Þegar hreintrúin stal jólunum:
Lauflétt sófasagnfræði í léttum dúr

Það er sígilt umræðu- og jafnvel deiluefni þegar jólin nálgast, hvers eðlis þau eru, fyrir hverja þau eru haldin og hvað er viðeigandi að gera í kringum þau. Eru jólin trúarhátíð – eða hefur kaupmennska og neysluhyggja alfarið tekið yfir? Eru þau kristin hátíð eða heiðinn siður? Og hvernig má tala við okkar minnstu bræður og systur um jólasiðina? Eigum við að ræða kirkjuheimsóknir á aðventu? Sums staðar hafa þræturnar um jólin smellpassað inn í svokölluð menningarátök og fólk vandlega neglt sig inn í sitt hvern kampinn, með eða á móti einhverju sem enginn er sammála um hvað er.

Mig langar hins vegar að taka fyrir, í þessari stuttu grein við Gestaglugga Kirkjublaðsins, tímabil í sögunni þegar sótt var að jólunum og jólahaldi úr því sem má kalla óvæntri átt, þ.e. af þeim sem tóku kristna trú sína svo alvarlega að ekki var pláss fyrir jólin í þeirra heimsmynd. Jólunum var því slaufað og því fylgt eftir harðri hendi.

Þetta er sem sagt enska hreintrúarfólkið (e. puritans), sem réði ríkjum á Bretlandseyjum um miðbik sautjándu aldar og lengur í Nýja Englandi á austurströnd Bandaríkjanna. Hreintrúarfólkið var hluti af róttækri siðbótarhreyfingu, en venja er að tímasetja þá hreyfingu svo að Marteinn Lúther hafi hrint henni af stað í Evrópu árið 1517 í þýsku borginni Wittenberg.

Hinrik VIII

Til Bretlandseyja náðu hugmyndir siðbótarinnar fljótlega en tóku á sig sérstakt form, ólíkt til að mynda því sem gerðist á Norðurlöndunum. Þar urðu til hreinræktaðar lútherskar ríkiskirkjur en þróunin á Englandi varð önnur. Þar kemur til sögunnar konungurinn vörpulegi Hinrik VIII – sem er kannski þekktastur fyrir að hafa átt sex eiginkonur og látið taka tvær þeirra af lífi. Hann skildi við tvær, ein lést og ein lifði kallinn.

Og það voru einmitt hjúskaparmál Hinriks VIII sem urðu til þess að hann klauf ríkið sem hann stjórnaði, formlega frá kaþólsku kirkjunni sem var á þessum tíma langstærsta miðstýrða veldið í heimshlutanum – og líklega heiminum.

Katrín af Aragon

Þannig var að Hinrik var í hjúskap með Katrínu af Aragon, hún var dóttir spænsku konungshjónanna Ísabellu og Ferdinands og þannig nátengd inn í hjarta kaþólska vígisins. Eftir tuttugu ára hjúskap hafði Katrínu ekki auðnast að eignast son, sem var mikilvægt til að viðhalda krúnunni í ættinni. Og Hinrik fór að leiðast þófið og vildi fá hjónaband þeirra ógilt – sem var það svigrúm sem kaþólska kirkjan bauð upp á í hjúskaparráðgjöf. En það gekk síðan ekki eftir og snerist upp í hreinræktaða milliríkjadeilu þar sem kóngur og páfi tókust á. Hinrik vildi ekki láta segja sér fyrir verkum og kom því þannig fyrir að hann varð sjálfur höfuð kirkjunnar í ríki sínu – það sem páfi hafði verið áður – og gat þess vegna sjálfur skrifað upp á ógildingu á eigin hjónabandi.

Blóð María

Þetta brölt varð síðan upphafið að ensku kirkjunni (e. Church of England). Eftir dauða Hinriks VIII tók dóttir hans María Túdor við hásætinu, hún var dóttir hans og Katrínar, og vildi halda kaþólsku trúnni í ríkinu.

Gekk María hart fram í ofsóknum gegn mótmælendum á valdatíma sínum og var þess vegna kölluð Bloody Mary (ísl. Blóð-María).

Elísabet I

Eftir hennar dag tók við systir hennar, Elísabet I, dóttir Önnu Boleyn (eiginkonu númer tvö sem konungurinn lét taka af lífi) sem festi biskupakirkjuna í sessi, ríkti með röggsemi í næstum hálfa öld og tókst að skapa andrúmsloft og aðstæður þar sem listir og menning blómstruðu. Tími Elísabetar I er t.a.m. tíminn sem Shakespeare starfaði og skóp sín listaverk, líka siglingameistarinn Francis Drake, svo einhverjir séu nefndir.

En nú komum við að hreintrúarfólkinu. Það var sem sagt róttækur siðbótararmur, sem fannst biskupakirkjan alls ekki taka nógu fast á kaþólsku trúvillunni og ekki greina sig með nógu skýrum hætti frá rómversku kirkjunni. Trúaratriði greindu á milli þeirra og ensku kirkjunnar en ekki síður ólíkar áherslur á því hvernig ætti að lifa hinu kristna lífi í þessum heimi. Í augum hreintrúarfólksins lá höfuðáherslan þar á ábyrgð einstaklingsins, persónulegri trúarafstöðu, sem og lögum og reglum í lífinu almennt.

Nefna má tvo áhrifamikla einstaklinga sem er mikilvægt að þekkja, til að skilja hreintrúarfólkið, það er Frakkinn Jóhann Kalvín og Skotinn Jóhann Knox. Vegna sinnar heitu hugmyndafræði og staðfestu rákust þeir illa í meginstraumnum og í umróti siðbótaráranna í Evrópu fundu þeir báðir skjól í svissnesku borginni Genf sem varð nokkurs konar miðstöð hinnar róttæku siðbótar í Evrópu. Áhrif þeirra náðu víða um heim og höfðu þeir djúp áhrif á trúariðkun í Evrópu og síðar Ameríku.

Kalvínsku áhrifin blönduðust síðan við stjórnmálaátök og félagslegar breytingar á Bretlandseyjum; þarna er áhugavert að skoða t.d. muninn á Skotlandi og Englandi en það er ekki fyrr en 1707 sem Skotland rennur inn í Sameinaða breska konungdæmið. Hreyfing hreintrúarfólksins átti sterkt vígi í Skotlandi fyrir þann tíma.

Karl I

Eftir dauða Elísabetar fyrstu tekur hins vegar við mikill umbrotatími á Englandi og það tengist ekki síst átökum um hvort þingið eða krúnan eigi að hafa sterkari stöðu. Um miðja 17. öld hefst blóðugur tími borgarastyrjaldar sem endar með því að konungurinn sjálfur, Karl I, er hálshöggvinn árið 1649 og við tekur stutt tímabil algjörs þingræðis á Englandi. Það er Oliver Cromwell og hans menn sem ráða þar ríkjum og þar með opnast leiðir fyrir hreintrúarfólkið til að uppfylla köllun sína – sem er að hreinsa England og ensku kirkjuna af kaþólskum áhrifum.

Og kjörin leið til þess var að banna jólin! Enska þingið setti lög sem miðuðu að því að láta sem jólin væru ekki til. Og munum að jólin voru stórt dæmi í lífi fólks. Fæðingu frelsarans var fagnað með elegant kirkjuhátíðum og almennri gleði, leikhúsin iðuðu af lífi og matur og drykkur voru í forgrunni.

En nýju lögin bönnuðu að halda upp á jólin með sérstöku helgihaldi í kirkjum landsins og kaupmönnum og veitingafólki var bannað að hafa lokað um jóladagana. Sem sagt: kirkjur lokaðar og krárnar opnar!

Eins og allir metnaðarfullir löggjafar gengu þeir hart fram í að framfylgja þessu, að enginn væri að pukrast með jólamessur í kirkjunum sínum – og að það væri nú örugglega opið hjá slátraranum, bruggaranum, skósmiðnum og þeim öllum.

En þá kemur spurningin sem við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna var þetta sannkristna og einlæga trúfólk, svona á móti jólunum og sérstaklega trúarlegri tjáningu á þeim? Fyrir mig, sem trúaða manneskju sem elskar jólin, er þetta mjög áhugavert.

Við þekkjum auðvitað helstu ástæðurnar fyrir óþoli hreintrúarfólks á jólunum. Í fyrsta lagi settu þeir fyrir sig að það er enginn biblíulegur grunnur fyrir því að jólin séu 25. desember eða að frelsarinn hafi fæðst þá. Og stór hluti af sjálfsmynd hreintrúarfólks byggir á bókstafnum og því sem stendur í Ritningunni. Það sem ekki á sér stað í Biblíunni er því vafasamt og tortryggilegt.

Í öðru lagi var það sem þeir upplifðu sem heiðnar rætur jólahátíðarinnar, sem voru raktar til vetrarhátíðar Rómverja til að fagna nýju ári og hækkandi sól. Þessi tilfinning um heiðinn bakgrunn jólanna truflaði þá óheyrilega og þeim fannst það hafa óviðeigandi áhrif á kristna hátíð og kristið samfélag eins og þeir vildu sjá það.

Sem sagt, þessi minnihlutahópur notaði pólitísk áhrif sem hann hafði, gat látið loka kirkjum um jólin og þvingað fólk til að vinna – en almenningur sýndi auðvitað sterka viðspyrnu. Því hver vill láta svipta sig tækifærinu til að hafa gaman, leika sér, brjóta upp hversdaginn með hátíðlegum athöfnum, borða og drekka vel? Sunnudagar, sem hreintrúarfólk hafði ákveðið að væru einu dagarnir sem mætti hafa helgihald, aftur til að greina sig frá kaþólikkum, sem hafa ótal helgidaga af alls konar tilefnum, sem féllu nálægt jólum voru notaðir til að lauma inn elementum frá jólamessunni og fagna fæðingu frelsarans. Fólk hélt áfram að halda jólin eins og því fannst við hæfi og sums staðar urðu mótmæli og átök þar sem slóst í brýnu.

Karl II

Og hér má segja að fólkið hafi fengið sitt fram, því við endurreisn konungdæmisins árið 1660 og þegar Karl II tók við krúnunni voru lög hreintrúarfólksins felld úr gildi og kirkjur fengu að vera opnar á jólunum. Jólin voru boðin velkomin aftur og einnig frelsið til að gera það sem manni sýnist á jólunum – þ.m.t. frelsi til að halda trúarleg jól á ný.

Það sem mér finnst heillandi við þessa atburðarás er þversögnin sem felst í því að hið trúarlega vald sem hreintrúarfólkið fór með reyndi að bæla hið trúarlega við jólin en þvinga hið veraldlega til að halda sínu. Þannig að þessi saga er sniðugt innlegg inn í þrætuepli samtímans þar sem hreintrúarfólk af alls konar tagi, innan kirkju og utan, vill setja frelsi fólks skorður til að tjá upplifun sína af jólum.

Þetta er líka heillandi saga sem nálgast hvernig samspil trúar og samfélags tekur á sig ólíkar myndir – og hvernig boð og bönn fara stundum alveg öfugt ofan í fólk og er líklegast, þegar upp er staðið, alls ekki rétta leiðin til að breyta hlutum.

Gleðileg jól!

Helgihald á aðventu og um jól og áramót í Skálholtsprestakalli 2024

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þegar hreintrúin stal jólunum:
Lauflétt sófasagnfræði í léttum dúr

Það er sígilt umræðu- og jafnvel deiluefni þegar jólin nálgast, hvers eðlis þau eru, fyrir hverja þau eru haldin og hvað er viðeigandi að gera í kringum þau. Eru jólin trúarhátíð – eða hefur kaupmennska og neysluhyggja alfarið tekið yfir? Eru þau kristin hátíð eða heiðinn siður? Og hvernig má tala við okkar minnstu bræður og systur um jólasiðina? Eigum við að ræða kirkjuheimsóknir á aðventu? Sums staðar hafa þræturnar um jólin smellpassað inn í svokölluð menningarátök og fólk vandlega neglt sig inn í sitt hvern kampinn, með eða á móti einhverju sem enginn er sammála um hvað er.

Mig langar hins vegar að taka fyrir, í þessari stuttu grein við Gestaglugga Kirkjublaðsins, tímabil í sögunni þegar sótt var að jólunum og jólahaldi úr því sem má kalla óvæntri átt, þ.e. af þeim sem tóku kristna trú sína svo alvarlega að ekki var pláss fyrir jólin í þeirra heimsmynd. Jólunum var því slaufað og því fylgt eftir harðri hendi.

Þetta er sem sagt enska hreintrúarfólkið (e. puritans), sem réði ríkjum á Bretlandseyjum um miðbik sautjándu aldar og lengur í Nýja Englandi á austurströnd Bandaríkjanna. Hreintrúarfólkið var hluti af róttækri siðbótarhreyfingu, en venja er að tímasetja þá hreyfingu svo að Marteinn Lúther hafi hrint henni af stað í Evrópu árið 1517 í þýsku borginni Wittenberg.

Hinrik VIII

Til Bretlandseyja náðu hugmyndir siðbótarinnar fljótlega en tóku á sig sérstakt form, ólíkt til að mynda því sem gerðist á Norðurlöndunum. Þar urðu til hreinræktaðar lútherskar ríkiskirkjur en þróunin á Englandi varð önnur. Þar kemur til sögunnar konungurinn vörpulegi Hinrik VIII – sem er kannski þekktastur fyrir að hafa átt sex eiginkonur og látið taka tvær þeirra af lífi. Hann skildi við tvær, ein lést og ein lifði kallinn.

Og það voru einmitt hjúskaparmál Hinriks VIII sem urðu til þess að hann klauf ríkið sem hann stjórnaði, formlega frá kaþólsku kirkjunni sem var á þessum tíma langstærsta miðstýrða veldið í heimshlutanum – og líklega heiminum.

Katrín af Aragon

Þannig var að Hinrik var í hjúskap með Katrínu af Aragon, hún var dóttir spænsku konungshjónanna Ísabellu og Ferdinands og þannig nátengd inn í hjarta kaþólska vígisins. Eftir tuttugu ára hjúskap hafði Katrínu ekki auðnast að eignast son, sem var mikilvægt til að viðhalda krúnunni í ættinni. Og Hinrik fór að leiðast þófið og vildi fá hjónaband þeirra ógilt – sem var það svigrúm sem kaþólska kirkjan bauð upp á í hjúskaparráðgjöf. En það gekk síðan ekki eftir og snerist upp í hreinræktaða milliríkjadeilu þar sem kóngur og páfi tókust á. Hinrik vildi ekki láta segja sér fyrir verkum og kom því þannig fyrir að hann varð sjálfur höfuð kirkjunnar í ríki sínu – það sem páfi hafði verið áður – og gat þess vegna sjálfur skrifað upp á ógildingu á eigin hjónabandi.

Blóð María

Þetta brölt varð síðan upphafið að ensku kirkjunni (e. Church of England). Eftir dauða Hinriks VIII tók dóttir hans María Túdor við hásætinu, hún var dóttir hans og Katrínar, og vildi halda kaþólsku trúnni í ríkinu.

Gekk María hart fram í ofsóknum gegn mótmælendum á valdatíma sínum og var þess vegna kölluð Bloody Mary (ísl. Blóð-María).

Elísabet I

Eftir hennar dag tók við systir hennar, Elísabet I, dóttir Önnu Boleyn (eiginkonu númer tvö sem konungurinn lét taka af lífi) sem festi biskupakirkjuna í sessi, ríkti með röggsemi í næstum hálfa öld og tókst að skapa andrúmsloft og aðstæður þar sem listir og menning blómstruðu. Tími Elísabetar I er t.a.m. tíminn sem Shakespeare starfaði og skóp sín listaverk, líka siglingameistarinn Francis Drake, svo einhverjir séu nefndir.

En nú komum við að hreintrúarfólkinu. Það var sem sagt róttækur siðbótararmur, sem fannst biskupakirkjan alls ekki taka nógu fast á kaþólsku trúvillunni og ekki greina sig með nógu skýrum hætti frá rómversku kirkjunni. Trúaratriði greindu á milli þeirra og ensku kirkjunnar en ekki síður ólíkar áherslur á því hvernig ætti að lifa hinu kristna lífi í þessum heimi. Í augum hreintrúarfólksins lá höfuðáherslan þar á ábyrgð einstaklingsins, persónulegri trúarafstöðu, sem og lögum og reglum í lífinu almennt.

Nefna má tvo áhrifamikla einstaklinga sem er mikilvægt að þekkja, til að skilja hreintrúarfólkið, það er Frakkinn Jóhann Kalvín og Skotinn Jóhann Knox. Vegna sinnar heitu hugmyndafræði og staðfestu rákust þeir illa í meginstraumnum og í umróti siðbótaráranna í Evrópu fundu þeir báðir skjól í svissnesku borginni Genf sem varð nokkurs konar miðstöð hinnar róttæku siðbótar í Evrópu. Áhrif þeirra náðu víða um heim og höfðu þeir djúp áhrif á trúariðkun í Evrópu og síðar Ameríku.

Kalvínsku áhrifin blönduðust síðan við stjórnmálaátök og félagslegar breytingar á Bretlandseyjum; þarna er áhugavert að skoða t.d. muninn á Skotlandi og Englandi en það er ekki fyrr en 1707 sem Skotland rennur inn í Sameinaða breska konungdæmið. Hreyfing hreintrúarfólksins átti sterkt vígi í Skotlandi fyrir þann tíma.

Karl I

Eftir dauða Elísabetar fyrstu tekur hins vegar við mikill umbrotatími á Englandi og það tengist ekki síst átökum um hvort þingið eða krúnan eigi að hafa sterkari stöðu. Um miðja 17. öld hefst blóðugur tími borgarastyrjaldar sem endar með því að konungurinn sjálfur, Karl I, er hálshöggvinn árið 1649 og við tekur stutt tímabil algjörs þingræðis á Englandi. Það er Oliver Cromwell og hans menn sem ráða þar ríkjum og þar með opnast leiðir fyrir hreintrúarfólkið til að uppfylla köllun sína – sem er að hreinsa England og ensku kirkjuna af kaþólskum áhrifum.

Og kjörin leið til þess var að banna jólin! Enska þingið setti lög sem miðuðu að því að láta sem jólin væru ekki til. Og munum að jólin voru stórt dæmi í lífi fólks. Fæðingu frelsarans var fagnað með elegant kirkjuhátíðum og almennri gleði, leikhúsin iðuðu af lífi og matur og drykkur voru í forgrunni.

En nýju lögin bönnuðu að halda upp á jólin með sérstöku helgihaldi í kirkjum landsins og kaupmönnum og veitingafólki var bannað að hafa lokað um jóladagana. Sem sagt: kirkjur lokaðar og krárnar opnar!

Eins og allir metnaðarfullir löggjafar gengu þeir hart fram í að framfylgja þessu, að enginn væri að pukrast með jólamessur í kirkjunum sínum – og að það væri nú örugglega opið hjá slátraranum, bruggaranum, skósmiðnum og þeim öllum.

En þá kemur spurningin sem við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna var þetta sannkristna og einlæga trúfólk, svona á móti jólunum og sérstaklega trúarlegri tjáningu á þeim? Fyrir mig, sem trúaða manneskju sem elskar jólin, er þetta mjög áhugavert.

Við þekkjum auðvitað helstu ástæðurnar fyrir óþoli hreintrúarfólks á jólunum. Í fyrsta lagi settu þeir fyrir sig að það er enginn biblíulegur grunnur fyrir því að jólin séu 25. desember eða að frelsarinn hafi fæðst þá. Og stór hluti af sjálfsmynd hreintrúarfólks byggir á bókstafnum og því sem stendur í Ritningunni. Það sem ekki á sér stað í Biblíunni er því vafasamt og tortryggilegt.

Í öðru lagi var það sem þeir upplifðu sem heiðnar rætur jólahátíðarinnar, sem voru raktar til vetrarhátíðar Rómverja til að fagna nýju ári og hækkandi sól. Þessi tilfinning um heiðinn bakgrunn jólanna truflaði þá óheyrilega og þeim fannst það hafa óviðeigandi áhrif á kristna hátíð og kristið samfélag eins og þeir vildu sjá það.

Sem sagt, þessi minnihlutahópur notaði pólitísk áhrif sem hann hafði, gat látið loka kirkjum um jólin og þvingað fólk til að vinna – en almenningur sýndi auðvitað sterka viðspyrnu. Því hver vill láta svipta sig tækifærinu til að hafa gaman, leika sér, brjóta upp hversdaginn með hátíðlegum athöfnum, borða og drekka vel? Sunnudagar, sem hreintrúarfólk hafði ákveðið að væru einu dagarnir sem mætti hafa helgihald, aftur til að greina sig frá kaþólikkum, sem hafa ótal helgidaga af alls konar tilefnum, sem féllu nálægt jólum voru notaðir til að lauma inn elementum frá jólamessunni og fagna fæðingu frelsarans. Fólk hélt áfram að halda jólin eins og því fannst við hæfi og sums staðar urðu mótmæli og átök þar sem slóst í brýnu.

Karl II

Og hér má segja að fólkið hafi fengið sitt fram, því við endurreisn konungdæmisins árið 1660 og þegar Karl II tók við krúnunni voru lög hreintrúarfólksins felld úr gildi og kirkjur fengu að vera opnar á jólunum. Jólin voru boðin velkomin aftur og einnig frelsið til að gera það sem manni sýnist á jólunum – þ.m.t. frelsi til að halda trúarleg jól á ný.

Það sem mér finnst heillandi við þessa atburðarás er þversögnin sem felst í því að hið trúarlega vald sem hreintrúarfólkið fór með reyndi að bæla hið trúarlega við jólin en þvinga hið veraldlega til að halda sínu. Þannig að þessi saga er sniðugt innlegg inn í þrætuepli samtímans þar sem hreintrúarfólk af alls konar tagi, innan kirkju og utan, vill setja frelsi fólks skorður til að tjá upplifun sína af jólum.

Þetta er líka heillandi saga sem nálgast hvernig samspil trúar og samfélags tekur á sig ólíkar myndir – og hvernig boð og bönn fara stundum alveg öfugt ofan í fólk og er líklegast, þegar upp er staðið, alls ekki rétta leiðin til að breyta hlutum.

Gleðileg jól!

Helgihald á aðventu og um jól og áramót í Skálholtsprestakalli 2024

Viltu deila þessari grein með fleirum?