Stefán Magnússon, bóndi og kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus

Stefán Magnússon og Hjalti Hugason hafa skrifað margar greinar um málefni þjóðkirkjunnar í Kirkjublaðið.is og fjallað meðal annars um skipulagsmál hennar en þeim málum eru þeir báðir gjörkunnugir. Í þessari grein ræða höfundar um skipurit þjóðkirkjunnar og nýja starfshætti með skýrum og greinargóðum hætti.

Í mars á þessu ári samþykkti kirkjuþing nýtt skipurit fyrir þjóðkirkjuna.[1] Með samþykktinni er vonandi bundinn endi á þjark sem staðið hefur um skeið og einkum hefur komið fram í margs konar sambandsleysi milli sitjandi biskups og kirkjuþings. Ekki svo að skilja að skipuritið boði efnislegar nýjungar. Allar forsendur þess hafa þvert á móti legið fyrir frá gildistöku þjóðkirkjulaganna frá 2021. Frekar er því um að kenna að ekki hefur verið einlægur vilji allra sem hlut eiga að máli að starfa eftir þeirri skipan sem fram kemur í lögunum. Með skipuritinu og nýjum biskupi verður vonandi breyting á í því efni.

Meginlína skipuritsins

Af skipuritinu kemur ljóslega fram að kirkjuþing fer með æðst vald í málefnum þjóðkirkjunnar og markar stefnu í sameiginlegum málefnum hennar öðrum en þeim sem lúta að kenningu kirkjunnar. Skipuritið sýnir líka að biskup fer með yfirstjórn í kenningarlegum efnum, gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi og þjónustu.[2] Þetta eru þau málefni sem almennt eru talin til innri mála kirkjunnar. Fimm manna stjórn þjóðkirkjunnar hefur aftur á móti í umboði kirkjuþings með höndum eftirlit með rekstri og framkvæmd ákvarðana þingsins.[3] Þetta hefur verið kallað ytri mál.

Skipuritinu er ætlað að sýna með sem skýrustum hætti hvar umboð fremur en vald einstakra aðila er koma að yfirstjórn þjóðkirkjunnar hefst og hvar því lýkur. Er þar auðvitað fyrst og fremst um kirkjuþing og biskupsembættið að ræða. Hin „magíska“ markalína liggur sem sé milli innri og ytri málanna. Auðvitað er þó mikilvægt að báðir aðilarnir eigi aðkomu að sem flestum málum. Skipuritið dregur þó fram að málefni sem falla undir ytri málin fá efnislega meðferð og formlega afgreiðslu á kirkjuþingi. Þau málefni sem falla undir innri málin fá á hinn bóginn efnislega meðferð á vegum biskupsembættisins en einungis formlega samþykkt eða afgreiðslu á kirkjuþingi.

Þróun verkferla

Nú ríður á að bæði kirkjuþing og biskupsembættið þrói skýra verkferla sem tryggja vandaða og góða málsmeðferð og samræmast ekki aðeins skipuritinu heldur einkum þeim lögum og starfsreglum sem liggja því til grundvallar.

Við undirbúning mála á sviði kenningar, vígðrar þjónustu eða annarra innri mála standa biskupi til boða ýmsir samstarfsaðilar bæði formlegir og óformlegir. Má þar nefna ýmsar  starfsnefndir kirkjunnar, ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni og prestastefnu. Eftir málsmeðferð á slíkum vettvangi hlýtur biskup svo að vísa málinu til formlegrar samþykktar á kirkjuþingi þar sem þingið fer með æðstu stjórn kirkjunnar. Kirkjuþing hefur aftur á móti ekki umboð til að breyta slíku máli í þinglegri meðferð. Vilji svo einkennilega til að meirihluti þess hafi veigamiklar athugasemdir við mál sem þannig er vaxið getur það vissulega vísað því að nýju til biskupsembættisins og þá með efnislegum rökstuðningi. Vart er þó við því að búast að á þetta reyni.

Um ytri málefni fer eftir starfsreglum um kirkjuþing og þingsköpum þess líkt og hingað til. Þó kann að koma fyrir að slík mál hafi einhverjar þær hliðar sem snerta innri málefnin með einhverjum hætti. Því er mikilvægt að samráðs sé gætt milli forsætisnefndar kirkjuþingsins og biskupsembættisins áður en slík mál eru tekin upp á málaskrá þingsins. Þannig er vönduð málsmeðferð tryggð, meðferð mála verður skilvirk, tími sparast auk þess sem fyrirbyggja má tortryggni og árekstra.

Kjaftasaga af kirkjuþingi

Eftir kirkjuþing á síðastliðnu ári barst út sú saga að í umræðum um skipuritið og breytingar sem það var talið boða hafi verið fullyrt að sú aðgreining sem þar er gerð milli hlutverks kirkjuþings og biskups bryti í bága við Ágsborgarjátninguna sem er eitt af játningarritum þjóðkirkjunnar frá 16. öld. Sögunni fylgdi enginn frekari rökstuðningur enda rúma kviksögur ekki slík smáatriði!

Ef sagan er „sönn“ hefur hin skýra tvískipting sem gerð er í þjóðkirkjulögunum og þar með skipuritinu væntanlega þótt takmarka umboð eða vald biskups með óæskilegum hætti eða með öðru móti setja embættið niður. Ef sú hefur verið raunin er sagan óneitanlega skondin. Ágsborgarjátningin var samin í deilum siðbótartímans og eitt af megináhersluatriðum Lúthers og félaga var einmitt að takmarka völd rómversku biskupanna.

Hér orkar því margt tvímælis og rennir sagan — hvert svo sem sannleiksgildi hennar er — stoðum undir þá skoðun að mál sem hugsanlega þurfi að meta í ljósi trúarjátninga, falli illa að þinglegri meðferð á kirkjuþingi án alveg sérstaks undirbúnings.

Þjóðkirkjuhlutverkið

Veggskreyting á Biskupsstofu

Aldrei verður of oft bent á að 1.mgr. 3.gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021 er nafnið sem lögin snúast um. Þar segir: „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.“[4] Þetta hlutverk gerir Þjóðkirkjuna að þjóðkirkju og réttlætir þá sérstöðu sem hún vissulega hefur meðal annarra trúfélaga í landinu. Engu öðru trúfélagi er lögð þessi skylda á herðar. Allt starf sem unnið er í þjóðkirkjunni ræðst líka af þessu hlutverki. Það má því segja að í því skerist ásarnir tveir í skipuritinu. — Svo ekki sé sagt krossist! Útfærsla og framkvæmd lagagreinarinnar er því gott dæmi um málefni þar sem hlutverk kirkjuþings og biskupsembættisins skarast og að um sé að ræða málefni sem tilheyri samtímis innri og ytri málum kirkjunnar.

Hin vígða þjónusta sem lögin kveða á um að taka eigi til landsins alls og allra sem á því dvelja — og á annað borð kæra sig um — felur í sér bæn, boðun og þjónustu eða helgihald, fræðslu og díakoníu.[5] Það er hlutverk biskupsembættisins að skilgreina hvað í þessum starfsþáttum felst og hvernig staðið skuli að verki, þar með talið að útfæra þjónustu- eða starfssvæði: sóknir, prestaköll og prófastsdæmi. Þetta kemur m.a. fram í 3. mgr. 10. gr. þjóðkirkjulaganna, starfsreglum um biskupafund og raunar víðar.[6] Hlutverk kirkjuþings er aftur á móti að laga tillögur biskupsembættisins að þeim fjárhagslega veruleika sem kirkjan býr við hverju sinni.

Það gefur augaleið að árangri verður ekki náð með því að biskupsembættið leggi fram lítt grundaðar tillögur sem miða t.d. að óbreyttum starfsháttum en kirkjuþing skeri þær niður út frá þröngu sjónarhorni hagræðingar. Þá er vænlegra að biskup leggi fram gagnsæja áætlun sem byggð er á vönduðum gögnum og athugunum nægilega tímalega til ábyrgðaraðilar á sviði rekstrarmála geti tekið afstöðu til hennar fyrir kirkjuþing ár hvert og biskup loks endurskoðað hana út frá faglegri sýn ef þörf er á og áður en málið kemur til þinglegrar meðferðar.

Á þessu undirbúningsstigi þarf að

* greina starfsmannahald í öllum prestaköllum landsins og bera það saman við fjölda íbúa og þjóðkirkjufólks, aldurssamsetningu þess, vegalengdir, samgöngur og annað sem máli skiptir fyrir starfshættina.

* meta þróun undanfarinna ára, þ.e. hvernig vígðum þjónum hefur fækkað í sumum prestaköllum en fjölgað í öðru — nauðsynlegt er að meta hvort breytingar hafa ráðist af tilviljunum eða málefnalegum ákvörðunum sem þjóna kirkjustarfinu best.

* tengja niðurstöður greiningar og mats við landfræðilega legu sókna, prestakalla og kirkna og taka afstöðu til hvort þar sé gætt árangursríkasta og hagkvæmasta skipulags og starfshátta.

Ljóst er að í upphafi þarf að hafa nokkuð fyrir að gera þetta vel úr garði. Þegar verklag hefur þróast og yfirlit skapast verður undirbúningur málsins fyrir kirkjuþing ár hvert aftur á móti auðveldari.

Kostir skipuritsins

Þó svo skipuritið sem hér hefur verið fjölyrt um sé í raun ekki annað en „skematísk“ eða myndræn framsetning á efni sem þegar lá fyrir í þjóðkirkjulögum og starfsreglum frá kirkjuþingi eru kostir þess margir.

Það bregður upp skýrri mynd af hlutverka- eða verkaskiptingu og ætti því að auðvelda störf bæði kirkjuþings og biskupsembættisins. Einnig dregur skipuritið fram nauðsyn þess að þing og biskup eigi með sér gott samstarf og þá fremur við undirbúning þingmála en endanlega afgreiðslu þeirra á þinginu sjálfu. Þegar til þings er komið er mikilvægt að hvor aðilinn um sig gæti síns sjónarhorns og fari ekki út fyrir verksvið sitt.

Umfram allt leggur skipuritið svo mikilvægan grunn að frekari umræðu um skipan og samsetningu kirkjuþings sem og kosningu til þess. — Það er þó efni í annan pistil.

Tilvísanir:

[1] Nefndarálit við skýrslu starfshóps um endurskoðun framtíðarskipanar Þjóðkirkjunnar o.fl., kirkjan.is, sótt 21. júní 2024

[2] Sbr. nmgr 1. Sjá og Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1. mgr. 7. gr og3. mgr. 10. gr.), althingi.is, sótt 21. júní 2024

[3] Sbr. nmgr 1.

[4] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1.mgr. 3.gr.)

[5] Samanber einkunnarorðin „Biðjandi, boðandi, þjónandi“.

[6] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1.mgr. 3.gr.), althingi.is, sótt 21. júní 2024 og Starfsreglur um biskupafund nr. 34/2022–2023, kirkjan.is, sótt 20. júní 2024 Sjá og skipuritið sbr. nmgr. 1.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Stefán Magnússon, bóndi og kirkjuþingsmaður

Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus

Stefán Magnússon og Hjalti Hugason hafa skrifað margar greinar um málefni þjóðkirkjunnar í Kirkjublaðið.is og fjallað meðal annars um skipulagsmál hennar en þeim málum eru þeir báðir gjörkunnugir. Í þessari grein ræða höfundar um skipurit þjóðkirkjunnar og nýja starfshætti með skýrum og greinargóðum hætti.

Í mars á þessu ári samþykkti kirkjuþing nýtt skipurit fyrir þjóðkirkjuna.[1] Með samþykktinni er vonandi bundinn endi á þjark sem staðið hefur um skeið og einkum hefur komið fram í margs konar sambandsleysi milli sitjandi biskups og kirkjuþings. Ekki svo að skilja að skipuritið boði efnislegar nýjungar. Allar forsendur þess hafa þvert á móti legið fyrir frá gildistöku þjóðkirkjulaganna frá 2021. Frekar er því um að kenna að ekki hefur verið einlægur vilji allra sem hlut eiga að máli að starfa eftir þeirri skipan sem fram kemur í lögunum. Með skipuritinu og nýjum biskupi verður vonandi breyting á í því efni.

Meginlína skipuritsins

Af skipuritinu kemur ljóslega fram að kirkjuþing fer með æðst vald í málefnum þjóðkirkjunnar og markar stefnu í sameiginlegum málefnum hennar öðrum en þeim sem lúta að kenningu kirkjunnar. Skipuritið sýnir líka að biskup fer með yfirstjórn í kenningarlegum efnum, gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi og þjónustu.[2] Þetta eru þau málefni sem almennt eru talin til innri mála kirkjunnar. Fimm manna stjórn þjóðkirkjunnar hefur aftur á móti í umboði kirkjuþings með höndum eftirlit með rekstri og framkvæmd ákvarðana þingsins.[3] Þetta hefur verið kallað ytri mál.

Skipuritinu er ætlað að sýna með sem skýrustum hætti hvar umboð fremur en vald einstakra aðila er koma að yfirstjórn þjóðkirkjunnar hefst og hvar því lýkur. Er þar auðvitað fyrst og fremst um kirkjuþing og biskupsembættið að ræða. Hin „magíska“ markalína liggur sem sé milli innri og ytri málanna. Auðvitað er þó mikilvægt að báðir aðilarnir eigi aðkomu að sem flestum málum. Skipuritið dregur þó fram að málefni sem falla undir ytri málin fá efnislega meðferð og formlega afgreiðslu á kirkjuþingi. Þau málefni sem falla undir innri málin fá á hinn bóginn efnislega meðferð á vegum biskupsembættisins en einungis formlega samþykkt eða afgreiðslu á kirkjuþingi.

Þróun verkferla

Nú ríður á að bæði kirkjuþing og biskupsembættið þrói skýra verkferla sem tryggja vandaða og góða málsmeðferð og samræmast ekki aðeins skipuritinu heldur einkum þeim lögum og starfsreglum sem liggja því til grundvallar.

Við undirbúning mála á sviði kenningar, vígðrar þjónustu eða annarra innri mála standa biskupi til boða ýmsir samstarfsaðilar bæði formlegir og óformlegir. Má þar nefna ýmsar  starfsnefndir kirkjunnar, ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni og prestastefnu. Eftir málsmeðferð á slíkum vettvangi hlýtur biskup svo að vísa málinu til formlegrar samþykktar á kirkjuþingi þar sem þingið fer með æðstu stjórn kirkjunnar. Kirkjuþing hefur aftur á móti ekki umboð til að breyta slíku máli í þinglegri meðferð. Vilji svo einkennilega til að meirihluti þess hafi veigamiklar athugasemdir við mál sem þannig er vaxið getur það vissulega vísað því að nýju til biskupsembættisins og þá með efnislegum rökstuðningi. Vart er þó við því að búast að á þetta reyni.

Um ytri málefni fer eftir starfsreglum um kirkjuþing og þingsköpum þess líkt og hingað til. Þó kann að koma fyrir að slík mál hafi einhverjar þær hliðar sem snerta innri málefnin með einhverjum hætti. Því er mikilvægt að samráðs sé gætt milli forsætisnefndar kirkjuþingsins og biskupsembættisins áður en slík mál eru tekin upp á málaskrá þingsins. Þannig er vönduð málsmeðferð tryggð, meðferð mála verður skilvirk, tími sparast auk þess sem fyrirbyggja má tortryggni og árekstra.

Kjaftasaga af kirkjuþingi

Eftir kirkjuþing á síðastliðnu ári barst út sú saga að í umræðum um skipuritið og breytingar sem það var talið boða hafi verið fullyrt að sú aðgreining sem þar er gerð milli hlutverks kirkjuþings og biskups bryti í bága við Ágsborgarjátninguna sem er eitt af játningarritum þjóðkirkjunnar frá 16. öld. Sögunni fylgdi enginn frekari rökstuðningur enda rúma kviksögur ekki slík smáatriði!

Ef sagan er „sönn“ hefur hin skýra tvískipting sem gerð er í þjóðkirkjulögunum og þar með skipuritinu væntanlega þótt takmarka umboð eða vald biskups með óæskilegum hætti eða með öðru móti setja embættið niður. Ef sú hefur verið raunin er sagan óneitanlega skondin. Ágsborgarjátningin var samin í deilum siðbótartímans og eitt af megináhersluatriðum Lúthers og félaga var einmitt að takmarka völd rómversku biskupanna.

Hér orkar því margt tvímælis og rennir sagan — hvert svo sem sannleiksgildi hennar er — stoðum undir þá skoðun að mál sem hugsanlega þurfi að meta í ljósi trúarjátninga, falli illa að þinglegri meðferð á kirkjuþingi án alveg sérstaks undirbúnings.

Þjóðkirkjuhlutverkið

Veggskreyting á Biskupsstofu

Aldrei verður of oft bent á að 1.mgr. 3.gr. þjóðkirkjulaganna frá 2021 er nafnið sem lögin snúast um. Þar segir: „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.“[4] Þetta hlutverk gerir Þjóðkirkjuna að þjóðkirkju og réttlætir þá sérstöðu sem hún vissulega hefur meðal annarra trúfélaga í landinu. Engu öðru trúfélagi er lögð þessi skylda á herðar. Allt starf sem unnið er í þjóðkirkjunni ræðst líka af þessu hlutverki. Það má því segja að í því skerist ásarnir tveir í skipuritinu. — Svo ekki sé sagt krossist! Útfærsla og framkvæmd lagagreinarinnar er því gott dæmi um málefni þar sem hlutverk kirkjuþings og biskupsembættisins skarast og að um sé að ræða málefni sem tilheyri samtímis innri og ytri málum kirkjunnar.

Hin vígða þjónusta sem lögin kveða á um að taka eigi til landsins alls og allra sem á því dvelja — og á annað borð kæra sig um — felur í sér bæn, boðun og þjónustu eða helgihald, fræðslu og díakoníu.[5] Það er hlutverk biskupsembættisins að skilgreina hvað í þessum starfsþáttum felst og hvernig staðið skuli að verki, þar með talið að útfæra þjónustu- eða starfssvæði: sóknir, prestaköll og prófastsdæmi. Þetta kemur m.a. fram í 3. mgr. 10. gr. þjóðkirkjulaganna, starfsreglum um biskupafund og raunar víðar.[6] Hlutverk kirkjuþings er aftur á móti að laga tillögur biskupsembættisins að þeim fjárhagslega veruleika sem kirkjan býr við hverju sinni.

Það gefur augaleið að árangri verður ekki náð með því að biskupsembættið leggi fram lítt grundaðar tillögur sem miða t.d. að óbreyttum starfsháttum en kirkjuþing skeri þær niður út frá þröngu sjónarhorni hagræðingar. Þá er vænlegra að biskup leggi fram gagnsæja áætlun sem byggð er á vönduðum gögnum og athugunum nægilega tímalega til ábyrgðaraðilar á sviði rekstrarmála geti tekið afstöðu til hennar fyrir kirkjuþing ár hvert og biskup loks endurskoðað hana út frá faglegri sýn ef þörf er á og áður en málið kemur til þinglegrar meðferðar.

Á þessu undirbúningsstigi þarf að

* greina starfsmannahald í öllum prestaköllum landsins og bera það saman við fjölda íbúa og þjóðkirkjufólks, aldurssamsetningu þess, vegalengdir, samgöngur og annað sem máli skiptir fyrir starfshættina.

* meta þróun undanfarinna ára, þ.e. hvernig vígðum þjónum hefur fækkað í sumum prestaköllum en fjölgað í öðru — nauðsynlegt er að meta hvort breytingar hafa ráðist af tilviljunum eða málefnalegum ákvörðunum sem þjóna kirkjustarfinu best.

* tengja niðurstöður greiningar og mats við landfræðilega legu sókna, prestakalla og kirkna og taka afstöðu til hvort þar sé gætt árangursríkasta og hagkvæmasta skipulags og starfshátta.

Ljóst er að í upphafi þarf að hafa nokkuð fyrir að gera þetta vel úr garði. Þegar verklag hefur þróast og yfirlit skapast verður undirbúningur málsins fyrir kirkjuþing ár hvert aftur á móti auðveldari.

Kostir skipuritsins

Þó svo skipuritið sem hér hefur verið fjölyrt um sé í raun ekki annað en „skematísk“ eða myndræn framsetning á efni sem þegar lá fyrir í þjóðkirkjulögum og starfsreglum frá kirkjuþingi eru kostir þess margir.

Það bregður upp skýrri mynd af hlutverka- eða verkaskiptingu og ætti því að auðvelda störf bæði kirkjuþings og biskupsembættisins. Einnig dregur skipuritið fram nauðsyn þess að þing og biskup eigi með sér gott samstarf og þá fremur við undirbúning þingmála en endanlega afgreiðslu þeirra á þinginu sjálfu. Þegar til þings er komið er mikilvægt að hvor aðilinn um sig gæti síns sjónarhorns og fari ekki út fyrir verksvið sitt.

Umfram allt leggur skipuritið svo mikilvægan grunn að frekari umræðu um skipan og samsetningu kirkjuþings sem og kosningu til þess. — Það er þó efni í annan pistil.

Tilvísanir:

[1] Nefndarálit við skýrslu starfshóps um endurskoðun framtíðarskipanar Þjóðkirkjunnar o.fl., kirkjan.is, sótt 21. júní 2024

[2] Sbr. nmgr 1. Sjá og Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1. mgr. 7. gr og3. mgr. 10. gr.), althingi.is, sótt 21. júní 2024

[3] Sbr. nmgr 1.

[4] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1.mgr. 3.gr.)

[5] Samanber einkunnarorðin „Biðjandi, boðandi, þjónandi“.

[6] Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 (1.mgr. 3.gr.), althingi.is, sótt 21. júní 2024 og Starfsreglur um biskupafund nr. 34/2022–2023, kirkjan.is, sótt 20. júní 2024 Sjá og skipuritið sbr. nmgr. 1.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir