Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is sest að þessu sinni listfræðingurinn Eiríkur Þorláksson:
Eiríkur er fæddur í Reykjavík 1953, og ólst upp í Laugarneshverfinu. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1974, og síðan námi í sagnfræði við Háskóla Íslands og loks framhaldsnámi í listasögu við University of Iowa í Bandaríkjunum.
Eiríkur hefur starfað sem kennari á öllum skólastigum, m.a. sem kennari í listasögu við Háskóla Íslands 2005-2020, og hefur hann gegnt stöðum framkvæmdastjóra skiptinemasamtaka og menningarstofnana, Þá hefur hann unnið sem myndlistargagnrýnandi og sem safnstjóri Listasafns Reykjavíkur 1997-2005. Frá 2007 til 2019 var hann sérfræðingur á skrifstofu menningarmála í Mennta- og menningarmálaráðuneyti, og vann þar einkum að málefnum safna og menningarstofnana.
Ásmundur Sveinsson var sprottinn úr sama grunni og öll íslenska þjóðin í gegnum aldirnar: Úr fámennri sveit, þar sem unninn var langur vinnudagur til að sjá fyrir heimilinu, þar sem lítið var um formlega menntun, en umhverfið, náttúran, þjóðtrúin og sögurnar mótuðu kynslóðirnar.
Ásmundur fæddist í Dölunum 1893, og ólst þar upp fram yfir tvítugt. Hann kynntist íslenskri sagnahefð vel í æsku, kunni fjölda af sögum, og þótti gæddur óvenjumikilli frásagnargáfu – hæfileika sem átti eftir að verða ríkur þáttur í myndsköpun hans sem myndhöggvara.
Tréskurðarnám á Íslandi, stutt dvöl í Kaupmannahöfn, sex ára nám í höggmyndalist undir handleiðslu Carls Milles í Stokkhólmi og loks dvöl í París á þriðja áratugnum veittu Ásmundi fjölbreyttan og góðan undirbúning til að starfa sem sjálfstæður listamaður. Hann kynntist ólíkum vinnuaðferðum, stílbrigðum og viðfangsefnum, og fékk jafnframt tækifæri til að sjá margt af því besta í höggmyndalistinni að fornu og nýju.
Það er ljóst að Ásmundi tókst einkar vel að höfða til íslensku þjóðarinnar í verkum sínum, þó vissulega yrðu þau oft til þess að vekja undrun og jafnvel deilur. Má segja að listamanninum hafi sjálfum þótt sér takast best upp þegar móttökurnar voru með þeim hætti, því hann taldi listina hafa miklu hlutverki að gegna í samfélaginu: „Ekkert getur aukið mönnum þroska eins og listin. Það er líka hlutverk hennar. Hún á að vekja, en ekki sefja.“
Ásmundur var sér mjög meðvitaður um að íslensk menningararfleifð byggði öðru fremur á frásögninni, og á samsömun hennar við náttúruna. Í gegnum þessa þætti leitaðist hann við að skapa frumlega höggmyndalist, og tjá um leið viðhorf sín til þeirra viðfangsefna, sem hann tók fyrir hverju sinni.
Undantekningalítið sýna verk Ásmundar tiltekna atburði. Verkin rekja ekki sögur með fjölþættum tilvísunum í efni þeirra; áhorfandinn les sig ekki í gegnum þau, heldur er hver höggmynd ákveðið myndskeið, oftast það áhrifamesta úr hverri sögu. Þetta kallar oft á að áhorfandinn þekki söguna til að geta notið verksins – annars fer hann á mis við þá dramatík, sem er að finna í því. Þetta kemur vel fram í myndgerð Ásmundar af Sæmundi fróða, sem hann gerði fyrst í Stokkhólmi 1922. Sagan segir frá presti einum sem var við nám í Svartaskóla í París, og gerði samning við kölska um að flytja sig til Íslands án þess að hann vöknaði. Að launum átti skrattinn að eignast sál prestsins. Sæmundi tókst síðan að leika á kölska með því að keyra saltarann í höfuð honum svo að honum fataðist á sundinu. Ásmundur valdi að sýna það áhrifamikla augnablik er Sæmundur reiddi bókina helgu til höggs. Þegar horft er á þessa mynd – mann að lemja sel í höfuðið með bók – er ljóst að mikilvægt er að hafa söguna á takteinum og láta hana leika umhverfis höggmyndina. Áhorfandinn getur þá horft í gegnum verkið og látið hugann fylgja henni eftir, og Sæmundur og selurinn öðlast þannig raunverulega dýpt.
Oft bera verk Ásmundar með sér afar sérstæða túlkun, sem listamanninum þykir henta viðfangsefninu. Í verkinu Eva yfirgefur Paradís (1949) sýnir listamaðurinn móður mannkyns, hnarreista og tígulega, staldra við áður en hún heldur á braut. Ásmundur bar mikla virðingu fyrir konum, og þær eru oft hetjurnar í verkum hans; í samræmi við það er Eva í þessu verki ekki buguð manneskja, sem er hrakin á brott eftir að hafa fallið í freistingu, heldur kona sem tekur örlögin í eigin hendur og velur sjálf að yfirgefa hinn ætlaða sælureit.
Í myndinni Eldmessan (1965) velur Ásmundur sem viðfangsefni þá stund er hraunið stöðvast andspænis krossinum, mestu örlagastund þeirra náttúruhamfara, sem verkið vísar til. Þetta verk er annað gott dæmi um nauðsyn þess fyrir áhorfendur að þekkja efni hverrar sögu til að þeir megi njóta túlkunar listamannsins til fulls.
Þær myndir Ásmundar sem tengjast slíkum viðfangsefnum eru yfirleitt hálf-fígúratífar eða næsta óhlutlægar. Listamaðurinn þröngvar ekki „raunverulegu útliti“ upp á áhorfendur, heldur fá þeir tækifæri til að láta hugarflugið ljúka verkinu. Listamaðurinn gengur aldrei of nærri sögunni; hann er ávallt meðvitaður um að höggmyndin lifir ekki einungis sem sögulýsing, heldur lifir hún ennfremur sjálfstæðu lífi sem byggir á eigin myndrænum lögmálum.
Á sjötta og sjöunda áratugnum þróuðust höggmyndir Ásmundar Sveinssonar æ meir í átt til afstraktlistar, og um sama leyti tók hann að velja sér oftar en áður myndefni, sem tengdust spurningum um upphaf heimsins, trúarbrögð og tilveruna almennt. Þetta kom vel fram í viðfangsefnum sem bera nöfn eins og Fæðing (1949), Davíð og Golíat (1952), Passíutónar (1956) og Trúarbrögðin (1956), svo nokkur séu nefnd. Goðsögulegir fuglar, líkt og Óðinshrafninn (1952) og Fuglinn Fönix (1961) hefja sig til flugs í verkum hans á sama tímabili.
Ásmundur var sjálfur blendinn í trúnni, eins og flestir Íslendingar virðast vera. Viðhorf hans til trúmála koma vel fram í viðtölum hans við Matthías Johannessen, sem komið hafa út í „Bókinni um Ásmund“, og ljóst er að hann hugsaði mikið um þessi mál. Þar kemur meðal annars fram í frásögn Ásmundar af því að eitt sinn hafi hann verið spurður: „Ertu kristinn?“ Hann svaraði: „Mér hefur ekki tekist það. Kristnin gerir svo miklar kröfur.“
Kristnin gerir vissulega miklar kröfur. Af svari Ásmundar má vera ljóst, að hann bar mikla virðingu fyrir trúarbrögðum, og taldi þau eitt helsta merkið um þroskaferil mannsins. En hann nefndi einnig að lífinu fylgdi sífelld endurnýjun, og ef að trúarbrögð stöðnuðu, þá myndu þau deyja.
Það var því í góðu samræmi við þetta viðhorf, þegar ein helsta táknmynd kristninnar, krossinn, kom inn í verk hans með nýjum hætti – með endurnýjun hins listræna forms.
Eitt sinn var Ásmundur að vinna að verki sem hann helgaði landnámi Íslands, sem byggðist ljóslega á trú forfeðranna og trausti þeirra á guðunum; öndvegissúlurnar áttu að leiða þá til landnáms. Þegar hann sýndi presti nokkrum skissur að verkinu, sem vísaði með svo einhlítum hætti til hinnar fornu trúar, hafði presturinn spurt hvort að kristnin ætti ekki erindi í slíkt verk líka, með því að listamaðurinn setti krossinn inn í myndina. Ásmundur spurði þá á móti: „Má ég gera krossinn afstrakt?“ Svarið var: „Já-já, auðvitað.“ Og það varð úr.
(Grein þessi birtist fyrst í „Hærra til þín – Trúarleg minni í vestnorrænni list“ árið 2000 og er hér birt endurskoðuð af hálfu höfundar.)
Við Gestaglugga Kirkjublaðsins.is sest að þessu sinni listfræðingurinn Eiríkur Þorláksson:
Eiríkur er fæddur í Reykjavík 1953, og ólst upp í Laugarneshverfinu. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1974, og síðan námi í sagnfræði við Háskóla Íslands og loks framhaldsnámi í listasögu við University of Iowa í Bandaríkjunum.
Eiríkur hefur starfað sem kennari á öllum skólastigum, m.a. sem kennari í listasögu við Háskóla Íslands 2005-2020, og hefur hann gegnt stöðum framkvæmdastjóra skiptinemasamtaka og menningarstofnana, Þá hefur hann unnið sem myndlistargagnrýnandi og sem safnstjóri Listasafns Reykjavíkur 1997-2005. Frá 2007 til 2019 var hann sérfræðingur á skrifstofu menningarmála í Mennta- og menningarmálaráðuneyti, og vann þar einkum að málefnum safna og menningarstofnana.
Ásmundur Sveinsson var sprottinn úr sama grunni og öll íslenska þjóðin í gegnum aldirnar: Úr fámennri sveit, þar sem unninn var langur vinnudagur til að sjá fyrir heimilinu, þar sem lítið var um formlega menntun, en umhverfið, náttúran, þjóðtrúin og sögurnar mótuðu kynslóðirnar.
Ásmundur fæddist í Dölunum 1893, og ólst þar upp fram yfir tvítugt. Hann kynntist íslenskri sagnahefð vel í æsku, kunni fjölda af sögum, og þótti gæddur óvenjumikilli frásagnargáfu – hæfileika sem átti eftir að verða ríkur þáttur í myndsköpun hans sem myndhöggvara.
Tréskurðarnám á Íslandi, stutt dvöl í Kaupmannahöfn, sex ára nám í höggmyndalist undir handleiðslu Carls Milles í Stokkhólmi og loks dvöl í París á þriðja áratugnum veittu Ásmundi fjölbreyttan og góðan undirbúning til að starfa sem sjálfstæður listamaður. Hann kynntist ólíkum vinnuaðferðum, stílbrigðum og viðfangsefnum, og fékk jafnframt tækifæri til að sjá margt af því besta í höggmyndalistinni að fornu og nýju.
Það er ljóst að Ásmundi tókst einkar vel að höfða til íslensku þjóðarinnar í verkum sínum, þó vissulega yrðu þau oft til þess að vekja undrun og jafnvel deilur. Má segja að listamanninum hafi sjálfum þótt sér takast best upp þegar móttökurnar voru með þeim hætti, því hann taldi listina hafa miklu hlutverki að gegna í samfélaginu: „Ekkert getur aukið mönnum þroska eins og listin. Það er líka hlutverk hennar. Hún á að vekja, en ekki sefja.“
Ásmundur var sér mjög meðvitaður um að íslensk menningararfleifð byggði öðru fremur á frásögninni, og á samsömun hennar við náttúruna. Í gegnum þessa þætti leitaðist hann við að skapa frumlega höggmyndalist, og tjá um leið viðhorf sín til þeirra viðfangsefna, sem hann tók fyrir hverju sinni.
Undantekningalítið sýna verk Ásmundar tiltekna atburði. Verkin rekja ekki sögur með fjölþættum tilvísunum í efni þeirra; áhorfandinn les sig ekki í gegnum þau, heldur er hver höggmynd ákveðið myndskeið, oftast það áhrifamesta úr hverri sögu. Þetta kallar oft á að áhorfandinn þekki söguna til að geta notið verksins – annars fer hann á mis við þá dramatík, sem er að finna í því. Þetta kemur vel fram í myndgerð Ásmundar af Sæmundi fróða, sem hann gerði fyrst í Stokkhólmi 1922. Sagan segir frá presti einum sem var við nám í Svartaskóla í París, og gerði samning við kölska um að flytja sig til Íslands án þess að hann vöknaði. Að launum átti skrattinn að eignast sál prestsins. Sæmundi tókst síðan að leika á kölska með því að keyra saltarann í höfuð honum svo að honum fataðist á sundinu. Ásmundur valdi að sýna það áhrifamikla augnablik er Sæmundur reiddi bókina helgu til höggs. Þegar horft er á þessa mynd – mann að lemja sel í höfuðið með bók – er ljóst að mikilvægt er að hafa söguna á takteinum og láta hana leika umhverfis höggmyndina. Áhorfandinn getur þá horft í gegnum verkið og látið hugann fylgja henni eftir, og Sæmundur og selurinn öðlast þannig raunverulega dýpt.
Oft bera verk Ásmundar með sér afar sérstæða túlkun, sem listamanninum þykir henta viðfangsefninu. Í verkinu Eva yfirgefur Paradís (1949) sýnir listamaðurinn móður mannkyns, hnarreista og tígulega, staldra við áður en hún heldur á braut. Ásmundur bar mikla virðingu fyrir konum, og þær eru oft hetjurnar í verkum hans; í samræmi við það er Eva í þessu verki ekki buguð manneskja, sem er hrakin á brott eftir að hafa fallið í freistingu, heldur kona sem tekur örlögin í eigin hendur og velur sjálf að yfirgefa hinn ætlaða sælureit.
Í myndinni Eldmessan (1965) velur Ásmundur sem viðfangsefni þá stund er hraunið stöðvast andspænis krossinum, mestu örlagastund þeirra náttúruhamfara, sem verkið vísar til. Þetta verk er annað gott dæmi um nauðsyn þess fyrir áhorfendur að þekkja efni hverrar sögu til að þeir megi njóta túlkunar listamannsins til fulls.
Þær myndir Ásmundar sem tengjast slíkum viðfangsefnum eru yfirleitt hálf-fígúratífar eða næsta óhlutlægar. Listamaðurinn þröngvar ekki „raunverulegu útliti“ upp á áhorfendur, heldur fá þeir tækifæri til að láta hugarflugið ljúka verkinu. Listamaðurinn gengur aldrei of nærri sögunni; hann er ávallt meðvitaður um að höggmyndin lifir ekki einungis sem sögulýsing, heldur lifir hún ennfremur sjálfstæðu lífi sem byggir á eigin myndrænum lögmálum.
Á sjötta og sjöunda áratugnum þróuðust höggmyndir Ásmundar Sveinssonar æ meir í átt til afstraktlistar, og um sama leyti tók hann að velja sér oftar en áður myndefni, sem tengdust spurningum um upphaf heimsins, trúarbrögð og tilveruna almennt. Þetta kom vel fram í viðfangsefnum sem bera nöfn eins og Fæðing (1949), Davíð og Golíat (1952), Passíutónar (1956) og Trúarbrögðin (1956), svo nokkur séu nefnd. Goðsögulegir fuglar, líkt og Óðinshrafninn (1952) og Fuglinn Fönix (1961) hefja sig til flugs í verkum hans á sama tímabili.
Ásmundur var sjálfur blendinn í trúnni, eins og flestir Íslendingar virðast vera. Viðhorf hans til trúmála koma vel fram í viðtölum hans við Matthías Johannessen, sem komið hafa út í „Bókinni um Ásmund“, og ljóst er að hann hugsaði mikið um þessi mál. Þar kemur meðal annars fram í frásögn Ásmundar af því að eitt sinn hafi hann verið spurður: „Ertu kristinn?“ Hann svaraði: „Mér hefur ekki tekist það. Kristnin gerir svo miklar kröfur.“
Kristnin gerir vissulega miklar kröfur. Af svari Ásmundar má vera ljóst, að hann bar mikla virðingu fyrir trúarbrögðum, og taldi þau eitt helsta merkið um þroskaferil mannsins. En hann nefndi einnig að lífinu fylgdi sífelld endurnýjun, og ef að trúarbrögð stöðnuðu, þá myndu þau deyja.
Það var því í góðu samræmi við þetta viðhorf, þegar ein helsta táknmynd kristninnar, krossinn, kom inn í verk hans með nýjum hætti – með endurnýjun hins listræna forms.
Eitt sinn var Ásmundur að vinna að verki sem hann helgaði landnámi Íslands, sem byggðist ljóslega á trú forfeðranna og trausti þeirra á guðunum; öndvegissúlurnar áttu að leiða þá til landnáms. Þegar hann sýndi presti nokkrum skissur að verkinu, sem vísaði með svo einhlítum hætti til hinnar fornu trúar, hafði presturinn spurt hvort að kristnin ætti ekki erindi í slíkt verk líka, með því að listamaðurinn setti krossinn inn í myndina. Ásmundur spurði þá á móti: „Má ég gera krossinn afstrakt?“ Svarið var: „Já-já, auðvitað.“ Og það varð úr.
(Grein þessi birtist fyrst í „Hærra til þín – Trúarleg minni í vestnorrænni list“ árið 2000 og er hér birt endurskoðuð af hálfu höfundar.)