Á síðastliðnum vikum hafa rekið á fjörur mínar tveir textar um ofangreint málefni sem vert er að staldra við. Annars vegar er um að ræða hugleiðingar Salmans Rushdie í nýútkominni bók sinni Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar. Hins vegar er svo grein Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns í Morgunblaðinu 27. september sl.: „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“

Veraldarhyggja

Meginsjónarmið höfundanna tveggja eru næsta keimlík og má heimfæra þau undir það sem stundum er kennt við franska veraldarhyggju (fr. laïcité). Sú trúarpólitík sem á henni er reist byggist á því að skýr mörk séu dregin milli hins opinbera sviðs og einkasviðsins og þar með trúar og pólitíkur. Á einkasviðinu á trúfrelsi að ríkja en hið opinbera að vera algerlega veraldlegt.

Þarna ríkja hreinar línur að því er virðist og það finnst mörgum gott. Þegar málið er skoðað nánar koma þó a.m.k. fimmtíu gráir skuggar í ljós. Krafan um hreint veraldlegt opinbert rými leiðir t.a.m. auðveldlega til skerts trúfrelsis. En það telst kannski ekki svo alvarlegt á Vesturlöndum?

Hjá Rushdie kemur veraldarhyggjan fram á augljósan hátt er hann skrifar:

[…] að mínu áliti kemur einkatrú hvers og eins engum við nema viðkomandi einstaklingi. Ég hef ekkert við trúarbrögð að athuga þegar þau halda sig við þetta einkasvið og reyna ekki að þröngva gildismati sínu upp á aðra. En þegar trúarbrögð eru nýtt í þágu stjórnmála og vopnvæðast jafnvel, þá koma þau öllum við vegna þess skaða sem þau geta valdið.[1]

Hjá Diljá Mist birtist svipað sjónarhorn er hún ritar:

Ýmsir kirkjunnar þjónar stíga reglulega inn í umræðuna um málefni líðandi stundar. Fólk hefur jafnvel þurft að sitja undir pólitískum áróðri í sunnudagsmessum. […] Ég er þeirrar skoðunar að prestar og aðrir fyrirsvarsmenn kirkjunnar eigi að forðast að stíga inn í pólitísk deilumál og þrætur og taka afstöðu í þeim.[2]

Ómögulegt er annað en að vera báðum höfundunum sammála að vissu marki. Þrátt fyrir það er mikilvægt að hugsa málið aðeins lengra.

Ólíku saman að jafna

Þótt Rushdie og Diljá Mist virðist hér á einu máli er bakgrunnur þeirra og forsendur gjörólíkar. Rushdie kemur úr trúlausri múslímafjölskyldu, hefur allt frá 1988 lifað í skugga bannfæringar (arab. fatwa) erkiklerksins Ruhollah Kohmeini og varð af þeim sökum fyrir banatilræði 2022. Hann veit því hvað verst getur gerst „þegar trúarbrögð eru nýtt í þágu stjórnmála og vopnvæðast jafnvel“.

Diljá Mist er aftur á móti að því er ég hygg alin upp í evangelísk-lúthersku samfélagi eins og við flest. Ef veikleiki íslams er í því fólginn að blanda um of saman trú og pólitík felst veikleiki lútherskunnar í allt of skýrum mörkum þar á milli. Sú aðgreining byggir ekki síst á túlkun — eða hugsanlega rangtúlkun — á svonefndri tveggja-ríkja-kenningu Lúthers. Samkvæmt henni greinist tilveran öll upp í tvö svið eða ríki: hið andlega sem er leikvöllur kirkjunnar og hið veraldlega sem er vígvöllur fursta nú eða pólitíkusa.

Þessi tvískipting, sem getur hæglega orðið að tvískinnungi, tekur á sig ýmsar myndir. Lútherstrú hefur t.d. löngum staðið traustum fótum meðal borgaralegra millistétta. Þar hefur mátt finna umsvifamikla athafnamenn. Í einkalífinu gátu þeir verið guðhræddir og góðir en purkunarlausir í viðskiptum. „Prívat“ gátu þeir stutt kristniboð í svörtustu Afríku en viðrað rasísk sjónarmið í félags-pólitískri umræðu. Líklega hefði Lúther ekki skrifað upp á þessa útgáfu af kenningu sinni.

Diljá og guðspjöllin

Þingmaðurinn Diljá Mist vill beina prestum á villugötum inn á rétta braut er hún segir:

Ef kirkjunnar þjóna vantar innblástur, gætu þeir rifjað upp guðspjöllin og fjölmargar dæmisögur Biblíunnar til þess að koma erindinu á framfæri. [3]

Þarna vandast málið. Guðspjöllin hafa ekki aðeins að geyma „fjölmargar dæmisögur“ heldur eru þau líka full af sögum um deilur Krists við farísea og fræðimenn. Þegar þær eru lesnar niður í kjölinn má einmitt í mörgum tilvikum rekja árekstrana til þess að Kristur þótti stíga „inn í málefni líðandi stundar“ og það á heldur stórkarlalegan hátt. Hann ögraði viðteknum viðhorfum, sýndi jafnvel borgaralega óhlýðni með því að brjóta gegn lögum og reglum þjóðar sinnar auk þess að hafna leiðsögn elítunnar en farísearnir og fræðimennirnir töldust einmitt til hennar.

Mergurinn málsins er að boðskapur Krists verður ekki einangraður við hið einstaklinglega svið heldur hefur hann alltaf samfélagslegar afleiðingar. Kristin siðfræði fjallar því eðli sínu samkvæmt bæði um einstaklingsbundna og félagslega siðfræði. — Tilraunir þeirra Salmans Rushdie og Diljár Mistar til að marka trú og guðfræði bás ganga því í berhögg við sagnheim guðspjallanna.

Fagmennska predikarans

Markmið predikunar í guðsþjónustum er að vekja söfnuðinn til trúar, vonar og kærleika. Til að ná því má predikun vera ágeng og ögrandi, stingandi og stuðandi. Fagmennska predikarans felst ekki síst í því að vega og meta hvernig best má beita stílbrögðum og öðrum verkfærum sem fyrir hendi eru í predikun til að kalla fram persónuleg viðbrögð með áheyrendum og beina þeim í rétta átt.

Grunnaðferð predikunarinnar er svo að heimfæra biblíutexta, t.d. einhverja dæmisögu guðspjallanna, yfir á aðstæður á hverjum tíma. Af þeim ástæðum er hægara sagt en gert fyrir predikara að stíga ekki inn „í umræður um málefni líðandi stundar.“ Í því efni felst fagmennskan í að ákveða hvaða málefni, þar á meðal mál sem pólitískar deilur standa um, eru þess eðlis að eðlilegt sé að stíga inn í þau. Líklega er ekki frjótt fyrir predikara að tjá sig af stólnum um einstaka liði fjárlaga. Öðru máli gegnir um heildarstefnu þeirra. Í predikun væri fullkomlega eðlilegt að spyrja hvort þau vinni með velferð og jöfnuði öllum til handa eða hugsanlega gegn þeim gildum.

Flóttamannamálin

Svo eru til pólitísk deilumál, jafnvel kosningamál, sem torvelt er fyrir predikara að láta hjá líða að ræða. Þar koma málefni flóttafólks fyrst upp í hugann en flokkur Diljár Mistar hefur látið þau mjög til sín taka.

Vissulega voru hvorki innri né ytri landamæri Schengen-svæðisins til um daga Krists. Það þarf þó engrar guðfræðilegrar vangaveltu við til að segja til um hver afstaða hans hefði verið í þessu efni. Svo margar af frásögum guðspjallanna, sem Diljá Mist bendir predikurum á, gefa fulla vitneskju um það. – Kirkjunnar þjónar verða að fylgja afstöðu Krists eftir í þessu mikilvæga úrlausnarefni líðandi stundar bæði í orði og verki.

Tilvísanir:

[1] Salman Rushdie, Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar, Árni Óskarsson þýddi, Reykjavík: Mál og menning, 2024, bls. 216.

[2] Diljá Mist Einarsdóttir, „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“ Mbl. 27. sept. 2024.

[3] Diljá Mist Einarsdóttir, „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“  Mbl. 27. sept. 2024.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Á síðastliðnum vikum hafa rekið á fjörur mínar tveir textar um ofangreint málefni sem vert er að staldra við. Annars vegar er um að ræða hugleiðingar Salmans Rushdie í nýútkominni bók sinni Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar. Hins vegar er svo grein Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns í Morgunblaðinu 27. september sl.: „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“

Veraldarhyggja

Meginsjónarmið höfundanna tveggja eru næsta keimlík og má heimfæra þau undir það sem stundum er kennt við franska veraldarhyggju (fr. laïcité). Sú trúarpólitík sem á henni er reist byggist á því að skýr mörk séu dregin milli hins opinbera sviðs og einkasviðsins og þar með trúar og pólitíkur. Á einkasviðinu á trúfrelsi að ríkja en hið opinbera að vera algerlega veraldlegt.

Þarna ríkja hreinar línur að því er virðist og það finnst mörgum gott. Þegar málið er skoðað nánar koma þó a.m.k. fimmtíu gráir skuggar í ljós. Krafan um hreint veraldlegt opinbert rými leiðir t.a.m. auðveldlega til skerts trúfrelsis. En það telst kannski ekki svo alvarlegt á Vesturlöndum?

Hjá Rushdie kemur veraldarhyggjan fram á augljósan hátt er hann skrifar:

[…] að mínu áliti kemur einkatrú hvers og eins engum við nema viðkomandi einstaklingi. Ég hef ekkert við trúarbrögð að athuga þegar þau halda sig við þetta einkasvið og reyna ekki að þröngva gildismati sínu upp á aðra. En þegar trúarbrögð eru nýtt í þágu stjórnmála og vopnvæðast jafnvel, þá koma þau öllum við vegna þess skaða sem þau geta valdið.[1]

Hjá Diljá Mist birtist svipað sjónarhorn er hún ritar:

Ýmsir kirkjunnar þjónar stíga reglulega inn í umræðuna um málefni líðandi stundar. Fólk hefur jafnvel þurft að sitja undir pólitískum áróðri í sunnudagsmessum. […] Ég er þeirrar skoðunar að prestar og aðrir fyrirsvarsmenn kirkjunnar eigi að forðast að stíga inn í pólitísk deilumál og þrætur og taka afstöðu í þeim.[2]

Ómögulegt er annað en að vera báðum höfundunum sammála að vissu marki. Þrátt fyrir það er mikilvægt að hugsa málið aðeins lengra.

Ólíku saman að jafna

Þótt Rushdie og Diljá Mist virðist hér á einu máli er bakgrunnur þeirra og forsendur gjörólíkar. Rushdie kemur úr trúlausri múslímafjölskyldu, hefur allt frá 1988 lifað í skugga bannfæringar (arab. fatwa) erkiklerksins Ruhollah Kohmeini og varð af þeim sökum fyrir banatilræði 2022. Hann veit því hvað verst getur gerst „þegar trúarbrögð eru nýtt í þágu stjórnmála og vopnvæðast jafnvel“.

Diljá Mist er aftur á móti að því er ég hygg alin upp í evangelísk-lúthersku samfélagi eins og við flest. Ef veikleiki íslams er í því fólginn að blanda um of saman trú og pólitík felst veikleiki lútherskunnar í allt of skýrum mörkum þar á milli. Sú aðgreining byggir ekki síst á túlkun — eða hugsanlega rangtúlkun — á svonefndri tveggja-ríkja-kenningu Lúthers. Samkvæmt henni greinist tilveran öll upp í tvö svið eða ríki: hið andlega sem er leikvöllur kirkjunnar og hið veraldlega sem er vígvöllur fursta nú eða pólitíkusa.

Þessi tvískipting, sem getur hæglega orðið að tvískinnungi, tekur á sig ýmsar myndir. Lútherstrú hefur t.d. löngum staðið traustum fótum meðal borgaralegra millistétta. Þar hefur mátt finna umsvifamikla athafnamenn. Í einkalífinu gátu þeir verið guðhræddir og góðir en purkunarlausir í viðskiptum. „Prívat“ gátu þeir stutt kristniboð í svörtustu Afríku en viðrað rasísk sjónarmið í félags-pólitískri umræðu. Líklega hefði Lúther ekki skrifað upp á þessa útgáfu af kenningu sinni.

Diljá og guðspjöllin

Þingmaðurinn Diljá Mist vill beina prestum á villugötum inn á rétta braut er hún segir:

Ef kirkjunnar þjóna vantar innblástur, gætu þeir rifjað upp guðspjöllin og fjölmargar dæmisögur Biblíunnar til þess að koma erindinu á framfæri. [3]

Þarna vandast málið. Guðspjöllin hafa ekki aðeins að geyma „fjölmargar dæmisögur“ heldur eru þau líka full af sögum um deilur Krists við farísea og fræðimenn. Þegar þær eru lesnar niður í kjölinn má einmitt í mörgum tilvikum rekja árekstrana til þess að Kristur þótti stíga „inn í málefni líðandi stundar“ og það á heldur stórkarlalegan hátt. Hann ögraði viðteknum viðhorfum, sýndi jafnvel borgaralega óhlýðni með því að brjóta gegn lögum og reglum þjóðar sinnar auk þess að hafna leiðsögn elítunnar en farísearnir og fræðimennirnir töldust einmitt til hennar.

Mergurinn málsins er að boðskapur Krists verður ekki einangraður við hið einstaklinglega svið heldur hefur hann alltaf samfélagslegar afleiðingar. Kristin siðfræði fjallar því eðli sínu samkvæmt bæði um einstaklingsbundna og félagslega siðfræði. — Tilraunir þeirra Salmans Rushdie og Diljár Mistar til að marka trú og guðfræði bás ganga því í berhögg við sagnheim guðspjallanna.

Fagmennska predikarans

Markmið predikunar í guðsþjónustum er að vekja söfnuðinn til trúar, vonar og kærleika. Til að ná því má predikun vera ágeng og ögrandi, stingandi og stuðandi. Fagmennska predikarans felst ekki síst í því að vega og meta hvernig best má beita stílbrögðum og öðrum verkfærum sem fyrir hendi eru í predikun til að kalla fram persónuleg viðbrögð með áheyrendum og beina þeim í rétta átt.

Grunnaðferð predikunarinnar er svo að heimfæra biblíutexta, t.d. einhverja dæmisögu guðspjallanna, yfir á aðstæður á hverjum tíma. Af þeim ástæðum er hægara sagt en gert fyrir predikara að stíga ekki inn „í umræður um málefni líðandi stundar.“ Í því efni felst fagmennskan í að ákveða hvaða málefni, þar á meðal mál sem pólitískar deilur standa um, eru þess eðlis að eðlilegt sé að stíga inn í þau. Líklega er ekki frjótt fyrir predikara að tjá sig af stólnum um einstaka liði fjárlaga. Öðru máli gegnir um heildarstefnu þeirra. Í predikun væri fullkomlega eðlilegt að spyrja hvort þau vinni með velferð og jöfnuði öllum til handa eða hugsanlega gegn þeim gildum.

Flóttamannamálin

Svo eru til pólitísk deilumál, jafnvel kosningamál, sem torvelt er fyrir predikara að láta hjá líða að ræða. Þar koma málefni flóttafólks fyrst upp í hugann en flokkur Diljár Mistar hefur látið þau mjög til sín taka.

Vissulega voru hvorki innri né ytri landamæri Schengen-svæðisins til um daga Krists. Það þarf þó engrar guðfræðilegrar vangaveltu við til að segja til um hver afstaða hans hefði verið í þessu efni. Svo margar af frásögum guðspjallanna, sem Diljá Mist bendir predikurum á, gefa fulla vitneskju um það. – Kirkjunnar þjónar verða að fylgja afstöðu Krists eftir í þessu mikilvæga úrlausnarefni líðandi stundar bæði í orði og verki.

Tilvísanir:

[1] Salman Rushdie, Hnífur: Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar, Árni Óskarsson þýddi, Reykjavík: Mál og menning, 2024, bls. 216.

[2] Diljá Mist Einarsdóttir, „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“ Mbl. 27. sept. 2024.

[3] Diljá Mist Einarsdóttir, „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?“  Mbl. 27. sept. 2024.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir