Dr. Hjalti Hugason er prófessor emeritus og hefur áður skrifað í Gestaglugga Kirkjublaðsins. is en sá gluggi stendur öllum opinn
Björn Bjarnason fyrrum ráðherra birti áhugaverða grein í Morgunblaðinu laugardaginn í kyrruviku undir fyrirsögninni Varðstaðan um þjóðkirkjuna. Þar bryddaði hann upp á ýmsum áhugaverðum dæmum um farsæla samfylgd þjóðar og kirkju hér á landi sem spanna tímann allt frá því snemma á miðöldum til samtímans. Í greininni kemur fram góður hugur í garð þjóðkirkjunnar sem ekki kemur á óvart þegar Björn á í hlut. Dæmin sem Björn velur hafa líka annan kost en að sýna hlýhug. Þau vekja til umhugsunar um þróun íslensks samfélags og menningar, mótunarhlutverk kirkjunnar í þeirri þróun og um stöðu hennar í samtímanum. — Skal hvort tveggja þakkað: varðstaðan um kirkjuna og pælingarnar sem greinin vekur.
Kirkja og skóli
Eitt af umræðuefnunum sem fram komu í greininni lýtur að heimsóknum skólabarna í kirkjur landsins í aðdraganda stórhátíða. Þetta hefur verið þrálátt deiluefni í aðdraganda jóla og jafnvel páska og sýnist sitt hverjum. Það er rétt sem gengið er út frá í greininni að kirkja og alþýðufræðsla voru lengi samofin fyrirbæri hér á landi og það í raun svo mjög að fræðslan var einfaldlega illgreinanleg frá öðrum hlutverkum kirkjunnar. Á tímabilinu 1880–1926 varð hins vegar grundvallarbreyting í þessu efni. Alþýðufræðslan var bæði stofnunar- og inntakslega færð úr höndum kirkjunnar til skólakerfisins sem nú kom fyrst fram sem sjálfstætt fyrirbæri hér á landi. Eftir það urðu samskipti kirkju og skóla ekki eins einföld og sjálfsögð og áður var. Umfram allt var umboð og hlutverk skólans á vettvangi trúariðkunar og trúfræðslu skert. Nú er trúarleg mótun og trúarleg fræðsla barna sameiginlegt hlutverk heimila og kirkju þegar skírð börn eiga í hlut. Skólanum er á hinn bóginn ekki ætlað hlutverk á því sviði samkvæmt þeirri stefnu sem mótuð var á fyrrgreindu tímabili. Þess vegna eru kirkjuheimsóknir skólabarna í fylgd kennara sinna í tilefni af hátíðum kirkjuársins ekki eins sjálfsagðar og ella væri.
Veraldarvæðing alþýðufræðslunnar á sínum tíma skapaði vissulega tómarúm í trúaruppeldinu. Einmitt á því tímabili sem um ræðir var heimilisgerðin hér á landi að taka örum breytingum. Hefðbundin hlutverk heimilanna voru að færast annað þar á meðal fræðsluhlutverkið sem skólarnir tóku yfir þegar trúfræðslan er undan skilin. Heimilin urðu sífellt verr í stakk búin til að annast trúaruppeldið og þjóðkirkjan virðist því miður að mestu vera að missa á því tökin. Umræðan um kirkjuheimsóknirnar í aðdraganda stórhátíða á því fullan rétt á sér. Lausnin felst þó ekki í að kalla skólann til ábyrgðar og viðhalda heimsóknunum. Þjóðkirkjan verður þvert á móti að stórauka fjölskyldu-, barna og unglingastarf sitt og standa sig í stykkinu við að uppfræða þau börn sem hún hefur tekið að sér í skírninni.
Kirkjan og tungan
Annað áhugavert viðfangsefni sem Björn vakti máls á er þáttur kirkjunnar í varðveislu íslenskrar tungu og þar með menningar en í grein sinni ritaði hann: „Íslensk tunga hefði aldrei lifað nema vegna kristni og kirkju.“ Hér skal hlutur kirkjunnar í þessu efni síst talaður niður en hætt er við að samband kristni, kirkju og tungu sé flóknara en Björn ætlar. Trúarbragðaskipti og uppbygging kirkju hér var átak sem var leitt af höfðingjastétt landsins eins og kemur ekki síst fram í setningu tíundarlaga í lok 11. aldar. Þau lögðu grunn að sjálfstæðum rekstri kirkjunnar og stofnunarþróun hennar að öðru leyti. Á fyrstu öldum kristni starfaði hér höfðingjakirkja sem fóstraði sérstakt afbrigði kirkjulegrar-veraldlegrar menningar sem til að mynda lagði grunn að sögu- og sagnaritun á íslensku. Án þeirrar ritmálshefðar sem þannig varð til hefði íslenskan aldrei geta orðið lífvænlegt kirkjumál. Hér er því um gagnvirkt samband að ræða og því er ekki auðsvarað hvort vóg þyngra hið veraldlega eða kirkjulega frumkvæði í eflingu og varðveislu íslenskunnar. Í því efni nægir enda að slá því föstu að um samvirkni var að ræða.
Ríki og kirkja
Þá er loks komið að þriðja umhugsunarefninu sem grein Björns vakti — að minnsta kosti hjá þessum lesanda hans. Þar er um núverandi rekstrarfyrirkomulag þjóðkirkjunnar að ræða og þann lofsverða vilja stjórnmálamanna að tryggja það eins og meðal annars kemur fram í kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og 2019.
Mergurinn málsins hér er að í upphafi 20. aldar hlutuðust þáverandi stjórnvöld til um afdrifaríka breytingu á rekstrarfyrirkomulagi þjóðkirkjunnar en fram að því höfðu svokallaðar kirkjujarðir staðið undir rekstrinum. Þessar jarðir voru vissulega ekki í eigu þjóðkirkjunnar sem slíkrar heldur einstakra kirkjulegra sjálfseignarstofnana — í flestum tilvikum sókna eða sóknarkirkna. Um aldamótin 1900 var hagkerfi landbúnaðarins komið að fótum fram. Afrakstur kirkjujarðanna stóð ekki lengur undir prestslaununum eins og verði hafði um aldir. Um leið krafðist nútímavæðing í landbúnaði þess að kirkjujarðirnar kæmust í sem mestum mæli í hendur sjálfseignarbænda sem hafið gætu ræktun og uppbyggingu af krafti. Ríkið undirgekkst því þá skyldu að ábyrgjast prestslaunin gegn því að það tæki yfir forræði yfir kirkjujörðunum sem skyldu einkavæddar í stórum stíl.
Frá bæjardyrum þeirra sem að þessari aðgerð stóðu hefur hún ugglaust litið út sem mikil Salómonsdómur. Með henni var helsti vandi stærstu ríkisstofnunarinnar, þáverandi þjóðkirkju, og undirstöðuatvinnuvegarins, landbúnaðarins, leystur með einni einfaldri og tiltölulega ódýrri lausn. Af sjónarhóli nútímans var aftur á móti stofnað til eins flóknasta vandans í samskiptum ríkis og kirkju en það eru einmitt fjárhagstengsl þeirra. Með kirkjujarðasamkomulaginu var einmitt reynt að einfalda þau tengsl og gera þau gagnsærri fyrir alla aðila. Óvíst er aftur á móti hversu lengi samfélagslegur vilji standi til að viðhalda því fyrirkomulagi sem samkomulagið lagði grunn að og hvað taki þá við.
Þjóðkirkjufyrirkomulagið of dýru verði keypt?
Þar með er komið að spurningunni sem varpað var fram í upphafi þessa greinarkorns: hvað kostar eitt stykki þjóðkirkja? Eitt hugsanlegt svar væri að kostnaðinn megi lesa út úr kirkjujarðasamkomulaginu og þá í beinhörðum peningum. Grein Björns Bjarnasonar vekur þó þá áleitnu spurningu að kostnaðurinn kunni að vera miklu meiri og óræðari og þá ekki fyrir ríkið heldur kirkjuna.
Í lok greinar sinnar kom Björn að því sem hugsanlega hefur verið eitt helsta tilefni hennar en þar vék hann að Bakþanka-pistli Péturs Georgs Markan biskupsritara sem birst hafði í Fréttablaðinu fáum dögum fyrr. Efni hans lýsti Björn svo að þar hefði komið fram óhróður og árás á fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins og raunar einnig samstarfsflokka hans í ríkisstjórn en Bakþankarnir fjölluð um sölu Íslandsbanka.
Hér skal enginn dómur lagður á það hvort í pistlinum hafi birst óhróður og árásir nú eða hugsanlega réttmæt gagnrýni í áköfu deilumáli í íslensku samfélagi. Á hinn bóginn skal athygli vakin á mati Björns á pistlinum en í grein hans segir:
Ráðamaður þjóðkirkjunnar byrjar nýjan kafla í kirkjusögunni, blandar sér beint í flokkspólitískar deilur […] Þungi þessara kaflaskipta verður meiri þegar dymbilvikan, helgasti tími kirkjuársins í augum margra, er valin til að kynna stefnubreytinguna. Niðurlægingin [líklega þjóðkirkjunnar sbr. upphaf greinarinnar] birtist í ýmsum myndum.
Hér álítur undirritaður fulldjúpt tekið í árina. Það má benda á fjölmörg dæmi um að starfsfólk kirkjunnar hafi blandað sér í deilumál sem líta má á sem allt eins flokkspólitísk og bankasölumálið. Auðvitað gætir skiptra skoðana um hvort slíkt sé heppilegt eða ekki. Svo má líka lengi deila um hvað sé flokkspólitískt deilumál og hvað sé frekar umdeilanlegt samfélagsmál. Undirritaður álítur líka að það sé fráleitt að Bakþanka-pistill Péturs Markan í Fréttablaðinu marki einhverja stefnubreytingu. — Nema þá um einhverja persónulega stefnu hans sjálfs sé að ræða sem ég veit ekkert um og má í léttu rúmi liggja.
Svo mikið er víst að pistillinn boðar enga stefnubreytingu þjóðkirkjunnar. Biskupsritari hefur ekkert umboð til að marka kirkjunni stefnu eða kynna hana upp á sitt eindæmi. Slíkt umboð hefur aðeins kirkjuþing sem fer með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar og biskup þegar um kenningarleg málefni er að ræða. Stefna þjóðkirkjunnar yrði heldur aldrei kynnt í baksíðupistli fríblaðs á borð við Fréttablaðið og ekki í persónulegum skrifum en Bakþanka sína ritaði Pétur Markan í eigin nafni en ekki sem biskupsritari.
Raunar vekja lokaorð Björns Bjarnasonar í að öðru leyti ágætri grein ágenga og óþægilega tilfinningu fyrir því að hann og ef til vill fleira stjórnmálafólk líti svo á að tjáningarfrelsi þjóðkirkjunnar og jafnvel einstakra starfsmanna hennar sé á einhvern hátt skert í samfélagslegum deilumálum sem líta má á sem pólitísk — jafnvel flokkspólitísk — en þurfa alls ekki að vera það þegar dýpra er skyggnst. Mörg pólitísk mál hafa nefnilega mikilvægar siðfræðilegar hliðar og þá er fengur af sem flestum sjónarmiðum. Ef þessi grunur á við rök að styðjast vaknar spurning um hvort núverandi þjóðkirkjufyrirkomulag sé ekki of dýru verði keypt.
Til glöggvunar:
Björn Bjarnason: Varðstaðan um þjóðkirkjuna
Pétur Georg Markan: Leið drekans
Dr. Hjalti Hugason er prófessor emeritus og hefur áður skrifað í Gestaglugga Kirkjublaðsins. is en sá gluggi stendur öllum opinn
Björn Bjarnason fyrrum ráðherra birti áhugaverða grein í Morgunblaðinu laugardaginn í kyrruviku undir fyrirsögninni Varðstaðan um þjóðkirkjuna. Þar bryddaði hann upp á ýmsum áhugaverðum dæmum um farsæla samfylgd þjóðar og kirkju hér á landi sem spanna tímann allt frá því snemma á miðöldum til samtímans. Í greininni kemur fram góður hugur í garð þjóðkirkjunnar sem ekki kemur á óvart þegar Björn á í hlut. Dæmin sem Björn velur hafa líka annan kost en að sýna hlýhug. Þau vekja til umhugsunar um þróun íslensks samfélags og menningar, mótunarhlutverk kirkjunnar í þeirri þróun og um stöðu hennar í samtímanum. — Skal hvort tveggja þakkað: varðstaðan um kirkjuna og pælingarnar sem greinin vekur.
Kirkja og skóli
Eitt af umræðuefnunum sem fram komu í greininni lýtur að heimsóknum skólabarna í kirkjur landsins í aðdraganda stórhátíða. Þetta hefur verið þrálátt deiluefni í aðdraganda jóla og jafnvel páska og sýnist sitt hverjum. Það er rétt sem gengið er út frá í greininni að kirkja og alþýðufræðsla voru lengi samofin fyrirbæri hér á landi og það í raun svo mjög að fræðslan var einfaldlega illgreinanleg frá öðrum hlutverkum kirkjunnar. Á tímabilinu 1880–1926 varð hins vegar grundvallarbreyting í þessu efni. Alþýðufræðslan var bæði stofnunar- og inntakslega færð úr höndum kirkjunnar til skólakerfisins sem nú kom fyrst fram sem sjálfstætt fyrirbæri hér á landi. Eftir það urðu samskipti kirkju og skóla ekki eins einföld og sjálfsögð og áður var. Umfram allt var umboð og hlutverk skólans á vettvangi trúariðkunar og trúfræðslu skert. Nú er trúarleg mótun og trúarleg fræðsla barna sameiginlegt hlutverk heimila og kirkju þegar skírð börn eiga í hlut. Skólanum er á hinn bóginn ekki ætlað hlutverk á því sviði samkvæmt þeirri stefnu sem mótuð var á fyrrgreindu tímabili. Þess vegna eru kirkjuheimsóknir skólabarna í fylgd kennara sinna í tilefni af hátíðum kirkjuársins ekki eins sjálfsagðar og ella væri.
Veraldarvæðing alþýðufræðslunnar á sínum tíma skapaði vissulega tómarúm í trúaruppeldinu. Einmitt á því tímabili sem um ræðir var heimilisgerðin hér á landi að taka örum breytingum. Hefðbundin hlutverk heimilanna voru að færast annað þar á meðal fræðsluhlutverkið sem skólarnir tóku yfir þegar trúfræðslan er undan skilin. Heimilin urðu sífellt verr í stakk búin til að annast trúaruppeldið og þjóðkirkjan virðist því miður að mestu vera að missa á því tökin. Umræðan um kirkjuheimsóknirnar í aðdraganda stórhátíða á því fullan rétt á sér. Lausnin felst þó ekki í að kalla skólann til ábyrgðar og viðhalda heimsóknunum. Þjóðkirkjan verður þvert á móti að stórauka fjölskyldu-, barna og unglingastarf sitt og standa sig í stykkinu við að uppfræða þau börn sem hún hefur tekið að sér í skírninni.
Kirkjan og tungan
Annað áhugavert viðfangsefni sem Björn vakti máls á er þáttur kirkjunnar í varðveislu íslenskrar tungu og þar með menningar en í grein sinni ritaði hann: „Íslensk tunga hefði aldrei lifað nema vegna kristni og kirkju.“ Hér skal hlutur kirkjunnar í þessu efni síst talaður niður en hætt er við að samband kristni, kirkju og tungu sé flóknara en Björn ætlar. Trúarbragðaskipti og uppbygging kirkju hér var átak sem var leitt af höfðingjastétt landsins eins og kemur ekki síst fram í setningu tíundarlaga í lok 11. aldar. Þau lögðu grunn að sjálfstæðum rekstri kirkjunnar og stofnunarþróun hennar að öðru leyti. Á fyrstu öldum kristni starfaði hér höfðingjakirkja sem fóstraði sérstakt afbrigði kirkjulegrar-veraldlegrar menningar sem til að mynda lagði grunn að sögu- og sagnaritun á íslensku. Án þeirrar ritmálshefðar sem þannig varð til hefði íslenskan aldrei geta orðið lífvænlegt kirkjumál. Hér er því um gagnvirkt samband að ræða og því er ekki auðsvarað hvort vóg þyngra hið veraldlega eða kirkjulega frumkvæði í eflingu og varðveislu íslenskunnar. Í því efni nægir enda að slá því föstu að um samvirkni var að ræða.
Ríki og kirkja
Þá er loks komið að þriðja umhugsunarefninu sem grein Björns vakti — að minnsta kosti hjá þessum lesanda hans. Þar er um núverandi rekstrarfyrirkomulag þjóðkirkjunnar að ræða og þann lofsverða vilja stjórnmálamanna að tryggja það eins og meðal annars kemur fram í kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og 2019.
Mergurinn málsins hér er að í upphafi 20. aldar hlutuðust þáverandi stjórnvöld til um afdrifaríka breytingu á rekstrarfyrirkomulagi þjóðkirkjunnar en fram að því höfðu svokallaðar kirkjujarðir staðið undir rekstrinum. Þessar jarðir voru vissulega ekki í eigu þjóðkirkjunnar sem slíkrar heldur einstakra kirkjulegra sjálfseignarstofnana — í flestum tilvikum sókna eða sóknarkirkna. Um aldamótin 1900 var hagkerfi landbúnaðarins komið að fótum fram. Afrakstur kirkjujarðanna stóð ekki lengur undir prestslaununum eins og verði hafði um aldir. Um leið krafðist nútímavæðing í landbúnaði þess að kirkjujarðirnar kæmust í sem mestum mæli í hendur sjálfseignarbænda sem hafið gætu ræktun og uppbyggingu af krafti. Ríkið undirgekkst því þá skyldu að ábyrgjast prestslaunin gegn því að það tæki yfir forræði yfir kirkjujörðunum sem skyldu einkavæddar í stórum stíl.
Frá bæjardyrum þeirra sem að þessari aðgerð stóðu hefur hún ugglaust litið út sem mikil Salómonsdómur. Með henni var helsti vandi stærstu ríkisstofnunarinnar, þáverandi þjóðkirkju, og undirstöðuatvinnuvegarins, landbúnaðarins, leystur með einni einfaldri og tiltölulega ódýrri lausn. Af sjónarhóli nútímans var aftur á móti stofnað til eins flóknasta vandans í samskiptum ríkis og kirkju en það eru einmitt fjárhagstengsl þeirra. Með kirkjujarðasamkomulaginu var einmitt reynt að einfalda þau tengsl og gera þau gagnsærri fyrir alla aðila. Óvíst er aftur á móti hversu lengi samfélagslegur vilji standi til að viðhalda því fyrirkomulagi sem samkomulagið lagði grunn að og hvað taki þá við.
Þjóðkirkjufyrirkomulagið of dýru verði keypt?
Þar með er komið að spurningunni sem varpað var fram í upphafi þessa greinarkorns: hvað kostar eitt stykki þjóðkirkja? Eitt hugsanlegt svar væri að kostnaðinn megi lesa út úr kirkjujarðasamkomulaginu og þá í beinhörðum peningum. Grein Björns Bjarnasonar vekur þó þá áleitnu spurningu að kostnaðurinn kunni að vera miklu meiri og óræðari og þá ekki fyrir ríkið heldur kirkjuna.
Í lok greinar sinnar kom Björn að því sem hugsanlega hefur verið eitt helsta tilefni hennar en þar vék hann að Bakþanka-pistli Péturs Georgs Markan biskupsritara sem birst hafði í Fréttablaðinu fáum dögum fyrr. Efni hans lýsti Björn svo að þar hefði komið fram óhróður og árás á fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins og raunar einnig samstarfsflokka hans í ríkisstjórn en Bakþankarnir fjölluð um sölu Íslandsbanka.
Hér skal enginn dómur lagður á það hvort í pistlinum hafi birst óhróður og árásir nú eða hugsanlega réttmæt gagnrýni í áköfu deilumáli í íslensku samfélagi. Á hinn bóginn skal athygli vakin á mati Björns á pistlinum en í grein hans segir:
Ráðamaður þjóðkirkjunnar byrjar nýjan kafla í kirkjusögunni, blandar sér beint í flokkspólitískar deilur […] Þungi þessara kaflaskipta verður meiri þegar dymbilvikan, helgasti tími kirkjuársins í augum margra, er valin til að kynna stefnubreytinguna. Niðurlægingin [líklega þjóðkirkjunnar sbr. upphaf greinarinnar] birtist í ýmsum myndum.
Hér álítur undirritaður fulldjúpt tekið í árina. Það má benda á fjölmörg dæmi um að starfsfólk kirkjunnar hafi blandað sér í deilumál sem líta má á sem allt eins flokkspólitísk og bankasölumálið. Auðvitað gætir skiptra skoðana um hvort slíkt sé heppilegt eða ekki. Svo má líka lengi deila um hvað sé flokkspólitískt deilumál og hvað sé frekar umdeilanlegt samfélagsmál. Undirritaður álítur líka að það sé fráleitt að Bakþanka-pistill Péturs Markan í Fréttablaðinu marki einhverja stefnubreytingu. — Nema þá um einhverja persónulega stefnu hans sjálfs sé að ræða sem ég veit ekkert um og má í léttu rúmi liggja.
Svo mikið er víst að pistillinn boðar enga stefnubreytingu þjóðkirkjunnar. Biskupsritari hefur ekkert umboð til að marka kirkjunni stefnu eða kynna hana upp á sitt eindæmi. Slíkt umboð hefur aðeins kirkjuþing sem fer með æðstu stjórn þjóðkirkjunnar og biskup þegar um kenningarleg málefni er að ræða. Stefna þjóðkirkjunnar yrði heldur aldrei kynnt í baksíðupistli fríblaðs á borð við Fréttablaðið og ekki í persónulegum skrifum en Bakþanka sína ritaði Pétur Markan í eigin nafni en ekki sem biskupsritari.
Raunar vekja lokaorð Björns Bjarnasonar í að öðru leyti ágætri grein ágenga og óþægilega tilfinningu fyrir því að hann og ef til vill fleira stjórnmálafólk líti svo á að tjáningarfrelsi þjóðkirkjunnar og jafnvel einstakra starfsmanna hennar sé á einhvern hátt skert í samfélagslegum deilumálum sem líta má á sem pólitísk — jafnvel flokkspólitísk — en þurfa alls ekki að vera það þegar dýpra er skyggnst. Mörg pólitísk mál hafa nefnilega mikilvægar siðfræðilegar hliðar og þá er fengur af sem flestum sjónarmiðum. Ef þessi grunur á við rök að styðjast vaknar spurning um hvort núverandi þjóðkirkjufyrirkomulag sé ekki of dýru verði keypt.
Til glöggvunar:
Björn Bjarnason: Varðstaðan um þjóðkirkjuna
Pétur Georg Markan: Leið drekans