Þeir Hjalti og Stefán hafa látið kirkjumál til sín taka svo áratugum skiptir. Þekking þeirra á málefnum kirkjunnar er víðtæk og þegar þeir kveða sér hljóðs er hlustað. Í þessari grein spyrja þeir meðal annars ýmissa áleitinna spurninga sem vakna þegar biskupskjör er á næsta leiti:
Nú hefur verið ákveðið að margumrætt biskupskjör fari fram í fyrri hluta marsmánaðar á næsta ári. Þegar er tekið að nefna nöfn og einhver eru jafnvel byrjuð að máta skrúðann þótt ekki sé nema í huganum. Önnur hafa skorast eindregið undan. Það eru hin réttu viðbrögð eins og ráða má af fordæmum heilags Marteins og Guðmundar góða.
Áður en lengra er haldið og frambjóðendahópurinn fer að þrengjast er freistandi að brydda upp á umræðu um biskupsembættið og kosningafyrirkomulagið sem slíkt. Hér á eftir verður fjallað um embættið sjálft en kosningarnar í síðara pistli. Samtal um það kynni að hjálpa einhverjum kjörmönnum að gera upp hug sinn.
Ekki eru gerðar ríkari kröfur til biskupa hér á landi en til presta almennt en í starfsreglum um biskupskjör segir: „Kjörgengur til embættis biskups Íslands og vígslubiskupa er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.“ Ljóst er að við biskupskosningar þarf að ganga út frá fjölþættari viðmiðum en lesa má út úr þessum formkröfum. Af biskupi verður t.d. að krefjast sérstaks frumkvæðis, sjálfstæðis og forystuhæfileika. Þá þurfa kjörmenn við biskupskjör að vega og meta út frá hvaða sérstöku kröfum væri rétt að ganga með tilliti til aðstæðna í kirkjunni og samfélaginu hér og nú. Útgangspunkturinn við biskupskosningar ætti að vera: Hvernig biskup ætlum við að kjósa? Í framhaldinu má svo móta fleiri spurningar sem mikilvægt er að verðandi frambjóðendur svari.
Viljum við einræðisbiskup?
Biskups-titillinn er eitt elsta starfsheiti í heimi sem enn er notað og biskupsstaðan er langelsta embættið hér á landi. Það var einmitt notað sem rök gegn því að leggja embættið niður en frumvörp þess efnis voru lögð fram á Alþingi seint á 19. öld. Staða og hlutverk biskupa hafa þó breyst í tímans rás. Þegar á 2. öld hafði embættið fest sig svo í sessi að litið hefur verið svo á í seinni tíð að fram væru komnir einræðisbiskupar („mónarkískir“ biskupar) sem farið hafi með óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar. Gagnrýni Lúthers á 16. öld beindist m.a. að þessu fyrirkomulagi. Hann vildi draga úr stigveldi kirkjunnar og lækka risið á biskupsembættinu. Biskupar áttu ekki að hafa sömu stöðu og aðalsmenn eins og verið hafði heldur einungis njóta tekna sem skipuðu þeim í fremstu röð presta. Völd þeirra áttu líka að minnka og hlutverk þeirra einkum vera að halda uppi kirkjulegri tilsjón. Jafnvel átti að leggja biskups-titilinn niður en tala í staðinn um „yfirtilsjónarmenn“ og undirstrika þar með breytinguna.
Líklega hefur siðbótarmaðurinn þó ekki mótað nægilega skýra guðfræði hvað hið lútherska biskupsembætti áhrærir né slíkur skilningur náð að þróast síðar innan þeirrar kirkju sem kennd er við hann. Í það minnsta er margt óljóst hvað greini biskup frá öðrum prestum og hvort biskupsvígsla bæti einhverju við venjulega prestsvígslu. Þetta hefur valdið því að stefna Lúthers hefur ekki alls staðar náð fram að ganga. Má t.d. líta svo á að biskupar hér á landi hafi allt til þessa lagt sig fram um að halda í svipmót einræðisbiskupanna. Þar er þó líklega ekki um hreina valdafíkn að ræða heldur stafar þetta trúlega af því að hingað til hafa prestar um of verið einyrkjar í störfum sínum og eru því ekki vanir að gæta nægilegs samráðs og samvinnu við aðra. Í seinni tíð hefur þetta oft leitt til togstreitu milli biskups hverju sinni og t.d. kirkjuþings.
Það er í verkahring kirkjuþings að móta meginlínur um hlutverk biskups en í 10. gr. gildandi þjóðkirkjulaga (nr. 77/2021) segir: „Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.“ Af 7. gr. laganna má svo ráða hvaða þætti yfirstjórnarinnar þinginu er heimilt að framselja til biskups en þar kveðið á um hvað þinginu ber sjálfu að á ábyrgjast: „Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.“ Vegna þessa ákvæðis hefur þingið nýlega komið á nýrri verkaskiptingu og skipuriti fyrir yfirstjórn þjóðkirkjunnar. Þar er rekstrar- og fjármálstjórn greind frá embætti biskup. Á alveg næstu misserum þarf þingið svo að setja nánari starfsreglur um hlutverk biskups á sviði kirkjustjórnar.
Í komandi kosningum væri ráð að spyrja hvernig frambjóðendur líti á stöðu og hlutverk embættisins og hvernig þau ætli að taka þátt í að móta það í samvinnu við kirkjuþing. Líta frambjóðendur t.d. svo á að embættið „rýrni á þeirra vakt“ ef áfram verður haldið í að setja hlutverki og/eða völdum biskups ný ytri mörk? Í því felst þó ekki annað en að fyrrgreindum hugmyndum Lúthers yrði hrundið í framkvæmd í ríkari mæli en gert hefur verið til þessa. — Í aðdraganda kosninganna verður því að grafast fyrir um hvort og þá hvaða kirkjulegu og kirkjupólitísku sýn frambjóðendur hafa og hvernig hvert og eitt þeirra hyggst setja hana fram og vinna að framgangi hennar. Auk þess þarf að huga að hvort sjónarmið þeirra samræmast grundvallarreglum jafnræðis og lýðræðis sem þjóðkirkjunni er ætlað að hafa í heiðri í starfsháttum sínum samkvæmt 4. gr. þjóðkirkjulaganna.
Leitum við að andlegum leiðtoga?
Oft var litið svo á að biskup væri andlegur leiðtogi þjóðarinnar og mörg okkar líta ugglaust enn svo á að biskup sé andlegur leiðtogi þjóðkirkjunnar. Hér er þó líklega of mikið sagt. Andlegir leiðtogar koma ekki endilega fram við kosningar til ákveðins embættis heldur öðlast einstaklingar það hlutverk með mun óræðari hætti. Veltur þar mikið á persónulegum eiginleikum þeirra og trúverðugleika. Meðan undirbúningur Kárahnjúkavirkjunar stóð sem hæst varð Ómar Ragnarsson t.a.m. andlegur leiðtogi þó nokkurs hluta þjóðarinnar og það svo mjög að afmælisdagur hans kallast nú dagur íslenskrar náttúru.
Líklega er það þó svo að biskupsstarfið skapar einstaklingum einstakt tækifæri til að ávinna sér stöðu andlegs leiðtoga. Þjóðkirkjulögin skapa biskupi t.d. góðar forsendur í því sambandi en í 10. gr. þeirra segir: „Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.“ Hér er vikið að því sem kallað er tilsjón biskups í kirkjunni. Hana má framkvæma á ýmsa vegu. Þar sem einræðisbiskupar starfa felur hún í sér margs konar konar völd og jafnvel ógnanir. Tilsjónina má þó líka nota til andlegrar forystu og jafnvel þjónandi forystu.
Fróðlegt væri í þessu sambandi að spyrja hvernig skilja frambjóðendurnir tilsjónarhlutverk biskups og hvernig hyggjast þau rækja það?
Það er þjóðkirkjunni óneitanlega mikilvægt að eiga sér leiðtoga og auðvitað yrði það henni mikil lyftistöng ef biskupinn gæti jafnvel orðið leiðtogi fólks sem ekkert endilega tilheyrir kirkjunni. Við biskupskosningar er því mikilvægt að spyrja hvaða persónueiginleikum einstaklingar þurfi að vera búnir til að geta nýtt tækifærið sem þeim gefst til þessa. — Þau sem atkvæðisrétt hafa hljóta því að spyrja:
Hverju úr hópi frambjóðenda treysti ég best til þess að nýta sér biskupsembættið til að verða andlegur leiðtogi?
Biskup Íslands?
Sú var tíðin að almennt var rætt um biskupinn yfir Íslandi. Það er ábúðarmikill titill og hæfir vel einræðisbiskupi. Af gildandi þjóðkirkjulögum að dæma er formlegur titill biskups nú biskup Íslands. Spyrja má hvort það sé réttnefni.
Biskupinn er ekki biskup allrar þjóðarinnar heldur aðeins þeirra sem eru í þjóðkirkjunni eða samsama sig a.m.k. með henni. Þá er biskup ekki lengur opinber embættismaður heldur starfsmaður þjóðkirkjunnar sem auk þess er valinn til ákveðins tíma. Svo er líka annar biskup starfandi í landinu, þ.e. biskup kaþólskra. Því má spyrja hvort ekki sé rétt að tala einfaldlega um biskup íslensku þjóðkirkjunnar.
Í það minnsta ber að hafa í huga að nú á dögum er ekki verið að velja háembættismann — því síður silkihúfu sem fer vel innan um aðrar slíkar heldur forystumann í innri málefnum þjóðkirkjunnar og fulltrúa hennar út á við. Hverjum úr röðum frambjóðenda treysta kjörmenn best til að rækja það hlutverk? Þá mætti spyrja frambjóðendur um hvernig þeir hyggist laga embættið að þessari nýju stöðu biskup bæði gagnvart ríki og kirkju.
Að lokum
Mikilvægt er að ekki verði gengið til komandi biskupskosninga líkt og af gömlum vana heldur spurt gagnrýninna spurninga. Kirkja á að vænta sér mikils af biskupi sínum og gera til hans/hennar ríkar kröfur.
Á síðari tímum hefur verið lítil eftirspurn eftir einræðisherrum þótt þeir séu vissulega víða í sókn einmitt núna. Vonandi erum við þó ekki á höttunum eftir einræðisbiskupi. Þurfum við þvert á móti ekki samvinnubiskup? — Biskup sem er reiðubúinn til að rækja hlutverk sitt í samhljómi, samráði og samvinnu við kirkjuna og þá ekki síst kirkjuþing. — Biskup er ekki safnar um sig hirð sem klappar fyrir öllum hans/hennar orðum og gjörðum heldur getur starfað með fólki sem hefur ólíkar og jafnvel andstæðar skoðanir.
Nú á tímum þarf kirkjan heldur ekki endilega á sterkum andlegum leiðtoga að halda sem setur sitt persónulega svipmót á kirkjuna. Líklega ríður mest á að komandi biskupskosningar færi okkur biskup með djúpa guðfræðilega sýn og ríkan skilning á stöðu þjóðkirkjunnar í samtímanum; biskup sem er fær um að túlka og tjá hvað felist í því að vera biðjandi, boðandi og þjónandi evengelísk-lúthersk þjóðkirkja á 21. öld. Þannig verður biskup hirðir hjarðar sinnar, kirkjunnar, en þannig hefur löngum verið litið á biskupa.
