Dr. Þorsteinn Helgason sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og segir frá merkilegri altaritöflu sem hann hefur rannsakað en hana er að finna í kirkjunni á Krossi í Austur-Landeyjum.

Þorsteinn hefur verið kennari lengst af og starfað á flestum skólastigum. Sagnfræðingur að mennt, doktorspróf 2013 með rannsókn á Tyrkjaráninu. Það efni hefur verið helsta viðfangsefni hans með heimildarmyndum fyrir rúmum tuttugu árum, greinum og bókum. Hann hefur einnig fjallað um kennslufræði sögu og samið nokkrar kennslubækur. Dósent emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Altaristaflan á Krossi

Þegar ekið er austur á þjóðvegi eitt og farið fram hjá Hvolsvelli liggur láglend sveit á hægri hönd. Fáa grunar að í gamalli og lágreistri kirkju á Krossi nærri sjó leynist gersemi íslenskrar menningarsögu. „Leynist“ er kannski fullmikið sagt því að gripurinn er stór og áberandi og hefur verið í allra augsýn frá árinu 1650 og hann er vandlega merktur. Þetta er altaristafla sem ekki hefur ratað á Þjóðminjasafnið og hefur því ekki verið sýnd og sundurgreind á vegum þess né annarra sem hafa rannsakað og vakið athygli á íslenskum menningarverðmætum. Önnur ástæða fyrir því hve hljótt hefur verið um þessa merku mynd er hugsanlega sú að hún er dönsk eða öllu fremur dönsk-íslensk. Hér verður því haldið fram að altaristaflan á Krossi í Austur-Landeyjum sé trúarleg túlkun á voðaverkum sem unnin voru 23 árum fyrr en taflan var sett upp í kirkjunni, Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu þarf að þræða sig áfram eftir vísbendingum sem myndin býr yfir. Ef túlkunin stenst verður að telja sjaldgæft hér á landi að bera fram boðskap og túlkun á atburði í myndrænu formi.

Gefendurnir

Undir altaristöflunni á Krossi er málað á fjöl með skýrum og stórum stöfum þvert yfir: Denne Tafle Haffuer Clavs Eyjolffsson och Niels Clementsson forærid til Kross Kirkie Vdi Land Eijen. A° 1650: Þessa altaristöflu hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson gefið til Krosskirkju í Landeyjum árið 1650.

Hér koma nöfn gefendanna fram

Þetta er fágætur skírleiki og ætti að auðvelda skilning á töflunni. Gefendurnir eru þekktir, einkum Kláus sem var gildur bóndi í Hólmum í Landeyjum og lögréttumaður í hálfa öld. Þekktastur er hann þó fyrir ritverk sitt sem lesið hefur verið á Íslandi í hartnær þrjú hundruð ár. Það er frásögn af Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum sem hann skrifaði nánast á vettvangi, eins og blaðamaður, eftir lýsingu danskra flóttamanna frá Eyjum, kaupmanns, skipstjóra og fylgdarliðs, sem björguðu sér á árabátum til lands við illan leik. Auk þess fór hann til Eyja skömmu eftir ránið, sá vettvanginn og talaði við fólk sem komst undan. Lýsing hans er víðast hröð og vafningalaus en Kláus vissi þó vel í hvaða samhengi hann lifði. Frásögn hans af vígi annars prestsins í Vestmannaeyjum, séra Jóns Þorsteinssonar, sem jafnframt var frændi hans, er í helgisögustíl og einna líkust píslarsögu Krists. Í lokin jafnar Kláus Tyrkjaráninu við eyðingu Jerúsalem og í tveim af elstu afskriftum sögunnar endar hún á hugleiðingu um refsingarhrís guðs og iðrun mannsins.

Níels Klemensson er enginn huldumaður heldur. Hann er nefndur nokkrum sinnum í bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar þar sem hann er að sendast með bækur fyrir biskup og selur honum altarisflösku úr silfri. Níels var kaupmaður á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum, hann skipulagði varnir eyjanna eftir Tyrkjaránið og stjórnaði endurbyggingu Landakirkju eftir að Tyrkir brenndu hana til grunna í herferð sinni, gaf og sjálfur fé og búnað til kirkjunnar.

Af ofansögðu er ljóst að báðir gefendur altaristöflunnar á Krossi voru vel heima í trúartáknum og trúarlegum frásögnum og að báðir tengdust Tyrkjaráninu með skýrum hætti. Höfum það í huga í áframhaldandi túlkun á töflunni.

Myndefnið

Altaristaflan á Krossi er þrískipt eins og algengt var um aldir, en tréverkið er gróft og útskurðarlaust. Miðmyndin sýnir upprisu Krists:

Kristur upprisinn 

Vinstri vængur altaristöflunnar

Á vinstri væng er hinn þjáði Kristur, „smertensmanden“ sem Danir kalla. Eftir lok miðalda var þetta orðið fágætt myndefni en svipað stef gekk í endurnýjun lífdaganna á dögum Kristjáns konungs fjórða. Konungurinn var á morgunbæn í Rothenborgarhöll í Norður-Þýskalandi 8. desember árið 1625 þegar honum birtist sýn: Kristur sitjandi með þyrnikórónu, með brotinn reyrstaf í hendi og blóð streymdi úr sárum hans. Þessi sýn varð Kristjáni frekari hvöt til að verja málstað mótmælenda gegn herjum kaþólskra með her sínum. Því stríði tapaði hann meðan Tyrkir rændu á Íslandi.

Hægri vængur altaristöflunnar

Á hægri væng altaristöflunnar er torkennilegra efni. Augljóslega Kristur en hann hefur sérkennilega fylgihluti, meðal annars sverð sem gengur fram af munninum. Eftir nokkra fyrirgrennslan var ljóst hvaðan hann var sprottinn: úr upphafi Opinberunarbókar Jóhannesar sem er síðasta rit Nýja testamentisins. Engin kirkjumynd önnur á Íslandi hefur þetta myndefni og það er ákaflega sjaldgæft annars staðar á Norðurlöndum. Þarna eru torræð tákn og sjaldgæfur boðskapur sem fluttur er í kirkju í Landeyjum um miðja sautjándu öld. Þessi mynd gæti verið lykillinn að skilningi á altaristöflunni í heild. Hvaða merkingu hafði Opinberunarbókin á þessum tíma? Hvaða skilning gátu tveir mektarmenn sem komu saman á Íslandi haft á henni? Gat verið eitthvert samhengi milli þessarar myndar og Tyrkjaránsins árið 1627?

Hin torræða mynd á hægi vængnum er innblásin af fyrsta kafla Opinberunarbókarinnar þar sem Jóhannes talar í fyrstu persónu og segir frá því að Kristur hafi birst honum upprisinn og í miklum ljóma. Höfuð hans og hár voru hvít eins og ull, segir í bókinni, andlitið sem sólin í mætti sínum, augun sem eldslogi, gullbelti var spennt um hann, röddin var sem niður margra vatna. Umhverfis eru einnig tákn ljóss og máttar: sjö ljósastikur, stjörnur í hægri hendi Krists og sverð sem gekk fram af munni hans. Kjarni boðskaparins er sá að Kristur er upprisinn og hefur sigrað dauðann og hið illa sem réð yfir hel ásamt dauðanum. Hér er því dregin upp mynd hins sigrandi Krists sem mun dæma að lokum.

Táknmál

Opinberunarbók Jóhannesar fjallar um dómsdag og hið illa í heiminum og hún er full af torræðum táknum og myndmáli. Hún hefur einnig átt mismiklu gengi að fagna meðal kristinna manna. Marteinn Lúther, leiðtogi þeirrar trúarhreyfingar sem kristni á Norðurlöndum er kennd við síðan á 16. öld, glímdi lengi við Opinberunarbókina, var lengi tortrygginn út í frásagnarhátt hennar og skipti nokkru sinnum um skoðun á bókinni. Loks þóttist hann komast til botns í boðskap hennar þegar atburðir urðu í samtíð hans sem skóku allan hinn kristna heim. Tyrkjaveldi sendi hersveitir til að umkringja og sitja um sjálfa Vínarborg haustið 1529. Í Tyrkjum sá Lúther nú þjóðirnar Góg og Magóg sem Jóhannes segir að ráðist til atlögu að undirlagi Satans og vilji tortíma hinum kristnu en farist að lokum sjálfar í eldsloga af himni. Í biblíuútgáfum sem gefnar voru út í lútherstrúarlöndum fram á 17. öld fylgdu skýringar Lúthers, þar á meðal sú túlkun að hið illa sem gengi laust væru Tyrkir samtímans. Þessar skýringar voru síðast prentaðar í útgáfu Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum árið 1644.

Fyrirmynd og frumleiki

Á fyrri öldum þótti sjálfsagt að leita í sjóð eldri mynda þegar nýjar voru skapaðar. Prentaðar og þrykktar myndir eftir málverkum og teikningum voru óspart notaðar sem fyrirmyndir. Var hugsanlegt að altaristaflan á Krossi ætti sér slíka fyrirmynd?

  Fyrirmynd altaristöflunnar

Eftir nokkurra vikna leit, meðal annars í myndabanka danska þjóðminjasafnsins og á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, bar leitin árangur. Fullkomin fyrirmynd altaristöflunnar á Krossi er titilsíða Nýja testamentisútgáfu Kristjáns konungs fjórða frá árinu 1647 sem teiknuð er af formskera hjá Kaupmannahafnarháskóla, Hans Andreas Gref að nafni. Myndefnið er í stórum dráttum hið sama, miðmyndin er að vísu smá og neðarlega vegna þess að titill bókarinnar tekur mest rými en myndefnið er það sama. Orðin, sem standa undir myndunum á vængjunum, eru eins á bókarsíðunni og altaristöflunni, Humilitas (auðmýkt) og Gloria (dýrð). Dúfa svífur yfir á báðum stöðum.

Þó að altaristaflan á Krossi sæki þannig meginefni sitt í titilsíðu danskrar biblíu er hún frumlega gerð á ýmsan hátt. Málunaraðferðin er létt og leikandi; klæði, ljósastikur og píslartól eru dregin einföldum pensilstrokum. Eldurinn, sem logar frá augum Krists, er málaður með sérstæðum hætti sem á fáa sína líka. Hinn „dansandi Kristur“ á upprisumyndinni og fleiri þættir minna á mannerismann sem formtilraunir frá lokum 16. aldar eru kenndar við. Og þegar betur er gætt að kemur í ljós að veigamikið atriði á upprisumyndinni er með sérstökum hætti.

Samkvæmt Matteusarguðspjalli lét Pílatus varðmenn sitja um gröf Krists og þeir „skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir“ þegar hann reis upp frá dauðum. Upprisumyndir taka mið af þessari frásögn og sýna hermenn hrökkva frá, skelfda og jafnvel nývaknaða. Dæmigerð myndlýsing á þennan hátt er á altaristöflunni í dómkirkjunni í Reykjavik. Á Krossi er allt annar háttur hafður á því myndin virðist frjálslega gerð og útfærslan styðst ekki við fyrirmyndina á titilsíðu dönsku biblíunnar. Hermenn leita inngöngu í gröfina sem líkja má við helli og standa þá hermennirnir í hellismunnanum. Er það hrein tilviljun að þessi myndlýsing hefur minna sameiginlegt með guðspjallinu en frásögn Kláusar Eyjólfssonar af píslardauða Jóns Þorsteinssonar í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627? Samkvæmt Kláusi flýði séra Jón með heimilisfólki sínu í helli í urð undir hamri nokkrum og fór hann þar með guðsorð því til huggunar. Svo fór þó að ránsmenn fundu hellinn og gekk foringi þeirra á undan og átti orðastað við prestinn, hjó hann síðan þrisvar uns hann var örendur. Upp frá því var því hann jafnan nefndur Jón píslarvottur.

Túlkun Tyrkjaránsins

Tökum nú þræðina saman og lesum úr altaristöflunni á Krossi. Gefendurnir, Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson, voru báðir vel heima í trúartáknum samtímans og Kláus hafði sett Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum í trúarlegt samhengi í frásögn sinni. Báðir höfðu þeir fundið Tyrkjaránið á eigin skinni enda var það mestu hamfarir sem þeir lifðu á ævi sinni. Tvær nýjar biblíuútgáfur stóðu þeim til boða, dönsk og íslensk, í þá dönsku sóttu þeir meginhugmyndina að myndgerðinni og í þeirri íslensku gátu þeir lesið hvernig Lúther tengdi Opinberunarbókina við Tyrkjaógnina.

Hvernig gátu gefendurnir á Íslandi haft áhrif á myndgerðina í Danmörku? Milli Vestmannaeyja og Kaupmannahafnar lágu gagnvegir á þessum tíma og Níels kaupmaður hefur átt erindi þangað. Auk þess voru í borginni tveir Íslendingar sem vert er að geta á þeim tíma sem altaristaflan var undirbúin og gerð. Annar var Stefán Ólafsson skáld sem nefnir í bréfi 1646 að átta Íslendingar væru komnir til Kaupmannahafnar ex Mahumetana servitute, úr þrældómi Múhameðstrúarmanna. Þarna var á ferðinni lítill hópur sem danska ríkið keypti frelsi í seinni útkaupaferð sem fáir hafa vitað um. Stefán hafði þar að auki látið gera minningamynd af sér með foreldrum sínum og systkinum á verkstæði í Höfn. Líklegast er að altaristaflan á Krossi hafi verið unnin á sama verkstæði, sömuleiðis predikunarstóllinn í Skálholti sem danskir kaupmenn gáfu til kirkjunnar 1651. Hinn Íslendingurinn var Jón sem kallaður var Vestmann, sonur Jóns Þorsteinssonar sem ránsmenn hjuggu til bana í Vestmannaeyjum og kallaður var píslarvottur. Er fráleitt að hugsa sér að saman hafi komið á málaraverkstæði í Kaupmannahöfn Níels Klemensson, Stefán Ólafsson og Jón Vestmann og rætt við listamennina um útfærslu altaristöflunnar, Níels mættur með Þorláksbiblíu og útleggingu Lúthers og Danirnir með biblíu Kristjáns fjórða?

Lesum þá boðskapinn út úr altaristöflunni á Krossi, mynd fyrir mynd frá vinstri til hægri eins og vera ber í vestrænni menningu:

Mikil er þjáning mannanna og mest var hún í Tyrkjaráninu, en Kristur þjáðist einnig og leið fyrir syndir okkar.

Hin illu öfl sækja að, eins og Tyrkir að séra Jóni Þorsteinssyni, en þau fá ekki grandað okkur því að Kristur hefur sigrað dauðann.

Kristur mun ríkja og hið góða fær yfirhöndina, ekki fyrir ofbeldi og vopnavald heldur „munnsverð“ og „munnvönd“ (eins og Lúther orðaði það); sverð andans sem er guðs orð.

Ef þessi lestur er réttur hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson sagt að hefndin og ofbeldið séu ekki leiðin til að yfirvinna hörmungar heldur orðið og siðmenningin. Sverð andans sigrar ofbeldismennina.

Hætt er við að sverð andans dugi ekki gegn innrás Rússa í Úkraínu eða þjóðarmorði á Gasa. Tyrkjaránið átti uppruna sinn við Miðjarðarhafið og enginn möguleiki var á hefndum. Þær skoðanir komu upp að Íslendingar ættu að vopnast eftir þetta en flestum þótti það óraunhæft. Altaristaflan er því almenn trúarleg hugleiðing um þjáninguna sem ekki verður umflúin. Hún boðar ekki að ekki skuli veita viðnám þegar á fólk er ráðist. En hefndin, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, er ekki varanleg lausn á sambúðarvanda mannkyns.

Þeim sem vilja kynna sér aðra og lengri umfjöllun um þetta efni og tilvísanir í heimildir er bent á umfjallanir mínar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2001-2002 (Reykjavík, 2003), doktorsritgerðina Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins (Reykjavík, 2013), bls. 418-436 og The Corsairs‘ Longest Voyage: The Turkish Raid in Iceland 1627 (Leiden, 2018), bls. 307-334.

(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2005).

Um Krosskirkju í Landanum í RÚV – fjallað meðal annars um altaristöflun og rætt við Þorstein Helgason.

Myndir: Guðmundur Ingólfsson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum: Mynd af vefnum Feisbókarsíðunni Kirkjur á Íslandi. Mynd: Kjartan Kjartansson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum: Mynd af  Feisbókarsíðunni Kirkjur á Íslandi. Mynd: Kjartan Kjartansson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum – mynd: Anna Berglind

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Þorsteinn Helgason sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is og segir frá merkilegri altaritöflu sem hann hefur rannsakað en hana er að finna í kirkjunni á Krossi í Austur-Landeyjum.

Þorsteinn hefur verið kennari lengst af og starfað á flestum skólastigum. Sagnfræðingur að mennt, doktorspróf 2013 með rannsókn á Tyrkjaráninu. Það efni hefur verið helsta viðfangsefni hans með heimildarmyndum fyrir rúmum tuttugu árum, greinum og bókum. Hann hefur einnig fjallað um kennslufræði sögu og samið nokkrar kennslubækur. Dósent emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Altaristaflan á Krossi

Þegar ekið er austur á þjóðvegi eitt og farið fram hjá Hvolsvelli liggur láglend sveit á hægri hönd. Fáa grunar að í gamalli og lágreistri kirkju á Krossi nærri sjó leynist gersemi íslenskrar menningarsögu. „Leynist“ er kannski fullmikið sagt því að gripurinn er stór og áberandi og hefur verið í allra augsýn frá árinu 1650 og hann er vandlega merktur. Þetta er altaristafla sem ekki hefur ratað á Þjóðminjasafnið og hefur því ekki verið sýnd og sundurgreind á vegum þess né annarra sem hafa rannsakað og vakið athygli á íslenskum menningarverðmætum. Önnur ástæða fyrir því hve hljótt hefur verið um þessa merku mynd er hugsanlega sú að hún er dönsk eða öllu fremur dönsk-íslensk. Hér verður því haldið fram að altaristaflan á Krossi í Austur-Landeyjum sé trúarleg túlkun á voðaverkum sem unnin voru 23 árum fyrr en taflan var sett upp í kirkjunni, Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu þarf að þræða sig áfram eftir vísbendingum sem myndin býr yfir. Ef túlkunin stenst verður að telja sjaldgæft hér á landi að bera fram boðskap og túlkun á atburði í myndrænu formi.

Gefendurnir

Undir altaristöflunni á Krossi er málað á fjöl með skýrum og stórum stöfum þvert yfir: Denne Tafle Haffuer Clavs Eyjolffsson och Niels Clementsson forærid til Kross Kirkie Vdi Land Eijen. A° 1650: Þessa altaristöflu hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson gefið til Krosskirkju í Landeyjum árið 1650.

Hér koma nöfn gefendanna fram

Þetta er fágætur skírleiki og ætti að auðvelda skilning á töflunni. Gefendurnir eru þekktir, einkum Kláus sem var gildur bóndi í Hólmum í Landeyjum og lögréttumaður í hálfa öld. Þekktastur er hann þó fyrir ritverk sitt sem lesið hefur verið á Íslandi í hartnær þrjú hundruð ár. Það er frásögn af Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum sem hann skrifaði nánast á vettvangi, eins og blaðamaður, eftir lýsingu danskra flóttamanna frá Eyjum, kaupmanns, skipstjóra og fylgdarliðs, sem björguðu sér á árabátum til lands við illan leik. Auk þess fór hann til Eyja skömmu eftir ránið, sá vettvanginn og talaði við fólk sem komst undan. Lýsing hans er víðast hröð og vafningalaus en Kláus vissi þó vel í hvaða samhengi hann lifði. Frásögn hans af vígi annars prestsins í Vestmannaeyjum, séra Jóns Þorsteinssonar, sem jafnframt var frændi hans, er í helgisögustíl og einna líkust píslarsögu Krists. Í lokin jafnar Kláus Tyrkjaráninu við eyðingu Jerúsalem og í tveim af elstu afskriftum sögunnar endar hún á hugleiðingu um refsingarhrís guðs og iðrun mannsins.

Níels Klemensson er enginn huldumaður heldur. Hann er nefndur nokkrum sinnum í bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar þar sem hann er að sendast með bækur fyrir biskup og selur honum altarisflösku úr silfri. Níels var kaupmaður á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum, hann skipulagði varnir eyjanna eftir Tyrkjaránið og stjórnaði endurbyggingu Landakirkju eftir að Tyrkir brenndu hana til grunna í herferð sinni, gaf og sjálfur fé og búnað til kirkjunnar.

Af ofansögðu er ljóst að báðir gefendur altaristöflunnar á Krossi voru vel heima í trúartáknum og trúarlegum frásögnum og að báðir tengdust Tyrkjaráninu með skýrum hætti. Höfum það í huga í áframhaldandi túlkun á töflunni.

Myndefnið

Altaristaflan á Krossi er þrískipt eins og algengt var um aldir, en tréverkið er gróft og útskurðarlaust. Miðmyndin sýnir upprisu Krists:

Kristur upprisinn 

Vinstri vængur altaristöflunnar

Á vinstri væng er hinn þjáði Kristur, „smertensmanden“ sem Danir kalla. Eftir lok miðalda var þetta orðið fágætt myndefni en svipað stef gekk í endurnýjun lífdaganna á dögum Kristjáns konungs fjórða. Konungurinn var á morgunbæn í Rothenborgarhöll í Norður-Þýskalandi 8. desember árið 1625 þegar honum birtist sýn: Kristur sitjandi með þyrnikórónu, með brotinn reyrstaf í hendi og blóð streymdi úr sárum hans. Þessi sýn varð Kristjáni frekari hvöt til að verja málstað mótmælenda gegn herjum kaþólskra með her sínum. Því stríði tapaði hann meðan Tyrkir rændu á Íslandi.

Hægri vængur altaristöflunnar

Á hægri væng altaristöflunnar er torkennilegra efni. Augljóslega Kristur en hann hefur sérkennilega fylgihluti, meðal annars sverð sem gengur fram af munninum. Eftir nokkra fyrirgrennslan var ljóst hvaðan hann var sprottinn: úr upphafi Opinberunarbókar Jóhannesar sem er síðasta rit Nýja testamentisins. Engin kirkjumynd önnur á Íslandi hefur þetta myndefni og það er ákaflega sjaldgæft annars staðar á Norðurlöndum. Þarna eru torræð tákn og sjaldgæfur boðskapur sem fluttur er í kirkju í Landeyjum um miðja sautjándu öld. Þessi mynd gæti verið lykillinn að skilningi á altaristöflunni í heild. Hvaða merkingu hafði Opinberunarbókin á þessum tíma? Hvaða skilning gátu tveir mektarmenn sem komu saman á Íslandi haft á henni? Gat verið eitthvert samhengi milli þessarar myndar og Tyrkjaránsins árið 1627?

Hin torræða mynd á hægi vængnum er innblásin af fyrsta kafla Opinberunarbókarinnar þar sem Jóhannes talar í fyrstu persónu og segir frá því að Kristur hafi birst honum upprisinn og í miklum ljóma. Höfuð hans og hár voru hvít eins og ull, segir í bókinni, andlitið sem sólin í mætti sínum, augun sem eldslogi, gullbelti var spennt um hann, röddin var sem niður margra vatna. Umhverfis eru einnig tákn ljóss og máttar: sjö ljósastikur, stjörnur í hægri hendi Krists og sverð sem gekk fram af munni hans. Kjarni boðskaparins er sá að Kristur er upprisinn og hefur sigrað dauðann og hið illa sem réð yfir hel ásamt dauðanum. Hér er því dregin upp mynd hins sigrandi Krists sem mun dæma að lokum.

Táknmál

Opinberunarbók Jóhannesar fjallar um dómsdag og hið illa í heiminum og hún er full af torræðum táknum og myndmáli. Hún hefur einnig átt mismiklu gengi að fagna meðal kristinna manna. Marteinn Lúther, leiðtogi þeirrar trúarhreyfingar sem kristni á Norðurlöndum er kennd við síðan á 16. öld, glímdi lengi við Opinberunarbókina, var lengi tortrygginn út í frásagnarhátt hennar og skipti nokkru sinnum um skoðun á bókinni. Loks þóttist hann komast til botns í boðskap hennar þegar atburðir urðu í samtíð hans sem skóku allan hinn kristna heim. Tyrkjaveldi sendi hersveitir til að umkringja og sitja um sjálfa Vínarborg haustið 1529. Í Tyrkjum sá Lúther nú þjóðirnar Góg og Magóg sem Jóhannes segir að ráðist til atlögu að undirlagi Satans og vilji tortíma hinum kristnu en farist að lokum sjálfar í eldsloga af himni. Í biblíuútgáfum sem gefnar voru út í lútherstrúarlöndum fram á 17. öld fylgdu skýringar Lúthers, þar á meðal sú túlkun að hið illa sem gengi laust væru Tyrkir samtímans. Þessar skýringar voru síðast prentaðar í útgáfu Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum árið 1644.

Fyrirmynd og frumleiki

Á fyrri öldum þótti sjálfsagt að leita í sjóð eldri mynda þegar nýjar voru skapaðar. Prentaðar og þrykktar myndir eftir málverkum og teikningum voru óspart notaðar sem fyrirmyndir. Var hugsanlegt að altaristaflan á Krossi ætti sér slíka fyrirmynd?

  Fyrirmynd altaristöflunnar

Eftir nokkurra vikna leit, meðal annars í myndabanka danska þjóðminjasafnsins og á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, bar leitin árangur. Fullkomin fyrirmynd altaristöflunnar á Krossi er titilsíða Nýja testamentisútgáfu Kristjáns konungs fjórða frá árinu 1647 sem teiknuð er af formskera hjá Kaupmannahafnarháskóla, Hans Andreas Gref að nafni. Myndefnið er í stórum dráttum hið sama, miðmyndin er að vísu smá og neðarlega vegna þess að titill bókarinnar tekur mest rými en myndefnið er það sama. Orðin, sem standa undir myndunum á vængjunum, eru eins á bókarsíðunni og altaristöflunni, Humilitas (auðmýkt) og Gloria (dýrð). Dúfa svífur yfir á báðum stöðum.

Þó að altaristaflan á Krossi sæki þannig meginefni sitt í titilsíðu danskrar biblíu er hún frumlega gerð á ýmsan hátt. Málunaraðferðin er létt og leikandi; klæði, ljósastikur og píslartól eru dregin einföldum pensilstrokum. Eldurinn, sem logar frá augum Krists, er málaður með sérstæðum hætti sem á fáa sína líka. Hinn „dansandi Kristur“ á upprisumyndinni og fleiri þættir minna á mannerismann sem formtilraunir frá lokum 16. aldar eru kenndar við. Og þegar betur er gætt að kemur í ljós að veigamikið atriði á upprisumyndinni er með sérstökum hætti.

Samkvæmt Matteusarguðspjalli lét Pílatus varðmenn sitja um gröf Krists og þeir „skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir“ þegar hann reis upp frá dauðum. Upprisumyndir taka mið af þessari frásögn og sýna hermenn hrökkva frá, skelfda og jafnvel nývaknaða. Dæmigerð myndlýsing á þennan hátt er á altaristöflunni í dómkirkjunni í Reykjavik. Á Krossi er allt annar háttur hafður á því myndin virðist frjálslega gerð og útfærslan styðst ekki við fyrirmyndina á titilsíðu dönsku biblíunnar. Hermenn leita inngöngu í gröfina sem líkja má við helli og standa þá hermennirnir í hellismunnanum. Er það hrein tilviljun að þessi myndlýsing hefur minna sameiginlegt með guðspjallinu en frásögn Kláusar Eyjólfssonar af píslardauða Jóns Þorsteinssonar í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627? Samkvæmt Kláusi flýði séra Jón með heimilisfólki sínu í helli í urð undir hamri nokkrum og fór hann þar með guðsorð því til huggunar. Svo fór þó að ránsmenn fundu hellinn og gekk foringi þeirra á undan og átti orðastað við prestinn, hjó hann síðan þrisvar uns hann var örendur. Upp frá því var því hann jafnan nefndur Jón píslarvottur.

Túlkun Tyrkjaránsins

Tökum nú þræðina saman og lesum úr altaristöflunni á Krossi. Gefendurnir, Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson, voru báðir vel heima í trúartáknum samtímans og Kláus hafði sett Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum í trúarlegt samhengi í frásögn sinni. Báðir höfðu þeir fundið Tyrkjaránið á eigin skinni enda var það mestu hamfarir sem þeir lifðu á ævi sinni. Tvær nýjar biblíuútgáfur stóðu þeim til boða, dönsk og íslensk, í þá dönsku sóttu þeir meginhugmyndina að myndgerðinni og í þeirri íslensku gátu þeir lesið hvernig Lúther tengdi Opinberunarbókina við Tyrkjaógnina.

Hvernig gátu gefendurnir á Íslandi haft áhrif á myndgerðina í Danmörku? Milli Vestmannaeyja og Kaupmannahafnar lágu gagnvegir á þessum tíma og Níels kaupmaður hefur átt erindi þangað. Auk þess voru í borginni tveir Íslendingar sem vert er að geta á þeim tíma sem altaristaflan var undirbúin og gerð. Annar var Stefán Ólafsson skáld sem nefnir í bréfi 1646 að átta Íslendingar væru komnir til Kaupmannahafnar ex Mahumetana servitute, úr þrældómi Múhameðstrúarmanna. Þarna var á ferðinni lítill hópur sem danska ríkið keypti frelsi í seinni útkaupaferð sem fáir hafa vitað um. Stefán hafði þar að auki látið gera minningamynd af sér með foreldrum sínum og systkinum á verkstæði í Höfn. Líklegast er að altaristaflan á Krossi hafi verið unnin á sama verkstæði, sömuleiðis predikunarstóllinn í Skálholti sem danskir kaupmenn gáfu til kirkjunnar 1651. Hinn Íslendingurinn var Jón sem kallaður var Vestmann, sonur Jóns Þorsteinssonar sem ránsmenn hjuggu til bana í Vestmannaeyjum og kallaður var píslarvottur. Er fráleitt að hugsa sér að saman hafi komið á málaraverkstæði í Kaupmannahöfn Níels Klemensson, Stefán Ólafsson og Jón Vestmann og rætt við listamennina um útfærslu altaristöflunnar, Níels mættur með Þorláksbiblíu og útleggingu Lúthers og Danirnir með biblíu Kristjáns fjórða?

Lesum þá boðskapinn út úr altaristöflunni á Krossi, mynd fyrir mynd frá vinstri til hægri eins og vera ber í vestrænni menningu:

Mikil er þjáning mannanna og mest var hún í Tyrkjaráninu, en Kristur þjáðist einnig og leið fyrir syndir okkar.

Hin illu öfl sækja að, eins og Tyrkir að séra Jóni Þorsteinssyni, en þau fá ekki grandað okkur því að Kristur hefur sigrað dauðann.

Kristur mun ríkja og hið góða fær yfirhöndina, ekki fyrir ofbeldi og vopnavald heldur „munnsverð“ og „munnvönd“ (eins og Lúther orðaði það); sverð andans sem er guðs orð.

Ef þessi lestur er réttur hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson sagt að hefndin og ofbeldið séu ekki leiðin til að yfirvinna hörmungar heldur orðið og siðmenningin. Sverð andans sigrar ofbeldismennina.

Hætt er við að sverð andans dugi ekki gegn innrás Rússa í Úkraínu eða þjóðarmorði á Gasa. Tyrkjaránið átti uppruna sinn við Miðjarðarhafið og enginn möguleiki var á hefndum. Þær skoðanir komu upp að Íslendingar ættu að vopnast eftir þetta en flestum þótti það óraunhæft. Altaristaflan er því almenn trúarleg hugleiðing um þjáninguna sem ekki verður umflúin. Hún boðar ekki að ekki skuli veita viðnám þegar á fólk er ráðist. En hefndin, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, er ekki varanleg lausn á sambúðarvanda mannkyns.

Þeim sem vilja kynna sér aðra og lengri umfjöllun um þetta efni og tilvísanir í heimildir er bent á umfjallanir mínar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2001-2002 (Reykjavík, 2003), doktorsritgerðina Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins (Reykjavík, 2013), bls. 418-436 og The Corsairs‘ Longest Voyage: The Turkish Raid in Iceland 1627 (Leiden, 2018), bls. 307-334.

(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2005).

Um Krosskirkju í Landanum í RÚV – fjallað meðal annars um altaristöflun og rætt við Þorstein Helgason.

Myndir: Guðmundur Ingólfsson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum: Mynd af vefnum Feisbókarsíðunni Kirkjur á Íslandi. Mynd: Kjartan Kjartansson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum: Mynd af  Feisbókarsíðunni Kirkjur á Íslandi. Mynd: Kjartan Kjartansson

Krosskirkja í Austur-Landeyjum – mynd: Anna Berglind

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir