vídalín, víðs fjarri. Hér er skarpur greinarmunur sem hafa ber í huga.[28]

Altaristafla Lucas Cranachs eldri í Borgarkirkjunni í Wittenberg. Á fjórum myndflötum má m.a. sjá sakramentin kvöldmáltíð og skírn, fyrirgefninguna og krossfestingu Krists. Mynd: Kirkjublaðið.is

Einnig ber að hafa hér í huga að síðari hluti fjórtándu aldar og fimmtánda öldin eru aldir þjáningarinnar í Evrópu, allt frá því að svarti dauði geisaði vítt og breitt um álfuna með mannfelli sem ekkert nálgast sem menn þekktu áður né heldur síðar.[29] Öld þjáningarinnar kallar hinn þjáða, krossfesta Krist fram á sjónarsviðið í myndlist og bókmenntum: hér er hinn upphafni krossfesti Kristur hámiðalda og hinn þjáði, blóði drifni Kristur síðmiðalda. [30]

Siðbótin gerist í framhaldi af þessari tilbeiðslu krossins og hins krossfesta, það á ekki aðeins við um myndir heldur einnig bókmenntir og trúarkenningar. [31]

Aðstæður í Wittenberg á hinum óróasömu útmánuðum 1522, þegar myndbrjótar létu til skarar skríða í Wittenberg, voru afar óheppilegar fyrir siðbótina. Marteinn Lúther var dulbúinn sem Jörg aðalsmaður í Wartburgarkastala í skjóli Friðriks vitra kjörfursta. Þar hafði hann fengið athvarf eftir að ríkisþingið í Worms dæmdi hann útlægan og réttdræpan í apríl árið áður. Á nokkrum mánuðum hafði öfgafullum fylgjendum hans í Wittenberg vaxið fiskur um hrygg og róttækar skoðanir komust á kreik um eitt og annað sem snerti helgihald kirkjunnar og um kirkjurnar og búnað þeirra. Andreas Bodenstein von Karlstadt prófessor við háskólann í Wittenberg og fylgismaður Lúthers, stökk þá inn í hlutverk leiðtogans og greiddi myndbrjótum leiðina inn á vettvang sögunnar. Honum þóttu hlutirnir gerast hægt og sama átti við um marga aðra sem væntu sér mikils af siðbót Lúthers og leiddist nú biðin.[32]

Þegar Lúther bárust tíðindi af myndbrotinu til Wartburgarkastala brást hann fljótt við og rauf heit sitt við Friðrik vitra kjörfursta og fór á eigin ábyrgð til Wittenberg. Þar flutti hann sínar frægu invocavit-prédikanir (kenndar við 1. sunnudag í föstu: lat. invocavit), átta kvöld í röð í Borgarkirkjunni í Wittenberg, þar sem hann tekst m.a. á við myndbrjóta og hrekur viðhorf þeirra (sjá síðar).

Með invocavit-prédikununum tók Lúther skýra afstöðu með myndlist í kirkjum og frá henni hvikaði hann ekki upp frá því. Myndbrjótar hröktust úr borginni og myndstormurinn í lúthersku siðbótarhreyfingunni heyrði sögunni til.

Um siðbótarmenn og myndbrjóta

Siðbótarmennirnir Lúther, Karlstadt, Kalvín og Zwingli höfðu óneitanlega talsverð áhrif á umræðu um listskilning síðari tíma þótt ekki ættu þeir samleið á öllum sviðum.[33] Einnig hefur verið bent á að fullyrðingar um að Kalvín hafi verið mótfallinn myndlist í kirkjum byggist á vanþekkingu og fordómum.[34]

Leiðtogar siðbótarinnar gagnrýndu nýtingu listarinnar í þágu trúarinnar; áhugi þeirra beindist að frelsun listarinnar inn á svið hins veraldlega. Róttækasta gagnrýnin í þessu efni kom frá Andreas Bodenstein von Karlstadt og hans mönnum. Hann gerði grein fyrir máli sínu í ritinu Von Abtuhung der Bylder / Vnd das keyn Betdler vnther den Christen seyn soll, sem kom út 1522, í kjölfar stormasamasta tíma siðbótarinnar í Wittenberg og meðan Lúther var enn í felum í Wartburgarkastala eftir útlegðardóminn í Worms og fylgjendur Karlstadts létu heldur betur til sín taka í Wittenberg.

Karlstadt vísar til myndbanns Gamla testamentisins og teflir fram Orðinu og sakramentunum í staðinn. Hann óttast dýrkun mynda og gengur út frá því að fólk geri almennt ekki greinarmun á „Anbetung“ (dýrkun, tilbeiðslu) og „Verehrung“ (virðingu, aðdáun). Myndir séu því ekki, eins og talið hafði verið, „Biblía hinna leiku“, þar sem átt er við að þær hafi fræðsluhlutverki að gegna og komi m.a. að gagni við upprifjun á sögum úr Biblíunni – því að mynd í kirkju muni ávallt kalla á tilbeiðslu. Karlstadt lítur svo á að til þess að forðast dýrkun mynda eigi ekki að gefa þeim trúarlegt innihald, þær eigi að nálgast fagurfræðilega en ekki trúarlega, á þessu tvennu gerir hann skarpan greinarmun. Myndir í kirkjunni hljóti að verða fórnarlömb þeirrar tilhneigingar mannsins að tilbiðja myndir, fólk nálgist þær ekki sem listaverk þegar þær eru komnar í kirkjuna heldur sem helgigripi. Helgigripir komi til móts við tilhneigingu mannsins til að hlutgera hið heilaga, með því að gera návist guðdómsins sýnilega og snertanlega.

Marteinn Lúther nálgast málið frá allt öðru sjónarhorni. Sjónarmið hans kemur fram í invocavit-prédikunum, sem hann flutti í fyrstu viku á föstu 1522 í Borgarkirkjunni. Þær voru uppgjör við myndbrjóta, einkum er það í 3. og 4. prédikun sem hann fjallar um afstöðu sína til mynda. Hann gerir sér grein fyrir tilhneigingu mannsins til að tilbiðja myndir en hann vill varast boð og bönn. Með myndbanni er komið nýtt „lögmál“ sem hneppi manninn í viðjar; frelsið er Lúther heilagt meginatriði. Hann skilgreinir myndir því með gríska orðinu adiafora, það merkir að þær séu hvorki góðar né vondar, það er frjálst val að hafa myndir í kirkjum eða ekki, með öðrum orðum: myndir skipta ekki máli til eða frá. Þær þarf því hvorki að banna né leyfa. Samkvæmt því sjónarmiði lýtur myndin frelsi kristins manns. Það geti ekki talist synd að eiga mynd Krists í hjarta sínu, og megi maður eiga mynd hans í hjarta sínu hvers vegna ætti það að teljast synd að hafa mynd hans einnig fyrir augum?[35] Myndir eigi sér því sinn stað í lífi mannsins og það sé ekki hlutverk guðfræðinnar að forða honum frá myndum heldur hafi hann þar frjálst val til að velja og hafna. Í þriðju invocavit-prédikuninni segir Lúther og beinir orðum sínum beint til myndbrjótanna:

Því að það stendur skrifað í Annarri Mósebók (20.4): Þú skalt engin bílæti gjöra þér eður nokkra líking eftir því sem er á himnum uppi eða á jörðu niðri eða því sem er í vötnunum undir jörðunni. [Skv. Guðbrandsbiblíu]. Sjáið nú, segja þeir, þetta eru skýr og greinileg orð sem banna myndir! Kæru vinir mínir, ég veit vel að þetta er grunnurinn; en þetta segir okkur lítið. Þegar við skoðum fyrsta boðorðið og heildarmerkingu textans þá er það skilningur og sjónarmið Mósesar að við eigum aðeins að tilbiðja Guð en enga mynd; eins og augljóst er af framhaldi textans, versi 5: „Þú skalt ekki tilbiðja þau [þ.e. bílætin, myndirnar] og eigi þjóna þeim…“ Þess vegna getum við sagt við myndbrjótana: Bannað er að tilbiðja myndir en ekki að búa þær til. Ég get því vel haft myndir og búið þær til en má ekki biðja til þeirra. [36]

Lúther átti langt og náið samstarf við Lúkas Cranach eldri, málara í Wittenberg sem túlkaði guðfræði siðbótarmanna í mynd. Í prédikunum sínum og ritum vísar Lúther iðulega til myndlistarmanna, m.a. til Matthíasar Grünewald og krossfestingarmyndar hans frá 1492 á altarinu í Isenheim (nú í Colmar í Frakklandi), en hún er talin þekktasta krossfestingarmynd allra tíma.[37]

Ulrich Zwingli, siðbótarmaður í Zürich, hafnaði myndbrjótum og viðhorfum þeirra. En hann hefur samt meiri samúð með þeim en hinum sem gera myndina að tilbeiðslugrip. List sem trúarlist er óskapnaður að dómi Zwinglis. Myndverk getur aðeins verið veraldlegs eðlis.[38] Zwingli átti frægt málverkasafn og lék sjálfur á ein sjö hljóðfæri.

Jóhannes Kalvín hefur oft verið sakaður um myndfælni, þann dóm hefur kalvínisminn raunar alla tíð fengið – en ranglega eins og best má sjá af áhrifasögu kalvínismans því að kalvínistar eru sagðir eiga fleiri myndir en aðrir.[39] Kalvín fjallar um efnið í meginriti sínu Institutio christianae religionis [40]. Hér fjallar hann um trúarlegar myndir, m.a. myndir af Guði og Jesú Kristi sem hann hafnar, þær verði ekki réttlættar með neinum rökum, hvorki guðfræðilegum né kennslufræðilegum; trúarlegar myndir verði til vegna öryggisleysis fólksins, það vilji því hafa eins konar leiðtogamynd fyrir augum. En Kalvín vill ekki eiga samleið með myndbrjótum því að hver sá, sem heldur því fram að við megum ekki hafa neinar myndir, er sjálfur haldinn hjátrú því að hann trúir á vald myndanna. Listin er Guðs gjöf, hún sýnir hæfileika mannsins til að teikna og mála það sem augun sjá, þar eru m.a. sögulegar myndir, andlitsmyndir og myndir til skemmtunar og ánægju. Gagnrýni kalvínista á myndir merkir ekki myndfælni heldur frelsi og raunar hvatningu til myndlistar eins og sjá má af myndlistarsögunni. Nægir hér að benda á hollensku meistarana á 17. öld, m.a. Rembrandt.[41] Margir þeirra voru að meira eða minna leyti einnig mótaðir af hinni rómversk-kaþólsku trúarhefð og þar með myndhefð. Það sem sagan hefur varðveitt frá þessum viðburðaríka tíma öðru fremur er árásin á myndir í kirkjunum í Wittenberg, m.a. í Borgarkirkjunni sem varð eins konar tákn siðbótarinnar og prédikunarkirkja Lúthers um áratuga skeið. Merki um myndbrotstímann sjást enn í kirkjunni. En þar er einnig altaristaflan mikla eftir Lúkas Cranach sem Lúther gaf kirkjunni skömmu fyrir andlát sitt. Þar má greina ný skilaboð sem hafa þróast í samvinnu Lúthers og Cranachs eldri.

Kvöldmáltíðarsakramentið er meginþemað en kvöldmáltíðargestirnir eru ekki þeir sem sátu þá máltíð í guðspjöllunum heldur siðbótarmennirnir í Wittenberg. Áherslan liggur á kirkjunni sem samfélagi fólks.[42]

Í þessu samhengi má hafa í huga að innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar höfðu á öllum tímum komið fram viðhorf þar sem myndlist var hafnað í kirkjum. Þar má minna á heilagan Bernhard af Clairvaux (1090-1153), sem gaf út yfirlýsingu árið 1124 um að Benediktínaklaustrið í Cluny, þar sem hann var ábóti, skyldi vera myndlaust, sú stefna gilti frá 1138 fyrir alla Zisterzíensaregluna sem var ein öflugasta umbótaregla miðalda, þar skyldu hvorki styttur, málverk né steindir gluggar vera í kirkjum.[43]

Siðbótarmennirnir sem mótuðu söguna, Lúther, Zwingli og Kalvín reyndu allir að stemma stigu við myndbroti, þeir fóru hins vegar hver sína leið til þess að finna myndinni varanlegan stað í hreyfingunum sem við þá eru kenndar. Endurreisnartíminn hafði í för með sér nýja stöðu myndarinnar sem vísaði fram til nútímans, nýtt fagurfræðilegt innsæi þróaðist eins og sjá má af verkum margra listamanna sem stóðu nærri siðbótinni, þar má nefna Dürer, Cranach, Holbein og Grünewald.[44]

Tilbeiðsla skurðgoða í breiðum skilningi

En hvað er skurðgoðadýrkun, hvers vegna gera siðbótarmenn greinarmun á myndum og skurðgoðum? Hvert er eðli skurðgoðadýrkunar og inntak? Hvers vegna stóðu menn alla tíð, allt frá Móse og spámönnunum, gegn skurðgoðadýrkun? Á síðari hluta tuttugustu aldar beittu menn túlkunarfræði Hans-Georgs Gadamer (1900-2002)[45] og fleiri fræðimanna til þess að setja tilbeiðslu skurðgoðsins í nýtt samhengi.

Einn af mótendum lútherskrar guðfræði á tuttugustu öld, þýsk-bandaríski trúarheimspekingurinn Paul Tillich (1886-1965), fjallar um tilbeiðslu skurðgoða í guðfræði sinni. Fyrir honum beinist grundvallarspurning mannsins að eigin tilvist, hver sé merking hennar og tilgangur. Þetta skiptir manninn meira máli en allt annað (e. ultimate concern). Hins vegar er svo margt annað sem maðurinn þarfnast eða lætur sér annt um án þess að það hafi megingildi í lífi hans (e. preliminary concern). Af nógu er að taka þegar spurt er um gildi sem ekki eru megingildi, þar mætti nefna auð og eignir, frægð og frama, raunar gæti listinn verið afar langur. Skurðgoðadýrkun að hans dómi felst í því að gildi, sem ekki eru megingildi, fá stöðu þess og verða þá jafnvel tilbeðin. Eitthvað sem er í eðli sínu skilyrt af öðru er tekið sem skilyrðislaust, eitthvað sem hefur aðeins takmarkað gildi er hafið upp til þess að það hafi algilda þýðingu og eitthvað sem er endanlegt eða tímabundið og forgengilegt er hafið upp til hins óendanlega og eilífa. Tillich ritar:

Sönn trú snýst um það sem skiptir manninn öllu máli og vegur þyngst í tilvist hans; skurðgoðatrú upphefur tímabundin, forgengileg gildi inn á svið megingildisins sem allt veltur á. Afleiðingin er skurðgoðatrú og henni fylgja „tilvistarleg vonbrigði“ sem þrengja sér inn í dýpstu vitund mannsins um eigin tilvist. Þetta er inntakið í skurðgoðatrú; sem trú nær hún miðlægri stöðu í persónuleika mannsins og tilvist hans allri; hún gerir að miðlægum kjarna eitthvað sem á að meira eða minna leyti heima á jaðrinum; og af þessum sökum leiðir hún til þess að kjarninn glatast og persónuleikinn raskast. Jafnvel skurðgoðatrúin ber svipmót hins upphafna og leynir því afleiðingunum í ákveðinn tíma. En fyrr eða síðar koma þær í ljós.[46]

Tillich bætir við til frekari skýringar: „Maðurinn er knúinn í átt til hinna trúarlegu spurninga vegna vitundar sinnar um að tilheyra veruleika sem er óendanlegur en sem hann getur ekki átt eins og hverja aðra eign.“[47] Tillich bendir á að það sé eðli skurðgoðsins, hvort sem er í áþreifanlegri eða huglægri merkingu, að ná valdi yfir manninum og gera hann sér undirgefinn. Þegar skurðgoðið hefur náð manninum á sitt vald tekur það af honum stjórnina. Maðurinn missir frelsi sitt og sjálfstæði, hann er háður skurðgoðinu sem hefur beygt hann undir vald sitt. Eitt dæmi, sem Tillich var hugleikið, átti sér rætur í samtímanum: dýrkun þjóðernisins á valdatíma nasista.

Í túlkun Tillichs hefur orðið skurðgoð og skurðgoðadýrkun ekki merkingu sem vísar eingöngu til trúariðkunar heldur hefur hann útvíkkað trúarhugtakið allverulega, það hefur hér trúarheimspekilega merkingu og snertir tilvist mannsins í allri dýpt. Túlkun Tillichs ber því að skoða út frá túlkunarfræði þar sem reynt er að yfirfæra skilning fyrri tíðar manna á fyrirbærinu til þeirrar vestrænu menningar sem Tillich þekkti um miðja tuttugustu öld. Með því móti gefur hann orðinu skurðgoðadýrkun nýja, huglæga merkingu sem gerir það gjaldgengt að nýju í umræðu dagsins.

Myndir í íslenskum kirkjum fyrir og eftir 1541

Nú hljóta menn að spyrja um íslenskar kirkjur, hvernig ætli hugsjónir siðbótarmanna hafi birst í búnaði þeirra? Urðu teljandi breytingar á búnaði kirkna, á instrumenta og ornamenta [48], í upphafi og þegar frá leið? Reyndust þær varanlegar eða leitaði aftur í sama far? Eða var allt að mestu óbreytt við nýja kirkjuskipan?

Til þess að grafast fyrir um þetta liggur tvennt beinast við. Annars vegar að skoða myndir á Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðminjasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). Hins vegar hef ég skoðað vísitasíur biskupa úr lútherskri kristni, þar hef ég tekið stikkprufur úr biskupsvísitasíum í Húnavatnssýslu sem skráðar voru skömmu fyrir og eftir 1700. Vísitasíur og myndefni ættu sameiginlega að geta gefið þokkalega vísbendingu um ornamenta og instrumenta kirknanna fyrir og eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. tók gildi.

Nú kynnu menn að spyrja hvernig kirkjur voru búnar þegar siðbótarkristnin hafði fest sig í sessi; upplýsingar af því tagi ættu að geta gefið vísbendingar um þróunina. Varð breyting á kirkjuskipan til þess að breyta miklu um búnað kirkna hér á landi? Hvað um altaristöflur, prédikunarstóla, messuskrúða; hvað um „bílæti Kristi“; hvað um „líkneski rotin“, um „kólflausar klukkur“; hvað um „allt skrif og ornament“? Vísitasíugerðir gefa talsverðar upplýsingar um þessi efni.

Biskupsvísitasíugerðir Hólabiskupa á Norðurlandi vestra frá 1590-1758 hef ég skoðað í þessu skyni. Elst sambærilegra heimilda er Máldagabók Guðbrands Þorlákssonar. Guðbrandur fæddist árið sem lúthersk kirkjuskipan fyrir Skálholtsbiskupsdæmi var lögtekin á Alþingi 1541, varð biskup á Hólum 1571 og gegndi því embætti þar til hann lést 1627. Gert var ráð fyrir að biskupar vísiteruðu kirkjur reglulega.[49] Bókin er að einhverju leyti uppskrift úr eldri registrum og máldögum sem hafa verið til á Hólum. Elstu hlutar bókarinnar voru ritaðir hálfri öld eftir að lúthersk kirkjuskipan var upptekin í Skálholtsbiskupsdæmi en fjórir áratugir voru liðnir frá því hún var tekin upp í Hólabiskupsdæmi.

Í vísitasíugjörðum biskupa eru gripir taldir upp en þeim er sjaldnast lýst, myndefnin eru yfirleitt ekki skilgreind. Hins vegar virðist oftast getið nafns þeirra dýrlinga sem líkneski eru af. Hér var einkum horft til: 1) líkneskja af dýrlingum, 2) mynda yfir altari (tabula, brík, bílæti), 3) messuskrúða, 4) prédikunarstóla ef sérstaklega er getið um myndefni á þeim; og loks 5) einstakra gripa sem áhugaverðir þóttu á þessu stigi málsins, m.a. gripa sem greinilega eiga sér uppruna í kaþólskum sið.

Hvað myndir varðar hef ég horft til sambærilegra hluta frá því fyrir siðbót og eftir. Helst hef ég horft til dýrlingamynda, krossfestingarmynda, myndefnis á altaristöflum og prédikunarstólum, einnig til gripa sem eiga sér fastan sess í kaþólsku helgihaldi en ekki lúthersku. Það sem vekur athygli við lestur vísitasíugjörðanna yfir rúmlega 20 kirkjur á Norðurlandi vestra er að þar er sums staðar getið um paxspjöld sem föst eru í altari kirkjunnar, þar eru greinilegar leifar úr kaþólsku tæpum tveim öldum eftir að lúthersk kirkjuskipan var innleidd á Norðurlandi. Einnig er að finna þar líkneski helguð ýmsum dýrlingum. Þar eru líkneski af Maríu, Pétri postula, Stefáni frumvotti og Mikael erkiengli, einnig er sums staðar getið um eina eða tvær kórbjöllur í kórbita milli kórs og skips en þær vísa til helgihalds í rómversk-kaþólskum kirkjum þegar hringt var við umbreytingu efnanna.

Af máldagabók Guðbrands og elstu vísitasíugjörðum mætti ráða að búnaður kirkna hafi verið fátæklegur og mörg instrumentin, t.d. kirkjuklukkur og graftól, í óviðunandi ástandi. Samkvæmt yngri vísitasíugjörðum virðist ástandið vera talsvert betra. Af elstu vísitasíugjörðum má ef til vill ráða að ástand og búnaður kirkna hafi ekki verið upp á það besta þegar á heildina er litið.

Eitt af því sem styður samhengið í búnaði kirkna fyrir og eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. tók gildi hér á landi eru krossfestingarmyndirnar. Það má m.a. sjá af þeim myndum sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni, þar er enginn munur á myndum fyrir og eftir siðbót. Sama máli gegnir um kvöldmáltíðarmyndir og raunar aðrar myndir sem varðveittar hafa verið.

Í vísitasíum er ekki að finna nein merki um að myndbrjótar hafi komið við sögu, hvað þá að þeir hafi náð fótfestu hér á landi. Umdeilanlegustu verkin í því sambandi, líkneskin, eru enn í mörgum kirkjum.

Myndir frá kaþólskum tíma á söfnum

Ritaðar heimildir gefa dýrmætar upplýsingar um búnað kirkna en ekki er síður fróðlegt að skoða þau verk sem varðveist hafa frá kaþólskum tíma hér á landi, áður en kirkjuskipun Kristjáns III. var innleidd um miðja sextándu öld. Þar hef ég að nokkru skoðað safnkost Þjóðminjasafns Íslands og sömuleiðis Þjóðminjasafnsins í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). Áhugavert í því sambandi er að skoða listbúnað íslenskra kirkna með hliðsjón af umskiptunum um miðja sextándu öld út frá spurningum eins og þessum: 1) Hvenær komu verkin upphaflega í kirkjurnar? 2) Hvenær var þeim komið á safn? 3) Í hvaða listformi er verkið? 4) Hvert er myndefnið? Hér er úr talsverðu efni að moða og verður því aðeins úrtak kynnt í töflum 1. og 2. Efni þeirra gefur engu að síður dágóða innsýn í viðfangsefnið.[50]

Tafla 1.

Nokkrir af höfuðgripum hinnar fornu kirkjulistar í Þjóðminjasafni Íslands.

 Gullsaumur frá Hólum í Hjaltadal (Þjms. 6028).

Stóla, handlín og hlað eða búnaður af höfuðlíni frá því um 1200, hlutar af fornum skrúða sem síðar hafa verið nýttir í yngri messuklæði, m.a. var einn þessara gripa í Flugumýrarkirkju. Munir þessir komu til Þjóðminjasafnsins á árunum 1886 –1910.

Smeltur kross frá Limoges (Þjms. 7032).

Gerður snemma á 13. öld, væntanlega í Limoges í Frakklandi. Var í Tungufellskirkju. Keyptur til Þjóðminjasafnsins 1915.

Altarisklæði frá Draflastöðum (Þjms. 3924).

Eitt tólf íslenskra miðaldaklæða sem varðveist hafa og gerð eru með refilsaumi.[51] Þetta er frá ofanverðum miðöldum. Á því eru níu myndreitir sem sýna Jóhannes skírara og óþekktan biskup, í hásæti situr himnadrottningin María með barnið. Einnig gefur að líta myndir af heilagri Dóróteu, heilagri Katrínu og postulunum Andrési, Páli, Jóhannesi og Pétri. Þá eru tveir óþekktir dýrlingar og tveir óþekktir biskupar sem gætu verið Jón Ögmundsson og Þorlákur Þórhallsson. Teppið var gjöf Sigurðar Jónssonar, bónda á Draflastöðum, til Forngripasafnsins árið 1893.

Mater dolorosa, höggvin í stein (Þjms. 8361).

Úthöggvin Maríumynd í stein frá Síðumúla sem talin er geta verið frá 14. öld. Hafði legið lengi í kirkjugarðinum þar uns steinninn var fluttur til Þjóðminjasafnsins 1921.

Kaleikurinn góði frá Skálholti (Þjms. 2596).

Er frá fyrsta fjórðungi 14. aldar. Kom í Forngripasafnið 1884, einn af dýrgripum miðaldalistarinnar á Þjóðminjasafni Íslands.

Ólafslíkneski úr tré sem komið hefur í kirkjuna á Kálfafellsstað um 1700 (Þjms. 3165).

Þessi áletrun er á líkneskjunni: SANCTUS OLAUS REX NORVEGIÆ. Líkneskjan blasti við kirkjugestum á kórbita kirkjunnar. Árið 1888 hlaut Forngripasafnið þessa gömlu líkneskju að gjöf frá kirkjunni. Bent hefur verið á að hér sé dæmi um „kaþólska“ helgimynd sem sett var upp í lútherskri kirkju hálfri annarri öld eftir að lúthersk kirkjuskipan var lögtekin.[52]

Paxspjald frá Breiðabólstað í Fljótshlíð (Þjms. 2444).

Gert úr rostungstönn, 22,4 cm á hæð og 17,3 cm á breidd, sett saman úr níu einstökum töflum. Kross í miðju. Er frá því um 1400. Kom í Forngripasafnið árið 1883.

Alabastursbrík (Þjms. 3617-3622).

Talin gerð um 1450, líklega í Nottingham. Bríkin sýnir sjö úthöggnar myndir. Verkið kom til Forngripasafnsins 1891.

Á Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet) [53] er að finna talsvert af íslenskum kirkjugripum, ýmist í sýningarsölum safnsins eða í geymslum þess. Við fljótlega athugun virðist sem þorri þessara gripa hafi komið til safnsins á nítjándu öld.[54] Í töflu 2 er hluti þessara kirkjumuna kynntir.

Tafla 2

Nokkrir af höfuðgripum hinnar fornu kirkjulistar í Þjóðminjasafni Dana  (Nationalmuseet)

Altarisskápur úr furu (19014).

Skápurinn er talinn vera frá miðöldum (1275-1300). Hæð hans er 140 cm, en breidd og dýpt í lokuðu ástandi: 55 og 44 cm. Talinn vera frá Múlakirkju (að öllum líkindum í Aðaldal). Í miðju er himnadrottningin María og heldur á Jesúbarninu; Maríumyndin er úr furu, 49 cm á hæð. Allar myndirnar tólf, sem voru innan á hliðarvængjum, eru nú horfnar en þær hafa verið tvær í hverjum fleti næst miðju en ein í hverjum hinna. Skápurinn var sendur safninu frá kirkjunni árið 1859. Það litla sem eftir er af litum virðist vera frá 17. öld.

Messuhökull úr Reykjakirkju (16223).

Hökullinn er afar gamall. Hæð mæld að aftan 115 cm. Gullbrókaði á purpuralitum grunni. Munstrið er afskornar greinar, fugl og liggjandi ljón. Yngri útsaumur (reliefbróderí) er 20 cm á hæð, 41 cm á breidd, grunnurinn er blátt lín, upprunalega einnig með bláu silki en það er að mestu horfið, bróderað með gullþræði, silki og perlum. Efnið er norður-ítalskt frá 14. öld. Reykjahökullinn kom til safnsins 1857 fyrir milligöngu Sigurðar Guðmundssonar málara.

Altarisklæði úr Reykjahlíðarkirkju, refilsaumað (CLV),

Klæðið er frá 15. öld. Á níu flötum klæðisins eru myndir úr Maríusögu: fæðing Maríu, musterisganga Maríu, trúlofun hennar og Jósefs, boðun Maríu, fæðing Jesú, boðun hirðanna, hreinsunin, vitringarnir og flóttinn til Egyptalands. Geir Vídalín biskup lét senda klæðið til safnsins árið 1819.

Altarisklæði (antependium) úr Stafafellskirkju (CXCVIII).

Klæðið er refilsaumað frá 15. öld. Stærðin er 90×104 cm. Ásaumaðar myndir sýna þessi efni: í miðju trónar madonna á hásæti, til hliðanna eru Pétur og Símon, yfir með hástöfum stendur: S[ANCTUS] PETRUS AP[OSTO]L[U]S S[AN]C[T]A MARIA M[ATE]R CHRISTI [XRI] S[ANCTUS] SIMON AP[OSTOLUS]. Sent til safnsins árið 1820 að boði Geirs Vídalíns biskups.

Mýtur (909).

Er úr bláu flaueli með fjórum rósum í gullbrókaði. Kom til safnsins frá dómkirkjunni í Skálholti þar sem hann hafði verið frá því snemma á 16. öld.

Auk kirkjugripa, sem sjá má í sölum safnsins og kynntir eru í töflu 2, eru aðrir í geymslum þess. Árið 1930 lá leið margra þeirra muna, sem gefnir höfðu verið til safnsins, aftur til Íslands í „safngjöfinni miklu“ það ár.[55] Dæmi um þá eru kynnt í töflu 3.

Tafla 3

Kirkjugripir úr „safngjöfinni miklu“.

Flæmskt altari, hlutar. (CXXXVI).

Útskorin stytta af Jóhannesi skírara með lamb í fangi, 70 cm á hæð. Tvö styttubrot með á sama númeri, bæði af dýrlingum. Annað sýnir heilaga Katarínu ásamt keisarahöfði, hæð: 52 cm. Hér eru komnir hlutar af Ögmundarbrík frá Skálholti, ,,de eneste rester kaldtes Ögmundar-brík, antagelig efter den sidste biskop paa Skalholt.“[56] Athugasemdir á skjali safnsins: „Indsendt i 1819 fra handelspladsen Örbak, hvor tavlen var bleven henlagt i et salthus.“ Og: „Afgivet til Island.“[57]

Altarisklæði frá Grund í Eyjafirði (7724).

Talið frá 1440.

Altarisklæði úr Vallakirkju (15313).

Frá 14.-15 öld. Myndir af Maríu guðsmóður, Ólafi helga og fleiri dýrlingum. Sent safninu af prestinum S.C.Thorsteinsson á Völlum, Íslandi 1855.

Biskupsstytta úr linditré frá Reykjakirkju (16142).

Frá 15. öld. Gjöf frá Sigurði Guðmundssyni málara 1857.

Töflurnar sýna vissulega aðeins dæmi um kirkjugripi sem varðveist hafa frá því fyrir miðja sextándu öld, allt til þessa dags, sumir þeirra voru í kirkjunum allt frá miðöldum og fram á nítjándu öld og enn eru miðaldaverk í íslenskum kirkjum þótt flest þeirra séu á söfnum. Það er því varlega til orða tekið hjá Kristjáni Eldjárn: „Allnokkuð hefur þrátt fyrir allt varðveitzt hér af kirkjulegri miðaldalist, sumt gersemar.“[58]

Dæmi um myndbrot á guðfræðilegum og trúarlegum forsendum siðbótartímans liggja ekki fyrir. Hitt liggur fyrir að ævafornir gripir voru óhultir í kirkjum landsins eftir því sem best verður séð og eftir því sem vænta mátti. Aðrir varðveislustaðir en fátæklegar kirkjur vítt og breitt um landið veittu ekki betri tryggingu gegn kulda og trekki, jarðhræringum, eldgosum og öðrum eyðingaröflum tímans sem allir verða að lúta.

Svo mikið er víst að guðfræðilegar og trúarlegar forsendur fyrir myndbroti bárust ekki hingað til lands með siðbót Lúthers. Hafi það gerst væri ástæðna að leita annars staðar en í hugsjónum siðbótarmanna þar sem myndlist var í hávegum höfð.

Dýrir gripir úr góðmálmum

Flutningur dýrra kirkjugripa úr góðmálmum úr landi að skipun Danakonung um og upp úr miðri sextándu öld getur vart talist til myndbrots, þar hlýtur einfaldlega að vera um eignaupptöku eða rán að ræða. Sá þáttur sögunnar fellur því ekki undir viðfangsefni þessarar ritgerðar. Hins vegar varpar sá kapítuli þjóðarsögunnar ljósi á eitt og annað á því tímabili sem hér er til umfjöllunar.

Í kjölfar siðaskiptanna sölsaði Kristján konungur 3. undir sig eignir klaustra og biskupsstóla og hafði hönd í bagga með umsýslu þeirra. Árið 1545 veitti hann mönnum, sem ekki voru tengdir klaustrunum, forstöðu Reynistaðarklausturs og Þingeyraklausturs gegn afgjaldi sér til handa, slíkt hafði ekki þekkst áður.[59] 18. apríl 1541 ritaði Kristján 3. konungur tvo bréf um þetta efni.

Hið fyrra er „Bréf Kristjáns konungs 3. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til lærðra og leikra á Íslandi um „landshjálpina“ eða fjárframlög, bæði af klaustra fé og kirkna og á aðrar lundir, upp í herkostnað konungs á undanförnum árum.“ [60] Hið síðara er „Bréf Kristjáns konungs 3. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til Íslands af hendi konungs.“ [61]

Bæði bréfin eru merkar heimildir um aðgerðir konungs. Mikilvæg heimild um þá sögu er einnig Sigurðarregistur eða „Skrá um eignir Hóladómkirkju og Hólastóls í föstu og lausu eptir Jón biskup Arason frá fallinn.“[62] Ljóst er af þeirri heimild að eignir Hólastóls hafa verið umtalsverðar. [63] Í ritverkinu „Íslenzk silfursmíð“ hefur Þór Magnússon rakið að nokkru hvernig konungur og menn hans sóttust eftir verðmætum gripum, einkum úr silfri og gulli, þar sem þá var að hafa, m.a. úr kirkjum.[64]

Niðurstöður

Sú athugun sem hér hefur verið gerð sýnir að vandfundin eru óyggjandi dæmi um augljósar breytingar á myndheimi kirknanna hér á landi á siðbótaröld og ekki er að sjá heimildir um myndbrotsmenn í hefðbundnum skilningi. Raunar virðist mega ráða af heimildum að ornamenta og instrumenta kirkjuhúsanna hafi ekki tekið miklum breytingum á siðbótaröld. Þar sem ekki var fyrirskipað í kirkjuskipan Kristáns 3. að myndverk hyrfu úr kirkjum voru engar guðfræðilegar eða trúarlegar forsendur til staðar sem hefðu átt að beina leiðtogum siðbótarinnar hér á landi eða í Danmörku inn á vettvang myndbrots. Efnið hefur verið rakið með hliðsjón af þeim átökum sem urðu við upphaf siðbótarinnar í Wittenberg og gerð hefur verið grein fyrir afstöðu Marteins Lúthers og annarra helstu leiðtoga siðbótartímans. Á það hefur einnig verið bent að myndir hafi aldrei verið teknar án gagnrýni inn í helgidóma kristinna manna og ávallt hafi menn verið sér meðvitandi um tilhneigingu til þess að málverksmyndir og líkneski fengju stöðu skurðgoðsins og hefur aldrei verið vel séð í kristinni trúariðkun. Það á einnig við um þær aldir sem þjóðin var rómversk-kaþólsk.

Hitt er svo annað mál hvort umskiptin sem fylgdu nýrri kirkjuskipan hér á landi, m.a. breytingar á stjórnsýslu, afskipti Danakonungs og hans manna af íslenskum málefnum, hafi haft eitt og annað óæskilegt í för með sér, m.a. þjófnaði úr kirkjum sem fór a.m.k. að einhverju leyti fram í skjóli konungsvaldsins. En þá hafa menn væntanlega heldur litið til verðgildis gripanna en annarra gilda sem þau kunna að hafa búið yfir. Í slíkum tilvikum hlýtur málið að vera komið út fyrir markalínur myndbrots í hefðbundnum, trúarlegum skilningi. Enda er málið þá farið að snúast um aðra hluti en siðbótin snerist um, þ.e.a.s. siðbót innan hinnar rómversk-kaþólsku kirkju en það var í upphafi ótvírætt meginmarkmið Marteins Lúthers en ekki stofnun nýrrar kirkjudeildar.

Tilvísanir

[1] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist I.

[2] Um orðið málverksmynd, sjá DI XI, bls. 534.

[3] Um orðið skúrgoð, sjá Orðabók Háskólans: a) Leidarvísir til at lesa hid Nýa Testament med gudrækni og greind, einkum handa ólærdum lesurum. I-II. Rasmus Møller, þýðandi: Gunnlaugur Oddsen o.fl., 1822-1823: Kaupmannahöfn: af hvørju þeir á ny kynnu ad leidast til skúrgoda dyrkunar. b) Skírnir. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags: Útgáfuár: 1827-. Útgáfustaður: Kaupmannahöfn 1827-90, Reykjavík 1890-.: hafi þar verið tignaður grúi skúrgoða, blótað mönnum og dýrum, hafðir prestar, goldin musteristíund [hoftollur] o.s.frv. Skv. Orðabók Háskólans – heimildaskrá. Sjá einnig Halldór Laxness, Eldur í Kaupinhafn, bls. 280 og 388.

[4] Jón Egilsson, Biskupa-annálar, bls. 87- 88.

[5] Jón Egilsson, Biskupa-annálar, bls. 87- 88.

[6]DI XI, bls. 531-535. Umburðarbréf Gissurar biskups um skurðgoð og heilagra manna myndir 11. jan. 1547.

[7] Sjá Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 31-33, um orð og hugtök: lat. imago, lat. imitatio, gr. eikon, gr. eidol.

[8] Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 222: „Die Verehrung wurde zur Anbetung; das Bild wandelte sich vom sichtbaren Zeichen, das es gewesen war, zu einem heiligen Ding.“ Cottin rekur þróunarsögu myndarinnar í vestrænni menningu og skýrir myndbrotsstefnur (Ikonoklasmus) sem upp komu í lok miðalda og myndstorminn (Bildersturm) í siðbótarhreyfingunum á fyrri hluta sextándu aldar; sjá kaflann „Das Bild am Vorabend der Reformation“, bls. 222-250.

[9] Sjá Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 253, nmgr. 10: „Gregor der Groβe, Epistola Sereno episcopo massiliensi, MGH Epistolae II,X, Berlín 1957, bls. 269-272.“ Sama heimild, bls. 225, nmgr. 18: „Gregor der Groβe (590-604): Bilder als Biblia pauperum; Johannes Damascenus (um730); theologische Gleichsetzung von Bild und Schrift, was zur Ikone führt; 2. Konzil von Nizäa (787).“

[10] DI XI, bls. 534.

[11] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 7.

[12] Sama heimild.

[13] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 8.

[14] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 7.

[15] Sama heimild

[16] Martin Schwarz Lausten, Niels Hemmingsen. Storhed og fald, bls. 271: Under reformationskampen i Danmark tog de første reformatorer skarpt afstand fra de katolske „billeddyrkelse“ í kirken, både af teologiske og økonomiske grunde, men eftir reformationens gennemførelse synes den almindelige opfattelse hos kongen og kirkens ledere at ligne Luthers afslappede holdning.

[17] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 7. „… var skrautmálari og skáld“, sbr. Páll Eggert Ólason. Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir. 4. b., bls. 145.

[18] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 9.

[19] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 7.

[20] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 139.

[21] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 143.

[22] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 141.

[23] DI XI, bls. 531.

[24] Sjá um listhugtakið hjá Kristeller, Listkerfi nútímans, bls. 37: „Gríska heitið á list (τεχνη, þ.e. tekne) og latnesk samsvörun þess (ars) tákna ekki það sem við skiljum í nútímamerkingu sem hinar „fögru listir“ heldur voru þau notuð til að lýsa alls konar starfi sem við tengjum nú á dögum handverki eða vísindum.“

[25] Kristni saga, bls. 10.

[26] Kristni saga, bls. 16.

[27] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, bls. 129-130.

[28] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, bls. 165-186.

[29] Barbara Tuchman, Der ferne Spiegel: das dramatische 14. Jahrhundert, bls. 97-125.

[30] Sbr. Nmgr. 8. Um myndir á þessu tímabili sjá einnig: Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 36-49: „Bildgeschichte des Mittelalters.“

[31] Sama heimild.

[32] Thomas Kaufmann, Geschichte der Reformation, bls. 380-384. Martin Brecht, Martin Luther b. 2, bls. 34. Heinz Schilling, Martin Luther, bls. 276 o. áfr. Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 50-52.

[33] „In short, Lutheran art renewed rather than removed church pictures.“ Joseph Leo Koerner, The Reformation of the Image, bls. 13.

[34] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32.

[35] WA 18,82,23-83,15.

[36] WA 10, 26,33-27,8.

[37] Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 55-58.

[38] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32. Sjá nánar um Zwingli: Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 52-55.

[39] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32.

[40] 11. kafla fyrsta bindis.

[41] Clifford S. Ackley, „Rembrandt as Actor and Dramatist. Gesture and Body Language in the Biblical Etchings,“ bls. 17 o.áfr. Sjá einnig: Perlov and Siver, Rembrandt´s Faith, Church and Temple in the Dutch Golden Age (2009).

[42] Sjá m.a. Peter Moser, Lucas Cranach. Sein Leben, seine Welt und seine Bilder og Bonnie Noble, „The Wittenberg Altarpiece and the image of identity“. Sjá nánar um Cranach: Dieter Koepplin: „Cranachs Bilder der Caritas im theologischen und humanistischen Geiste Luthers und Melanchtons,“ bls. 63-79.

[43] Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 47-48.

[44] Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 300-302.

[45] Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002), þýskur heimspekingur, þekktur fyrir brautryðjendaverk sitt um túlkunarfræði: Wahrheit und Methode (1960).

[46] Paul Tillich, Dynamics of Faith, bls. 12; Paul Tillich, Systematic Theology, bls. 16.

[47] Paul Tillich, Dynamics of Faith, bls. 9.

[48] Með „instrumenta“ er átt við gripi til helgiþjónustunnar en „ornamenta“ vísar til skrautgripa í kirkjunni.

[49] Máldagabókin er varðveitt í Þjóðskjalasafni og er þannig merkt: Bps. B III, 2. Máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar um alkirkjur í Hólabiskupsdæmi 1590-1616 m.m.

[50] Einkum stuðst við Sarp, menningarsögulegt gagnasafn á netinu: http://www.sarpur.is/– einnig aðrar heimildir sbr. nmgr. – þegar um verk í Þjóðminjasafni er að ræða en merkingar á Þjóðminjasafninu í Danmörku eru annars vegar safnmerkingar í sýningarsölum en í geymslum er stuðst við spjaldskrármerkingar. Sjá einng: Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstj. Árni Björnsson, bls. 7-8.

[51] „Alls eru nú kunn 12 íslensk miðaldaklæði með refilsaumi“ (Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 32.)

[52] Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 25.

[53] Fyrirgreiðslu og aðstoð á Þjóðminjasafni (Nationalmuseet) í Kaupmannahöfn 6.-8. apríl 2016 þakka ég sér í lagi þeim Anne Pedersen, seniorforsker, Lisbeth Imer og síðast en ekki síst Emilie Gersager, stúdent. Einnig þakka ég Jóni Torfasyni skjalaverði á Þjóðskjalasafni Íslands fyrir mikilvæga aðstoð og prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla, Martin Schwarz Lausten, fyrir góðar ábendingar.

[54] Sjá: Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823.

[55]Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 20.

[56] Um Ögmundarbrík, sjá: Kristján Eldjárn, „Bríkin mikla frá Skálholti“, bls. 182-192.

[57] Nationalmuseum, spjaldskrá Inv. Nr. CXXXVI.

[58] Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 48.

[59] Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I, bls. 35-36.

[60] DI X, bls. 605. „Bréf Kristjáns konungs III. með Kristopher Hvidtfeld til lærðra og leikra á íslandi um „landshjálpina“ eða fjárframlög, bæði af klaustra fé og kirkna og á aðrar lundir, upp í herkostnað konungs á undanförnum árum.“ Skrifað 18. apríl 1541. Sjá ennfremur um þetta efni: Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I.

[61] DI X, bls. 607. „Bréf Kristjáns konungs III. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til Íslands af hendi konungs.“ Sjá einnig: Þór Magnússon Íslenzk silfursmíð I, bls. 36.

[62] DI XI, bls. 848-880.

[63] Sjá nánar um þetta efni: Páll Eggert Ólason, Menn og menntir II. um þá sem hefðu getað gert eða gerðu „bandalag við hina útlendu fulltrúa konungs, sem ekki voru neinir fyrirmyndarmenn, heldur sannnefndir ræningjar sumir hverjir, til þess að kúga fé út úr alþýðu og skipta síðan ránsfengnum“ (bls. 443). Á hinn bóginn fær Gissur biskup góð ummæli höfundar, m.a. í klaustramálinu: „Vann Gizur þar slík afreksverk, að dæmalaust er um nokkurn annan byskup á Norðurlöndum á siðskiptatímanum.“ Sjá um sama efni: Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir IV og sami höf.: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I.

[64] Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I, bls. 34 o.áfr.

Heimildir

Prentaðar heimildir

Ackley, Clifford S., „Rembrandt as Actor and Dramatist. Gesture and Body Language in the Biblical Etchings.“ Ackley, Clifford S., Rembrandt´s Journey. Painter, Draftsman, Etcher. In Collaboration with Ronni Baer, Thomas E. Rassieur and Willian W. Robinson, bls. 17-28 (Boston: MFA Publications 2003).

Belting, Hans, Bild und Kult: Eine Geschichte des Bildes vor dem Zeitalter der Kunst (Leipzig: Koehler und Amelang 1990).

Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld. Drög að sögulegu yfirliti, I. b. (Reykjavík: Helgafell 1964).

Brecht, Martin, Martin Luther. Ordnung und Abgrenzung der Reformation, 2. b. (Stuttgart: Calwer Verlag 1986).

Cottin, Jérôme, Das Wort Gottes im Bild. Eine Herausforderung für die protestantische Theologie. (Göttingen: Vandenhoeck & Ruprecht 2001) [Frumútgáfa: Une théologie protestante de l’image. Genf: Labor et Fides, 1994.]

Freedberg, David, The Power of Images. Studies in the History and Theory of Response. (Chicago: University of Chicago Press 1991).

  1. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn XI,1310-1550. Útg. Páll Eggert Ólason (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1915-1925), bls. 531-535.

Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Útg. Sveinbjörn Rafnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 1984).

Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstj. Árni Björnsson (Reykjavík: Þjóðminjsafn Íslands og Hið íslenzka bókmenntafélag 1994).

Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 2014).

Halldór Laxness, Íslandsklukkan 3. útg. (Reykjavík: Helgafell 1969) [1. útg. 1943-1946].

Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI. Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds. Ritstj. Sigurður Líndal (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 2003).

Hlutavelta tímans: menningararfur á Þjóðminjasafni. Ritstjórar Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2004).

Howes, Graham, The Art of The Sacred. An Introduction to the Aesthetics of Art and Belief. (I. B.Tauris & Co. Ltd: London 2014) [1. útg. 2007].

Jón Egilsson, Biskupa-annálar Jóns Egilssonar með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju, 1. b. (Kaupmannahöfn 1856) [s.n.], bls. 15-136.

Jón Helgason, Kristnisaga Íslands. Frá öndverðu til vorra tíma II. Kristnihald þjóðar vorrar eftir siðaskipti. (Reykjavík: Félagsprentsmiðjan 1927).

Kaufmann, Thomas, Geschichte der Reformation. (Frankfurt am Main og Leipzig: Verlag der Weltreligionen 2009).

Koepplin, Dieter: „Cranachs Bilder der Caritas im theologischen und humanistischen Geiste Luthers und Melanchtons.“ Bodo Brinkmann, Cranach der Ältere (Frankfurt am Main: Städel Museum 2007) bls. 63-79.

Kristeller, Paul Oscar, Listkerfi nútímans, þýðandi: Gunnar Harðarson. (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005).

Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni 3. útg. (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1969) [1. útg. 1962].

Kristján Eldjárn, „Bríkin mikla frá Skálholti.“ Eimreiðin 64 (1958), bls. 182-192.

Kristni saga, Biskupasögur I, Íslenzk fornrit XV. bindi, síðari hluti. Ritstj. Jónas Kristjánsson (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag 2003).

Lausten, Martin Schwarz, Biskop Niels Palladius. Et bidrag til den danske kirkes historie (Kaupmannahöfn: Alfa forlag 1968).

Lausten, Martin Schwarz, Niels Hemmingsen, Storhed og fald (Kaupmannahöfn: Anis forlag 2013).

Luther, Martin, D., Martin Luthers Werke. Kritische Gesamtausgabe [skammstafað WA], Hermann Böhlaus Nachfolger (Weimar 1883 o.áfr. Neuausgabe: Ditzingen: Reclam 1986. Online in heutigem Deutsch.)

Luther, Martin, D., Sendbrief vom Dolmetschen. Íslensk þýðing. „Marteinn Lúther, Sendibréf um þýðingar“ (1530). Anna Sigurbjörg Sigurðardóttir þýddi. Jón á Bægisá, 14: 2010, bls. 90-114.

Mertin, Andreas, „Profan und frei. Der protestantische Bilderstreit hat die Kunst vorangebracht.“ Zeitzeichen 16. jan. 2015, bls. 30-32.

Moser, Peter, Lucas Cranach. Sein Leben, seine Welt und seine Bilder (Bamberg: Babenberg Verlag 2004).

Noble, Bonnie, „The Wittenberg Altarpiece and the image of identity“. Lindberg, Carter, The European reformations. (Oxford: Blackwell 2000).

Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I og II. bd. (Reykjavík: Bókaverzlun Guðmundar Gamalíelssonar 1919 og 1922).

Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir 4. bd. (Reykjavík: Menntamálaráð og Þjóðvinafélag 1944).

Perlove, Shelley and Silver, Larry, Rembrandt´s Faith, Church and Temple in the Dutch Golden Age. (Pennsylvania: Pennsylvania State University Press 2009).

Schauerte, Thomas, Dürer. Das ferne Genie. Eine Biographie. (Stuttgart: Philipp Reclam jun. 2012).

Schilling, Heinz, Martin Luther 2. útg. (München: Verlag C.H.Beck 2013) [1. útg. 2012].

Schwebel, Horst, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts (München: C.H.Beck 2002).

Tillich, Paul, Dynamics of Faith (New York: Harper 1957).

Tillich, Paul, Systematic Theology (London 1968 (combined volume): James Nisbet & Co 1968) [1. útg.: The University of Chicago Press 1951].

Tuchman, Barbara, Der ferne Spiegel: das dramatische 14. Jahrhundert 18. útg. Ulrich Leschak og Malte Friedrich þýddu úr ensku. (München: Deutscher Taschenbuch Verlag 2002) [1. útg. 1978].

Warnke, Martin, Rubens. Leben und Werk (Köln: DuMont-Literatur-und-Kunst-Verlag 2006).

Þór Magnússon, Íslensk silfursmíð I-II (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2013).

Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17.og 18. öld (Reykjavík: JPV; Þjóðminjasafn Íslands 2005).

Óprentaðar heimildir.

Þjóðskjalasafn Íslands.

Bps. B III, 2. Máldagabók Guðbrands Þorlákssonar 1590-1616.

Bps. B III, 8. Vísitasíubók Gísla Þorlákssonar 1659.

Bps. B III, 6 og Bps. B III, 7. Vísitasíubók Gísla Þorlákssonar 1664, 1669, 1674, 1679 og 1683.

Bps. B III, 10. Vísitasíubók Einars Þorsteinssonar 1693.

Bps. B III, 12. Vísitasíubók Björns Þorleifssonar 1700-1709.

Bps. B III, 13. Vísitasíubók Steins Jónssonar 1716 og 1725.

Bps. B VI, 1. Melstaður Anno 1723, sr. Gísli Einarsson eftir ósk og forlagi veleðla og háæruverðugs hr. biskupsins, hr. Steins Jónssonar.

Bps. B III, 14. Vísitasía Björns Magnússonar í umboði Steins Jónssonar 1737.

Bps. B III, 16. Vísitasíubók Halldórs biskups Brynjólfssonar 1749.

Bps. B III, 17. Vísitasíubók Gísla Magnússonar 1758.

English abstract

The title of this thesis is “Pictures, Idols and Statues”. It deals with the question of iconoclasm in Iceland after the introduction of the Lutheran Reformation in the middle of the sixteenth century. The main reason is that important art historians in Iceland have written about the reformation in Iceland as an iconoclastic movement.

First of all the thesis deals with the ideas of the first Lutheran Bishop in Skalholt, Gissur Einarsson, who had studied in Hamburg and had good contacts with the reformation in Germany and Denmark. We find the same view as by Martin Luther and the reformers in Denmark in his attitude: a clear differentiation between images and statues on the one hand and idols on the other. Luther and the reformers welcome all works of art in the churches but they fought against idolatry, which always, from the 10th century onwards, had been rejected in Iceland.

The author also has made some investigation on works of art in the Icelandic National Museum and in the National Museum in Copenhagen where a considerable number of Icelandic ecclesiastical art is preserved. Artifacts in both museums show that all kinds of religious items and themes have been preserved in the churches, all the way from medieval times. Most of them were removed from the churches towards the end of the nineteenth century for the sake of preservation and protection in museums.

The main result of the research shows that the story shows no examples of iconoclasm during or after the time of the reformation in Iceland. No theological or religious reasons should have led the leaders of the reformation in Iceland on the track of iconoclasm. ♦

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur:

Um myndskilning siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi í ljósi sögunnar

„Vel mega kristnir menn hafa vors herra líkneski, sællar Maríu, höfuðfeðranna og postulanna svo sem minnelsi….“ Gissur Einarsson biskup 11. jan. 1547

Þegar horft er til myndverka í íslenskum kirkjum fyrir og eftir að lúthersk kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. var samþykkt á Alþingi 1541, blasa ekki við nein sérstök „siðaskipti“ í myndheimi kirkjunnar. Við fyrstu sýn virðist þar flest við það sama og áður.

Engu að síður hefur umræða um málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur einatt komið upp þegar siðbótina á sextándu öld ber á góma. Þá hefur því verið haldið fram að myndlist hafi ekki aðeins verið Marteini Lúther og fylgjendum hans þyrnir í augum heldur einnig öðrum siðbótarmönnum, einkum þeim Jóhannesi Kalvín og Ulrich Zwingli. Í því samhengi hafa menn bent á myndbrjótana í Wittenberg í ársbyrjun 1522 þegar Lúther dvaldist ófrjáls maður í Wartburgarkastala víðs fjarri vettvangi atburða í Wittenberg. Siðbótarmenn hafi ekki aðeins verið myndbrjótar sem réðust gegn myndum í kirkjum heldur hafi þeir einnig staðið í vegi fyrir þróun myndlistar í löndum sínum. Hér á landi birtist þessi afstaða m.a. í ritverkinu Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld.[1]

Í þessari ritgerð verður fjallað um þetta efni, um málverksmyndir[2], skurðgoð (skúrgoð)[3] og líkneskjur, um myndskilning þýskra siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi. Horft verður til sögulegra heimilda, úttekta, vísitasíugjörða og myndefnis á söfnum. Viðhorf siðbótarmanna til myndlistar verða reifuð og einnig verður efnið skoðað í víðara samhengi, m.a. út frá hugtakinu skurðgoðadýrkun.

Þessar spurningar verða hafðar í huga: Urðu einhverjar breytingar á myndheimi kirkjunnar hér á landi? Þokaði kaþólskt myndefni fyrir lúthersku? Varð myndheimur kirkjuhússins annar og rýrari en áður hafði verið? Varð breyting á ornamenta og instrumenta kirkjuhússins – eða var allt að heita má óbreytt frá því sem verið hafði fyrir 1541?

Viðhorf íslenskra siðbótarmanna til myndlistar

Ein þekktasta frásögnin í sögu siðaskiptanna á Íslandi hermir frá för fyrsta lútherska biskupsins, Gissurar Einarssonar (um 1512-1548), en veturinn 1547-1548 reið hann frá Skálholti í Kaldaðarnes í Flóa til þess að taka niður róðukross sem þar var og fólk hafði sérstakan átrúnað á enda taldi hann sér skylt að berjast gegn tilbeiðslu helgigripa. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar (f. 1548, d. eftir 1634), prests í Hrepphólum og síðar annálaritara í Skálholti, segir svo um þann atburð.

Herra Gissur tók ofan krossinn í Kald(að)arnesi, á hvern þeir höfðu lengi heitið, og margar heitgaungur til hans gengið úr öllum sveitum; hann stóð þar í kórnum allt til daga herra Gísla [Jónssonar, d. 1587, biskup frá 1558], þá var hann hafður heim í Skálholt, og þar sundur klofinn og brenndur; þeir hinir gömlu sóktu þá eptir að ná spónum eður öskunni af honum, og létu innan í knýtilskauta [pyngju]. […] Í þeirri ferð, þá herra Gissur reið frá krossinum og hann hafði hann ofan tekið, kenndi hann sinnar banasóttar; þeir eldri útlögðu það svo að Guð hefndi á honum þess, það hann hefði tekið ofan krossinn. Með það reið hann heim í Skálholt; hvað lengi hann lá veit eg ekki; hann fékk góðan afgáng og vitið og mál allt til dauða […] hann var grafinn í kirkju sem áður er sagt.[4]

Inn í þessa frásögn skýtur Jón Egilsson nokkrum orðum um Þorláksskrín sem varðveitt var í Skálholti. Sú frásögn er þannig:

Hann [þ.e. Gissur Einarsson] setti og í afvikinn stað skrínið, því á mínum dögum þá fóru til hinir gömlu og struku á sér lófann um skrínið hér, og líkneskju, og svo um augun á sér síðan, eða þar sem þeir höfðu nokkuð mein á sér; en ef þeir næði því, að gánga undir, þá skyldi það vera full aflausn þeirra synda, og með öllu hreinir. Þeir höfðu hér prócessíur, að þeir kölluðu, og báru skrínið, en stundum Þorlákshönd, í kríngum kirkjugarðinn, og gekk þá allt fólk eptir með saung og lestrum. – Það verður ekki allt skrifað.[5]

Í frásögn Biskupaannála er ljóst að málið snýst ekki um myndlist heldur um dýrkun gripa sem biskupinn nefnir skurðgoðadýrkun; einnig er ljóst að annálaritaranum er kunnugt um margt fleira en fram kemur í lýsingum hans sem túlka mætti sem tilbeiðslu líkneskja. Í umburðarbréfi Gissurar Einarssonar í ársbyrjun 1547, er fjallað um líkneskjur og skurðgoðadýrkun. Það hefst með þessum orðum:

Bréf H(erra) Gissurar E(inars)s(onar) af líkneskjum [sent um stikktið]. Gissur Einarsson Superintendens Skálholts stikktis óskar sérhverjum góðfúsum lesara og heyrara þessa síns bréfs náðar og friðar af Gudi föður fyrir hans elskulegan son vorn herra Jesum Christum. Sakir þess að ég formerki fyllilega að sá blindleiki og hjátrúa fer enn nú ekki svo mjög minnkandi, sem vera skyldi, að fávíst fólk hér í stikktinu leitar sinnar velferdar hjá svo auðvirðilegum hlutum, sem er hjá einum og öðrum líkneskjum. Sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem að hér er í Kalldaðarnesi, með áheitum og fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti Guðs boðorðum og vorum trúar artikulum. Því Guð segir svo í Annarri bók Moyses 20. kapítula: Eigi skaltu þér skúrgoð [skurgod] gjöra eftir líkingu þeirri er á himni er, á jörðu eður undir jörðunni. Ei skaltu þaug dýrka né vegsama.[6]

Gissur biskup hefur greinilega ekki haft þungar áhyggjur af myndum, hins vegar vex honum dýrkun líkneskja og dauðra hluta í augum.[7] Gegn henni vill hann beita sér en þar var hann ekki einn á báti, baráttan gegn dýrkun mynda setur svip sinn á kirkjulíf rómversk-kaþólskra á meginlandinu við lok miðalda (1300-1525).[8]

Í umburðarbréfi Gissurar biskups kemur fram að hann er enginn öfgamaður í afstöðu til líkneskja eða mynda, sbr. 4. grein bréfsins:

Vel mega kristnir menn hafa vors herra líkneski, sællar Maríu, höfuðfeðranna og postulanna svo sem minnelsi, því þar til stoða þau að áminna oss. Því þá vér lítum mynd krossins eða upprisumynd Kristí þá jafnsnart kallast oss til minnis heilsusamlegur dauði Kristí og hans dýrðarleg upprisa, hverra hluta minning að er mjög nytsamleg og nauðsynleg. Undir þeirri grein segir Gregoríus [9]: það sem lesendum er skriftin það er ólærðum málverksmyndirnar. En þó skylldast kristnir menn ei aðeins af myndanna bókum að læra heldur af Bók Guðs sjálfs sem að eru Ritningarnar.

Rúmlega hálfri öld síðar horfa menn til liðins tíma og gera sér í hugarlund horfna paradís fortíðarinnar. „Aldasöngur“ Bjarna Jónssonar Borgfirðingaskálds er talinn ortur skömmu eftir 1600; þar horfir skáldið til hins liðna með eftirsjá, m.a. í þessu erindi:

Allt skrif og ornament
er nú rifið og brent,
bílæti Kristi brotin
blöð og líkneski rotin,
klukkur kólflausar standa,
kenning samt fögur að vanda.[10]

Fyrsti kafli í myndlistarsögu Björns Th. Björnssonar, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, hefst með tilvísun til „Aldasöngs“ eins og yfirskrift upphafskaflans sýnir, „Allt skrif og ornament…“[11] Höfundur tekur gagnrýnislaust undir hið dramatíska harmljóð um þau skemmdarverk sem lútherskir myndbrjótar og myndfælnir yfirgangsmenn hafi unnið á íslenskri myndmenningu. Í fyrsta kafla ritverksins er að finna fullyrðingar eins og þessa:

Hin forna, kirkjulega myndlist galt mikið afhroð með siðaskiptunum á 16. öld. Gissur Einarsson Skálholtsbiskup hafði trúlega tileinkað sér stefnu lútherskra myndbrotsmanna í Danmörku og Þýzkalandi, svo sem umburðarbréf hans frá 1547 sýnir bezt. Þar aðvarar hann kristið fólk „fyrir sakir sinnar sáluhjálpar og eilífrar velferðar“ að veita dýrkun „feysknum og fyrirfaranlegum líkneskjum“ og með fordæmi sjálfs sín í Kallaðarnesi hvetur hann alla til að hreinsa kirkjur sínar af pápiskum bílætum, höggva þau niður eða brenna. Fram til þess tíma hafði kirkjan verið helzti vettvangur og skjólshús myndlistar í landinu…[12]

Skjóta mætti hér inn þeirri spurningu hvort menn hafi fylgt fordæmi biskupsins í þessu efni? Og þá einnig: Hvert var fordæmi biskupsins þegar vel er að gáð?

Síðar talar höfundur um „myndfælni siðaskiptatímans“. [13] Eru rök fyrir því að siðbótartíminn hér á landi hafi verið „myndfælinn“? Samkvæmt höfundi er nú af sem áður var þegar „fjölmargar kirkjur voru alpentaðar myndum innan, líkneskjur dýrlinga stóðu hvarvetna yfir ölturum, þær áttu málaðar og skornar bríkur, saumuð myndtjöld og jafnvel laus málverk á tré og skinn.” [14] Höfundur gengur út frá því að siðbótin hafi verið myndbrotshreyfing sem hafði ekki auga fyrir myndlist og varaði við henni. Hann segir ennfremur: „Með siðaskiptunum var myndlistinni því ekki aðeins bægt frá fyrri vettvangi sínum, heldur var um leið höggvið á hina aldagömlu hefð trúarlegrar myndtúlkunar í öllum margbreytileika sínum.“[15] Eru óyggjandi rök fyrir því að sú hafi orðið raunin?

Í þessu efni endurspeglar Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld neikvæð viðhorf sem enn voru uppi tveimur áratugum eftir lýðveldistökuna – og eiga sér rætur mun lengra aftur í tímann – um eitt og annað sem átti að sýna hve óheppileg dönsk áhrif voru á íslenska menningu um aldir. Raunar vitnar höfundur ekki til neinna samtímaheimilda annarra en umburðarbréfs Gissurar Einarssonar sem beinist ekki gegn myndlist heldur skurðgoðadýrkun. Gagnrýni hans stendur því völtum fótum. Einnig mætti spyrja hvort myndbrotsmenn hafi verið á ferli Danmörku. Danski kirkjusagnfræðingurinn Martin Schwarz Lausten segir í bók sinni um einn öflugasta guðfræðing siðbótartímans í Danmörku, Niels Hemmingsen:

Í átökum siðbótartímans í Danmörku höfnuðu fyrstu siðbótarmennirnir kaþólskri „mynddýrkun“ eindregið, bæði af guðfræðilegum og efnahagslegum ástæðum en eftir að siðbótin hafði fest sig í sessi virðist sem almennt viðhorf konungs og kirkjuleiðtoga hafi mótast af „afslappaðri“ afstöðu Lúthers. [16]

Hvað sem líður sögutúlkun Björns Th. Björnssonar í áðurnefndu riti hans virðist reyndar lítið hafa breyst frá því sem áður hafði verið: listin var enn undir verndarvæng kirkjunnar, þar voru listamennirnir í öruggu skjóli. Eftirmaður Gissurar Einarssonar í Skálholti, Marteinn Einarsson, „lærði ungur málaralist á Englandi, að því er sagan hermir“[17]; svipuðu máli gegndi síðar um séra Hjalta Þorsteinsson í Vatnsfirði (1665-1754) sem gerði mörg myndverk fyrir kirkjur. [18] Björn Th. Björnsson bendir á séra Grím Skúlason síðar prófast sem dvaldist í Skálholti árin 1560-1578, og var „prestlærður og fágætlega drátthagur“.[19] Ekki virðist hafa verið þrengt að myndlistariðkun hans á sjálfum biskupsstólnum áratug eftir að lúthersk kristni var formlega tekin upp hér á landi. Fleiri kirkjunnar menn, sem unnu að myndlist, nefnir Björn Th. Björnsson, ekki aðeins úr prestastétt heldur eru þar einnig alþýðumálarar sem unnu verk af ýmsu tagi fyrir kirkjur. Þótt sú myndlist sem varðveist hefur í kirkjum beri ekki vitni um mikið ríkidæmi virðist hún ekki fátækari en við mátti búast í samfélagi sextándu aldar.

Búnaður kirknanna vítt og breitt um landið hlaut að endurspegla fábreytt og fátækt samfélag, annað hefði í alla staði verið afar óeðlilegt og kirkju siðbótarmanna síst til framdráttar hefði hún búið við menningarlegan lúxus sem sóknarbörnunum var framandi. Svo geta menn velt vöngum yfir því hvort „Aldasöngur“ Bjarna Jónssonar á Húsafelli sé áreiðanleg viðmiðun um glæsilega fortíð, þar er fátt til sönnunar.

Talsverðar rannsóknir á sögu siðbótarinnar, einkum erlendis, hafa aukið þekkingu á tímabilinu, m.a. á því efni sem hér er til umræðu. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur hafnar söguskoðun Björns Th. Björnssonar í verki sínu Mynd á þili (2005) og setur fram andstæða skoðun með þessum orðum: „Athygli vekur hve áhugasamir hinir fyrstu biskupar og kirkjuhöfðingjar á Íslandi á siðskiptaöld eru um myndlist.“[20] Í því sambandi rekur hún sögu nokkurra þeirra og annarra lærdómsmanna í þessu samhengi. Niðurstaða hennar er eindregin: „Sú algenga staðhæfing að listinni hafi við siðaskipti verið úthýst úr kirkjunum og höggvið á hefð trúarlegra minna fær ekki staðist.“[21]

Þóra Kristjánsdóttir segir einnig: „Vert er að vekja athygli á því að fleiri stórar myndir hafa varðveist frá 16. og 17. öld heldur en frá 18. og 19. öld.“ [22] Það beinir athyglinni að síðari öldum, þar sem spyrja mætti hvernig hlúð hafi verið að myndlist í kirkjum og hvaða öld hafi verið stórtækust í því að vanrækja myndlist kirkjuhúsanna. Um það mál verður ekki fjallað frekar hér.

Gengið á hólm við skurðgoðadýrkun

Telja má afar líklegt að Gissur hafi kynnst viðhorfum siðbótarmanna í Hamborg á námsárum sínum þar, væntanlega 1531–1534, einnig í Wittenberg. Þess ber að minnast að hann hafði ávallt góð sambönd við land siðbótarinnar, Þýskaland, á biskupstíð sinni. Myndlist og tilbeiðsla skurðgoða var sitthvað í augum Gissurar siðbótarmanns í Skálholti. Í umburðarbréfi sínu beinir hann spjótum sínum ekki að myndverkum heldur að tilbeiðslu á mannanna verkum. Þar styðst hann við boðorðin tíu, sbr. þessi orð bréfsins:

Því Guð segir svo í Annarri bók Moyses 20. kapítula: Eigi skaltu þér skúrgoð gjöra eftir líkingu þeirri er á himni er, á jörðu eður undir jörðunni. Ei skaltu þaug dýrka né vegsama. Hér þvert á móti gjöra menn, að þeir bæði dýrka þau og vegsama. Og sem postulinn vottar til Rómverja 1. kap., að þeir umsnúa dýrð óforgengilegs Guðs í forgengilegar líkneskjur, dýrka meir og þjóna skepnunni en skaparanum. Hvar fyrir að Guð hann yfirgefur þvílíka menn í fráleitt sinni […]. Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk upp á Guðs vegna, að fyrir sakir sinnar sáluhjálpar og eilífrar velferðar afláti allir og forðist slíkan hégóma og afskaplega hjátrú að veita svoddan dýrkan og vegsemd nokkurri skepnu, að heldur feysknum og fyrirfaranlegum líkneskjum sem vér skylldumst að veita alleinasta vorum skapara, óaflátanlega hann að heiðra, vegsama í sínum signuðum syni Jesú Kristi.[23]

Gissuri Einarssyni eru myndir ekki þyrnir í augum heldur skúrgoðið, tilbeiðsla forgengilegra mynda eða eins og það er orðað í bréfinu: með „áheitum og fórnfæringum og heitgöngum“. Hér ber að gæta vel að þeirri aðgreiningu sem siðbótarmenn gerðu á list samkvæmt listskilningi þeirra tíma og skurðgoðadýrkun.[24] Hvað hið síðarnefnda varðar var það rækilega fest í lög hér á landi allt frá kristnitökunni árið 1000 að forðast bæri skurðgoðadýrkun. Væntanlega hefur andúðin á slíku trúaratferli, sem tengdist heiðni, ekki átt upp á pallborðið hjá þeim sem vildu teljast kristnir, kaþólskir eða lútherskir.

Um kristniboð þeirra Friðriks biskups og Þorvalds víðförla segir svo í Kristnisögu: „Ekki létu menn skírast af þeira orðum í Vestfirðingafjórðungi, svá at menn viti þat, en í Norðlendingafjórðungi höfnuðu margir menn blótum ok brutu skurðguð sín, en sumir vildu eigi gjalda hoftolla.“[25] Um Stefni Þorgilsson segir í sömu bók: „Ok er hann sá at þat hafði engan framgang, þá tók hann at meiða hof ok hörga, en brjóta skurðguð. Þá söfnuðu heiðnir menn liði, ok komst hann þá á Kjalarnes nauðuliga ok var þar með frændum sínum.“ [26] Í frásögnum af kristnitökunni skortir ekki sögur af því tagi. Gissur er því ekki að slá nýjan streng í trúarmenningu Íslendinga þegar hann setur þetta efni á oddinn.

Af sömu ástæðu varaði Lúther við myndum og styttum af dýrlingum í kirkjum, hann hafði hins vegar ekkert á móti dýrlingum, þeir báru trúnni á Jesúm Krist vitni í lífi og starfi, einkum þeir sem höfðu þolað þjáningar vegna trúarinnar, myndir og styttur kölluðu hins vegar á tilbeiðslu að hans mati. Á heimili Lúthers og Katarínu voru helgir menn, karlar og konur, alla tíð hafðir í hávegum: Guðspjallamennirnir fjórir, heilög Anna, María guðsmóðir, heilagur Rochus, heilagur Kristófer, heilagur Franz frá Assisi o.fl. [27]

Meistari Vídalín hafði Maríu sömuleiðis í hávegum. Þrír húslestrar eru helgaðir Maríuhátíðum í Vídalínspostillu, það er á boðunardag Maríu, hreinsunarhátíð Maríu og vitjunardag Maríu.

Hins vegar var tilbeiðsla guðsmóðurinnar þeim báðum, Lúther og Vídalín, víðs fjarri. Hér er skarpur greinarmunur sem hafa ber í huga.[28]

Altaristafla Lucas Cranachs eldri í Borgarkirkjunni í Wittenberg. Á fjórum myndflötum má m.a. sjá sakramentin kvöldmáltíð og skírn, fyrirgefninguna og krossfestingu Krists. Mynd: Kirkjublaðið.is

Einnig ber að hafa hér í huga að síðari hluti fjórtándu aldar og fimmtánda öldin eru aldir þjáningarinnar í Evrópu, allt frá því að svarti dauði geisaði vítt og breitt um álfuna með mannfelli sem ekkert nálgast sem menn þekktu áður né heldur síðar.[29] Öld þjáningarinnar kallar hinn þjáða, krossfesta Krist fram á sjónarsviðið í myndlist og bókmenntum: hér er hinn upphafni krossfesti Kristur hámiðalda og hinn þjáði, blóði drifni Kristur síðmiðalda. [30]

Siðbótin gerist í framhaldi af þessari tilbeiðslu krossins og hins krossfesta, það á ekki aðeins við um myndir heldur einnig bókmenntir og trúarkenningar. [31]

Aðstæður í Wittenberg á hinum óróasömu útmánuðum 1522, þegar myndbrjótar létu til skarar skríða í Wittenberg, voru afar óheppilegar fyrir siðbótina. Marteinn Lúther var dulbúinn sem Jörg aðalsmaður í Wartburgarkastala í skjóli Friðriks vitra kjörfursta. Þar hafði hann fengið athvarf eftir að ríkisþingið í Worms dæmdi hann útlægan og réttdræpan í apríl árið áður. Á nokkrum mánuðum hafði öfgafullum fylgjendum hans í Wittenberg vaxið fiskur um hrygg og róttækar skoðanir komust á kreik um eitt og annað sem snerti helgihald kirkjunnar og um kirkjurnar og búnað þeirra. Andreas Bodenstein von Karlstadt prófessor við háskólann í Wittenberg og fylgismaður Lúthers, stökk þá inn í hlutverk leiðtogans og greiddi myndbrjótum leiðina inn á vettvang sögunnar. Honum þóttu hlutirnir gerast hægt og sama átti við um marga aðra sem væntu sér mikils af siðbót Lúthers og leiddist nú biðin.[32]

Þegar Lúther bárust tíðindi af myndbrotinu til Wartburgarkastala brást hann fljótt við og rauf heit sitt við Friðrik vitra kjörfursta og fór á eigin ábyrgð til Wittenberg. Þar flutti hann sínar frægu invocavit-prédikanir (kenndar við 1. sunnudag í föstu: lat. invocavit), átta kvöld í röð í Borgarkirkjunni í Wittenberg, þar sem hann tekst m.a. á við myndbrjóta og hrekur viðhorf þeirra (sjá síðar).

Með invocavit-prédikununum tók Lúther skýra afstöðu með myndlist í kirkjum og frá henni hvikaði hann ekki upp frá því. Myndbrjótar hröktust úr borginni og myndstormurinn í lúthersku siðbótarhreyfingunni heyrði sögunni til.

Um siðbótarmenn og myndbrjóta

Siðbótarmennirnir Lúther, Karlstadt, Kalvín og Zwingli höfðu óneitanlega talsverð áhrif á umræðu um listskilning síðari tíma þótt ekki ættu þeir samleið á öllum sviðum.[33] Einnig hefur verið bent á að fullyrðingar um að Kalvín hafi verið mótfallinn myndlist í kirkjum byggist á vanþekkingu og fordómum.[34]

Leiðtogar siðbótarinnar gagnrýndu nýtingu listarinnar í þágu trúarinnar; áhugi þeirra beindist að frelsun listarinnar inn á svið hins veraldlega. Róttækasta gagnrýnin í þessu efni kom frá Andreas Bodenstein von Karlstadt og hans mönnum. Hann gerði grein fyrir máli sínu í ritinu Von Abtuhung der Bylder / Vnd das keyn Betdler vnther den Christen seyn soll, sem kom út 1522, í kjölfar stormasamasta tíma siðbótarinnar í Wittenberg og meðan Lúther var enn í felum í Wartburgarkastala eftir útlegðardóminn í Worms og fylgjendur Karlstadts létu heldur betur til sín taka í Wittenberg.

Karlstadt vísar til myndbanns Gamla testamentisins og teflir fram Orðinu og sakramentunum í staðinn. Hann óttast dýrkun mynda og gengur út frá því að fólk geri almennt ekki greinarmun á „Anbetung“ (dýrkun, tilbeiðslu) og „Verehrung“ (virðingu, aðdáun). Myndir séu því ekki, eins og talið hafði verið, „Biblía hinna leiku“, þar sem átt er við að þær hafi fræðsluhlutverki að gegna og komi m.a. að gagni við upprifjun á sögum úr Biblíunni – því að mynd í kirkju muni ávallt kalla á tilbeiðslu. Karlstadt lítur svo á að til þess að forðast dýrkun mynda eigi ekki að gefa þeim trúarlegt innihald, þær eigi að nálgast fagurfræðilega en ekki trúarlega, á þessu tvennu gerir hann skarpan greinarmun. Myndir í kirkjunni hljóti að verða fórnarlömb þeirrar tilhneigingar mannsins að tilbiðja myndir, fólk nálgist þær ekki sem listaverk þegar þær eru komnar í kirkjuna heldur sem helgigripi. Helgigripir komi til móts við tilhneigingu mannsins til að hlutgera hið heilaga, með því að gera návist guðdómsins sýnilega og snertanlega.

Marteinn Lúther nálgast málið frá allt öðru sjónarhorni. Sjónarmið hans kemur fram í invocavit-prédikunum, sem hann flutti í fyrstu viku á föstu 1522 í Borgarkirkjunni. Þær voru uppgjör við myndbrjóta, einkum er það í 3. og 4. prédikun sem hann fjallar um afstöðu sína til mynda. Hann gerir sér grein fyrir tilhneigingu mannsins til að tilbiðja myndir en hann vill varast boð og bönn. Með myndbanni er komið nýtt „lögmál“ sem hneppi manninn í viðjar; frelsið er Lúther heilagt meginatriði. Hann skilgreinir myndir því með gríska orðinu adiafora, það merkir að þær séu hvorki góðar né vondar, það er frjálst val að hafa myndir í kirkjum eða ekki, með öðrum orðum: myndir skipta ekki máli til eða frá. Þær þarf því hvorki að banna né leyfa. Samkvæmt því sjónarmiði lýtur myndin frelsi kristins manns. Það geti ekki talist synd að eiga mynd Krists í hjarta sínu, og megi maður eiga mynd hans í hjarta sínu hvers vegna ætti það að teljast synd að hafa mynd hans einnig fyrir augum?[35] Myndir eigi sér því sinn stað í lífi mannsins og það sé ekki hlutverk guðfræðinnar að forða honum frá myndum heldur hafi hann þar frjálst val til að velja og hafna. Í þriðju invocavit-prédikuninni segir Lúther og beinir orðum sínum beint til myndbrjótanna:

Því að það stendur skrifað í Annarri Mósebók (20.4): Þú skalt engin bílæti gjöra þér eður nokkra líking eftir því sem er á himnum uppi eða á jörðu niðri eða því sem er í vötnunum undir jörðunni. [Skv. Guðbrandsbiblíu]. Sjáið nú, segja þeir, þetta eru skýr og greinileg orð sem banna myndir! Kæru vinir mínir, ég veit vel að þetta er grunnurinn; en þetta segir okkur lítið. Þegar við skoðum fyrsta boðorðið og heildarmerkingu textans þá er það skilningur og sjónarmið Mósesar að við eigum aðeins að tilbiðja Guð en enga mynd; eins og augljóst er af framhaldi textans, versi 5: „Þú skalt ekki tilbiðja þau [þ.e. bílætin, myndirnar] og eigi þjóna þeim…“ Þess vegna getum við sagt við myndbrjótana: Bannað er að tilbiðja myndir en ekki að búa þær til. Ég get því vel haft myndir og búið þær til en má ekki biðja til þeirra. [36]

Lúther átti langt og náið samstarf við Lúkas Cranach eldri, málara í Wittenberg sem túlkaði guðfræði siðbótarmanna í mynd. Í prédikunum sínum og ritum vísar Lúther iðulega til myndlistarmanna, m.a. til Matthíasar Grünewald og krossfestingarmyndar hans frá 1492 á altarinu í Isenheim (nú í Colmar í Frakklandi), en hún er talin þekktasta krossfestingarmynd allra tíma.[37]

Ulrich Zwingli, siðbótarmaður í Zürich, hafnaði myndbrjótum og viðhorfum þeirra. En hann hefur samt meiri samúð með þeim en hinum sem gera myndina að tilbeiðslugrip. List sem trúarlist er óskapnaður að dómi Zwinglis. Myndverk getur aðeins verið veraldlegs eðlis.[38] Zwingli átti frægt málverkasafn og lék sjálfur á ein sjö hljóðfæri.

Jóhannes Kalvín hefur oft verið sakaður um myndfælni, þann dóm hefur kalvínisminn raunar alla tíð fengið – en ranglega eins og best má sjá af áhrifasögu kalvínismans því að kalvínistar eru sagðir eiga fleiri myndir en aðrir.[39] Kalvín fjallar um efnið í meginriti sínu Institutio christianae religionis [40]. Hér fjallar hann um trúarlegar myndir, m.a. myndir af Guði og Jesú Kristi sem hann hafnar, þær verði ekki réttlættar með neinum rökum, hvorki guðfræðilegum né kennslufræðilegum; trúarlegar myndir verði til vegna öryggisleysis fólksins, það vilji því hafa eins konar leiðtogamynd fyrir augum. En Kalvín vill ekki eiga samleið með myndbrjótum því að hver sá, sem heldur því fram að við megum ekki hafa neinar myndir, er sjálfur haldinn hjátrú því að hann trúir á vald myndanna. Listin er Guðs gjöf, hún sýnir hæfileika mannsins til að teikna og mála það sem augun sjá, þar eru m.a. sögulegar myndir, andlitsmyndir og myndir til skemmtunar og ánægju. Gagnrýni kalvínista á myndir merkir ekki myndfælni heldur frelsi og raunar hvatningu til myndlistar eins og sjá má af myndlistarsögunni. Nægir hér að benda á hollensku meistarana á 17. öld, m.a. Rembrandt.[41] Margir þeirra voru að meira eða minna leyti einnig mótaðir af hinni rómversk-kaþólsku trúarhefð og þar með myndhefð. Það sem sagan hefur varðveitt frá þessum viðburðaríka tíma öðru fremur er árásin á myndir í kirkjunum í Wittenberg, m.a. í Borgarkirkjunni sem varð eins konar tákn siðbótarinnar og prédikunarkirkja Lúthers um áratuga skeið. Merki um myndbrotstímann sjást enn í kirkjunni. En þar er einnig altaristaflan mikla eftir Lúkas Cranach sem Lúther gaf kirkjunni skömmu fyrir andlát sitt. Þar má greina ný skilaboð sem hafa þróast í samvinnu Lúthers og Cranachs eldri.

Kvöldmáltíðarsakramentið er meginþemað en kvöldmáltíðargestirnir eru ekki þeir sem sátu þá máltíð í guðspjöllunum heldur siðbótarmennirnir í Wittenberg. Áherslan liggur á kirkjunni sem samfélagi fólks.[42]

Í þessu samhengi má hafa í huga að innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar höfðu á öllum tímum komið fram viðhorf þar sem myndlist var hafnað í kirkjum. Þar má minna á heilagan Bernhard af Clairvaux (1090-1153), sem gaf út yfirlýsingu árið 1124 um að Benediktínaklaustrið í Cluny, þar sem hann var ábóti, skyldi vera myndlaust, sú stefna gilti frá 1138 fyrir alla Zisterzíensaregluna sem var ein öflugasta umbótaregla miðalda, þar skyldu hvorki styttur, málverk né steindir gluggar vera í kirkjum.[43]

Siðbótarmennirnir sem mótuðu söguna, Lúther, Zwingli og Kalvín reyndu allir að stemma stigu við myndbroti, þeir fóru hins vegar hver sína leið til þess að finna myndinni varanlegan stað í hreyfingunum sem við þá eru kenndar. Endurreisnartíminn hafði í för með sér nýja stöðu myndarinnar sem vísaði fram til nútímans, nýtt fagurfræðilegt innsæi þróaðist eins og sjá má af verkum margra listamanna sem stóðu nærri siðbótinni, þar má nefna Dürer, Cranach, Holbein og Grünewald.[44]

Tilbeiðsla skurðgoða í breiðum skilningi

En hvað er skurðgoðadýrkun, hvers vegna gera siðbótarmenn greinarmun á myndum og skurðgoðum? Hvert er eðli skurðgoðadýrkunar og inntak? Hvers vegna stóðu menn alla tíð, allt frá Móse og spámönnunum, gegn skurðgoðadýrkun? Á síðari hluta tuttugustu aldar beittu menn túlkunarfræði Hans-Georgs Gadamer (1900-2002)[45] og fleiri fræðimanna til þess að setja tilbeiðslu skurðgoðsins í nýtt samhengi.

Einn af mótendum lútherskrar guðfræði á tuttugustu öld, þýsk-bandaríski trúarheimspekingurinn Paul Tillich (1886-1965), fjallar um tilbeiðslu skurðgoða í guðfræði sinni. Fyrir honum beinist grundvallarspurning mannsins að eigin tilvist, hver sé merking hennar og tilgangur. Þetta skiptir manninn meira máli en allt annað (e. ultimate concern). Hins vegar er svo margt annað sem maðurinn þarfnast eða lætur sér annt um án þess að það hafi megingildi í lífi hans (e. preliminary concern). Af nógu er að taka þegar spurt er um gildi sem ekki eru megingildi, þar mætti nefna auð og eignir, frægð og frama, raunar gæti listinn verið afar langur. Skurðgoðadýrkun að hans dómi felst í því að gildi, sem ekki eru megingildi, fá stöðu þess og verða þá jafnvel tilbeðin. Eitthvað sem er í eðli sínu skilyrt af öðru er tekið sem skilyrðislaust, eitthvað sem hefur aðeins takmarkað gildi er hafið upp til þess að það hafi algilda þýðingu og eitthvað sem er endanlegt eða tímabundið og forgengilegt er hafið upp til hins óendanlega og eilífa. Tillich ritar:

Sönn trú snýst um það sem skiptir manninn öllu máli og vegur þyngst í tilvist hans; skurðgoðatrú upphefur tímabundin, forgengileg gildi inn á svið megingildisins sem allt veltur á. Afleiðingin er skurðgoðatrú og henni fylgja „tilvistarleg vonbrigði“ sem þrengja sér inn í dýpstu vitund mannsins um eigin tilvist. Þetta er inntakið í skurðgoðatrú; sem trú nær hún miðlægri stöðu í persónuleika mannsins og tilvist hans allri; hún gerir að miðlægum kjarna eitthvað sem á að meira eða minna leyti heima á jaðrinum; og af þessum sökum leiðir hún til þess að kjarninn glatast og persónuleikinn raskast. Jafnvel skurðgoðatrúin ber svipmót hins upphafna og leynir því afleiðingunum í ákveðinn tíma. En fyrr eða síðar koma þær í ljós.[46]

Tillich bætir við til frekari skýringar: „Maðurinn er knúinn í átt til hinna trúarlegu spurninga vegna vitundar sinnar um að tilheyra veruleika sem er óendanlegur en sem hann getur ekki átt eins og hverja aðra eign.“[47] Tillich bendir á að það sé eðli skurðgoðsins, hvort sem er í áþreifanlegri eða huglægri merkingu, að ná valdi yfir manninum og gera hann sér undirgefinn. Þegar skurðgoðið hefur náð manninum á sitt vald tekur það af honum stjórnina. Maðurinn missir frelsi sitt og sjálfstæði, hann er háður skurðgoðinu sem hefur beygt hann undir vald sitt. Eitt dæmi, sem Tillich var hugleikið, átti sér rætur í samtímanum: dýrkun þjóðernisins á valdatíma nasista.

Í túlkun Tillichs hefur orðið skurðgoð og skurðgoðadýrkun ekki merkingu sem vísar eingöngu til trúariðkunar heldur hefur hann útvíkkað trúarhugtakið allverulega, það hefur hér trúarheimspekilega merkingu og snertir tilvist mannsins í allri dýpt. Túlkun Tillichs ber því að skoða út frá túlkunarfræði þar sem reynt er að yfirfæra skilning fyrri tíðar manna á fyrirbærinu til þeirrar vestrænu menningar sem Tillich þekkti um miðja tuttugustu öld. Með því móti gefur hann orðinu skurðgoðadýrkun nýja, huglæga merkingu sem gerir það gjaldgengt að nýju í umræðu dagsins.

Myndir í íslenskum kirkjum fyrir og eftir 1541

Nú hljóta menn að spyrja um íslenskar kirkjur, hvernig ætli hugsjónir siðbótarmanna hafi birst í búnaði þeirra? Urðu teljandi breytingar á búnaði kirkna, á instrumenta og ornamenta [48], í upphafi og þegar frá leið? Reyndust þær varanlegar eða leitaði aftur í sama far? Eða var allt að mestu óbreytt við nýja kirkjuskipan?

Til þess að grafast fyrir um þetta liggur tvennt beinast við. Annars vegar að skoða myndir á Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðminjasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). Hins vegar hef ég skoðað vísitasíur biskupa úr lútherskri kristni, þar hef ég tekið stikkprufur úr biskupsvísitasíum í Húnavatnssýslu sem skráðar voru skömmu fyrir og eftir 1700. Vísitasíur og myndefni ættu sameiginlega að geta gefið þokkalega vísbendingu um ornamenta og instrumenta kirknanna fyrir og eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. tók gildi.

Nú kynnu menn að spyrja hvernig kirkjur voru búnar þegar siðbótarkristnin hafði fest sig í sessi; upplýsingar af því tagi ættu að geta gefið vísbendingar um þróunina. Varð breyting á kirkjuskipan til þess að breyta miklu um búnað kirkna hér á landi? Hvað um altaristöflur, prédikunarstóla, messuskrúða; hvað um „bílæti Kristi“; hvað um „líkneski rotin“, um „kólflausar klukkur“; hvað um „allt skrif og ornament“? Vísitasíugerðir gefa talsverðar upplýsingar um þessi efni.

Biskupsvísitasíugerðir Hólabiskupa á Norðurlandi vestra frá 1590-1758 hef ég skoðað í þessu skyni. Elst sambærilegra heimilda er Máldagabók Guðbrands Þorlákssonar. Guðbrandur fæddist árið sem lúthersk kirkjuskipan fyrir Skálholtsbiskupsdæmi var lögtekin á Alþingi 1541, varð biskup á Hólum 1571 og gegndi því embætti þar til hann lést 1627. Gert var ráð fyrir að biskupar vísiteruðu kirkjur reglulega.[49] Bókin er að einhverju leyti uppskrift úr eldri registrum og máldögum sem hafa verið til á Hólum. Elstu hlutar bókarinnar voru ritaðir hálfri öld eftir að lúthersk kirkjuskipan var upptekin í Skálholtsbiskupsdæmi en fjórir áratugir voru liðnir frá því hún var tekin upp í Hólabiskupsdæmi.

Í vísitasíugjörðum biskupa eru gripir taldir upp en þeim er sjaldnast lýst, myndefnin eru yfirleitt ekki skilgreind. Hins vegar virðist oftast getið nafns þeirra dýrlinga sem líkneski eru af. Hér var einkum horft til: 1) líkneskja af dýrlingum, 2) mynda yfir altari (tabula, brík, bílæti), 3) messuskrúða, 4) prédikunarstóla ef sérstaklega er getið um myndefni á þeim; og loks 5) einstakra gripa sem áhugaverðir þóttu á þessu stigi málsins, m.a. gripa sem greinilega eiga sér uppruna í kaþólskum sið.

Hvað myndir varðar hef ég horft til sambærilegra hluta frá því fyrir siðbót og eftir. Helst hef ég horft til dýrlingamynda, krossfestingarmynda, myndefnis á altaristöflum og prédikunarstólum, einnig til gripa sem eiga sér fastan sess í kaþólsku helgihaldi en ekki lúthersku. Það sem vekur athygli við lestur vísitasíugjörðanna yfir rúmlega 20 kirkjur á Norðurlandi vestra er að þar er sums staðar getið um paxspjöld sem föst eru í altari kirkjunnar, þar eru greinilegar leifar úr kaþólsku tæpum tveim öldum eftir að lúthersk kirkjuskipan var innleidd á Norðurlandi. Einnig er að finna þar líkneski helguð ýmsum dýrlingum. Þar eru líkneski af Maríu, Pétri postula, Stefáni frumvotti og Mikael erkiengli, einnig er sums staðar getið um eina eða tvær kórbjöllur í kórbita milli kórs og skips en þær vísa til helgihalds í rómversk-kaþólskum kirkjum þegar hringt var við umbreytingu efnanna.

Af máldagabók Guðbrands og elstu vísitasíugjörðum mætti ráða að búnaður kirkna hafi verið fátæklegur og mörg instrumentin, t.d. kirkjuklukkur og graftól, í óviðunandi ástandi. Samkvæmt yngri vísitasíugjörðum virðist ástandið vera talsvert betra. Af elstu vísitasíugjörðum má ef til vill ráða að ástand og búnaður kirkna hafi ekki verið upp á það besta þegar á heildina er litið.

Eitt af því sem styður samhengið í búnaði kirkna fyrir og eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. tók gildi hér á landi eru krossfestingarmyndirnar. Það má m.a. sjá af þeim myndum sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni, þar er enginn munur á myndum fyrir og eftir siðbót. Sama máli gegnir um kvöldmáltíðarmyndir og raunar aðrar myndir sem varðveittar hafa verið.

Í vísitasíum er ekki að finna nein merki um að myndbrjótar hafi komið við sögu, hvað þá að þeir hafi náð fótfestu hér á landi. Umdeilanlegustu verkin í því sambandi, líkneskin, eru enn í mörgum kirkjum.

Myndir frá kaþólskum tíma á söfnum

Ritaðar heimildir gefa dýrmætar upplýsingar um búnað kirkna en ekki er síður fróðlegt að skoða þau verk sem varðveist hafa frá kaþólskum tíma hér á landi, áður en kirkjuskipun Kristjáns III. var innleidd um miðja sextándu öld. Þar hef ég að nokkru skoðað safnkost Þjóðminjasafns Íslands og sömuleiðis Þjóðminjasafnsins í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). Áhugavert í því sambandi er að skoða listbúnað íslenskra kirkna með hliðsjón af umskiptunum um miðja sextándu öld út frá spurningum eins og þessum: 1) Hvenær komu verkin upphaflega í kirkjurnar? 2) Hvenær var þeim komið á safn? 3) Í hvaða listformi er verkið? 4) Hvert er myndefnið? Hér er úr talsverðu efni að moða og verður því aðeins úrtak kynnt í töflum 1. og 2. Efni þeirra gefur engu að síður dágóða innsýn í viðfangsefnið.[50]

Tafla 1.

Nokkrir af höfuðgripum hinnar fornu kirkjulistar í Þjóðminjasafni Íslands.

 Gullsaumur frá Hólum í Hjaltadal (Þjms. 6028).

Stóla, handlín og hlað eða búnaður af höfuðlíni frá því um 1200, hlutar af fornum skrúða sem síðar hafa verið nýttir í yngri messuklæði, m.a. var einn þessara gripa í Flugumýrarkirkju. Munir þessir komu til Þjóðminjasafnsins á árunum 1886 –1910.

Smeltur kross frá Limoges (Þjms. 7032).

Gerður snemma á 13. öld, væntanlega í Limoges í Frakklandi. Var í Tungufellskirkju. Keyptur til Þjóðminjasafnsins 1915.

Altarisklæði frá Draflastöðum (Þjms. 3924).

Eitt tólf íslenskra miðaldaklæða sem varðveist hafa og gerð eru með refilsaumi.[51] Þetta er frá ofanverðum miðöldum. Á því eru níu myndreitir sem sýna Jóhannes skírara og óþekktan biskup, í hásæti situr himnadrottningin María með barnið. Einnig gefur að líta myndir af heilagri Dóróteu, heilagri Katrínu og postulunum Andrési, Páli, Jóhannesi og Pétri. Þá eru tveir óþekktir dýrlingar og tveir óþekktir biskupar sem gætu verið Jón Ögmundsson og Þorlákur Þórhallsson. Teppið var gjöf Sigurðar Jónssonar, bónda á Draflastöðum, til Forngripasafnsins árið 1893.

Mater dolorosa, höggvin í stein (Þjms. 8361).

Úthöggvin Maríumynd í stein frá Síðumúla sem talin er geta verið frá 14. öld. Hafði legið lengi í kirkjugarðinum þar uns steinninn var fluttur til Þjóðminjasafnsins 1921.

Kaleikurinn góði frá Skálholti (Þjms. 2596).

Er frá fyrsta fjórðungi 14. aldar. Kom í Forngripasafnið 1884, einn af dýrgripum miðaldalistarinnar á Þjóðminjasafni Íslands.

Ólafslíkneski úr tré sem komið hefur í kirkjuna á Kálfafellsstað um 1700 (Þjms. 3165).

Þessi áletrun er á líkneskjunni: SANCTUS OLAUS REX NORVEGIÆ. Líkneskjan blasti við kirkjugestum á kórbita kirkjunnar. Árið 1888 hlaut Forngripasafnið þessa gömlu líkneskju að gjöf frá kirkjunni. Bent hefur verið á að hér sé dæmi um „kaþólska“ helgimynd sem sett var upp í lútherskri kirkju hálfri annarri öld eftir að lúthersk kirkjuskipan var lögtekin.[52]

Paxspjald frá Breiðabólstað í Fljótshlíð (Þjms. 2444).

Gert úr rostungstönn, 22,4 cm á hæð og 17,3 cm á breidd, sett saman úr níu einstökum töflum. Kross í miðju. Er frá því um 1400. Kom í Forngripasafnið árið 1883.

Alabastursbrík (Þjms. 3617-3622).

Talin gerð um 1450, líklega í Nottingham. Bríkin sýnir sjö úthöggnar myndir. Verkið kom til Forngripasafnsins 1891.

Á Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet) [53] er að finna talsvert af íslenskum kirkjugripum, ýmist í sýningarsölum safnsins eða í geymslum þess. Við fljótlega athugun virðist sem þorri þessara gripa hafi komið til safnsins á nítjándu öld.[54] Í töflu 2 er hluti þessara kirkjumuna kynntir.

Tafla 2

Nokkrir af höfuðgripum hinnar fornu kirkjulistar í Þjóðminjasafni Dana  (Nationalmuseet)

Altarisskápur úr furu (19014).

Skápurinn er talinn vera frá miðöldum (1275-1300). Hæð hans er 140 cm, en breidd og dýpt í lokuðu ástandi: 55 og 44 cm. Talinn vera frá Múlakirkju (að öllum líkindum í Aðaldal). Í miðju er himnadrottningin María og heldur á Jesúbarninu; Maríumyndin er úr furu, 49 cm á hæð. Allar myndirnar tólf, sem voru innan á hliðarvængjum, eru nú horfnar en þær hafa verið tvær í hverjum fleti næst miðju en ein í hverjum hinna. Skápurinn var sendur safninu frá kirkjunni árið 1859. Það litla sem eftir er af litum virðist vera frá 17. öld.

Messuhökull úr Reykjakirkju (16223).

Hökullinn er afar gamall. Hæð mæld að aftan 115 cm. Gullbrókaði á purpuralitum grunni. Munstrið er afskornar greinar, fugl og liggjandi ljón. Yngri útsaumur (reliefbróderí) er 20 cm á hæð, 41 cm á breidd, grunnurinn er blátt lín, upprunalega einnig með bláu silki en það er að mestu horfið, bróderað með gullþræði, silki og perlum. Efnið er norður-ítalskt frá 14. öld. Reykjahökullinn kom til safnsins 1857 fyrir milligöngu Sigurðar Guðmundssonar málara.

Altarisklæði úr Reykjahlíðarkirkju, refilsaumað (CLV),

Klæðið er frá 15. öld. Á níu flötum klæðisins eru myndir úr Maríusögu: fæðing Maríu, musterisganga Maríu, trúlofun hennar og Jósefs, boðun Maríu, fæðing Jesú, boðun hirðanna, hreinsunin, vitringarnir og flóttinn til Egyptalands. Geir Vídalín biskup lét senda klæðið til safnsins árið 1819.

Altarisklæði (antependium) úr Stafafellskirkju (CXCVIII).

Klæðið er refilsaumað frá 15. öld. Stærðin er 90×104 cm. Ásaumaðar myndir sýna þessi efni: í miðju trónar madonna á hásæti, til hliðanna eru Pétur og Símon, yfir með hástöfum stendur: S[ANCTUS] PETRUS AP[OSTO]L[U]S S[AN]C[T]A MARIA M[ATE]R CHRISTI [XRI] S[ANCTUS] SIMON AP[OSTOLUS]. Sent til safnsins árið 1820 að boði Geirs Vídalíns biskups.

Mýtur (909).

Er úr bláu flaueli með fjórum rósum í gullbrókaði. Kom til safnsins frá dómkirkjunni í Skálholti þar sem hann hafði verið frá því snemma á 16. öld.

Auk kirkjugripa, sem sjá má í sölum safnsins og kynntir eru í töflu 2, eru aðrir í geymslum þess. Árið 1930 lá leið margra þeirra muna, sem gefnir höfðu verið til safnsins, aftur til Íslands í „safngjöfinni miklu“ það ár.[55] Dæmi um þá eru kynnt í töflu 3.

Tafla 3

Kirkjugripir úr „safngjöfinni miklu“.

Flæmskt altari, hlutar. (CXXXVI).

Útskorin stytta af Jóhannesi skírara með lamb í fangi, 70 cm á hæð. Tvö styttubrot með á sama númeri, bæði af dýrlingum. Annað sýnir heilaga Katarínu ásamt keisarahöfði, hæð: 52 cm. Hér eru komnir hlutar af Ögmundarbrík frá Skálholti, ,,de eneste rester kaldtes Ögmundar-brík, antagelig efter den sidste biskop paa Skalholt.“[56] Athugasemdir á skjali safnsins: „Indsendt i 1819 fra handelspladsen Örbak, hvor tavlen var bleven henlagt i et salthus.“ Og: „Afgivet til Island.“[57]

Altarisklæði frá Grund í Eyjafirði (7724).

Talið frá 1440.

Altarisklæði úr Vallakirkju (15313).

Frá 14.-15 öld. Myndir af Maríu guðsmóður, Ólafi helga og fleiri dýrlingum. Sent safninu af prestinum S.C.Thorsteinsson á Völlum, Íslandi 1855.

Biskupsstytta úr linditré frá Reykjakirkju (16142).

Frá 15. öld. Gjöf frá Sigurði Guðmundssyni málara 1857.

Töflurnar sýna vissulega aðeins dæmi um kirkjugripi sem varðveist hafa frá því fyrir miðja sextándu öld, allt til þessa dags, sumir þeirra voru í kirkjunum allt frá miðöldum og fram á nítjándu öld og enn eru miðaldaverk í íslenskum kirkjum þótt flest þeirra séu á söfnum. Það er því varlega til orða tekið hjá Kristjáni Eldjárn: „Allnokkuð hefur þrátt fyrir allt varðveitzt hér af kirkjulegri miðaldalist, sumt gersemar.“[58]

Dæmi um myndbrot á guðfræðilegum og trúarlegum forsendum siðbótartímans liggja ekki fyrir. Hitt liggur fyrir að ævafornir gripir voru óhultir í kirkjum landsins eftir því sem best verður séð og eftir því sem vænta mátti. Aðrir varðveislustaðir en fátæklegar kirkjur vítt og breitt um landið veittu ekki betri tryggingu gegn kulda og trekki, jarðhræringum, eldgosum og öðrum eyðingaröflum tímans sem allir verða að lúta.

Svo mikið er víst að guðfræðilegar og trúarlegar forsendur fyrir myndbroti bárust ekki hingað til lands með siðbót Lúthers. Hafi það gerst væri ástæðna að leita annars staðar en í hugsjónum siðbótarmanna þar sem myndlist var í hávegum höfð.

Dýrir gripir úr góðmálmum

Flutningur dýrra kirkjugripa úr góðmálmum úr landi að skipun Danakonung um og upp úr miðri sextándu öld getur vart talist til myndbrots, þar hlýtur einfaldlega að vera um eignaupptöku eða rán að ræða. Sá þáttur sögunnar fellur því ekki undir viðfangsefni þessarar ritgerðar. Hins vegar varpar sá kapítuli þjóðarsögunnar ljósi á eitt og annað á því tímabili sem hér er til umfjöllunar.

Í kjölfar siðaskiptanna sölsaði Kristján konungur 3. undir sig eignir klaustra og biskupsstóla og hafði hönd í bagga með umsýslu þeirra. Árið 1545 veitti hann mönnum, sem ekki voru tengdir klaustrunum, forstöðu Reynistaðarklausturs og Þingeyraklausturs gegn afgjaldi sér til handa, slíkt hafði ekki þekkst áður.[59] 18. apríl 1541 ritaði Kristján 3. konungur tvo bréf um þetta efni.

Hið fyrra er „Bréf Kristjáns konungs 3. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til lærðra og leikra á Íslandi um „landshjálpina“ eða fjárframlög, bæði af klaustra fé og kirkna og á aðrar lundir, upp í herkostnað konungs á undanförnum árum.“ [60] Hið síðara er „Bréf Kristjáns konungs 3. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til Íslands af hendi konungs.“ [61]

Bæði bréfin eru merkar heimildir um aðgerðir konungs. Mikilvæg heimild um þá sögu er einnig Sigurðarregistur eða „Skrá um eignir Hóladómkirkju og Hólastóls í föstu og lausu eptir Jón biskup Arason frá fallinn.“[62] Ljóst er af þeirri heimild að eignir Hólastóls hafa verið umtalsverðar. [63] Í ritverkinu „Íslenzk silfursmíð“ hefur Þór Magnússon rakið að nokkru hvernig konungur og menn hans sóttust eftir verðmætum gripum, einkum úr silfri og gulli, þar sem þá var að hafa, m.a. úr kirkjum.[64]

Niðurstöður

Sú athugun sem hér hefur verið gerð sýnir að vandfundin eru óyggjandi dæmi um augljósar breytingar á myndheimi kirknanna hér á landi á siðbótaröld og ekki er að sjá heimildir um myndbrotsmenn í hefðbundnum skilningi. Raunar virðist mega ráða af heimildum að ornamenta og instrumenta kirkjuhúsanna hafi ekki tekið miklum breytingum á siðbótaröld. Þar sem ekki var fyrirskipað í kirkjuskipan Kristáns 3. að myndverk hyrfu úr kirkjum voru engar guðfræðilegar eða trúarlegar forsendur til staðar sem hefðu átt að beina leiðtogum siðbótarinnar hér á landi eða í Danmörku inn á vettvang myndbrots. Efnið hefur verið rakið með hliðsjón af þeim átökum sem urðu við upphaf siðbótarinnar í Wittenberg og gerð hefur verið grein fyrir afstöðu Marteins Lúthers og annarra helstu leiðtoga siðbótartímans. Á það hefur einnig verið bent að myndir hafi aldrei verið teknar án gagnrýni inn í helgidóma kristinna manna og ávallt hafi menn verið sér meðvitandi um tilhneigingu til þess að málverksmyndir og líkneski fengju stöðu skurðgoðsins og hefur aldrei verið vel séð í kristinni trúariðkun. Það á einnig við um þær aldir sem þjóðin var rómversk-kaþólsk.

Hitt er svo annað mál hvort umskiptin sem fylgdu nýrri kirkjuskipan hér á landi, m.a. breytingar á stjórnsýslu, afskipti Danakonungs og hans manna af íslenskum málefnum, hafi haft eitt og annað óæskilegt í för með sér, m.a. þjófnaði úr kirkjum sem fór a.m.k. að einhverju leyti fram í skjóli konungsvaldsins. En þá hafa menn væntanlega heldur litið til verðgildis gripanna en annarra gilda sem þau kunna að hafa búið yfir. Í slíkum tilvikum hlýtur málið að vera komið út fyrir markalínur myndbrots í hefðbundnum, trúarlegum skilningi. Enda er málið þá farið að snúast um aðra hluti en siðbótin snerist um, þ.e.a.s. siðbót innan hinnar rómversk-kaþólsku kirkju en það var í upphafi ótvírætt meginmarkmið Marteins Lúthers en ekki stofnun nýrrar kirkjudeildar.

Tilvísanir

[1] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist I.

[2] Um orðið málverksmynd, sjá DI XI, bls. 534.

[3] Um orðið skúrgoð, sjá Orðabók Háskólans: a) Leidarvísir til at lesa hid Nýa Testament med gudrækni og greind, einkum handa ólærdum lesurum. I-II. Rasmus Møller, þýðandi: Gunnlaugur Oddsen o.fl., 1822-1823: Kaupmannahöfn: af hvørju þeir á ny kynnu ad leidast til skúrgoda dyrkunar. b) Skírnir. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags: Útgáfuár: 1827-. Útgáfustaður: Kaupmannahöfn 1827-90, Reykjavík 1890-.: hafi þar verið tignaður grúi skúrgoða, blótað mönnum og dýrum, hafðir prestar, goldin musteristíund [hoftollur] o.s.frv. Skv. Orðabók Háskólans – heimildaskrá. Sjá einnig Halldór Laxness, Eldur í Kaupinhafn, bls. 280 og 388.

[4] Jón Egilsson, Biskupa-annálar, bls. 87- 88.

[5] Jón Egilsson, Biskupa-annálar, bls. 87- 88.

[6]DI XI, bls. 531-535. Umburðarbréf Gissurar biskups um skurðgoð og heilagra manna myndir 11. jan. 1547.

[7] Sjá Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 31-33, um orð og hugtök: lat. imago, lat. imitatio, gr. eikon, gr. eidol.

[8] Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 222: „Die Verehrung wurde zur Anbetung; das Bild wandelte sich vom sichtbaren Zeichen, das es gewesen war, zu einem heiligen Ding.“ Cottin rekur þróunarsögu myndarinnar í vestrænni menningu og skýrir myndbrotsstefnur (Ikonoklasmus) sem upp komu í lok miðalda og myndstorminn (Bildersturm) í siðbótarhreyfingunum á fyrri hluta sextándu aldar; sjá kaflann „Das Bild am Vorabend der Reformation“, bls. 222-250.

[9] Sjá Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 253, nmgr. 10: „Gregor der Groβe, Epistola Sereno episcopo massiliensi, MGH Epistolae II,X, Berlín 1957, bls. 269-272.“ Sama heimild, bls. 225, nmgr. 18: „Gregor der Groβe (590-604): Bilder als Biblia pauperum; Johannes Damascenus (um730); theologische Gleichsetzung von Bild und Schrift, was zur Ikone führt; 2. Konzil von Nizäa (787).“

[10] DI XI, bls. 534.

[11] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 7.

[12] Sama heimild.

[13] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 8.

[14] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, bls. 7.

[15] Sama heimild

[16] Martin Schwarz Lausten, Niels Hemmingsen. Storhed og fald, bls. 271: Under reformationskampen i Danmark tog de første reformatorer skarpt afstand fra de katolske „billeddyrkelse“ í kirken, både af teologiske og økonomiske grunde, men eftir reformationens gennemførelse synes den almindelige opfattelse hos kongen og kirkens ledere at ligne Luthers afslappede holdning.

[17] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 7. „… var skrautmálari og skáld“, sbr. Páll Eggert Ólason. Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir. 4. b., bls. 145.

[18] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 9.

[19] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I. bls. 7.

[20] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 139.

[21] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 143.

[22] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, bls. 141.

[23] DI XI, bls. 531.

[24] Sjá um listhugtakið hjá Kristeller, Listkerfi nútímans, bls. 37: „Gríska heitið á list (τεχνη, þ.e. tekne) og latnesk samsvörun þess (ars) tákna ekki það sem við skiljum í nútímamerkingu sem hinar „fögru listir“ heldur voru þau notuð til að lýsa alls konar starfi sem við tengjum nú á dögum handverki eða vísindum.“

[25] Kristni saga, bls. 10.

[26] Kristni saga, bls. 16.

[27] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, bls. 129-130.

[28] Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, bls. 165-186.

[29] Barbara Tuchman, Der ferne Spiegel: das dramatische 14. Jahrhundert, bls. 97-125.

[30] Sbr. Nmgr. 8. Um myndir á þessu tímabili sjá einnig: Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 36-49: „Bildgeschichte des Mittelalters.“

[31] Sama heimild.

[32] Thomas Kaufmann, Geschichte der Reformation, bls. 380-384. Martin Brecht, Martin Luther b. 2, bls. 34. Heinz Schilling, Martin Luther, bls. 276 o. áfr. Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 50-52.

[33] „In short, Lutheran art renewed rather than removed church pictures.“ Joseph Leo Koerner, The Reformation of the Image, bls. 13.

[34] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32.

[35] WA 18,82,23-83,15.

[36] WA 10, 26,33-27,8.

[37] Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 55-58.

[38] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32. Sjá nánar um Zwingli: Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 52-55.

[39] Andreas Mertin, „Profan und frei“, bls. 32.

[40] 11. kafla fyrsta bindis.

[41] Clifford S. Ackley, „Rembrandt as Actor and Dramatist. Gesture and Body Language in the Biblical Etchings,“ bls. 17 o.áfr. Sjá einnig: Perlov and Siver, Rembrandt´s Faith, Church and Temple in the Dutch Golden Age (2009).

[42] Sjá m.a. Peter Moser, Lucas Cranach. Sein Leben, seine Welt und seine Bilder og Bonnie Noble, „The Wittenberg Altarpiece and the image of identity“. Sjá nánar um Cranach: Dieter Koepplin: „Cranachs Bilder der Caritas im theologischen und humanistischen Geiste Luthers und Melanchtons,“ bls. 63-79.

[43] Horst Schwebel, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts, bls. 47-48.

[44] Jérôme Cottin, Das Wort Gottes im Bild, bls. 300-302.

[45] Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002), þýskur heimspekingur, þekktur fyrir brautryðjendaverk sitt um túlkunarfræði: Wahrheit und Methode (1960).

[46] Paul Tillich, Dynamics of Faith, bls. 12; Paul Tillich, Systematic Theology, bls. 16.

[47] Paul Tillich, Dynamics of Faith, bls. 9.

[48] Með „instrumenta“ er átt við gripi til helgiþjónustunnar en „ornamenta“ vísar til skrautgripa í kirkjunni.

[49] Máldagabókin er varðveitt í Þjóðskjalasafni og er þannig merkt: Bps. B III, 2. Máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar um alkirkjur í Hólabiskupsdæmi 1590-1616 m.m.

[50] Einkum stuðst við Sarp, menningarsögulegt gagnasafn á netinu: http://www.sarpur.is/– einnig aðrar heimildir sbr. nmgr. – þegar um verk í Þjóðminjasafni er að ræða en merkingar á Þjóðminjasafninu í Danmörku eru annars vegar safnmerkingar í sýningarsölum en í geymslum er stuðst við spjaldskrármerkingar. Sjá einng: Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstj. Árni Björnsson, bls. 7-8.

[51] „Alls eru nú kunn 12 íslensk miðaldaklæði með refilsaumi“ (Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 32.)

[52] Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 25.

[53] Fyrirgreiðslu og aðstoð á Þjóðminjasafni (Nationalmuseet) í Kaupmannahöfn 6.-8. apríl 2016 þakka ég sér í lagi þeim Anne Pedersen, seniorforsker, Lisbeth Imer og síðast en ekki síst Emilie Gersager, stúdent. Einnig þakka ég Jóni Torfasyni skjalaverði á Þjóðskjalasafni Íslands fyrir mikilvæga aðstoð og prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla, Martin Schwarz Lausten, fyrir góðar ábendingar.

[54] Sjá: Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823.

[55]Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 20.

[56] Um Ögmundarbrík, sjá: Kristján Eldjárn, „Bríkin mikla frá Skálholti“, bls. 182-192.

[57] Nationalmuseum, spjaldskrá Inv. Nr. CXXXVI.

[58] Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, kafli 48.

[59] Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I, bls. 35-36.

[60] DI X, bls. 605. „Bréf Kristjáns konungs III. með Kristopher Hvidtfeld til lærðra og leikra á íslandi um „landshjálpina“ eða fjárframlög, bæði af klaustra fé og kirkna og á aðrar lundir, upp í herkostnað konungs á undanförnum árum.“ Skrifað 18. apríl 1541. Sjá ennfremur um þetta efni: Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I.

[61] DI X, bls. 607. „Bréf Kristjáns konungs III. til Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti um erindagerðir Kristophers Hvitfelds til Íslands af hendi konungs.“ Sjá einnig: Þór Magnússon Íslenzk silfursmíð I, bls. 36.

[62] DI XI, bls. 848-880.

[63] Sjá nánar um þetta efni: Páll Eggert Ólason, Menn og menntir II. um þá sem hefðu getað gert eða gerðu „bandalag við hina útlendu fulltrúa konungs, sem ekki voru neinir fyrirmyndarmenn, heldur sannnefndir ræningjar sumir hverjir, til þess að kúga fé út úr alþýðu og skipta síðan ránsfengnum“ (bls. 443). Á hinn bóginn fær Gissur biskup góð ummæli höfundar, m.a. í klaustramálinu: „Vann Gizur þar slík afreksverk, að dæmalaust er um nokkurn annan byskup á Norðurlöndum á siðskiptatímanum.“ Sjá um sama efni: Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir IV og sami höf.: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I.

[64] Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð I, bls. 34 o.áfr.

Heimildir

Prentaðar heimildir

Ackley, Clifford S., „Rembrandt as Actor and Dramatist. Gesture and Body Language in the Biblical Etchings.“ Ackley, Clifford S., Rembrandt´s Journey. Painter, Draftsman, Etcher. In Collaboration with Ronni Baer, Thomas E. Rassieur and Willian W. Robinson, bls. 17-28 (Boston: MFA Publications 2003).

Belting, Hans, Bild und Kult: Eine Geschichte des Bildes vor dem Zeitalter der Kunst (Leipzig: Koehler und Amelang 1990).

Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld. Drög að sögulegu yfirliti, I. b. (Reykjavík: Helgafell 1964).

Brecht, Martin, Martin Luther. Ordnung und Abgrenzung der Reformation, 2. b. (Stuttgart: Calwer Verlag 1986).

Cottin, Jérôme, Das Wort Gottes im Bild. Eine Herausforderung für die protestantische Theologie. (Göttingen: Vandenhoeck & Ruprecht 2001) [Frumútgáfa: Une théologie protestante de l’image. Genf: Labor et Fides, 1994.]

Freedberg, David, The Power of Images. Studies in the History and Theory of Response. (Chicago: University of Chicago Press 1991).

  1. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn XI,1310-1550. Útg. Páll Eggert Ólason (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1915-1925), bls. 531-535.

Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Útg. Sveinbjörn Rafnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 1984).

Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstj. Árni Björnsson (Reykjavík: Þjóðminjsafn Íslands og Hið íslenzka bókmenntafélag 1994).

Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 2014).

Halldór Laxness, Íslandsklukkan 3. útg. (Reykjavík: Helgafell 1969) [1. útg. 1943-1946].

Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI. Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds. Ritstj. Sigurður Líndal (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 2003).

Hlutavelta tímans: menningararfur á Þjóðminjasafni. Ritstjórar Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2004).

Howes, Graham, The Art of The Sacred. An Introduction to the Aesthetics of Art and Belief. (I. B.Tauris & Co. Ltd: London 2014) [1. útg. 2007].

Jón Egilsson, Biskupa-annálar Jóns Egilssonar með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju, 1. b. (Kaupmannahöfn 1856) [s.n.], bls. 15-136.

Jón Helgason, Kristnisaga Íslands. Frá öndverðu til vorra tíma II. Kristnihald þjóðar vorrar eftir siðaskipti. (Reykjavík: Félagsprentsmiðjan 1927).

Kaufmann, Thomas, Geschichte der Reformation. (Frankfurt am Main og Leipzig: Verlag der Weltreligionen 2009).

Koepplin, Dieter: „Cranachs Bilder der Caritas im theologischen und humanistischen Geiste Luthers und Melanchtons.“ Bodo Brinkmann, Cranach der Ältere (Frankfurt am Main: Städel Museum 2007) bls. 63-79.

Kristeller, Paul Oscar, Listkerfi nútímans, þýðandi: Gunnar Harðarson. (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005).

Kristján Eldjárn, Hundrað ár í Þjóðminjasafni 3. útg. (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1969) [1. útg. 1962].

Kristján Eldjárn, „Bríkin mikla frá Skálholti.“ Eimreiðin 64 (1958), bls. 182-192.

Kristni saga, Biskupasögur I, Íslenzk fornrit XV. bindi, síðari hluti. Ritstj. Jónas Kristjánsson (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag 2003).

Lausten, Martin Schwarz, Biskop Niels Palladius. Et bidrag til den danske kirkes historie (Kaupmannahöfn: Alfa forlag 1968).

Lausten, Martin Schwarz, Niels Hemmingsen, Storhed og fald (Kaupmannahöfn: Anis forlag 2013).

Luther, Martin, D., Martin Luthers Werke. Kritische Gesamtausgabe [skammstafað WA], Hermann Böhlaus Nachfolger (Weimar 1883 o.áfr. Neuausgabe: Ditzingen: Reclam 1986. Online in heutigem Deutsch.)

Luther, Martin, D., Sendbrief vom Dolmetschen. Íslensk þýðing. „Marteinn Lúther, Sendibréf um þýðingar“ (1530). Anna Sigurbjörg Sigurðardóttir þýddi. Jón á Bægisá, 14: 2010, bls. 90-114.

Mertin, Andreas, „Profan und frei. Der protestantische Bilderstreit hat die Kunst vorangebracht.“ Zeitzeichen 16. jan. 2015, bls. 30-32.

Moser, Peter, Lucas Cranach. Sein Leben, seine Welt und seine Bilder (Bamberg: Babenberg Verlag 2004).

Noble, Bonnie, „The Wittenberg Altarpiece and the image of identity“. Lindberg, Carter, The European reformations. (Oxford: Blackwell 2000).

Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I og II. bd. (Reykjavík: Bókaverzlun Guðmundar Gamalíelssonar 1919 og 1922).

Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir 4. bd. (Reykjavík: Menntamálaráð og Þjóðvinafélag 1944).

Perlove, Shelley and Silver, Larry, Rembrandt´s Faith, Church and Temple in the Dutch Golden Age. (Pennsylvania: Pennsylvania State University Press 2009).

Schauerte, Thomas, Dürer. Das ferne Genie. Eine Biographie. (Stuttgart: Philipp Reclam jun. 2012).

Schilling, Heinz, Martin Luther 2. útg. (München: Verlag C.H.Beck 2013) [1. útg. 2012].

Schwebel, Horst, Die Kunst und das Christentum. Geschichte eines Konflikts (München: C.H.Beck 2002).

Tillich, Paul, Dynamics of Faith (New York: Harper 1957).

Tillich, Paul, Systematic Theology (London 1968 (combined volume): James Nisbet & Co 1968) [1. útg.: The University of Chicago Press 1951].

Tuchman, Barbara, Der ferne Spiegel: das dramatische 14. Jahrhundert 18. útg. Ulrich Leschak og Malte Friedrich þýddu úr ensku. (München: Deutscher Taschenbuch Verlag 2002) [1. útg. 1978].

Warnke, Martin, Rubens. Leben und Werk (Köln: DuMont-Literatur-und-Kunst-Verlag 2006).

Þór Magnússon, Íslensk silfursmíð I-II (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2013).

Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17.og 18. öld (Reykjavík: JPV; Þjóðminjasafn Íslands 2005).

Óprentaðar heimildir.

Þjóðskjalasafn Íslands.

Bps. B III, 2. Máldagabók Guðbrands Þorlákssonar 1590-1616.

Bps. B III, 8. Vísitasíubók Gísla Þorlákssonar 1659.

Bps. B III, 6 og Bps. B III, 7. Vísitasíubók Gísla Þorlákssonar 1664, 1669, 1674, 1679 og 1683.

Bps. B III, 10. Vísitasíubók Einars Þorsteinssonar 1693.

Bps. B III, 12. Vísitasíubók Björns Þorleifssonar 1700-1709.

Bps. B III, 13. Vísitasíubók Steins Jónssonar 1716 og 1725.

Bps. B VI, 1. Melstaður Anno 1723, sr. Gísli Einarsson eftir ósk og forlagi veleðla og háæruverðugs hr. biskupsins, hr. Steins Jónssonar.

Bps. B III, 14. Vísitasía Björns Magnússonar í umboði Steins Jónssonar 1737.

Bps. B III, 16. Vísitasíubók Halldórs biskups Brynjólfssonar 1749.

Bps. B III, 17. Vísitasíubók Gísla Magnússonar 1758.

English abstract

The title of this thesis is “Pictures, Idols and Statues”. It deals with the question of iconoclasm in Iceland after the introduction of the Lutheran Reformation in the middle of the sixteenth century. The main reason is that important art historians in Iceland have written about the reformation in Iceland as an iconoclastic movement.

First of all the thesis deals with the ideas of the first Lutheran Bishop in Skalholt, Gissur Einarsson, who had studied in Hamburg and had good contacts with the reformation in Germany and Denmark. We find the same view as by Martin Luther and the reformers in Denmark in his attitude: a clear differentiation between images and statues on the one hand and idols on the other. Luther and the reformers welcome all works of art in the churches but they fought against idolatry, which always, from the 10th century onwards, had been rejected in Iceland.

The author also has made some investigation on works of art in the Icelandic National Museum and in the National Museum in Copenhagen where a considerable number of Icelandic ecclesiastical art is preserved. Artifacts in both museums show that all kinds of religious items and themes have been preserved in the churches, all the way from medieval times. Most of them were removed from the churches towards the end of the nineteenth century for the sake of preservation and protection in museums.

The main result of the research shows that the story shows no examples of iconoclasm during or after the time of the reformation in Iceland. No theological or religious reasons should have led the leaders of the reformation in Iceland on the track of iconoclasm. ♦

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir