Kirkjuþing og lýðræðið

Þankar um æðstu stjórn þjóðkirkjunnar

Í dag tekur nýtt kirkjuþing til starfa eftir kosningar síðastliðið vor. Á þinginu koma til með að starfa margir nýir fulltrúar úr röðum vígðra og óvígðra en einnig gamalreynt kirkjuþingsfólk. Það verður spennandi að fylgjast með störfum þingsins á nýbyrjuðu kjörtímabili.

Á mótum tveggja kjörtímabila er mikilvægt að þingmál sem ekki hafa verið útkljáð færist milli þinga en það gerist ekki án þess að þau séu endurvakin með nýjum, breyttum eða óbreyttum tillögum að starfsreglum eða öðrum ályktunum þingsins.

Meðal mála sem reifuð voru á síðasta kjörtímabili en voru ekki útkljáð voru reglur um kjör til kirkjuþings. Ýmsir þingfulltrúar hreyfðu þá því máli að taka bæri upp opnari kosningar til þingsins jafnvel þannig að allt þjóðkirkjufólk komið yfir ákveðinn aldur gæti kosið til þingsins. Þetta er mikil breyting miðað við það sem nú gerist. En halda má því fram að kosningarnar séu næsta lokaðar þar sem kosningarétt hafa aðeins vígðir þjónar kirkjunnar, þjónandi prestar og djáknar, aðal- og varamenn í sóknarnefndum auk uppbótarkjörmanna í fjölmennustu prófastsdæmunum.[1] Þetta væri mikil breyting og skiptra skoðana gætti um hana á þinginu sem lét af störfum í sumar. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að þjóðkirkjunni ber lögum samkvæmt „að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“ í starfsháttum sínum.[2] Þetta væri stórt skref í þá átt. Vissulega er þó fleira lýðræði en beint lýðræði, m.a. fulltrúalýðræði af ofangreindu tagi. Þó má færa rök að því að samkvæmt núgildandi reglum sé fulltrúalýðræðið full hreinræktað og þröngt þegar um þjóðkirkju er að ræða. Líklega ber fremur að skoða núverandi kirkjuþingskosningar sem kirkjulegar eða „kanonískar“ í miðaldastíl en lýðræðislegar að nútímaskilningi. — Hér er þó um matsatriði að ræða. Markmiðið með breytingum á reglum um kjör til kirkjuþings hlýtur samt að vera að kosningarnar uppfylli með ríkari hætti fyrrgreind skilyrði laga.

Að þessu sögðu er þó mikilvægt að halda því til haga að nýju þjóðkirkjulögin gera ekki kröfu um að beint lýðræði sé viðhaft í kjöri til kirkjuþings. Þau gera einungis ráð fyrir að kirkjuþing ákvarði með málefnalegum hætti hvað sé ásættanlegt þegar kemur að kosningum til þingsins og öðru sem lýtur að störfum þess og gjörðum.

Hvað er kirkjuþing?

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra hvað kirkjuþing er í raun og veru.

Samkvæmt 7. gr. þjóðkirkjulaga nr. 77/2021 hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Það markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum, öðrum en þeim sem lúta að kenningu kirkjunnar. Þá er kveðið á um það í greininni að „leikmenn“ eða óvígt kirkjufólk skuli vera fleira á þinginu en vígt starfsfólk og að forseti og varaforsetar þess skuli koma úr röðum óvígðs fólks. Samkvæmt 8. gr. setur kirkjuþing starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal um skipulag þingsins, svo sem kjör til þess, kjördæmaskipan, fjölda kirkjuþingsmanna, þingsköp og verkefni þingsins auk þess sem það samþykkir ályktanir og samþykktir um málefni þjóðkirkjunnar.[3]

Kirkjuþing fer með öðrum orðum með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar á flestum sviðum. Eigi þjóðkirkjan að uppfylla lagaskyldu sína um lýðræðislega starfshætti er því mikilvægt að allt sem að kirkjuþingi lýtur, kjöri til þingsins og starfi þessi uppfylli þessa grundvallarkröfu. — Velta má vöngum yfir því hvort svo sé nú eða hvort breytinga sé þörf.

Hvað má ráða af nýliðnum kirkjuþingkosningum?

Af því sem þegar hefur verið sagt er gerður skýr greinarmunur á vígðu starfsfólki kirkjunnar og óvígðu kirkjuþingsfólki þegar um samsetningu kirkjuþings og kjör til þess er að ræða. Á þetta bæði við lög frá Alþingi og starfsreglur frá kirkjuþingi.

Starfsreglurnar ganga þó lengra í þessu efni en lögin kveða beinlínis á um. Samkvæmt lögunum er aðeins kveðið á um að almennt þjóðkirkjufólk skuli vera fjölmennara en vígt starfsfólk og að það skuli skipa forsæti á þinginu. Þetta er gert til að undirstrika að þjóðkirkjan er ekki embættis- eða prestakirkja heldur kirkja allra sem henni tilheyra. Þetta er í samræmi við lútherskan kirkjuskilning en samkvæmt bæði lögum og stjórnarskrá ber þjóðkirkjunni að vera evangelísk-lúthersk. — Álitamál er þó hvort kirkjuþing rís undir því að vera slíkt þing þjóðkirkjunnar allrar. Samkvæmt starfsreglum um kjör til þess skal það skipað 29 fulltrúum, þar af 12 úr röðum vígðra þjóna en 17 úr röðum almenns kirkjufólks.[4] Það gefur augaleið að þessi hlutföll endurspegla illa þjóðkirkjuna í allri sinni breidd. Það hlýtur að orka tvímælis að vígt starfsfólk kirkjunnar skipi rúm 40% sæta á kirkjuþingi. Það teldist t.a.m. sérkennilegt ef áskilið væri að starfsmenn sveitarfélaga skipuðu 40% sæta í sveitarstjórnum.

