Upp á síðkastið hafa gefist ýmis tækifæri til að velta fyrir sér tjáningarfrelsi presta og þá ekki síst presta þjóðkirkjunnar. Í byrjun maí birti Björn Bjarnason fyrrum alþingismaður og ráðherra grein í Mbl. sem gaf tilefni til þessa.[1] Nú undir lok mánaðarins hafa ummæli sr. Davíðs Þórs Jónssonar í fésbókarfærslu skekið samfélagið. Fram hafa komið vandlætingarraddir úr óvæntustu áttum. Gallharðir kirkjukarlar og -kerlingar, hörðustu guðleysingjar og fólk allt þar á milli hafa sameinast í vandlætingu. Með nokkrum góðum undantekningum hefur á hinn bóginn lítið farið fyrir yfirvegaðri umræðu um það álitamál sem færslan vakti: hversu langt nær tjáningarfrelsi presta þjóðkirkjunnar? Er það takmarkaðra en annarra — eða nær það ef til vill lengra?
Þegar hefur verið brugðist við grein Björns Bjarnasonar á þessum vettvangi og verður það ekki endurtekið hér.[2] Áhugavert er á hinn bóginn að staldra við „status“ sr. Davíðs Þórs og nota hann sem dæmi um það álitamál sem hér hefur verið reifað án þess þó að gera hann að aðalatriði máls.
Braut sr. Davíð Þór siðareglur?
Ýmsir, þar á meðal biskup Íslands, álíta að sr. Davíð Þór hafi brotið gegn siðareglum Prestafélags Íslands. En er það augljóst? Í reglunum segir vissulega í grein 3.6: „Prestur gætir þess að vera málefnalegur og gætir varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.“[3] Mörgum virðist — og hugsanlega með réttu — að í færslu sinni hafi sr. Davíð Þór hvorki verið málefnalegur né gætt varkárni. Það er þó vissulega matsatriði. Svo vill þó til að ekki er mögulegt að heimfæra þessa grein upp á ummæli hans um flóttamannastefnu ríkisstjórnarinnar almennt og VG sérstaklega. Þar er hvorki um kenningarlegt né guðfræðilegt mál að ræða í þeirri merkingu sem liggur beinast við að leggja í þau orð í ívitnaðri grein siðareglnanna. Þess skal þó getið að brottvísunarmálið sem sr. Davíð Þór tjáði sig um er ekki pólitískt mál, þaðan af síður flokkspólitískt mál heldur samfélagsmál með sterka siðfræðilega slagsíðu. — Það er mikilvæg borgaraleg skylda að móta sér skoðun í slíkum efnum og láta hana í ljós.
Að fleiru er þó að hyggja. Í grein 2.9 segir: „Prestur ber ábyrgð á að rækja embætti sitt eftir gildandi lögum og kirkjusiðum. Hann er fulltrúi kirkju sinnar og stéttar. Hann gætir þess í starfi og einkalífi að hafa virðingu kirkjunnar og sóma stéttarinnar í heiðri.“[4] Vera má að ýmsum finnist sr. Davíð Þór hafa sett blett eða hrukku á „virðingu kirkjunnar“ og/ eða „sóma stéttarinnar“. Í því efni þarf þó að dæma „statusinn“ eftir birtingarvettvanginum. Á fésbók tjá flestir sig því miður hrátt og harkalega líkt og sjá má í „kommentum“ margra sem vítt hafa sr. Davíð Þór fyrir ummæli hans. Lítil von er til að skoðanir eða boðskapur nái athygli á samfélagsmiðlum ef hann er settur fram af borgaralegri háttvísi eða pempíuskap. Löng hefð er líka fyrir hrárri tjáningu í kirkjunni og nægir þar að nefna kirkjufeður okkar Lúther og Vídalín. Að vísu ber ekki að leggja of nútímalegan dóm á orðfæri þeirra en ætli hafi ekki sviðið undan því þegar á þeirra tíð?
Loks ber að geta greinar 2.3 í siðareglunum en þar segir: „Prestsvígslan leggur prestum sérstakar skyldur á herðar í afstöðu og viðmóti við aðra. Presturinn gerir sér því far um að mæta hverjum einstaklingi í kærleika Krists með virðingu eftir því sem skilningur hans og samviska bjóða hverju sinni. Hann ber og sérstaka ábyrgð gagnvart þeim sem minna mega sín og standa höllum fæti í tilverunni.“[5] Mörgum finnst sr. Davíð Þór hafa vegið að virðingu valdhafanna í landinu. Enginn getur á hinn bóginn sakað hann um að hafa brotið gegn síðari hluta greinarinnar.
Hér skal enginn dómur lagður á það hvort sr. Davíð Þór hafi brotið gegn siðareglum P.Í. eða ekki. Til þess er ég ekki bær og til þess er raunar enginn bær nema siðanefnd P.Í. Það virðist þó alls ekki augljóst að um brot sé að ræða og ekki ólíklegt að biskup Íslands og þeir sem henni eru sammála þurfi að rökstyðja það mat eigi að halda því til streitu. Til að siðanefndin geti tekið afstöðu í þessu efni þarf henni að berast formlegt erindi, þá hlýtur hún að taka afstöðu til hverrar einstakrar yrðingar í þeim texta sem til hennar kann að verða skotið og meta hvort hún brjóti í bága við siðareglur og þá hvaða lið þeirra. Vekur raunar furðu að haldið sé fram að um brot á reglunum sé að ræða áður en nefndin hefur fjallað um málið.
Að öllu þessu sögðu skal játað að mér sviðu ummæli sr. Davíðs Þórs sem óflokksbundnum stuðningsmanni VG til áratuga. Þau brutu auk þess á margan hátt gegn hugmyndum mínum um málefnalega umræðu. Þar er þó vissulega um smekksatriði að ræða. Loks ber að harma að þau hafa skapað mörgum kærkomið skálkaskjól til að drepa umræðunni um flóttamannapólitíkina á dreif. — Skal nú að nýju vikið að aðalefni þessa pistils sem er vissulega ekki flóttamannapólitík heldur tjáningarfrelsi presta ekki síst á vettvangi þjóðmálaumræðu.
Njóta prestar sérstaks tjáningarfrelsis?
Oft virðist litið svo á að um tjáningarfrelsi presta gildi aðrar reglur en þegar aðrir borgarar samfélagsins eiga í hlut. Er þá vissulega vísað til óformlegra og óskráðra reglna en ekki ákvæða laga eða stjórnarkrár. Þegar afstaða skal tekin í þessu efni er við fátt að styðjast. Af almennri trúfrelsisumræðu á undangengnum áratugum — sem vissulega hefur lítið sem ekkert verið ástunduð hér á landi — virðist mega álykta að tjáningarfrelsi prestastéttarinnar sé mismunandi eftir því hvort þeir tjá sig í formlegri predikun við guðsþjónustu safnaðarins sem þeir þjóna eða taka þátt í almennri umræðu í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða öðrum opnum vettvangi.
Í hinni almennu umræðu geta prestar ekki kallað eftir meira frelsi, valdi eða áhrifum en hver annar. Það á ekki síst við í fjölhyggjusamfélagi. Þar veltur áhrifamáttur þeirra fyrst og fremst eftir því hve trúverðugir þau teljast hvert og eitt. Í almennri umræðu tala prestar líka í eigin nafni en ekki kirkjunnar. Stöðu þeirra vegna þykir þó líklega mörgum ástæða til að gera ríkari kröfu til þeirra en annarra. Fyrir því eru tæpast nokkur formleg rök.
Ríkur vilji stendur til þess í vestrænum samfélögum að tjáningarfrelsi fólks sé sem mest meðal annars á vettvangi þjóðmálaumræðu. Það hlýtur einnig að eiga við um presta. Stundum má raunar spyrja hvort of rík áhersla kunni að vera lögð á tjáningarfrelsið nú um stundir en ljóst er að mörg okkar á meðal áskilja sér víðtækt frelsi til að smána aðra og lítilsvirða ekki síst á netmiðlum. Virðist við lítið annað að styðjast þegar marka skal útmörk tjáningarfrelsisins en XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. En sumar greinar hans eru heimfæranlegar upp á tjáningu og tjáningarfrelsi. Kemur þar ekki síst til álita gr. 233. a.: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“[6] — Þessi lagagrein sem fjallar um það sem kallað er hatursorðræða eða hatursáróður takmarkar sannarlega tjáningar frelsi okkar allra hvort sem við eru Jón eða sr. Jón.
Mörg sem hafa tjáð sig um „status“ sr. Davíðs Þórs vilja líta á hann sem hatursorðræðu. Þar ber þó að fara varlega. Okkur sem er annt um að umræða af því tagi sé tekin alvarlega og að barist sé gegn henni með öllum tiltækum ráðum ber rík skylda til að skilgreina hana afar þröngt líkt og gert er í lagagreininni. Um er að ræða smánandi og ógnandi hegðun og ummæli gagnvart einstaklingum eða hópum, hér oftast minnihlutahópum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Greinin á því augljóslega ekki við um „status“ sr. Davíðs Þórs.
Margir sérfræðingar á sviði trúfrelsismála líta svo á að tjáningarfrelsi presta sé mun víðtækara og það verði að vega og meta með alveg sérstökum hætti þegar þau predika í guðsþjónustu safnaðarins. Raunar má halda því fram að þá séu því lítil takmörk sett hér á landi og einungis biskup og dómstólar geti metið hvort prestur hafi farið út fyrir umboð sitt og tjáningarfrelsi. Vakni grunur um slíkt er það biskups að kanna hvort predikað hafi verið andstætt kenningu evengelísk-lútherskrar kirkju en dómstóla að dæma um hvort eitthvað hafi verið kennt eða predikað sem „er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“ en það er bannað samkvæmt stjórnarskrá okkar.[7] Þar er vel að merkja ekki vísað til smekksatriða heldur er átt við bein brot gegn almennum hegningarlögum. Þegar stjórnarskrárákvæðinu sleppir er prestur sem sé einungis bundinn af játningar- og/eða kenningargrundvelli kirkjunnar í predikun sinni. Á prestinum hvílir því sú faglega ábyrgð að gera sér grein fyrir hvaða útmörk kenningargrundvöllurinn og stjórnarskráin setja predikuninni og hvenær líklegt sé að hann/hún nálgist þau og hvað skuli þá hugsanlega látið ósagt.
Hér hefur aðeins verið vikið að inntaki eða efni predikunarinnar. Tjáningarfrelsi prests í guðsþjónustu kunna þó líka að vera sett útmörk hvað form áhrærir. — Það skiptir ekki aðeins máli hvað er predikað heldur líka hvernig það er gert. Predikun er flutt í margbrotinni umgjörð sem mótast af guðsþjónusturými, helgisiðum, lýðfræðilegri samsetningu safnaðar hverju sinn og ýmsu fleiru sem til álita getur komið. Það er hluti af fagmennsku prests að setja boðskap sinn fram á þann hátt að hæfi þessari umgjörð staðar, stundar og áheyrenda.
Nú veldur margt því að predikun í guðsþjónustu geti orðið býsna ágeng og jafnvel harkaleg. Þar má nefna til dæmis textann sem lagt er út af og aðstæðurnar sem talað er inn í. Það er líka hluti af fagmennsku prestsins að vega og meta hversu langt skuli ganga í þessu efni og hvenær sé réttlætanlegt og ef til vill nauðsynlegt að verða fruntaleg/ur í stólnum. Það er hverjum söfnuðinum hollara að honum sé ekki hlíft í þessu efni en að honum sé sífellt boðið upp á upphafna, merkingarlitla loðmullu. Það er eitt af mörgum hlutverkum predikunar að vekja til umhugsunar og ákvörðunar. Henni er sjaldnast ætlað að svæfa og róa en vissulega að hugga og hughreysta þegar það á við. Predikun getur því bæði verið blíð og stríð. Fagmennska prestsins krefst þess að hann/hún hafi hvort tveggja á valdi sínu.
Njóta prestar verndar við boðun?
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að hlutverk presta sem predikara er flókið og vandasamt. Af þeim sökum þurfa þau að njóta mikils frelsis og jafnvel ákveðinnar verndar hvað tjáningu varðar. Þetta á vel að merkja fyrst og fremst við um predikunina. Tjái þau sig á almennum vettvangi verða þau að sætta sig við að vera jafn berskjölduð og við hin. Það felst í eðli frjálsrar tjáningar.
Ljóst er að stundum geta prestar fundið sig á berangri í kjölfar umdeildrar predikunar eða hugsanlega annarrar tjáningar en þau eru mörg sem hafa sterkar skoðanir á því hvað megi boða í predikun og hvernig megi gera það: sóknarnefndarfólk, kirkjuþingsfulltrúar, almennt safnaðarfólk, útvarpshlustendur ef predikun hefur verið útvarpað sem og fólk héðan og þaðan sem aldrei kemur til kirkju og er jafnvel ekki í neinni kirkju. Þetta er auðvitað gott. Það er hollara að fólk skiptist á skoðunum um einstakar predikanir eða predikunina í kirkjunni almennt en að um hana ríki dauðaþögn eins og almennt er nú því miður raunin. Þá er mikilvægt að gefa því gaum að í þjóðkirkju á borð við þá íslensku eru trúar- og guðfræðileg málefni alls ekki einkamál presta og/eða guðfræðinga frekar en pólitísk málefni eru einkamál stjórnmálafólks. Á báðum sviðum er ávinningur af að sem flest taki afstöðu og tjái hana. Hitt er verra þegar fólk setur sig í dómarasæti og vill „diktera“ hvað má og hvað má ekki — jafnvel út frá persónulegum smekk! Það er raunar hluti af margnefndri fagmennsku presta að taka slíkum ábendingum af gagnrýninni varúð og forðast að láta þær hafa óæskileg áhrif á predikun sína hvað efni eða form áhrærir.
Þegar prestur lendir á berangri er nauðsynlegt að kirkja hans/hennar standi með prestinum. Slíkur stuðningur ætti fyrst og fremst að koma fram í að efla prestinn í að gæta fagmennsku sinnar. Það er enda eitt af frumhlutverkum biskups að efla fagmennsku í kirkjunni. — Þegar þörf er á geta prestar líka þurft að axla ábyrgð á orðum sínum og gjörðum eins og við öll. Áður en þeim er gert að sæta ábyrgð er á hinn bóginn óhjákvæmilegt að mál þeirra hafi hlotið formlega og vandaða meðferð til þess bærra aðila og að það sé ljóst í hvaða atriðum og á hvaða grundvelli þeim sé gert að sæta ábyrgð. Ef það er gert á grundvelli siðareglna P.Í. hlýtur rökstutt álit siðanefndar félagsins að þurfa að liggja fyrir.
Hér hefur þráfaldlega verið vísað til fagmennsku presta. Skal þess að lokum getið að með því er átt við þekkingu, hæfni og færni til að vinna á sjálfstæðan hátt að flóknum og sérhæfðum viðfangsefnum í síbreytilegu umhverfi á grundvelli fárra skráðra og óskráðra grundvallarreglna. Til að fagmennska fái þrifist innan stofnunar þarf að ríkja gagnkvæmt traust yfir- og undirmanna sem og ríkur vilji til samstarfs og þróunar. Á þann hátt er líklegra að árangur náist en með boðum og bönnum, tiltali og áminningum.
Aftanmálsgreinar:
[1] Sjá og Birgir Þórarinsson, „Illmælgi klerks“, Morgunblaðið 31. maí 2022, bls. 15. [2] Hjalti Hugason, Hvað kostar þjóðkirkja?, kirkjubladid. is, sótt 29. maí 2022 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hvad-kostar-thjodkirkja/ [3] Siðareglir P. Í. Og reglur um siðanefnd, kirkjan.is, sótt 29. maí 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Adrar-heimildir/Si%C3%B0areglur%20P.%C3%8D.%20og%20reglur%20um%20si%C3%B0anefnd.pdf. Leturbr. HH. [4] Sama. [5] Sama. [6] Almenn hegningarlög nr. 19/1940 sótt 28. maí 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html. [7] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.) sótt 28. maí 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
Upp á síðkastið hafa gefist ýmis tækifæri til að velta fyrir sér tjáningarfrelsi presta og þá ekki síst presta þjóðkirkjunnar. Í byrjun maí birti Björn Bjarnason fyrrum alþingismaður og ráðherra grein í Mbl. sem gaf tilefni til þessa.[1] Nú undir lok mánaðarins hafa ummæli sr. Davíðs Þórs Jónssonar í fésbókarfærslu skekið samfélagið. Fram hafa komið vandlætingarraddir úr óvæntustu áttum. Gallharðir kirkjukarlar og -kerlingar, hörðustu guðleysingjar og fólk allt þar á milli hafa sameinast í vandlætingu. Með nokkrum góðum undantekningum hefur á hinn bóginn lítið farið fyrir yfirvegaðri umræðu um það álitamál sem færslan vakti: hversu langt nær tjáningarfrelsi presta þjóðkirkjunnar? Er það takmarkaðra en annarra — eða nær það ef til vill lengra?
Þegar hefur verið brugðist við grein Björns Bjarnasonar á þessum vettvangi og verður það ekki endurtekið hér.[2] Áhugavert er á hinn bóginn að staldra við „status“ sr. Davíðs Þórs og nota hann sem dæmi um það álitamál sem hér hefur verið reifað án þess þó að gera hann að aðalatriði máls.
Braut sr. Davíð Þór siðareglur?
Ýmsir, þar á meðal biskup Íslands, álíta að sr. Davíð Þór hafi brotið gegn siðareglum Prestafélags Íslands. En er það augljóst? Í reglunum segir vissulega í grein 3.6: „Prestur gætir þess að vera málefnalegur og gætir varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.“[3] Mörgum virðist — og hugsanlega með réttu — að í færslu sinni hafi sr. Davíð Þór hvorki verið málefnalegur né gætt varkárni. Það er þó vissulega matsatriði. Svo vill þó til að ekki er mögulegt að heimfæra þessa grein upp á ummæli hans um flóttamannastefnu ríkisstjórnarinnar almennt og VG sérstaklega. Þar er hvorki um kenningarlegt né guðfræðilegt mál að ræða í þeirri merkingu sem liggur beinast við að leggja í þau orð í ívitnaðri grein siðareglnanna. Þess skal þó getið að brottvísunarmálið sem sr. Davíð Þór tjáði sig um er ekki pólitískt mál, þaðan af síður flokkspólitískt mál heldur samfélagsmál með sterka siðfræðilega slagsíðu. — Það er mikilvæg borgaraleg skylda að móta sér skoðun í slíkum efnum og láta hana í ljós.
Að fleiru er þó að hyggja. Í grein 2.9 segir: „Prestur ber ábyrgð á að rækja embætti sitt eftir gildandi lögum og kirkjusiðum. Hann er fulltrúi kirkju sinnar og stéttar. Hann gætir þess í starfi og einkalífi að hafa virðingu kirkjunnar og sóma stéttarinnar í heiðri.“[4] Vera má að ýmsum finnist sr. Davíð Þór hafa sett blett eða hrukku á „virðingu kirkjunnar“ og/ eða „sóma stéttarinnar“. Í því efni þarf þó að dæma „statusinn“ eftir birtingarvettvanginum. Á fésbók tjá flestir sig því miður hrátt og harkalega líkt og sjá má í „kommentum“ margra sem vítt hafa sr. Davíð Þór fyrir ummæli hans. Lítil von er til að skoðanir eða boðskapur nái athygli á samfélagsmiðlum ef hann er settur fram af borgaralegri háttvísi eða pempíuskap. Löng hefð er líka fyrir hrárri tjáningu í kirkjunni og nægir þar að nefna kirkjufeður okkar Lúther og Vídalín. Að vísu ber ekki að leggja of nútímalegan dóm á orðfæri þeirra en ætli hafi ekki sviðið undan því þegar á þeirra tíð?
Loks ber að geta greinar 2.3 í siðareglunum en þar segir: „Prestsvígslan leggur prestum sérstakar skyldur á herðar í afstöðu og viðmóti við aðra. Presturinn gerir sér því far um að mæta hverjum einstaklingi í kærleika Krists með virðingu eftir því sem skilningur hans og samviska bjóða hverju sinni. Hann ber og sérstaka ábyrgð gagnvart þeim sem minna mega sín og standa höllum fæti í tilverunni.“[5] Mörgum finnst sr. Davíð Þór hafa vegið að virðingu valdhafanna í landinu. Enginn getur á hinn bóginn sakað hann um að hafa brotið gegn síðari hluta greinarinnar.
Hér skal enginn dómur lagður á það hvort sr. Davíð Þór hafi brotið gegn siðareglum P.Í. eða ekki. Til þess er ég ekki bær og til þess er raunar enginn bær nema siðanefnd P.Í. Það virðist þó alls ekki augljóst að um brot sé að ræða og ekki ólíklegt að biskup Íslands og þeir sem henni eru sammála þurfi að rökstyðja það mat eigi að halda því til streitu. Til að siðanefndin geti tekið afstöðu í þessu efni þarf henni að berast formlegt erindi, þá hlýtur hún að taka afstöðu til hverrar einstakrar yrðingar í þeim texta sem til hennar kann að verða skotið og meta hvort hún brjóti í bága við siðareglur og þá hvaða lið þeirra. Vekur raunar furðu að haldið sé fram að um brot á reglunum sé að ræða áður en nefndin hefur fjallað um málið.
Að öllu þessu sögðu skal játað að mér sviðu ummæli sr. Davíðs Þórs sem óflokksbundnum stuðningsmanni VG til áratuga. Þau brutu auk þess á margan hátt gegn hugmyndum mínum um málefnalega umræðu. Þar er þó vissulega um smekksatriði að ræða. Loks ber að harma að þau hafa skapað mörgum kærkomið skálkaskjól til að drepa umræðunni um flóttamannapólitíkina á dreif. — Skal nú að nýju vikið að aðalefni þessa pistils sem er vissulega ekki flóttamannapólitík heldur tjáningarfrelsi presta ekki síst á vettvangi þjóðmálaumræðu.
Njóta prestar sérstaks tjáningarfrelsis?
Oft virðist litið svo á að um tjáningarfrelsi presta gildi aðrar reglur en þegar aðrir borgarar samfélagsins eiga í hlut. Er þá vissulega vísað til óformlegra og óskráðra reglna en ekki ákvæða laga eða stjórnarkrár. Þegar afstaða skal tekin í þessu efni er við fátt að styðjast. Af almennri trúfrelsisumræðu á undangengnum áratugum — sem vissulega hefur lítið sem ekkert verið ástunduð hér á landi — virðist mega álykta að tjáningarfrelsi prestastéttarinnar sé mismunandi eftir því hvort þeir tjá sig í formlegri predikun við guðsþjónustu safnaðarins sem þeir þjóna eða taka þátt í almennri umræðu í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða öðrum opnum vettvangi.
Í hinni almennu umræðu geta prestar ekki kallað eftir meira frelsi, valdi eða áhrifum en hver annar. Það á ekki síst við í fjölhyggjusamfélagi. Þar veltur áhrifamáttur þeirra fyrst og fremst eftir því hve trúverðugir þau teljast hvert og eitt. Í almennri umræðu tala prestar líka í eigin nafni en ekki kirkjunnar. Stöðu þeirra vegna þykir þó líklega mörgum ástæða til að gera ríkari kröfu til þeirra en annarra. Fyrir því eru tæpast nokkur formleg rök.
Ríkur vilji stendur til þess í vestrænum samfélögum að tjáningarfrelsi fólks sé sem mest meðal annars á vettvangi þjóðmálaumræðu. Það hlýtur einnig að eiga við um presta. Stundum má raunar spyrja hvort of rík áhersla kunni að vera lögð á tjáningarfrelsið nú um stundir en ljóst er að mörg okkar á meðal áskilja sér víðtækt frelsi til að smána aðra og lítilsvirða ekki síst á netmiðlum. Virðist við lítið annað að styðjast þegar marka skal útmörk tjáningarfrelsisins en XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. En sumar greinar hans eru heimfæranlegar upp á tjáningu og tjáningarfrelsi. Kemur þar ekki síst til álita gr. 233. a.: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“[6] — Þessi lagagrein sem fjallar um það sem kallað er hatursorðræða eða hatursáróður takmarkar sannarlega tjáningar frelsi okkar allra hvort sem við eru Jón eða sr. Jón.
Mörg sem hafa tjáð sig um „status“ sr. Davíðs Þórs vilja líta á hann sem hatursorðræðu. Þar ber þó að fara varlega. Okkur sem er annt um að umræða af því tagi sé tekin alvarlega og að barist sé gegn henni með öllum tiltækum ráðum ber rík skylda til að skilgreina hana afar þröngt líkt og gert er í lagagreininni. Um er að ræða smánandi og ógnandi hegðun og ummæli gagnvart einstaklingum eða hópum, hér oftast minnihlutahópum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Greinin á því augljóslega ekki við um „status“ sr. Davíðs Þórs.
Margir sérfræðingar á sviði trúfrelsismála líta svo á að tjáningarfrelsi presta sé mun víðtækara og það verði að vega og meta með alveg sérstökum hætti þegar þau predika í guðsþjónustu safnaðarins. Raunar má halda því fram að þá séu því lítil takmörk sett hér á landi og einungis biskup og dómstólar geti metið hvort prestur hafi farið út fyrir umboð sitt og tjáningarfrelsi. Vakni grunur um slíkt er það biskups að kanna hvort predikað hafi verið andstætt kenningu evengelísk-lútherskrar kirkju en dómstóla að dæma um hvort eitthvað hafi verið kennt eða predikað sem „er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“ en það er bannað samkvæmt stjórnarskrá okkar.[7] Þar er vel að merkja ekki vísað til smekksatriða heldur er átt við bein brot gegn almennum hegningarlögum. Þegar stjórnarskrárákvæðinu sleppir er prestur sem sé einungis bundinn af játningar- og/eða kenningargrundvelli kirkjunnar í predikun sinni. Á prestinum hvílir því sú faglega ábyrgð að gera sér grein fyrir hvaða útmörk kenningargrundvöllurinn og stjórnarskráin setja predikuninni og hvenær líklegt sé að hann/hún nálgist þau og hvað skuli þá hugsanlega látið ósagt.
Hér hefur aðeins verið vikið að inntaki eða efni predikunarinnar. Tjáningarfrelsi prests í guðsþjónustu kunna þó líka að vera sett útmörk hvað form áhrærir. — Það skiptir ekki aðeins máli hvað er predikað heldur líka hvernig það er gert. Predikun er flutt í margbrotinni umgjörð sem mótast af guðsþjónusturými, helgisiðum, lýðfræðilegri samsetningu safnaðar hverju sinn og ýmsu fleiru sem til álita getur komið. Það er hluti af fagmennsku prests að setja boðskap sinn fram á þann hátt að hæfi þessari umgjörð staðar, stundar og áheyrenda.
Nú veldur margt því að predikun í guðsþjónustu geti orðið býsna ágeng og jafnvel harkaleg. Þar má nefna til dæmis textann sem lagt er út af og aðstæðurnar sem talað er inn í. Það er líka hluti af fagmennsku prestsins að vega og meta hversu langt skuli ganga í þessu efni og hvenær sé réttlætanlegt og ef til vill nauðsynlegt að verða fruntaleg/ur í stólnum. Það er hverjum söfnuðinum hollara að honum sé ekki hlíft í þessu efni en að honum sé sífellt boðið upp á upphafna, merkingarlitla loðmullu. Það er eitt af mörgum hlutverkum predikunar að vekja til umhugsunar og ákvörðunar. Henni er sjaldnast ætlað að svæfa og róa en vissulega að hugga og hughreysta þegar það á við. Predikun getur því bæði verið blíð og stríð. Fagmennska prestsins krefst þess að hann/hún hafi hvort tveggja á valdi sínu.
Njóta prestar verndar við boðun?
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að hlutverk presta sem predikara er flókið og vandasamt. Af þeim sökum þurfa þau að njóta mikils frelsis og jafnvel ákveðinnar verndar hvað tjáningu varðar. Þetta á vel að merkja fyrst og fremst við um predikunina. Tjái þau sig á almennum vettvangi verða þau að sætta sig við að vera jafn berskjölduð og við hin. Það felst í eðli frjálsrar tjáningar.
Ljóst er að stundum geta prestar fundið sig á berangri í kjölfar umdeildrar predikunar eða hugsanlega annarrar tjáningar en þau eru mörg sem hafa sterkar skoðanir á því hvað megi boða í predikun og hvernig megi gera það: sóknarnefndarfólk, kirkjuþingsfulltrúar, almennt safnaðarfólk, útvarpshlustendur ef predikun hefur verið útvarpað sem og fólk héðan og þaðan sem aldrei kemur til kirkju og er jafnvel ekki í neinni kirkju. Þetta er auðvitað gott. Það er hollara að fólk skiptist á skoðunum um einstakar predikanir eða predikunina í kirkjunni almennt en að um hana ríki dauðaþögn eins og almennt er nú því miður raunin. Þá er mikilvægt að gefa því gaum að í þjóðkirkju á borð við þá íslensku eru trúar- og guðfræðileg málefni alls ekki einkamál presta og/eða guðfræðinga frekar en pólitísk málefni eru einkamál stjórnmálafólks. Á báðum sviðum er ávinningur af að sem flest taki afstöðu og tjái hana. Hitt er verra þegar fólk setur sig í dómarasæti og vill „diktera“ hvað má og hvað má ekki — jafnvel út frá persónulegum smekk! Það er raunar hluti af margnefndri fagmennsku presta að taka slíkum ábendingum af gagnrýninni varúð og forðast að láta þær hafa óæskileg áhrif á predikun sína hvað efni eða form áhrærir.
Þegar prestur lendir á berangri er nauðsynlegt að kirkja hans/hennar standi með prestinum. Slíkur stuðningur ætti fyrst og fremst að koma fram í að efla prestinn í að gæta fagmennsku sinnar. Það er enda eitt af frumhlutverkum biskups að efla fagmennsku í kirkjunni. — Þegar þörf er á geta prestar líka þurft að axla ábyrgð á orðum sínum og gjörðum eins og við öll. Áður en þeim er gert að sæta ábyrgð er á hinn bóginn óhjákvæmilegt að mál þeirra hafi hlotið formlega og vandaða meðferð til þess bærra aðila og að það sé ljóst í hvaða atriðum og á hvaða grundvelli þeim sé gert að sæta ábyrgð. Ef það er gert á grundvelli siðareglna P.Í. hlýtur rökstutt álit siðanefndar félagsins að þurfa að liggja fyrir.
Hér hefur þráfaldlega verið vísað til fagmennsku presta. Skal þess að lokum getið að með því er átt við þekkingu, hæfni og færni til að vinna á sjálfstæðan hátt að flóknum og sérhæfðum viðfangsefnum í síbreytilegu umhverfi á grundvelli fárra skráðra og óskráðra grundvallarreglna. Til að fagmennska fái þrifist innan stofnunar þarf að ríkja gagnkvæmt traust yfir- og undirmanna sem og ríkur vilji til samstarfs og þróunar. Á þann hátt er líklegra að árangur náist en með boðum og bönnum, tiltali og áminningum.
Aftanmálsgreinar:
[1] Sjá og Birgir Þórarinsson, „Illmælgi klerks“, Morgunblaðið 31. maí 2022, bls. 15. [2] Hjalti Hugason, Hvað kostar þjóðkirkja?, kirkjubladid. is, sótt 29. maí 2022 af https://www.kirkjubladid.is/gestaglugginn/hvad-kostar-thjodkirkja/ [3] Siðareglir P. Í. Og reglur um siðanefnd, kirkjan.is, sótt 29. maí 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Adrar-heimildir/Si%C3%B0areglur%20P.%C3%8D.%20og%20reglur%20um%20si%C3%B0anefnd.pdf. Leturbr. HH. [4] Sama. [5] Sama. [6] Almenn hegningarlög nr. 19/1940 sótt 28. maí 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html. [7] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (63. gr.) sótt 28. maí 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html