Þeir Hjalti og Stefán hafa látið kirkjumál til sín taka svo áratugum skiptir. Þekking þeirra á málefnum kirkjunnar er víðtæk og þegar þeir kveða sér hljóðs er hlustað. Í þessari grein spyrja þeir meðal annars ýmissa áleitinna spurninga sem vakna þegar biskupskjör er á næsta leiti:
Nú hefur verið ákveðið að margumrætt biskupskjör fari fram í fyrri hluta marsmánaðar á næsta ári. Þegar er tekið að nefna nöfn og einhver eru jafnvel byrjuð að máta skrúðann þótt ekki sé nema í huganum. Önnur hafa skorast eindregið undan. Það eru hin réttu viðbrögð eins og ráða má af fordæmum heilags Marteins og Guðmundar góða.
Áður en lengra er haldið og frambjóðendahópurinn fer að þrengjast er freistandi að brydda upp á umræðu um biskupsembættið og kosningafyrirkomulagið sem slíkt. Hér á eftir verður fjallað um embættið sjálft en kosningarnar í síðara pistli. Samtal um það kynni að hjálpa einhverjum kjörmönnum að gera upp hug sinn.
Ekki eru gerðar ríkari kröfur til biskupa hér á landi en til presta almennt en í starfsreglum um biskupskjör segir: „Kjörgengur til embættis biskups Íslands og vígslubiskupa er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.“ Ljóst er að við biskupskosningar þarf að ganga út frá fjölþættari viðmiðum en lesa má út úr þessum formkröfum. Af biskupi verður t.d. að krefjast sérstaks frumkvæðis, sjálfstæðis og forystuhæfileika. Þá þurfa kjörmenn við biskupskjör að vega og meta út frá hvaða sérstöku kröfum væri rétt að ganga með tilliti til aðstæðna í kirkjunni og samfélaginu hér og nú. Útgangspunkturinn við biskupskosningar ætti að vera: Hvernig biskup ætlum við að kjósa? Í framhaldinu má svo móta fleiri spurningar sem mikilvægt er að verðandi frambjóðendur svari.
Viljum við einræðisbiskup?
Biskups-titillinn er eitt elsta starfsheiti í heimi sem enn er notað og biskupsstaðan er langelsta embættið hér á landi. Það var einmitt notað sem rök gegn því að leggja embættið niður en frumvörp þess efnis voru lögð fram á Alþingi seint á 19. öld. Staða og hlutverk biskupa hafa þó breyst í tímans rás. Þegar á 2. öld hafði embættið fest sig svo í sessi að litið hefur verið svo á í seinni tíð að fram væru komnir einræðisbiskupar („mónarkískir“ biskupar) sem farið hafi með óskorað vald á öllum sviðum kirkjustjórnar. Gagnrýni Lúthers á 16. öld beindist m.a. að þessu fyrirkomulagi. Hann vildi draga úr stigveldi kirkjunnar og lækka risið á biskupsembættinu. Biskupar áttu ekki að hafa sömu stöðu og aðalsmenn eins og verið hafði heldur einungis njóta tekna sem skipuðu þeim í fremstu röð presta. Völd þeirra áttu líka að minnka og hlutverk þeirra einkum vera að halda uppi kirkjulegri tilsjón. Jafnvel átti að leggja biskups-titilinn niður en tala í staðinn um „yfirtilsjónarmenn“ og undirstrika þar með breytinguna.
Líklega hefur siðbótarmaðurinn þó ekki mótað nægilega skýra guðfræði hvað hið lútherska biskupsembætti áhrærir né slíkur skilningur náð að þróast síðar innan þeirrar kirkju sem kennd er við hann. Í það minnsta er margt óljóst hvað greini biskup frá öðrum prestum og hvort biskupsvígsla bæti einhverju við venjulega prestsvígslu. Þetta hefur valdið því að stefna Lúthers hefur ekki alls staðar náð fram að ganga. Má t.d. líta svo á að biskupar hér á landi hafi allt til þessa lagt sig fram um að halda í svipmót einræðisbiskupanna. Þar er þó líklega ekki um hreina valdafíkn að ræða heldur stafar þetta trúlega af því að hingað til hafa prestar um of verið einyrkjar í störfum sínum og eru því ekki vanir að gæta nægilegs samráðs og samvinnu við aðra. Í seinni tíð hefur þetta oft leitt til togstreitu milli biskups hverju sinni og t.d. kirkjuþings.
Það er í verkahring kirkjuþings að móta meginlínur um hlutverk biskups en í 10. gr. gildandi þjóðkirkjulaga (nr. 77/2021) segir: „Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.“ Af 7. gr. laganna má svo ráða hvaða þætti yfirstjórnarinnar þinginu er heimilt að framselja til biskups en þar kveðið á um hvað þinginu ber sjálfu að á ábyrgjast: „Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.“ Vegna þessa ákvæðis hefur þingið nýlega komið á nýrri verkaskiptingu og skipuriti fyrir yfirstjórn þjóðkirkjunnar. Þar er rekstrar- og fjármálstjórn greind frá embætti biskup. Á alveg næstu misserum þarf þingið svo að setja nánari starfsreglur um hlutverk biskups á sviði kirkjustjórnar.
Í komandi kosningum væri ráð að spyrja hvernig frambjóðendur líti á stöðu og hlutverk embættisins og hvernig þau ætli að taka þátt í að móta það í samvinnu við kirkjuþing. Líta frambjóðendur t.d. svo á að embættið „rýrni á þeirra vakt“ ef áfram verður haldið í að setja hlutverki og/eða völdum biskups ný ytri mörk? Í því felst þó ekki annað en að fyrrgreindum hugmyndum Lúthers yrði hrundið í framkvæmd í ríkari mæli en gert hefur verið til þessa. — Í aðdraganda kosninganna verður því að grafast fyrir um hvort og þá hvaða kirkjulegu og kirkjupólitísku sýn frambjóðendur hafa og hvernig hvert og eitt þeirra hyggst setja hana fram og vinna að framgangi hennar. Auk þess þarf að huga að hvort sjónarmið þeirra samræmast grundvallarreglum jafnræðis og lýðræðis sem þjóðkirkjunni er ætlað að hafa í heiðri í starfsháttum sínum samkvæmt 4. gr. þjóðkirkjulaganna.
Leitum við að andlegum leiðtoga?
Oft var litið svo á að biskup væri andlegur leiðtogi þjóðarinnar og mörg okkar líta ugglaust enn svo á að biskup sé andlegur leiðtogi þjóðkirkjunnar. Hér er þó líklega of mikið sagt. Andlegir leiðtogar koma ekki endilega fram við kosningar til ákveðins embættis heldur öðlast einstaklingar það hlutverk með mun óræðari hætti. Veltur þar mikið á persónulegum eiginleikum þeirra og trúverðugleika. Meðan undirbúningur Kárahnjúkavirkjunar stóð sem hæst varð Ómar Ragnarsson t.a.m. andlegur leiðtogi þó nokkurs hluta þjóðarinnar og það svo mjög að afmælisdagur hans kallast nú dagur íslenskrar náttúru.
Líklega er það þó svo að biskupsstarfið skapar einstaklingum einstakt tækifæri til að ávinna sér stöðu andlegs leiðtoga. Þjóðkirkjulögin skapa biskupi t.d. góðar forsendur í því sambandi en í 10. gr. þeirra segir: „Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.“ Hér er vikið að því sem kallað er tilsjón biskups í kirkjunni. Hana má framkvæma á ýmsa vegu. Þar sem einræðisbiskupar starfa felur hún í sér margs konar konar völd og jafnvel ógnanir. Tilsjónina má þó líka nota til andlegrar forystu og jafnvel þjónandi forystu.
Fróðlegt væri í þessu sambandi að spyrja hvernig skilja frambjóðendurnir tilsjónarhlutverk biskups og hvernig hyggjast þau rækja það?
Það er þjóðkirkjunni óneitanlega mikilvægt að eiga sér leiðtoga og auðvitað yrði það henni mikil lyftistöng ef biskupinn gæti jafnvel orðið leiðtogi fólks sem ekkert endilega tilheyrir kirkjunni. Við biskupskosningar er því mikilvægt að spyrja hvaða persónueiginleikum einstaklingar þurfi að vera búnir til að geta nýtt tækifærið sem þeim gefst til þessa. — Þau sem atkvæðisrétt hafa hljóta því að spyrja:
Hverju úr hópi frambjóðenda treysti ég best til þess að nýta sér biskupsembættið til að verða andlegur leiðtogi?
Biskup Íslands?
Sú var tíðin að almennt var rætt um biskupinn yfir Íslandi. Það er ábúðarmikill titill og hæfir vel einræðisbiskupi. Af gildandi þjóðkirkjulögum að dæma er formlegur titill biskups nú biskup Íslands. Spyrja má hvort það sé réttnefni.
Biskupinn er ekki biskup allrar þjóðarinnar heldur aðeins þeirra sem eru í þjóðkirkjunni eða samsama sig a.m.k. með henni. Þá er biskup ekki lengur opinber embættismaður heldur starfsmaður þjóðkirkjunnar sem auk þess er valinn til ákveðins tíma. Svo er líka annar biskup starfandi í landinu, þ.e. biskup kaþólskra. Því má spyrja hvort ekki sé rétt að tala einfaldlega um biskup íslensku þjóðkirkjunnar.
Í það minnsta ber að hafa í huga að nú á dögum er ekki verið að velja háembættismann — því síður silkihúfu sem fer vel innan um aðrar slíkar heldur forystumann í innri málefnum þjóðkirkjunnar og fulltrúa hennar út á við. Hverjum úr röðum frambjóðenda treysta kjörmenn best til að rækja það hlutverk? Þá mætti spyrja frambjóðendur um hvernig þeir hyggist laga embættið að þessari nýju stöðu biskup bæði gagnvart ríki og kirkju.
Að lokum
Mikilvægt er að ekki verði gengið til komandi biskupskosninga líkt og af gömlum vana heldur spurt gagnrýninna spurninga. Kirkja á að vænta sér mikils af biskupi sínum og gera til hans/hennar ríkar kröfur.
Á síðari tímum hefur verið lítil eftirspurn eftir einræðisherrum þótt þeir séu vissulega víða í sókn einmitt núna. Vonandi erum við þó ekki á höttunum eftir einræðisbiskupi. Þurfum við þvert á móti ekki samvinnubiskup? — Biskup sem er reiðubúinn til að rækja hlutverk sitt í samhljómi, samráði og samvinnu við kirkjuna og þá ekki síst kirkjuþing. — Biskup er ekki safnar um sig hirð sem klappar fyrir öllum hans/hennar orðum og gjörðum heldur getur starfað með fólki sem hefur ólíkar og jafnvel andstæðar skoðanir.
Nú á tímum þarf kirkjan heldur ekki endilega á sterkum andlegum leiðtoga að halda sem setur sitt persónulega svipmót á kirkjuna. Líklega ríður mest á að komandi biskupskosningar færi okkur biskup með djúpa guðfræðilega sýn og ríkan skilning á stöðu þjóðkirkjunnar í samtímanum; biskup sem er fær um að túlka og tjá hvað felist í því að vera biðjandi, boðandi og þjónandi evengelísk-lúthersk þjóðkirkja á 21. öld. Þannig verður biskup hirðir hjarðar sinnar, kirkjunnar, en þannig hefur löngum verið litið á biskupa.