Starfsreglurnar kveða einnig á um að kjörið fari fram með tvenns konar hætti. Vígt fólk skal kjósa fulltrúa úr eigin röðum í þremur kjördæmum. Almennt þjóðkirkjufólk kýs aftur á móti fulltrúa sína í níu kjördæmum.[5] Af þessu leiðir að almennt þjóðkirkjufólk hefur engin áhrif hvaða prestar eða djáknar sitja þingið. Á sama hátt á vígt starfsfólk ekki að hafa áhrif á hvaða óvígt fólk velst til þingsins. Þá má loks benda á að þau óvígðu eru ekki beinir fulltrúar almennings í kirkjunni heldur einkum sóknarnefndanna.

Hér má spyrja hvort kirkjuþing sé í raun og veru lýðræðislega kjörið þing lútherskrar kirkju eða einhvers konar samkoma vígðra og óvígðra „kirkjueigenda“ þó með ólíkum hætti sé. Öllu þjóðkirkjufólki er vissulega heimilt — og það hvatt til — að mæta á aðalsafnaðarfundi þar sem það getur kosið sóknarnefndir og jafnframt gefið kost á sér til setu í þeim og þar með haft áhrif á starf og stjórnun þjóðkirkjunnar. Það er því ekki endilega ljóður á að leikmenn á kirkjuþingi skuli hafa þessa sterku tengingu  við sóknir. Þvert á móti má líta svo á að fyrirkomulagið tryggi að kirkjuþingsfólk sé vel upplýst um málefni kirkjunnar.

Fyrrgreind samsetning þingsins veldur því þó að það er í eðli sínu stéttaþing að hætti 19. aldar. Þetta er ágalli sem mögulegt er að breyta á vettvangi kirkjuþings án þess að lagabreyting komi til. Æskilegt er að á því kjörtímabili sem nú fer í hönd verði hafist handa um að þróa þingið til nútímalegra horfs sem og að tryggt verði að það rísi undir L-unum tveimur, þ.e. verði án efa bæði lútherskt og lýðræðislegt!

Opnar kirkjuþingskosningar?

Liður í breytingaþróun í lýðræðisátt er án efa að kosningar til kirkjuþingsins verði opnaðar fleirum en vígðum og óvígðum „kirkjueigendum“. Þetta væri mögulegt að gera, líkt og hugmyndir voru uppi um á síðasta kirkjuþingi, með því að taka upp almennar kosningar sem allt fermt þjóðkirkjufólk gæti tekið þátt í, nú eða allt þjóðkirkjufólk er náð hefur 18 ára aldri ef vilji stendur til að taka mið af lögum um aðrar kosningar í landinu.[6] Með þessu væri öllum vafa hrundið um að kirkjuþing sé raunverulega lýðræðislega kjörið.  Hér vakna þó ýmis álitamál sem taka þarf afstöðu til áður en hrapað er að niðurstöðu.

Í fyrsta lagi má spyrja hve mikil kjörsókn er líkleg til að verða í opnum, almennum kirkjuþingskosningum sem og hve lítil kjörsókn sé ásættanleg. Í kosningum síðastliðið sumar var þátttaka meðal vígðs starfsfólks, presta og djákna, í kjördæmunum þremur á bilinu 78–88 %.[7] Spyrja má hvort þetta sé góð eða slæm kjörsókn en þarna var lykilstarfsfólk að velja fulltrúa sína í æðstu stjórn þeirrar stofnunar sem það þjónar. Eðlilegt er að búast við 100 % þátttöku í slíku kjöri að frá dregnum eðlilegum forföllum. Þau geta ekki numið allt að 20 % eins og kosningunni var háttað. Hún var rafræn og stóð í nokkurn tíma. Meðal sóknarnefndarfólks var þátttaka á bilinu 20 % til tæplega 60 %.[8] Líta má svo á að hún hafi spannað bilið frá lélegri til sæmilegrar en hér er um helstu trúnaðarfólk þjóðkirkjunnar úti í söfnuðum landsins að ræða.  Viðunandi þátttaka meðal þess væri líklega um 80 % hið lægsta.

Í sumar voru alls 2077 á kjörskrá, 166 úr röðum vígðs fólks en 1911 meðal óvígðs.[9] Í svo fámennum hópi „kirkjueigenda“ ætti ekki að vera torvelt að auka kjörsóknina. Öðru máli gegnir þegar um er að ræða 177. 987 manns en það er fjöldi þjóðkirkjufólks frá 18 ára aldri nú um stundir.[10] Hve mörg af öllum þessum fjölda eru líkleg til að taka þátt í kirkjuþingskjöri? Er t.d. raunhæft að ætla að kjörsókn í almennum kirkjuþingskosningum verði að minnsta kosti fyrst í stað meiri en nú gerist og gengur um þátttöku í sóknarnefndarkosningum? En hún er víðast hvar mjög lítil. Er ekki líklegra að kjörsóknin í kirkjuþingskosningum verði mun lægri en í kosningum til sóknarnefndanna? Þær eru þó almennu safnaðarfólki mun nálægari og kunnuglegri en kirkjuþing. Reynist svo munu opnar kirkjuþingskosningar tæpast auka lýðræðið.  Opnar kosningar án viðunandi þátttöku yrðu líka til mikils álitshnekkis fyrir kirkjuna auk þess sem þeim fylgir óhjákvæmilega mikill kostnaður.

Þrátt fyrir að gera verði ráð fyrir sáralítilli kjörsókn í allmörgum fyrstu almennu kirkjuþingskosningunum má væntanlega mjatla kosningaþátttöku eitthvað upp á einhverjum áratugum. Vissulega gætu almennar kosningar og undirbúningur þeirra ýtt undir holla og vekjandi umræður um starf og stöðu Þjóðkirkjunnar og virkjað fleiri í kirkjulegu samhengi. Þá er vel. Líklega væri þó affarasælla að reyna að vekja slíka umræðu áður en tekið er að hreyfa breytingum á kosningafyrirkomulaginu. Svo eru til ýmsar aðferðir til að rækta hóp virks þjóðkirkjufólks og þar með kjósenda og frambjóðenda í kirkjuþingskosningum. Slík viðleitni var hér um árið nefnd safnaðaruppbygging og var um skeið átaksverkefni á vegum Þjóðkirkjunnar. Hana þraut þó erindið áður en marktækur árangur kom í ljós. Fátt bendir til að betur tækist til nú.

Listakosningar til kirkjuþings?

Nú er kirkjuþingsfólk kosið beinni eða einstaklingsbundinni kosningu. Þetta er gerlegt meðan núverandi skipan er viðhöfð en í því kjördæmi sem flesta kjörmenn hefur í kjördeild óvígðs fólks voru 313 með atkvæðisrétt.

Allt öðru máli gegnir ef kjörmönnum verður fjölgað úr rúmlega 2000 í 180. 000.  Beint kjör kemur þá tæpast til greina heldur verður að taka upp listakjör.[11] Breyting í þessa átt kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir en breytingin kann þó að hafa ýmsar jákvæðar aukaverkanir. Við samsetningu lista þyrfti að fara fram málefnaumræða og mótun stefnu í kirkjumálum.  Í aðdraganda kosninganna gæti málefnastaða skýrst og skerpst enn frekar. Þá er þó mikilvægt að umræður og skoðanaskipti verði málefnaleg og uppbyggjandi en sæki ekki í far átaka og spennu sem kirkjan græðir síst á.

Einhver kann að spyrja hvort listakosning mundu ekki leiða til þess að kirkjuþingskosningar yrðu pólitískum flokkum að bráð. Við núverandi aðstæður er tæpast rík ástæða til að ætla það. Vissulega þarf ekki að leita langt eftir því fyrirkomulagi að kirkjuþingskjör sé flokkspólitískt. Þar sem svo háttar til voru opnar kosningar þó teknar upp meðan kirkjan var enn miðlæg í samfélaginu, tengsl hennar við ríkisvaldið sterk og þátttaka í starfi hennar almenn. Þá var eðlilegt að kosið væri til kirkjuþings á svipaðan hátt og til þjóðþings. Öðru máli gegnir um jaðarsetta kirkju.

Þarf að fjölga á kirkjuþingi?

Eins og fram er komið er kirkjuþing frekar fámenn samkoma með 29 fulltrúa. Það er líklega viðunandi fjöldi miðað við að um er að ræða fulltrúa fyrir um 2000 kjörmenn. Fjöldinn horfir allt öðru vísi við ef þingið á með beinum hætti að endurspegla kirkju sem telur hátt í 180. 000 manns. Kirkjuþing verður með öðrum orðum ekki lýðræðislegra en nú er með breytingum á kosningafyrirkomulaginu einum saman. Til þess verður m.a. að fjölga þingfulltrúunum.

Nú er gengið út frá að Alþingi þurfi að vera skipað 63  þingmönnum til að endurspegla þjóðina. Ef miðað er við það þyrfti að fjölga fulltrúum á kirkjuþingi um eina 9 fulltrúa.[12]  Það er ekkert stórmál nema þegar kemur að kostnaðinum sem mundi hækka um þriðjung. Eins og sakir standa er áhorfsmál hvort verjandi sé að auka fjárstreymi til yfirstjórnar eða yfirbyggingar kirkjunnar í svo ríkum mæli.

Stéttaþing eða kirkjuþing?   

Jafnframt því að bylta fyrirkomulagi kirkjuþingskosninga, eins og hugmyndir hafa komið fram um, er óhjákvæmilegt að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að hverfa frá því að stéttaþing að hætti 19. aldar fari með æðstu stjórn íslensku þjóðkirkjunnar og koma þess í stað á eiginlegu kirkjuþingi í lútherskum anda. Það verður aðeins gert með því að allt kirkjuþingsfólk sé fulltrúar fyrir alla kirkjuna en ekki aðeins annað tveggja vígt starfsfólk eða sóknarnefndir. Þetta yrði gert með því að kjósa í einni kjördeild í stað tveggja nú.

Auk þess sem eðlisbreyting yrði á þinginu mundi breyting af þessu tagi hafa margs konar aðrar breytingar í för með sér. Fyrst má þar telja að eytt yrði áberandi lýðræðishalla sem nú er á þinginu. Nú eiga 166 manns í kjördeild vígðs starfsfólk 12 fulltrúa en 1911 úr röðum sóknarnefndafólks 17 fulltrúa. Í þessu felst lýðræðishalli sem ekki yrði leiðréttur að óbreyttri skipan með öðru en að fjölga fulltrúum sóknarnefndanna upp í 138 ellegar fækka fulltrúum hinna vígðu niður í 1–2. Hvorugur kosturinn er raunhæfur. Eina leiðin er sem sé að taka upp kjör í einu lagi óháð stöðu fólks í kirkjunni. Auk þessa má nefna að breyting af því tagi sem hér er mælt fyrir gæti verulega dregið úr spennu sem nú kemur þráfaldlega fram á þinginu milli fulltrúa starfsfólksins annars vegar en sóknarnefndanna hins vegar. Samvinna í aðdraganda kjörsins mundi stórum auðvelda samstarf þessara hópa þegar til þings er komið.

Sameining kjördeildanna útheimtir svo á hinn bóginn að allir listar sem í boði yrðu væru fléttulistar þar sem frambjóðendum yrði raðað á þann veg að tryggt væri að bæði vígt og óvígt fólk næðu inn á þing úr öllum kjördæmum. Þá yrði að vera tryggt að ákvæðum þjóðkirkjulaganna yrði fullnægt á þann veg að óvígt fólk yrði fleira á þinginu en vígt. Kjörstjórn yrði því að hafa heimild til að færa fulltrúa til innan hvers kjördæmis ef niðurstöður kosninganna gera það óhjákvæmilegt.

Loks er nauðsynlegt að velta upp spurningunni um hvort ekki þurfi að endurskoða hlutföll vígðs starfsfólks og óvígðs þjóðkirkjufólks (12:17.) Eigi störf þingsins að uppfylla skilyrði laga um lýðræði virðist ljóst að styrkja þurfi stöðu óvígðra fulltrúa með því að fjölga fulltrúum þess hvort sem það verður gert „á kostnað“ vígðs starfsfólks eða með fjölgun fulltrúanna. Við núverandi aðstæður er ljóst að starfsmenn þjóðkirkjunnar hafa oft óheppilega mikil og bein áhrif á ákvarðanir þingsins sem margar lúta að framkvæmd þess fjárstjórnarvalds sem þingið fer með. Í slíkum tilvikum virðist torvelt að fyrirbyggja að hagsmunir móti um of þá stefnu sem verður ofan á.  Það væri spor í rétta átt að fækka fulltrúum vígðs starfsfólks niður í 9 og fjölga fulltrúum óvígðs kirkjufólks upp í 20.

Er nauðsynlegt að skerpa undirbúning þingmála?

Vera má að einhverjar breytingar sem hér er mælt fyrir kunni að þykja boða afturför frá þeirri skipan sem nú er viðhöfð. Ein er a.m.k. sú viðbára sem ekki verður vikist undan að ræða. Væntanlega telur einhver að á Kirkjuþingi hljóti vígðir þjónar, biskupar, prestar og djáknar, að þurfa að hafa sérstöðu og ótvírætt vægi, m.a. til að standa vörð um að viðfangsefni þingsins verði til lykta leidd á grundvelli réttrar kenningar. Til þess séu kjördeildirnar tvær að tryggja að svo verði.

Við þessu er margt að segja. Vissulega er svo að mörg mál á kirkjuþingi hafa guðfræðilegar og/eða kirkjulegar hliðar sem þurfa að koma til álita. Hitt er raunar sára sjaldgæft að þar sé fjallað um mál sem flokka má sem kenningarleg eða mál sem beinlínis lúta að boðun og helgihaldi. Hvernig svo sem slík mál eru vaxin er þó ljóst að umræður á kirkjuþingi eru á engan hátt til þess fallnar að leiða þau til lykta fyrr en á lokastigi þegar þau ættu að koma fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Áður en til þess kæmi þyrfti að fjalla efnislega um þau á öðrum vettvangi og þá á vegum biskupsembættisins með aðkomu kenningarnefndar og prestastefnu. Vel færi líka á að þau lægju frammi í samráðsgátt til kynningar og umsagnar. Líklega er ekki vanþörf á að kveða skýrar á um en nú er gert hvernig búa skuli slík mál í hendur þingsins.

Lokaorð

Hér skal fallist á að almennar kosningar til kirkjuþings séu æskilegt framtíðarmarkmið fyrir þjóðkirkjuna. Að mörgu er þó að hyggja áður en því verði náð og hefur hér verið bent á sumt. Kirkjuþing getur stigið ýmis skref í átt að auknu lýðræði þó hið fullkomna lýðræði — sé það á annað borð til — virðist enn nokkuð fjarlægt. Mikilvægt er í því sambandi að  stuðla að því að kjör til þingsins geti í auknum mæli snúist um málefni fremur en persónur eins og nú er raunin. Þróun í þá átt gæti flýtt því að þjóðkirkjan væri í stakk búin til að opna kjör til þingsins og stórfjölga kjörmönnum.

Neðanmálsgreinar:

[1] Starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 8/2021 (3. og 4. gr.), kirkjan.is, sótt 24. september 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20kj%c3%b6r%20til%20kirkju%c3%beings%20-%20Copy%20(1).pdf.

[2] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021 (4.gr.), althingi.is, sótt 24. september 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[3] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021, althingi.is, sótt 24. September 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[4] Starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 8/2021 (1. gr.), kirkjan.is, sótt 24. september 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20kj%c3%b6r%20til%20kirkju%c3%beings%20-%20Copy%20(1).pdf.

[5] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021 (2.gr.), althingi.is, sótt 24. September 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[6] Kosningalög nr. 112/2021 (3. gr.), althingi.is, sótt 24. september 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021112.html.

[7] Niðurstöður kosninga (vígðir), kirkjan.is, sótt 5. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[8] Niðurstöður kosninga (leikmenn), kirkjan,is, sótt 25. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[9] Niðurstöður kosninga, kirkjan,is, sótt 25. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[10] Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunum 1998–2022 (2022, þjóðkirkjan, 18 ára og eldri), hagstofa.is, sótt 25. september 2022 af https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px/table/tableViewLayout1/?rxid=8ca11e96-13e9-4539-8c8e-36b2550aa3eb

[11] Í þessu sambandi má benda á reynslu úr kosningum til stjórnlagaþings sem raunar voru ógiltar.

[12] Nú tilheyra 60.9 % þjóðarinnar þjóðkirkjunni. Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998–2022 (2022, þjóðkirkjan, hlutfall), hagstofa.is. sótt 25. september 2022 af https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px/table/tableViewLayout1/?rxid=1dedfe10-d9f6-4ead-8a2a-b78c0ef0da00.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjuþing og lýðræðið

Þankar um æðstu stjórn þjóðkirkjunnar

Í dag tekur nýtt kirkjuþing til starfa eftir kosningar síðastliðið vor. Á þinginu koma til með að starfa margir nýir fulltrúar úr röðum vígðra og óvígðra en einnig gamalreynt kirkjuþingsfólk. Það verður spennandi að fylgjast með störfum þingsins á nýbyrjuðu kjörtímabili.

Á mótum tveggja kjörtímabila er mikilvægt að þingmál sem ekki hafa verið útkljáð færist milli þinga en það gerist ekki án þess að þau séu endurvakin með nýjum, breyttum eða óbreyttum tillögum að starfsreglum eða öðrum ályktunum þingsins.

Meðal mála sem reifuð voru á síðasta kjörtímabili en voru ekki útkljáð voru reglur um kjör til kirkjuþings. Ýmsir þingfulltrúar hreyfðu þá því máli að taka bæri upp opnari kosningar til þingsins jafnvel þannig að allt þjóðkirkjufólk komið yfir ákveðinn aldur gæti kosið til þingsins. Þetta er mikil breyting miðað við það sem nú gerist. En halda má því fram að kosningarnar séu næsta lokaðar þar sem kosningarétt hafa aðeins vígðir þjónar kirkjunnar, þjónandi prestar og djáknar, aðal- og varamenn í sóknarnefndum auk uppbótarkjörmanna í fjölmennustu prófastsdæmunum.[1] Þetta væri mikil breyting og skiptra skoðana gætti um hana á þinginu sem lét af störfum í sumar. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að þjóðkirkjunni ber lögum samkvæmt „að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis“ í starfsháttum sínum.[2] Þetta væri stórt skref í þá átt. Vissulega er þó fleira lýðræði en beint lýðræði, m.a. fulltrúalýðræði af ofangreindu tagi. Þó má færa rök að því að samkvæmt núgildandi reglum sé fulltrúalýðræðið full hreinræktað og þröngt þegar um þjóðkirkju er að ræða. Líklega ber fremur að skoða núverandi kirkjuþingskosningar sem kirkjulegar eða „kanonískar“ í miðaldastíl en lýðræðislegar að nútímaskilningi. — Hér er þó um matsatriði að ræða. Markmiðið með breytingum á reglum um kjör til kirkjuþings hlýtur samt að vera að kosningarnar uppfylli með ríkari hætti fyrrgreind skilyrði laga.

Að þessu sögðu er þó mikilvægt að halda því til haga að nýju þjóðkirkjulögin gera ekki kröfu um að beint lýðræði sé viðhaft í kjöri til kirkjuþings. Þau gera einungis ráð fyrir að kirkjuþing ákvarði með málefnalegum hætti hvað sé ásættanlegt þegar kemur að kosningum til þingsins og öðru sem lýtur að störfum þess og gjörðum.

Hvað er kirkjuþing?

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra hvað kirkjuþing er í raun og veru.

Samkvæmt 7. gr. þjóðkirkjulaga nr. 77/2021 hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Það markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum, öðrum en þeim sem lúta að kenningu kirkjunnar. Þá er kveðið á um það í greininni að „leikmenn“ eða óvígt kirkjufólk skuli vera fleira á þinginu en vígt starfsfólk og að forseti og varaforsetar þess skuli koma úr röðum óvígðs fólks. Samkvæmt 8. gr. setur kirkjuþing starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal um skipulag þingsins, svo sem kjör til þess, kjördæmaskipan, fjölda kirkjuþingsmanna, þingsköp og verkefni þingsins auk þess sem það samþykkir ályktanir og samþykktir um málefni þjóðkirkjunnar.[3]

Kirkjuþing fer með öðrum orðum með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar á flestum sviðum. Eigi þjóðkirkjan að uppfylla lagaskyldu sína um lýðræðislega starfshætti er því mikilvægt að allt sem að kirkjuþingi lýtur, kjöri til þingsins og starfi þessi uppfylli þessa grundvallarkröfu. — Velta má vöngum yfir því hvort svo sé nú eða hvort breytinga sé þörf.

Hvað má ráða af nýliðnum kirkjuþingkosningum?

Af því sem þegar hefur verið sagt er gerður skýr greinarmunur á vígðu starfsfólki kirkjunnar og óvígðu kirkjuþingsfólki þegar um samsetningu kirkjuþings og kjör til þess er að ræða. Á þetta bæði við lög frá Alþingi og starfsreglur frá kirkjuþingi.

Starfsreglurnar ganga þó lengra í þessu efni en lögin kveða beinlínis á um. Samkvæmt lögunum er aðeins kveðið á um að almennt þjóðkirkjufólk skuli vera fjölmennara en vígt starfsfólk og að það skuli skipa forsæti á þinginu. Þetta er gert til að undirstrika að þjóðkirkjan er ekki embættis- eða prestakirkja heldur kirkja allra sem henni tilheyra. Þetta er í samræmi við lútherskan kirkjuskilning en samkvæmt bæði lögum og stjórnarskrá ber þjóðkirkjunni að vera evangelísk-lúthersk. — Álitamál er þó hvort kirkjuþing rís undir því að vera slíkt þing þjóðkirkjunnar allrar. Samkvæmt starfsreglum um kjör til þess skal það skipað 29 fulltrúum, þar af 12 úr röðum vígðra þjóna en 17 úr röðum almenns kirkjufólks.[4] Það gefur augaleið að þessi hlutföll endurspegla illa þjóðkirkjuna í allri sinni breidd. Það hlýtur að orka tvímælis að vígt starfsfólk kirkjunnar skipi rúm 40% sæta á kirkjuþingi. Það teldist t.a.m. sérkennilegt ef áskilið væri að starfsmenn sveitarfélaga skipuðu 40% sæta í sveitarstjórnum.

Starfsreglurnar kveða einnig á um að kjörið fari fram með tvenns konar hætti. Vígt fólk skal kjósa fulltrúa úr eigin röðum í þremur kjördæmum. Almennt þjóðkirkjufólk kýs aftur á móti fulltrúa sína í níu kjördæmum.[5] Af þessu leiðir að almennt þjóðkirkjufólk hefur engin áhrif hvaða prestar eða djáknar sitja þingið. Á sama hátt á vígt starfsfólk ekki að hafa áhrif á hvaða óvígt fólk velst til þingsins. Þá má loks benda á að þau óvígðu eru ekki beinir fulltrúar almennings í kirkjunni heldur einkum sóknarnefndanna.

Hér má spyrja hvort kirkjuþing sé í raun og veru lýðræðislega kjörið þing lútherskrar kirkju eða einhvers konar samkoma vígðra og óvígðra „kirkjueigenda“ þó með ólíkum hætti sé. Öllu þjóðkirkjufólki er vissulega heimilt — og það hvatt til — að mæta á aðalsafnaðarfundi þar sem það getur kosið sóknarnefndir og jafnframt gefið kost á sér til setu í þeim og þar með haft áhrif á starf og stjórnun þjóðkirkjunnar. Það er því ekki endilega ljóður á að leikmenn á kirkjuþingi skuli hafa þessa sterku tengingu  við sóknir. Þvert á móti má líta svo á að fyrirkomulagið tryggi að kirkjuþingsfólk sé vel upplýst um málefni kirkjunnar.

Fyrrgreind samsetning þingsins veldur því þó að það er í eðli sínu stéttaþing að hætti 19. aldar. Þetta er ágalli sem mögulegt er að breyta á vettvangi kirkjuþings án þess að lagabreyting komi til. Æskilegt er að á því kjörtímabili sem nú fer í hönd verði hafist handa um að þróa þingið til nútímalegra horfs sem og að tryggt verði að það rísi undir L-unum tveimur, þ.e. verði án efa bæði lútherskt og lýðræðislegt!

Opnar kirkjuþingskosningar?

Liður í breytingaþróun í lýðræðisátt er án efa að kosningar til kirkjuþingsins verði opnaðar fleirum en vígðum og óvígðum „kirkjueigendum“. Þetta væri mögulegt að gera, líkt og hugmyndir voru uppi um á síðasta kirkjuþingi, með því að taka upp almennar kosningar sem allt fermt þjóðkirkjufólk gæti tekið þátt í, nú eða allt þjóðkirkjufólk er náð hefur 18 ára aldri ef vilji stendur til að taka mið af lögum um aðrar kosningar í landinu.[6] Með þessu væri öllum vafa hrundið um að kirkjuþing sé raunverulega lýðræðislega kjörið.  Hér vakna þó ýmis álitamál sem taka þarf afstöðu til áður en hrapað er að niðurstöðu.

Í fyrsta lagi má spyrja hve mikil kjörsókn er líkleg til að verða í opnum, almennum kirkjuþingskosningum sem og hve lítil kjörsókn sé ásættanleg. Í kosningum síðastliðið sumar var þátttaka meðal vígðs starfsfólks, presta og djákna, í kjördæmunum þremur á bilinu 78–88 %.[7] Spyrja má hvort þetta sé góð eða slæm kjörsókn en þarna var lykilstarfsfólk að velja fulltrúa sína í æðstu stjórn þeirrar stofnunar sem það þjónar. Eðlilegt er að búast við 100 % þátttöku í slíku kjöri að frá dregnum eðlilegum forföllum. Þau geta ekki numið allt að 20 % eins og kosningunni var háttað. Hún var rafræn og stóð í nokkurn tíma. Meðal sóknarnefndarfólks var þátttaka á bilinu 20 % til tæplega 60 %.[8] Líta má svo á að hún hafi spannað bilið frá lélegri til sæmilegrar en hér er um helstu trúnaðarfólk þjóðkirkjunnar úti í söfnuðum landsins að ræða.  Viðunandi þátttaka meðal þess væri líklega um 80 % hið lægsta.

Í sumar voru alls 2077 á kjörskrá, 166 úr röðum vígðs fólks en 1911 meðal óvígðs.[9] Í svo fámennum hópi „kirkjueigenda“ ætti ekki að vera torvelt að auka kjörsóknina. Öðru máli gegnir þegar um er að ræða 177. 987 manns en það er fjöldi þjóðkirkjufólks frá 18 ára aldri nú um stundir.[10] Hve mörg af öllum þessum fjölda eru líkleg til að taka þátt í kirkjuþingskjöri? Er t.d. raunhæft að ætla að kjörsókn í almennum kirkjuþingskosningum verði að minnsta kosti fyrst í stað meiri en nú gerist og gengur um þátttöku í sóknarnefndarkosningum? En hún er víðast hvar mjög lítil. Er ekki líklegra að kjörsóknin í kirkjuþingskosningum verði mun lægri en í kosningum til sóknarnefndanna? Þær eru þó almennu safnaðarfólki mun nálægari og kunnuglegri en kirkjuþing. Reynist svo munu opnar kirkjuþingskosningar tæpast auka lýðræðið.  Opnar kosningar án viðunandi þátttöku yrðu líka til mikils álitshnekkis fyrir kirkjuna auk þess sem þeim fylgir óhjákvæmilega mikill kostnaður.

Þrátt fyrir að gera verði ráð fyrir sáralítilli kjörsókn í allmörgum fyrstu almennu kirkjuþingskosningunum má væntanlega mjatla kosningaþátttöku eitthvað upp á einhverjum áratugum. Vissulega gætu almennar kosningar og undirbúningur þeirra ýtt undir holla og vekjandi umræður um starf og stöðu Þjóðkirkjunnar og virkjað fleiri í kirkjulegu samhengi. Þá er vel. Líklega væri þó affarasælla að reyna að vekja slíka umræðu áður en tekið er að hreyfa breytingum á kosningafyrirkomulaginu. Svo eru til ýmsar aðferðir til að rækta hóp virks þjóðkirkjufólks og þar með kjósenda og frambjóðenda í kirkjuþingskosningum. Slík viðleitni var hér um árið nefnd safnaðaruppbygging og var um skeið átaksverkefni á vegum Þjóðkirkjunnar. Hana þraut þó erindið áður en marktækur árangur kom í ljós. Fátt bendir til að betur tækist til nú.

Listakosningar til kirkjuþings?

Nú er kirkjuþingsfólk kosið beinni eða einstaklingsbundinni kosningu. Þetta er gerlegt meðan núverandi skipan er viðhöfð en í því kjördæmi sem flesta kjörmenn hefur í kjördeild óvígðs fólks voru 313 með atkvæðisrétt.

Allt öðru máli gegnir ef kjörmönnum verður fjölgað úr rúmlega 2000 í 180. 000.  Beint kjör kemur þá tæpast til greina heldur verður að taka upp listakjör.[11] Breyting í þessa átt kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir en breytingin kann þó að hafa ýmsar jákvæðar aukaverkanir. Við samsetningu lista þyrfti að fara fram málefnaumræða og mótun stefnu í kirkjumálum.  Í aðdraganda kosninganna gæti málefnastaða skýrst og skerpst enn frekar. Þá er þó mikilvægt að umræður og skoðanaskipti verði málefnaleg og uppbyggjandi en sæki ekki í far átaka og spennu sem kirkjan græðir síst á.

Einhver kann að spyrja hvort listakosning mundu ekki leiða til þess að kirkjuþingskosningar yrðu pólitískum flokkum að bráð. Við núverandi aðstæður er tæpast rík ástæða til að ætla það. Vissulega þarf ekki að leita langt eftir því fyrirkomulagi að kirkjuþingskjör sé flokkspólitískt. Þar sem svo háttar til voru opnar kosningar þó teknar upp meðan kirkjan var enn miðlæg í samfélaginu, tengsl hennar við ríkisvaldið sterk og þátttaka í starfi hennar almenn. Þá var eðlilegt að kosið væri til kirkjuþings á svipaðan hátt og til þjóðþings. Öðru máli gegnir um jaðarsetta kirkju.

Þarf að fjölga á kirkjuþingi?

Eins og fram er komið er kirkjuþing frekar fámenn samkoma með 29 fulltrúa. Það er líklega viðunandi fjöldi miðað við að um er að ræða fulltrúa fyrir um 2000 kjörmenn. Fjöldinn horfir allt öðru vísi við ef þingið á með beinum hætti að endurspegla kirkju sem telur hátt í 180. 000 manns. Kirkjuþing verður með öðrum orðum ekki lýðræðislegra en nú er með breytingum á kosningafyrirkomulaginu einum saman. Til þess verður m.a. að fjölga þingfulltrúunum.

Nú er gengið út frá að Alþingi þurfi að vera skipað 63  þingmönnum til að endurspegla þjóðina. Ef miðað er við það þyrfti að fjölga fulltrúum á kirkjuþingi um eina 9 fulltrúa.[12]  Það er ekkert stórmál nema þegar kemur að kostnaðinum sem mundi hækka um þriðjung. Eins og sakir standa er áhorfsmál hvort verjandi sé að auka fjárstreymi til yfirstjórnar eða yfirbyggingar kirkjunnar í svo ríkum mæli.

Stéttaþing eða kirkjuþing?   

Jafnframt því að bylta fyrirkomulagi kirkjuþingskosninga, eins og hugmyndir hafa komið fram um, er óhjákvæmilegt að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að hverfa frá því að stéttaþing að hætti 19. aldar fari með æðstu stjórn íslensku þjóðkirkjunnar og koma þess í stað á eiginlegu kirkjuþingi í lútherskum anda. Það verður aðeins gert með því að allt kirkjuþingsfólk sé fulltrúar fyrir alla kirkjuna en ekki aðeins annað tveggja vígt starfsfólk eða sóknarnefndir. Þetta yrði gert með því að kjósa í einni kjördeild í stað tveggja nú.

Auk þess sem eðlisbreyting yrði á þinginu mundi breyting af þessu tagi hafa margs konar aðrar breytingar í för með sér. Fyrst má þar telja að eytt yrði áberandi lýðræðishalla sem nú er á þinginu. Nú eiga 166 manns í kjördeild vígðs starfsfólk 12 fulltrúa en 1911 úr röðum sóknarnefndafólks 17 fulltrúa. Í þessu felst lýðræðishalli sem ekki yrði leiðréttur að óbreyttri skipan með öðru en að fjölga fulltrúum sóknarnefndanna upp í 138 ellegar fækka fulltrúum hinna vígðu niður í 1–2. Hvorugur kosturinn er raunhæfur. Eina leiðin er sem sé að taka upp kjör í einu lagi óháð stöðu fólks í kirkjunni. Auk þessa má nefna að breyting af því tagi sem hér er mælt fyrir gæti verulega dregið úr spennu sem nú kemur þráfaldlega fram á þinginu milli fulltrúa starfsfólksins annars vegar en sóknarnefndanna hins vegar. Samvinna í aðdraganda kjörsins mundi stórum auðvelda samstarf þessara hópa þegar til þings er komið.

Sameining kjördeildanna útheimtir svo á hinn bóginn að allir listar sem í boði yrðu væru fléttulistar þar sem frambjóðendum yrði raðað á þann veg að tryggt væri að bæði vígt og óvígt fólk næðu inn á þing úr öllum kjördæmum. Þá yrði að vera tryggt að ákvæðum þjóðkirkjulaganna yrði fullnægt á þann veg að óvígt fólk yrði fleira á þinginu en vígt. Kjörstjórn yrði því að hafa heimild til að færa fulltrúa til innan hvers kjördæmis ef niðurstöður kosninganna gera það óhjákvæmilegt.

Loks er nauðsynlegt að velta upp spurningunni um hvort ekki þurfi að endurskoða hlutföll vígðs starfsfólks og óvígðs þjóðkirkjufólks (12:17.) Eigi störf þingsins að uppfylla skilyrði laga um lýðræði virðist ljóst að styrkja þurfi stöðu óvígðra fulltrúa með því að fjölga fulltrúum þess hvort sem það verður gert „á kostnað“ vígðs starfsfólks eða með fjölgun fulltrúanna. Við núverandi aðstæður er ljóst að starfsmenn þjóðkirkjunnar hafa oft óheppilega mikil og bein áhrif á ákvarðanir þingsins sem margar lúta að framkvæmd þess fjárstjórnarvalds sem þingið fer með. Í slíkum tilvikum virðist torvelt að fyrirbyggja að hagsmunir móti um of þá stefnu sem verður ofan á.  Það væri spor í rétta átt að fækka fulltrúum vígðs starfsfólks niður í 9 og fjölga fulltrúum óvígðs kirkjufólks upp í 20.

Er nauðsynlegt að skerpa undirbúning þingmála?

Vera má að einhverjar breytingar sem hér er mælt fyrir kunni að þykja boða afturför frá þeirri skipan sem nú er viðhöfð. Ein er a.m.k. sú viðbára sem ekki verður vikist undan að ræða. Væntanlega telur einhver að á Kirkjuþingi hljóti vígðir þjónar, biskupar, prestar og djáknar, að þurfa að hafa sérstöðu og ótvírætt vægi, m.a. til að standa vörð um að viðfangsefni þingsins verði til lykta leidd á grundvelli réttrar kenningar. Til þess séu kjördeildirnar tvær að tryggja að svo verði.

Við þessu er margt að segja. Vissulega er svo að mörg mál á kirkjuþingi hafa guðfræðilegar og/eða kirkjulegar hliðar sem þurfa að koma til álita. Hitt er raunar sára sjaldgæft að þar sé fjallað um mál sem flokka má sem kenningarleg eða mál sem beinlínis lúta að boðun og helgihaldi. Hvernig svo sem slík mál eru vaxin er þó ljóst að umræður á kirkjuþingi eru á engan hátt til þess fallnar að leiða þau til lykta fyrr en á lokastigi þegar þau ættu að koma fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Áður en til þess kæmi þyrfti að fjalla efnislega um þau á öðrum vettvangi og þá á vegum biskupsembættisins með aðkomu kenningarnefndar og prestastefnu. Vel færi líka á að þau lægju frammi í samráðsgátt til kynningar og umsagnar. Líklega er ekki vanþörf á að kveða skýrar á um en nú er gert hvernig búa skuli slík mál í hendur þingsins.

Lokaorð

Hér skal fallist á að almennar kosningar til kirkjuþings séu æskilegt framtíðarmarkmið fyrir þjóðkirkjuna. Að mörgu er þó að hyggja áður en því verði náð og hefur hér verið bent á sumt. Kirkjuþing getur stigið ýmis skref í átt að auknu lýðræði þó hið fullkomna lýðræði — sé það á annað borð til — virðist enn nokkuð fjarlægt. Mikilvægt er í því sambandi að  stuðla að því að kjör til þingsins geti í auknum mæli snúist um málefni fremur en persónur eins og nú er raunin. Þróun í þá átt gæti flýtt því að þjóðkirkjan væri í stakk búin til að opna kjör til þingsins og stórfjölga kjörmönnum.

Neðanmálsgreinar:

[1] Starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 8/2021 (3. og 4. gr.), kirkjan.is, sótt 24. september 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20kj%c3%b6r%20til%20kirkju%c3%beings%20-%20Copy%20(1).pdf.

[2] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021 (4.gr.), althingi.is, sótt 24. september 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[3] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021, althingi.is, sótt 24. September 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[4] Starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 8/2021 (1. gr.), kirkjan.is, sótt 24. september 2022 af https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20kj%c3%b6r%20til%20kirkju%c3%beings%20-%20Copy%20(1).pdf.

[5] Lög um þjóðkirkjuna nr, 77/2021 (2.gr.), althingi.is, sótt 24. September 2022 af https://www.althingi.is/lagas/152c/2021077.html.

[6] Kosningalög nr. 112/2021 (3. gr.), althingi.is, sótt 24. september 2022 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021112.html.

[7] Niðurstöður kosninga (vígðir), kirkjan.is, sótt 5. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[8] Niðurstöður kosninga (leikmenn), kirkjan,is, sótt 25. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[9] Niðurstöður kosninga, kirkjan,is, sótt 25. september 2022 af https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuthing/nidurstodur-kosninga-/.

[10] Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunum 1998–2022 (2022, þjóðkirkjan, 18 ára og eldri), hagstofa.is, sótt 25. september 2022 af https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px/table/tableViewLayout1/?rxid=8ca11e96-13e9-4539-8c8e-36b2550aa3eb

[11] Í þessu sambandi má benda á reynslu úr kosningum til stjórnlagaþings sem raunar voru ógiltar.

[12] Nú tilheyra 60.9 % þjóðarinnar þjóðkirkjunni. Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998–2022 (2022, þjóðkirkjan, hlutfall), hagstofa.is. sótt 25. september 2022 af https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__menning__5_trufelog__trufelog/MAN10001.px/table/tableViewLayout1/?rxid=1dedfe10-d9f6-4ead-8a2a-b78c0ef0da00.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir