Staða þjóðkirkjunnar hefur breyst mikið frá því sem áður var. Um aldamótin tilheyrðu um 89 prósent landsmanna kirkjunni. Nú gera það rúm 62 prósent. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki sé svo komið að staða kirkjunnar í samfélaginu sé í raun á hverfanda hveli. Með ýmiss konar talnaleikjum má vissulega færa rök fyrir að ofangreind tala sé misvísandi. Ein og sér gefur hún alla vega ekki tæmandi mynd af stöðu kirkjunnar. Það er til að mynda umhugsunarverðara að samkvæmt könnunum sem gerðar voru 2015 og 2020 taldi aðeins fjórðungur aðspurðra sig eiga verulega (þ.e. mjög eða fremur mikla) samleið með þjóðkirkjunni. Það vekur vissulega áleitnar spurningar hvað svo sem aðildartölunni líður.
Að vonum lítur margt þjóðkirkjufólk þróun síðri ára alvarlegum augum. Oft hallast það að því að hrakandi staða kirkjunnar stafi af óánægju með yfirstjórn kirkjunnar en að hún beinist aftur á móti ekki að starfi kirkjunnar í sóknum og prestaköllum landsins. Í því sambandi eru svo tíundaðir atburðir eða persónur og ávirðingar þeirra til að varpa ljósi á ástæðurnar. Svona skýringar þurfa þó ekki að eiga við í öllum tilvikum. Þess ber til dæmis að gæta að prestaköll og sóknir þjóðkirkjunnar eru margar og ólíkar. Ekki er raunhæft að ganga út frá að í þeim öllum ríki eintóm ánægja með starfið og þjónustuna eða í þeim komi ekki upp aðstæður sem hafa áhrif á tengsl fólks við kirkjuna til hins verra. Þau skýru skil sem gengið er út frá milli kirkjustjórnarinnar eða stofnunarinnar og kirkjunnar í héraði kunna því að fela í sér einföldun eða jafnvel fela í sér viðleitni um að vísa frá sér ábyrgð.
Annars konar skýring
Ofangreind skýring er persónu- og atburðahverf og á í því sammerkt með þeim söguskilningi sem hefur verið ríkjandi meðal þjóðarinnar allt fram undir þetta. Fastheldni við hann kann að torvelda kirkjufólki að skilja og skýra þá þróun sem uppi er og beina athyglinni frá þungvægari ástæðum. Það er einkum bagalegt þar sem það kemur í veg fyrir að kirkjan bregðist við þróuninni á raunhæfan og markvissan máta. Hér er litið svo á að frjórra sé að leita skýringa á hrakandi stöðu þjóðkirkjunnar með hjálp samfélagshverfari söguskilnings sem almennt er gengið út frá í nútímasagnfræði. Út frá því sjónarhorni er skýringanna einkum að leita í breyttri þjóðfélagsgerð, fastheldni hvað varðar stofnunargerð þjóðkirkjunnar og ekki síst fækkandi formlegum hlutverkum hennar í samfélaginu.
Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og svo í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar urðu stórfelldari breytingar á íslenska samfélaginu en orðið höfðu í margar aldir þar á undan. Í stað sveitasamfélags í hægfara breytingaferli er nú komið margbrotið þéttbýlissamfélag í örum breytingum með þéttriðið net innviða sem kallar á öra endurskoðun á verkaskiptingu og hlutverkum bæði einstakra samfélagsstofnana og starfsstétta.
Baðstofan er horfin – gerbreytt samfélag
Frá stofnunarkirkju til trúfélags
Um það leyti sem þjóðkirkjuskipan var innleidd 1874 var hér hreinræktuð stofnunarkirkja. Nú hefur hún aftur á móti verið skilgreind sem trúfélag í rúm 20 ár. Þróun í þessa átt hófst samt sem áður upp úr 1880. Mikils misgengis gætti þó í þróun kirkjunnar frá stofnun til (trú-)félags eftir því hvort um var að ræða kirkjuna á landsvísu, það er yfirstjórn hennar, eða úti í prestaköllum og einkum sóknum. Kann það að valda nokkru um þá spennu sem enn gætir milli þessara tveggja sviða kirkjunnar og drepið var á í upphafi.
Fyrsta skrefið í breytingaferlinu var stigið með lögum um stjórn safnaðarmála 1880. Með þeim var almenningi í fyrsta sinn veitt aðkoma að starfi kirkjunnar þótt sjálfstæð hlutverk sóknarnefnda væru fá til að byrja með. Árið 1886 var söfnuðum svo veitt nokkur aðkoma að vali á prestum og veitingu prestakalla. Þróun hreinræktaðrar kirkjustofnunar í átt að félögum og þá á sviði safnaðanna hófst sem sé á níunda áratugi nítjándu aldar. Tók þá jafnframt að örla á lýðræðisvæðingu í kirkjunni í héraði þótt hægt miðaði lengi framan af. Það var á hinn bóginn ekki fyrr en með setningu gömlu þjóðkirkjulaganna (1997) sem hliðstæð breyting varð á þjóðkirkjunni á landsvísu eða kirkjustjórninni. Raunar má deila má um hversu langt lögin gengu og hvort þau viðhéldu jafnvel stofnunarlegu eðli kirkjunnar. Áfram er þó haldið í sömu átt með nýjum lögunum um þjóðkirkjuna frá því í sumar.
Klassísk prestakirkja
Hér á landi ríkti í raun „sveitakirkja“ langt fram eftir tuttugustu öld. Starf kirkju af því tagi einskorðaðist við guðsþjónustur á helgum dögum og helgiathafnir á ævihátíðum einstaklinga og fjölskyldna sem löngum hafa verið nefndar „aukaverk“ presta. Auk þess önnuðust prestar margháttað eftirlit einkum í árlegum húsvitjunum sínum. Um safnaðarstarf í nútímamerkingu var því ekki að ræða í „sveitakirkjunni“.
Einkenni „þéttbýliskirkju“ eru aftur á móti að starfsemi hennar einskorðast ekki við helgihald og „aukaverk“ heldur felst það í fjölþættri félagslegri starfsemi; í upphafi einkum félagsstarfi meðal barna og unglinga en síðar í ýmiss konar félags- og menningarstarfi fyrir fullorðinna og loks aldraðra. Þegar kirkjan færði þannig út kvíarnar og fjölbreytt safnaðarlíf bættist við helgihaldið einskorðaðist starfið ekki lengur við helgar og hátíðir heldur tók einnig að eiga sér stað á virkum dögum. Loks hætti kirkjustarfið að rúmast í guðshúsinu einu og safnaðarheimili kom til sögunnar. Þá kallaði kirkjustarfið á framlag fleiri en prestanna einna. Má í því sambandi einkum nefna djákna sem gegna nú einnig vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.
Sú tilhneiging hefur þó verið rík hér að ráða helst prestsmenntað fólk til starfa í kirkjunni og að vígja það síðar til prests hvernig sem verkefni þeirra hafa verið skipulögð í upphafi. Þar með hefur „prestakirkja“ viðhaldist hér hvort sem um markaða stefnu hefur verið að ræða eða ekki. Hefur það tafið þróun „þéttbýliskirkju“ í landinu og valdið einhæfni í starfsháttum. Íslenska þjóðkirkjan er því fremur gamaldags.
Þróun „þéttbýliskirkju“ hélst alls ekki í hendur við þéttbýlismyndun í landinu. Þvert á móti hef ég fært rök fyrir að hún hafi ekki hafist fyrr en um miðbik tuttugustu aldar og þá með safnaðaruppbyggingarátaki Péturs Sigurgeirssonar norður á Akureyri. Þessi dráttur á aðlögun hefur án vafa ýtt undir þá stöðu sem kirkjan glímir nú við.
Í stofnunarkirkju sveitasamfélagsins voru prestarnir einir sýnilegir. Þeir höfðu einnig völd eða annars konar forskot umfram aðra til áhrifa í kirkjumálunum og það án þess að embættisguðfræði þjóðkirkjunnar ætli þeim endilega slíka sérstöðu. Líkt og aðrar lútherskar kirkjur leggur hún að minnsta kosti í orði kveðnu áherslu á svokallaðan almennan prestdóm en í honum felst að allir skírðir einstaklingar skuli vera virkir og bera ábyrgð í kirkjunni. Sú hægfara aðlögun kirkjunnar að breyttu samfélagi sem og framhaldslíf klasssíku prestakirkjunnar í breyttum heimi hefur vafalítið einangrað hana í samfélaginu.
„Í stofnunarkirkju sveitasamfélagsins voru prestarnir einir sýnilegir.“
Breytileg hlutverk klerka og kirkju
Vegna fábreyttra innviða í íslenska samfélaginu á kristnitökutímanum tók kirkjan og prestar hennar snemma að gegna ýmsum samfélagshlutverkum sem lágu fjarri trúarlega sviðinu. Breytir þá litlu hvort gengið er út frá nútímaskilgreiningu eða þeim skilningi sem ætla má að hafi gilt um mörk veraldlegra og trúarlegra mála þegar þau voru önnur og ógleggri. Allt fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldar voru hlutverk presta, eiginkvenna þeirra og heimila fjölbreytt þótt þeim væri þá vissulega tekið að fækka þótt hægt færi. Matthías Eggertsson (1865–1955) þjónaði Miðgarðaprestakalli í Grímsey fram undir 1940. Við lát hans var hlutverkum hans svo lýst:
Ég efast um, að nokkru sinni hafi prestur á Íslandi haft fleiri og margbreytilegri störf en séra Matthías, sem auk höfuðstarfsins sem prestur var einnig forvígismaður eyjarskeggja í veraldlegum málum, sem oddviti og sýslunefndarmaður, auk þess kennri byggðarlagsins, loftskeytastjóri, bókavörður o. fl. Hann stofnaði barnaskóla þar, búnaðarfélagið og bindindisfélög, […]. Hann var á sama hátt forystumaður í búnaðarháttum á eyjunni. Hann hafði venjulega 8–9 störf smá og stór auk prestsstarfsins og flest þeirra áratugum samfleytt, eins og t.d. veðurathuganir bæði fyrir vísindastofnun í Kaupmannahöfn og svo fyrir veðurstofuna í Reykjavík. Í öllu þessu var hann studdur af mikilhæfri konu sinni, sem stundaði ljósmóðurstörf og hjálpaði sjúkum.[1]
Þetta er ekki dæmigerð verklýsing prestshjóna þegar komið var fram undir seinna stríð. Í prestakalli sem var jafn sérstaklega sett hafa fleiri verkefni fallið til en víða annars staðar. Veðurathuganir voru ekki gerðar á hverju prestssetri né hefur þar heldur verið loftskeytastöð þótt sums staðar hafi aftur á móti verið símstöð sem prestshjónun önnuðust. Flest hinna hlutverkanna geta hafa lent á mörgum prestheimilum í meira eða minna mæli. Þá voru mörg dæmi um að prestssetur væru formlegir eða óformlegir samskomustaðir þar sem margs konar félagsstarf fór fram í tengslum við guðsþjónustur sem og kennsla eða jafnvel skólahald.
Í nýju þjóðkirkjulögunum er kveðið svo á að hlutverk kirkjunnar beri að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þá standi hún að ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu eftir því sem við verður komið. Auk þess segir að stjórnvöld geti „[…] leitað til þjóðkirkjunnar í störfum sínum telji þau þess þörf.“[2] Í því felst að ríkisvaldið getur falið þjóðkirkjunni hlutverk sem ekki er kveðið á um í lögunum til dæmis þegar almannavarnaástand skapast, hópslys verða eða þörf verður fyrir áfallahjálp. Af upptalningunni sést að löggjafinn markar þjóðkirkjunni stað á hinu trúarlega sviði hvað hlutverk áhrærir sem og á sviðum þar sem það skarast við velferð og almannaheill án þess að hún beri þar beinar lögbundnar skyldur. Þetta kemur heim og saman við skilgreiningu þjóðkirkjunnar sem trúfélags.
Af þessu má sjá að hlutverkum kirkju og presta hennar hefur fækkað í aldanna rás er nýjar samfélagsstofnanir leystu hana af hólmi eftir því sem innviðir samfélagsins urðu fjölþættari. Jafnframt hefur kirkjan sérhæfst og er nú fyrst og fremst trúarstofnun — og í vaxandi mæli trúfélag síðan tekið var að setja heildstæð þjóðkirkjulög í lok liðinnar aldar. Ljóst er að þessi þróun hefur í grundvallaratriðum breytt ásýnd kirkjunnar og hlýtur að valda miklu um afstöðu fólks er það er spurt um samleið þess með þjóðkirkjunni eða hvort það kjósi að tilheyra henni áfram Hér er því líklega fundin ein helsta skýringin á því hvers vegna líta má svo á að staða kirkjunnar sé nú á hverfanda hveli.
„…breytt ásýnd kirkjunnar…“ – hver hleður hvern?
Lokaorð
Frá því upp úr trúarbragðaskiptum og langt fram yfir siðaskipti var kirkjan burðarstoð í innviðum íslenska samfélagsins. Sinnti hún þá mikilvægum hlutverkum sem síðar færðust yfir til ýmissa annarra samfélagsstofnana og teljast nú sjálfstæðir málaflokkar órafjarlægir hinu trúarlega sviði. Má þar nefna mennta-, félags-, velferðar- og jafnvel heilbrigðismál. Þetta gerðist um leið og samfélagið þróaðist úr einföldu sveitasamfélagi yfir í fjölgreint þéttbýlissamfélag. Það samfélagshlutverk kirkjunnar sem hvað þyngst vóg var þó að standa vörð um hugmyndafræðilega og menningarlega einingu samfélagsins á trúarlegum grundvelli. Því hlutverki gegndi hún allt þar til einstaklingfrelsi og lýðræðisvæðing hófst á síðasta fjórðungi nítjándu aldar í kjölfar þess að þjóðin fékk stjórnarskrá um sérmál sín. Í stað einingarviðleitninnar hefur hugsjón frelsis og fjölmenningar nú rutt sér til rúms. Í kjölfarið varð kirkjan sérhæfðari og er nú aðeins ætluð formleg hlutverk á hinu trúarlega sviði. Afleiðingar þessarar þróunar er meðal annars að ekki er lengur sjálfsagt að hvert og eitt okkar finni til djúprar samsömunar við þjóðkirkjuna eða velji að tilheyra henni frá vöggu til grafar. Er þarna liklega að leita helstu skýringanna á þeirri nýju stöðu sem þjóðkirkjan hefur hafnað í og hér er lýst svo að hún sé á hverfanda hveli.
Þjóðkirkja á hverfanda hveli
Ekki er furða þótt þær altæku breytingar sem hér hefur verið drepið á endurspeglist í fjölda þeirra sem vilja tilheyra þjóðkirkjunni, trúa eins og hún eða samsama sig með henni á annan hátt. Vilji þjóðkirkjan hafa áhrif á þá þróun og þar með styrkja stöðu sína í náinni framtíð virðist lausnarinnar að leita í því að hún haldi áfram að þróa starfshætti sína frá því sem tíðkaðist í stofnunar-, „sveita-“ og prestakirkju fyrri tíma í átt til „þéttbýliskirkju“. Raunhæfasta leiðin til þess virðist felast í að byggja upp fjölbreytta starfshópa presta, djákna, æskulýðsleiðtoga, tónlistarfólks og annarra sem þróað geta fjölþætta starfshætti í síbreytilegu samfélagi. — Á grundvelli endurskoðaðs kirkjujarðasamkomulags hefur þjóðkirkjan nú tækifæri til þess.
Lengri gerð birtist í Ritinu: Tímariti Hugvísindastofnunar 2/2021.
Allar myndir: Kirkjublaðið.is
———————
[1] Jón Thorarensen, „Séra Matthías Eggertsson“, Kirkjuritið 21: 10/1955, bls. 458–460, hér bls. 459.
[2] „Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021“, Alþingi, sótt 11. desember 2021 af https://www.althingi.is/altext/151/s/0996.html.
Staða þjóðkirkjunnar hefur breyst mikið frá því sem áður var. Um aldamótin tilheyrðu um 89 prósent landsmanna kirkjunni. Nú gera það rúm 62 prósent. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki sé svo komið að staða kirkjunnar í samfélaginu sé í raun á hverfanda hveli. Með ýmiss konar talnaleikjum má vissulega færa rök fyrir að ofangreind tala sé misvísandi. Ein og sér gefur hún alla vega ekki tæmandi mynd af stöðu kirkjunnar. Það er til að mynda umhugsunarverðara að samkvæmt könnunum sem gerðar voru 2015 og 2020 taldi aðeins fjórðungur aðspurðra sig eiga verulega (þ.e. mjög eða fremur mikla) samleið með þjóðkirkjunni. Það vekur vissulega áleitnar spurningar hvað svo sem aðildartölunni líður.
Að vonum lítur margt þjóðkirkjufólk þróun síðri ára alvarlegum augum. Oft hallast það að því að hrakandi staða kirkjunnar stafi af óánægju með yfirstjórn kirkjunnar en að hún beinist aftur á móti ekki að starfi kirkjunnar í sóknum og prestaköllum landsins. Í því sambandi eru svo tíundaðir atburðir eða persónur og ávirðingar þeirra til að varpa ljósi á ástæðurnar. Svona skýringar þurfa þó ekki að eiga við í öllum tilvikum. Þess ber til dæmis að gæta að prestaköll og sóknir þjóðkirkjunnar eru margar og ólíkar. Ekki er raunhæft að ganga út frá að í þeim öllum ríki eintóm ánægja með starfið og þjónustuna eða í þeim komi ekki upp aðstæður sem hafa áhrif á tengsl fólks við kirkjuna til hins verra. Þau skýru skil sem gengið er út frá milli kirkjustjórnarinnar eða stofnunarinnar og kirkjunnar í héraði kunna því að fela í sér einföldun eða jafnvel fela í sér viðleitni um að vísa frá sér ábyrgð.
Annars konar skýring
Ofangreind skýring er persónu- og atburðahverf og á í því sammerkt með þeim söguskilningi sem hefur verið ríkjandi meðal þjóðarinnar allt fram undir þetta. Fastheldni við hann kann að torvelda kirkjufólki að skilja og skýra þá þróun sem uppi er og beina athyglinni frá þungvægari ástæðum. Það er einkum bagalegt þar sem það kemur í veg fyrir að kirkjan bregðist við þróuninni á raunhæfan og markvissan máta. Hér er litið svo á að frjórra sé að leita skýringa á hrakandi stöðu þjóðkirkjunnar með hjálp samfélagshverfari söguskilnings sem almennt er gengið út frá í nútímasagnfræði. Út frá því sjónarhorni er skýringanna einkum að leita í breyttri þjóðfélagsgerð, fastheldni hvað varðar stofnunargerð þjóðkirkjunnar og ekki síst fækkandi formlegum hlutverkum hennar í samfélaginu.
Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og svo í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar urðu stórfelldari breytingar á íslenska samfélaginu en orðið höfðu í margar aldir þar á undan. Í stað sveitasamfélags í hægfara breytingaferli er nú komið margbrotið þéttbýlissamfélag í örum breytingum með þéttriðið net innviða sem kallar á öra endurskoðun á verkaskiptingu og hlutverkum bæði einstakra samfélagsstofnana og starfsstétta.
Baðstofan er horfin – gerbreytt samfélag
Frá stofnunarkirkju til trúfélags
Um það leyti sem þjóðkirkjuskipan var innleidd 1874 var hér hreinræktuð stofnunarkirkja. Nú hefur hún aftur á móti verið skilgreind sem trúfélag í rúm 20 ár. Þróun í þessa átt hófst samt sem áður upp úr 1880. Mikils misgengis gætti þó í þróun kirkjunnar frá stofnun til (trú-)félags eftir því hvort um var að ræða kirkjuna á landsvísu, það er yfirstjórn hennar, eða úti í prestaköllum og einkum sóknum. Kann það að valda nokkru um þá spennu sem enn gætir milli þessara tveggja sviða kirkjunnar og drepið var á í upphafi.
Fyrsta skrefið í breytingaferlinu var stigið með lögum um stjórn safnaðarmála 1880. Með þeim var almenningi í fyrsta sinn veitt aðkoma að starfi kirkjunnar þótt sjálfstæð hlutverk sóknarnefnda væru fá til að byrja með. Árið 1886 var söfnuðum svo veitt nokkur aðkoma að vali á prestum og veitingu prestakalla. Þróun hreinræktaðrar kirkjustofnunar í átt að félögum og þá á sviði safnaðanna hófst sem sé á níunda áratugi nítjándu aldar. Tók þá jafnframt að örla á lýðræðisvæðingu í kirkjunni í héraði þótt hægt miðaði lengi framan af. Það var á hinn bóginn ekki fyrr en með setningu gömlu þjóðkirkjulaganna (1997) sem hliðstæð breyting varð á þjóðkirkjunni á landsvísu eða kirkjustjórninni. Raunar má deila má um hversu langt lögin gengu og hvort þau viðhéldu jafnvel stofnunarlegu eðli kirkjunnar. Áfram er þó haldið í sömu átt með nýjum lögunum um þjóðkirkjuna frá því í sumar.
Klassísk prestakirkja
Hér á landi ríkti í raun „sveitakirkja“ langt fram eftir tuttugustu öld. Starf kirkju af því tagi einskorðaðist við guðsþjónustur á helgum dögum og helgiathafnir á ævihátíðum einstaklinga og fjölskyldna sem löngum hafa verið nefndar „aukaverk“ presta. Auk þess önnuðust prestar margháttað eftirlit einkum í árlegum húsvitjunum sínum. Um safnaðarstarf í nútímamerkingu var því ekki að ræða í „sveitakirkjunni“.
Einkenni „þéttbýliskirkju“ eru aftur á móti að starfsemi hennar einskorðast ekki við helgihald og „aukaverk“ heldur felst það í fjölþættri félagslegri starfsemi; í upphafi einkum félagsstarfi meðal barna og unglinga en síðar í ýmiss konar félags- og menningarstarfi fyrir fullorðinna og loks aldraðra. Þegar kirkjan færði þannig út kvíarnar og fjölbreytt safnaðarlíf bættist við helgihaldið einskorðaðist starfið ekki lengur við helgar og hátíðir heldur tók einnig að eiga sér stað á virkum dögum. Loks hætti kirkjustarfið að rúmast í guðshúsinu einu og safnaðarheimili kom til sögunnar. Þá kallaði kirkjustarfið á framlag fleiri en prestanna einna. Má í því sambandi einkum nefna djákna sem gegna nú einnig vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.
Sú tilhneiging hefur þó verið rík hér að ráða helst prestsmenntað fólk til starfa í kirkjunni og að vígja það síðar til prests hvernig sem verkefni þeirra hafa verið skipulögð í upphafi. Þar með hefur „prestakirkja“ viðhaldist hér hvort sem um markaða stefnu hefur verið að ræða eða ekki. Hefur það tafið þróun „þéttbýliskirkju“ í landinu og valdið einhæfni í starfsháttum. Íslenska þjóðkirkjan er því fremur gamaldags.
Þróun „þéttbýliskirkju“ hélst alls ekki í hendur við þéttbýlismyndun í landinu. Þvert á móti hef ég fært rök fyrir að hún hafi ekki hafist fyrr en um miðbik tuttugustu aldar og þá með safnaðaruppbyggingarátaki Péturs Sigurgeirssonar norður á Akureyri. Þessi dráttur á aðlögun hefur án vafa ýtt undir þá stöðu sem kirkjan glímir nú við.
Í stofnunarkirkju sveitasamfélagsins voru prestarnir einir sýnilegir. Þeir höfðu einnig völd eða annars konar forskot umfram aðra til áhrifa í kirkjumálunum og það án þess að embættisguðfræði þjóðkirkjunnar ætli þeim endilega slíka sérstöðu. Líkt og aðrar lútherskar kirkjur leggur hún að minnsta kosti í orði kveðnu áherslu á svokallaðan almennan prestdóm en í honum felst að allir skírðir einstaklingar skuli vera virkir og bera ábyrgð í kirkjunni. Sú hægfara aðlögun kirkjunnar að breyttu samfélagi sem og framhaldslíf klasssíku prestakirkjunnar í breyttum heimi hefur vafalítið einangrað hana í samfélaginu.
„Í stofnunarkirkju sveitasamfélagsins voru prestarnir einir sýnilegir.“
Breytileg hlutverk klerka og kirkju
Vegna fábreyttra innviða í íslenska samfélaginu á kristnitökutímanum tók kirkjan og prestar hennar snemma að gegna ýmsum samfélagshlutverkum sem lágu fjarri trúarlega sviðinu. Breytir þá litlu hvort gengið er út frá nútímaskilgreiningu eða þeim skilningi sem ætla má að hafi gilt um mörk veraldlegra og trúarlegra mála þegar þau voru önnur og ógleggri. Allt fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldar voru hlutverk presta, eiginkvenna þeirra og heimila fjölbreytt þótt þeim væri þá vissulega tekið að fækka þótt hægt færi. Matthías Eggertsson (1865–1955) þjónaði Miðgarðaprestakalli í Grímsey fram undir 1940. Við lát hans var hlutverkum hans svo lýst:
Ég efast um, að nokkru sinni hafi prestur á Íslandi haft fleiri og margbreytilegri störf en séra Matthías, sem auk höfuðstarfsins sem prestur var einnig forvígismaður eyjarskeggja í veraldlegum málum, sem oddviti og sýslunefndarmaður, auk þess kennri byggðarlagsins, loftskeytastjóri, bókavörður o. fl. Hann stofnaði barnaskóla þar, búnaðarfélagið og bindindisfélög, […]. Hann var á sama hátt forystumaður í búnaðarháttum á eyjunni. Hann hafði venjulega 8–9 störf smá og stór auk prestsstarfsins og flest þeirra áratugum samfleytt, eins og t.d. veðurathuganir bæði fyrir vísindastofnun í Kaupmannahöfn og svo fyrir veðurstofuna í Reykjavík. Í öllu þessu var hann studdur af mikilhæfri konu sinni, sem stundaði ljósmóðurstörf og hjálpaði sjúkum.[1]
Þetta er ekki dæmigerð verklýsing prestshjóna þegar komið var fram undir seinna stríð. Í prestakalli sem var jafn sérstaklega sett hafa fleiri verkefni fallið til en víða annars staðar. Veðurathuganir voru ekki gerðar á hverju prestssetri né hefur þar heldur verið loftskeytastöð þótt sums staðar hafi aftur á móti verið símstöð sem prestshjónun önnuðust. Flest hinna hlutverkanna geta hafa lent á mörgum prestheimilum í meira eða minna mæli. Þá voru mörg dæmi um að prestssetur væru formlegir eða óformlegir samskomustaðir þar sem margs konar félagsstarf fór fram í tengslum við guðsþjónustur sem og kennsla eða jafnvel skólahald.
Í nýju þjóðkirkjulögunum er kveðið svo á að hlutverk kirkjunnar beri að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Þá standi hún að ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu eftir því sem við verður komið. Auk þess segir að stjórnvöld geti „[…] leitað til þjóðkirkjunnar í störfum sínum telji þau þess þörf.“[2] Í því felst að ríkisvaldið getur falið þjóðkirkjunni hlutverk sem ekki er kveðið á um í lögunum til dæmis þegar almannavarnaástand skapast, hópslys verða eða þörf verður fyrir áfallahjálp. Af upptalningunni sést að löggjafinn markar þjóðkirkjunni stað á hinu trúarlega sviði hvað hlutverk áhrærir sem og á sviðum þar sem það skarast við velferð og almannaheill án þess að hún beri þar beinar lögbundnar skyldur. Þetta kemur heim og saman við skilgreiningu þjóðkirkjunnar sem trúfélags.
Af þessu má sjá að hlutverkum kirkju og presta hennar hefur fækkað í aldanna rás er nýjar samfélagsstofnanir leystu hana af hólmi eftir því sem innviðir samfélagsins urðu fjölþættari. Jafnframt hefur kirkjan sérhæfst og er nú fyrst og fremst trúarstofnun — og í vaxandi mæli trúfélag síðan tekið var að setja heildstæð þjóðkirkjulög í lok liðinnar aldar. Ljóst er að þessi þróun hefur í grundvallaratriðum breytt ásýnd kirkjunnar og hlýtur að valda miklu um afstöðu fólks er það er spurt um samleið þess með þjóðkirkjunni eða hvort það kjósi að tilheyra henni áfram Hér er því líklega fundin ein helsta skýringin á því hvers vegna líta má svo á að staða kirkjunnar sé nú á hverfanda hveli.
„…breytt ásýnd kirkjunnar…“ – hver hleður hvern?
Lokaorð
Frá því upp úr trúarbragðaskiptum og langt fram yfir siðaskipti var kirkjan burðarstoð í innviðum íslenska samfélagsins. Sinnti hún þá mikilvægum hlutverkum sem síðar færðust yfir til ýmissa annarra samfélagsstofnana og teljast nú sjálfstæðir málaflokkar órafjarlægir hinu trúarlega sviði. Má þar nefna mennta-, félags-, velferðar- og jafnvel heilbrigðismál. Þetta gerðist um leið og samfélagið þróaðist úr einföldu sveitasamfélagi yfir í fjölgreint þéttbýlissamfélag. Það samfélagshlutverk kirkjunnar sem hvað þyngst vóg var þó að standa vörð um hugmyndafræðilega og menningarlega einingu samfélagsins á trúarlegum grundvelli. Því hlutverki gegndi hún allt þar til einstaklingfrelsi og lýðræðisvæðing hófst á síðasta fjórðungi nítjándu aldar í kjölfar þess að þjóðin fékk stjórnarskrá um sérmál sín. Í stað einingarviðleitninnar hefur hugsjón frelsis og fjölmenningar nú rutt sér til rúms. Í kjölfarið varð kirkjan sérhæfðari og er nú aðeins ætluð formleg hlutverk á hinu trúarlega sviði. Afleiðingar þessarar þróunar er meðal annars að ekki er lengur sjálfsagt að hvert og eitt okkar finni til djúprar samsömunar við þjóðkirkjuna eða velji að tilheyra henni frá vöggu til grafar. Er þarna liklega að leita helstu skýringanna á þeirri nýju stöðu sem þjóðkirkjan hefur hafnað í og hér er lýst svo að hún sé á hverfanda hveli.
Þjóðkirkja á hverfanda hveli
Ekki er furða þótt þær altæku breytingar sem hér hefur verið drepið á endurspeglist í fjölda þeirra sem vilja tilheyra þjóðkirkjunni, trúa eins og hún eða samsama sig með henni á annan hátt. Vilji þjóðkirkjan hafa áhrif á þá þróun og þar með styrkja stöðu sína í náinni framtíð virðist lausnarinnar að leita í því að hún haldi áfram að þróa starfshætti sína frá því sem tíðkaðist í stofnunar-, „sveita-“ og prestakirkju fyrri tíma í átt til „þéttbýliskirkju“. Raunhæfasta leiðin til þess virðist felast í að byggja upp fjölbreytta starfshópa presta, djákna, æskulýðsleiðtoga, tónlistarfólks og annarra sem þróað geta fjölþætta starfshætti í síbreytilegu samfélagi. — Á grundvelli endurskoðaðs kirkjujarðasamkomulags hefur þjóðkirkjan nú tækifæri til þess.
Lengri gerð birtist í Ritinu: Tímariti Hugvísindastofnunar 2/2021.
Allar myndir: Kirkjublaðið.is
———————
[1] Jón Thorarensen, „Séra Matthías Eggertsson“, Kirkjuritið 21: 10/1955, bls. 458–460, hér bls. 459.
[2] „Lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021“, Alþingi, sótt 11. desember 2021 af https://www.althingi.is/altext/151/s/0996.html.