Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, sest Morten Fester Thaysen, dómprófastur í Ribe, Danmörku, og ræðir um mikilvægi þess að láta ekki ósigra buga sig heldur hefjast handa um eitthvað nýtt. Ritstj. Kirkjublaðsins.is snaraði textanum yfir á íslensku. Grein þessi birtist á kirke.dk 19. nóvember sl. og er birt með leyfi höfundar og ritstjórnar kirke.dk.
Þýski félagsfræðingurinn Andreas Reckwitz [1] hefur nýlega sent frá sér bók sem fjallar um ósigurinn sem eitt helsta vandamál nútímans. Áður var Evrópa á fljúgandi ferð en nú er hún meira og minna lituð af ósigrum. Menn horfa til liðins tíma og sjá að margt af því sem áður var hefur beðið ósigur. Það geta verið einhverjir þættir í menningunni sem hafa beðið lægri hlut eins og einsleit kristin kirkja svo dæmi sé tekið.
Ósigurinn birtist þjóðkirkjunni eins og hann sé meitlaður í stein þegar farið er að tala um fjölda félaga og hlutfall skírðra. Svo eru það margar gamlar kirkjur sem eru viðhaldsfrekar og sumir segja að við höfum ekki lengur efni á því að láta þær standa. Því meira sem við tölum um ósigrana því dapurlegri verða framtíðarhorfurnar. Það á reyndar ekki aðeins við um þjóðkirkjuna heldur og samfélagið allt.
Það gæti auðvitað verið lausn að snúa sér til einhvers sem er reiðubúinn að kasta til okkar bjarghring. Forsetar stíga fram sem væru þeir frelsarar. Pútín heyir stríð til að reisa við rússneskt stórveldi sem beið ósigur á sínum tíma. Trump vill að Ameríka verði aftur stórveldi. Við eigum líka stjórnmálamenn sem vilja gefa okkur landið sem einu sinni var og við þekktum svo dæmalaust vel. Landið með hvítum sveitakirkjum og kornökrum sem bylgjuðust í kringum þær. Tímann þegar kirkjuklukkur úr eðalmálmum ómuðu og fólk gerði knéfall og fór með bæn.
Það róa allir í sömu átt. Stjórnmálin snúast um það sem varð undir á sínum tíma. Sama fer fram á kirkjulegum vettvangi. Menn horfa aftur til hins liðna. Þeir slá skjaldborg um hugsanir sem voru eitt sinn ofarlega á baugi og vona að hægt sé að koma þeim aftur á flot með því að staglast á þeim og endurheimta það sem hefur glatast í ósigrum. Menn skrifa um Lúther [2], það eru gerðir sjónvarpsþættir um Grundtvig [3] og eftir nokkur ár verður þess minnst með pompi og prakt þegar Ansgar [4] kom til Danmerkur.
Hverjir eru þetta? Eru þetta hetjurnar sem björguðu okkur fyrir löngu og gætu komið okkur aftur til bjargar ef við bara endurtökum nógu oft það sem þær sögðu? Auðvitað má læra margt af þeim. Það sérstaka við allar þessar hetjur er að þær létu ekki það liðna skjóta upp kolli þegar þær horfðust í augu við ósigra sína heldur höfðu hugrekki til að kalla eitthvað nýtt fram á sjónarsviðið.
Línan sem skilur að heim víkinganna og hinn kristna heim
Dómkirkjutorgið í Ribe lætur engan sleppa frá þessum hugsunum um hið liðna og ósigurinn. Það er eins og allt á torginu minni á það sem einu sinni var og þó ekki. Árið 2015 var settur upp skúlptúr af Ansgar. Skúlptúrinn gerði listamaðurinn Hein Heinsen [5]. Hann vildi sýna Ansgar sem klofinn mann milli hins hlykkjótta og lóðrétta, milli víkingaheimsins og hins kristna heims.
Listamaðurinn útskýrir þetta svo: „Ansgar kom til Norðurlanda til að kristna Dani. Það gekk hins vegar illa og hræðilegar martraðir sóttu hart að honum. Þær snerust allar um að hann stæði sig ekki nógu vel. Það hafði mikil áhrif á mig að lesa um þessar martraðir hans. Þetta var baráttan á milli kristinnar trúar, hins bjarta og hreina, sem hið lóðrétta stendur fyrir í skúlptúrnum, og víkinganna sem eru flóknari og þess vegna eru allir þessir hlykkir út og suður eins og sést til dæmis á rúnasteinunum í Jelling.“ [6]
Það sérstaka við skúlptúrinn er sambandið milli höfuðsins og fótanna. Í listasögunni er það nánast regla að listamennirnir leggi mesta áherslu á höfuðið en geri sem minnst með fæturna. Hér er það hins vegar öfugt. Höfuðið á trúboðanum Ansgar er gróft en fætur hans hins vegar eru mjúkir og vel formaðir. Ástæðan gæti verið sú að þegar Ansgar beið ósigur og hélt inn á nýjar brautir þá snérist það ekki um höfuðið heldur fæturna.
Breytingar gera fyrst vart við sig í fótunum: Þeir hreyfast
Þetta snýst fyrst og fremst um að stíga inn á svið hins nýja. Verkið sjálft kemur á undan öllum kenningum og vangaveltum um hvers eðlis það er. Kannski er það einmitt mikilvægast um þessar mundir. Það fer ótrúlega mikill tími í að hugsa áður en við hreyfum okkur eða tökum á sprett. Við þekkjum öll fundina þar sem gulu miðarnir fljúga upp á veggina. Úthugsaðar aðgerðaáætlanir eru lagðar fram, skýrslur með alls konar súluritum eru gefnar út og markmið sett fram um það sem þarf að breyta. Þetta allt saman byrjar í höfðinu á okkur.
En breytingar byrja ekki í höfðinu heldur í fótunum sem bera okkur áfram. Það nýja gerir vart við sig þegar einhver hreyfir sig og gerir eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Þannig var það hjá Lúther, Grundtvig, Ansgar og mörgum öðrum. Þetta kemur fram í litlum skrefum eins og þegar organistinn æfir kór sinn með öðrum hætti en áður, þegar umhirðan í kirkjugarðinum er unnin með nýjum aðferðum. Eða þegar prestur bryddar upp á því að prédika öðruvísi en áður.
Ef ósigur er eitt af grundvallarvandamálum nútímans þá er svarið augljóst. Ef svarið felst í því að snúa við gömlum ósigrum í sigra, dögum við uppi sem hver önnur nátttröll. Sé svarið hins vegar að í ósigri felist ekki endilega ósigur heldur tímamót þar sem eitthvað nýtt getur skotist fram, kallar það á að við göngum til verka. Hreyfum okkur. Það krefst ímyndunarafls og hugrekkis. Skúlptúrinn af Ansgar á dómkirkjutorginu í Ribe sýnir að það gengur ekki alltaf átakalaust fyrir sig.
Kannski er einmitt nú mikilvægasta hlutverk þjóðkirkjunnar að boða fagnaðarerindið um þann Guð sem gerir alla hluti nýja. Ósigur er ekki merki um hugleysi heldur von. Hugleysi gerir okkur að nátttröllum. Vonin hreyfist fram á við – von er hreyfing.
Neðanmálskýringar ritstj.
[1] Prófessor við Humboldt-háskólann í Berlín, félagsfræðingur og menningarfræðingur.
[2] Siðbótarfrömur (1483-1546) sem lúthersk kirkja er kennd við.
[3] Grundtvig (1783-1872). Prestur, skáld, heimspekingur, sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Mestur áhrifamaður í danskri sögu á 19. öld og enn á vorum dögum eru áhrif hans mikil.
[4] Ansgar (801-865). Erkibiskup í Hamborg-Bremen. Kallaður postuli Norðurlanda.
[5] Danskur listamaður sem hefur lagt sig sérstaklega eftir lútherskri list. Hann var prófessor við Det Kongelige Danske Kunstakademi.
[6] Tveir rúnasteinar frá 10. öld í dönsku borginni Jelling (Jalangur á íslensku og steinarnir kallaðir: Jalangurssteinarnir) – sá eldri þeirra var reistur af Gormi gamla til minningar um konu sína, Þyri Danabót, og hinn er reistur af syni Gorms og Þyri, Haraldi blátönn, til minningar um foreldra sína.
Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is, sest Morten Fester Thaysen, dómprófastur í Ribe, Danmörku, og ræðir um mikilvægi þess að láta ekki ósigra buga sig heldur hefjast handa um eitthvað nýtt. Ritstj. Kirkjublaðsins.is snaraði textanum yfir á íslensku. Grein þessi birtist á kirke.dk 19. nóvember sl. og er birt með leyfi höfundar og ritstjórnar kirke.dk.
Þýski félagsfræðingurinn Andreas Reckwitz [1] hefur nýlega sent frá sér bók sem fjallar um ósigurinn sem eitt helsta vandamál nútímans. Áður var Evrópa á fljúgandi ferð en nú er hún meira og minna lituð af ósigrum. Menn horfa til liðins tíma og sjá að margt af því sem áður var hefur beðið ósigur. Það geta verið einhverjir þættir í menningunni sem hafa beðið lægri hlut eins og einsleit kristin kirkja svo dæmi sé tekið.
Ósigurinn birtist þjóðkirkjunni eins og hann sé meitlaður í stein þegar farið er að tala um fjölda félaga og hlutfall skírðra. Svo eru það margar gamlar kirkjur sem eru viðhaldsfrekar og sumir segja að við höfum ekki lengur efni á því að láta þær standa. Því meira sem við tölum um ósigrana því dapurlegri verða framtíðarhorfurnar. Það á reyndar ekki aðeins við um þjóðkirkjuna heldur og samfélagið allt.
Það gæti auðvitað verið lausn að snúa sér til einhvers sem er reiðubúinn að kasta til okkar bjarghring. Forsetar stíga fram sem væru þeir frelsarar. Pútín heyir stríð til að reisa við rússneskt stórveldi sem beið ósigur á sínum tíma. Trump vill að Ameríka verði aftur stórveldi. Við eigum líka stjórnmálamenn sem vilja gefa okkur landið sem einu sinni var og við þekktum svo dæmalaust vel. Landið með hvítum sveitakirkjum og kornökrum sem bylgjuðust í kringum þær. Tímann þegar kirkjuklukkur úr eðalmálmum ómuðu og fólk gerði knéfall og fór með bæn.
Það róa allir í sömu átt. Stjórnmálin snúast um það sem varð undir á sínum tíma. Sama fer fram á kirkjulegum vettvangi. Menn horfa aftur til hins liðna. Þeir slá skjaldborg um hugsanir sem voru eitt sinn ofarlega á baugi og vona að hægt sé að koma þeim aftur á flot með því að staglast á þeim og endurheimta það sem hefur glatast í ósigrum. Menn skrifa um Lúther [2], það eru gerðir sjónvarpsþættir um Grundtvig [3] og eftir nokkur ár verður þess minnst með pompi og prakt þegar Ansgar [4] kom til Danmerkur.
Hverjir eru þetta? Eru þetta hetjurnar sem björguðu okkur fyrir löngu og gætu komið okkur aftur til bjargar ef við bara endurtökum nógu oft það sem þær sögðu? Auðvitað má læra margt af þeim. Það sérstaka við allar þessar hetjur er að þær létu ekki það liðna skjóta upp kolli þegar þær horfðust í augu við ósigra sína heldur höfðu hugrekki til að kalla eitthvað nýtt fram á sjónarsviðið.
Línan sem skilur að heim víkinganna og hinn kristna heim
Dómkirkjutorgið í Ribe lætur engan sleppa frá þessum hugsunum um hið liðna og ósigurinn. Það er eins og allt á torginu minni á það sem einu sinni var og þó ekki. Árið 2015 var settur upp skúlptúr af Ansgar. Skúlptúrinn gerði listamaðurinn Hein Heinsen [5]. Hann vildi sýna Ansgar sem klofinn mann milli hins hlykkjótta og lóðrétta, milli víkingaheimsins og hins kristna heims.
Listamaðurinn útskýrir þetta svo: „Ansgar kom til Norðurlanda til að kristna Dani. Það gekk hins vegar illa og hræðilegar martraðir sóttu hart að honum. Þær snerust allar um að hann stæði sig ekki nógu vel. Það hafði mikil áhrif á mig að lesa um þessar martraðir hans. Þetta var baráttan á milli kristinnar trúar, hins bjarta og hreina, sem hið lóðrétta stendur fyrir í skúlptúrnum, og víkinganna sem eru flóknari og þess vegna eru allir þessir hlykkir út og suður eins og sést til dæmis á rúnasteinunum í Jelling.“ [6]
Það sérstaka við skúlptúrinn er sambandið milli höfuðsins og fótanna. Í listasögunni er það nánast regla að listamennirnir leggi mesta áherslu á höfuðið en geri sem minnst með fæturna. Hér er það hins vegar öfugt. Höfuðið á trúboðanum Ansgar er gróft en fætur hans hins vegar eru mjúkir og vel formaðir. Ástæðan gæti verið sú að þegar Ansgar beið ósigur og hélt inn á nýjar brautir þá snérist það ekki um höfuðið heldur fæturna.
Breytingar gera fyrst vart við sig í fótunum: Þeir hreyfast
Þetta snýst fyrst og fremst um að stíga inn á svið hins nýja. Verkið sjálft kemur á undan öllum kenningum og vangaveltum um hvers eðlis það er. Kannski er það einmitt mikilvægast um þessar mundir. Það fer ótrúlega mikill tími í að hugsa áður en við hreyfum okkur eða tökum á sprett. Við þekkjum öll fundina þar sem gulu miðarnir fljúga upp á veggina. Úthugsaðar aðgerðaáætlanir eru lagðar fram, skýrslur með alls konar súluritum eru gefnar út og markmið sett fram um það sem þarf að breyta. Þetta allt saman byrjar í höfðinu á okkur.
En breytingar byrja ekki í höfðinu heldur í fótunum sem bera okkur áfram. Það nýja gerir vart við sig þegar einhver hreyfir sig og gerir eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Þannig var það hjá Lúther, Grundtvig, Ansgar og mörgum öðrum. Þetta kemur fram í litlum skrefum eins og þegar organistinn æfir kór sinn með öðrum hætti en áður, þegar umhirðan í kirkjugarðinum er unnin með nýjum aðferðum. Eða þegar prestur bryddar upp á því að prédika öðruvísi en áður.
Ef ósigur er eitt af grundvallarvandamálum nútímans þá er svarið augljóst. Ef svarið felst í því að snúa við gömlum ósigrum í sigra, dögum við uppi sem hver önnur nátttröll. Sé svarið hins vegar að í ósigri felist ekki endilega ósigur heldur tímamót þar sem eitthvað nýtt getur skotist fram, kallar það á að við göngum til verka. Hreyfum okkur. Það krefst ímyndunarafls og hugrekkis. Skúlptúrinn af Ansgar á dómkirkjutorginu í Ribe sýnir að það gengur ekki alltaf átakalaust fyrir sig.
Kannski er einmitt nú mikilvægasta hlutverk þjóðkirkjunnar að boða fagnaðarerindið um þann Guð sem gerir alla hluti nýja. Ósigur er ekki merki um hugleysi heldur von. Hugleysi gerir okkur að nátttröllum. Vonin hreyfist fram á við – von er hreyfing.
Neðanmálskýringar ritstj.
[1] Prófessor við Humboldt-háskólann í Berlín, félagsfræðingur og menningarfræðingur.
[2] Siðbótarfrömur (1483-1546) sem lúthersk kirkja er kennd við.
[3] Grundtvig (1783-1872). Prestur, skáld, heimspekingur, sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Mestur áhrifamaður í danskri sögu á 19. öld og enn á vorum dögum eru áhrif hans mikil.
[4] Ansgar (801-865). Erkibiskup í Hamborg-Bremen. Kallaður postuli Norðurlanda.
[5] Danskur listamaður sem hefur lagt sig sérstaklega eftir lútherskri list. Hann var prófessor við Det Kongelige Danske Kunstakademi.
[6] Tveir rúnasteinar frá 10. öld í dönsku borginni Jelling (Jalangur á íslensku og steinarnir kallaðir: Jalangurssteinarnir) – sá eldri þeirra var reistur af Gormi gamla til minningar um konu sína, Þyri Danabót, og hinn er reistur af syni Gorms og Þyri, Haraldi blátönn, til minningar um foreldra sína.