
Erik Bjerager
Erik Bjerager (f. 1958) sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins. is en grein þessi er afar áhugaverð í ljósi þróunar mála í heiminum nú um þessar mundir. Hann lauk prófi frá Blaðamannaháskóla Danmerkur og meistaraprófi frá Ameríska háskólanum í Washington (School of Communication). Erik er fastur greinahöfundur hjá Kristeligt Dagblad í Danmörku og var aðalritstjóri og forstjóri blaðsins frá 1994 til 2022. Frá hans hendi hefur fjöldi bóka komið og sú síðasta sem kom út heitir „På sporet af apostlene.“ Þessi grein birtist í Kristeligt Dagblad 30. mars sl. og veitti höfundur ritstjóra Kirkjublaðsins.is góðfúslegt leyfi til að þýða hana og birta.
Þeir Trump, forseti Bandaríkjanna Pútín, forseti Rússlands, hafa teflt sér fram sem Guðs útvöldum leiðtogum. Nýir einræðisherrar samtímans hafa tamið sér trúarlegt orðfæri og nýta það sem pólitískt valdatæki.
Árið 1792 reistu Bandaríkjamenn múr í þeim tilgangi að skilja að trúarbrögð og stjórnmál. Þannig orðaði einn af fyrstu forsetum Bandaríkjanna, Thomas Jefferson, það í fyrstu viðbótinni við bandarísku stjórnarskrána. Þar er kveðið á um rétt til trúfrelsis, tjáningarfrelsis, fundafrelsis og fjölmiðlafrelsis og taldi Jefferson að með þessari viðbót væru trúarbrögð og stjórnmál aðskilin.
Lagður var steinn í götu trúarbragða til að hindra aðkomu þeirra inn á svið stjórnmálanna. En það hafa alltaf verið brestir í þessum múr sem reistur var. Kristin trú hefur verið meirihlutatrú í Bandaríkjunum og margir kristnir stjórnmálamenn hafa litið á það sem skyldu sína að vitna um trú sína í stjórnmálunum.
Donald Trump er engin undantekning í þessu. Þó að hann hafi talað mjög óljóst um sína eigin trú eða trúarefa þá hefur það ekki aftrað honum frá því að grípa til hins trúarlega málfars. Þegar hann var fyrst kjörinn forseti árið 2016, naut hann stuðnings mikils meirihluta íhaldssamra kristinna Bandaríkjamanna, þótt þeir hafi alls ekki litið á hann sem einn úr sínum röðum. Hátterni hans í einkalífinu var fjarri öllum gildum íhaldssamra kristinna samlanda hans en hins vegar náði íhaldssöm pólitísk stefna hans eyrum þeirra til dæmis hvað snerti fóstureyðingar, innflytjendamál og svokallaða „woke-hreyfingu“ og hefur það verið hluti af skýringu á því að hægrisinnað fólk studdi hann til valda.
Þegar Trump var valinn öðru sinni í nóvember á síðasta ári var annað hljóð komið í strokkinn í málflutningi hans. Banatilræðið sem honum var sýnt 13. júlí 2024 í bænum Butler ýtti undir þá skoðun að hann væri einhvers konar Messías.[1] Það kom fram í ræðu hans við innsetningu í forsetaembættið í janúar og hann endurtók það í ræðu sinni í þinginu í marsbyrjun.
„Ég er sannfærður um að í Butler var lífi mínu bjargað örugglega af góðum og gildum ástæðum. Guð bjargaði mér til þess að ég gæti gert Ameríku stórkostlega á ný,“ sagði hann í báðum ræðunum.
Þjóðlegi bænamorgunverðurinn (e. National Prayer Breakfast) er mikill funda- og matdagur í febrúar í Washington D.C., og til hans var stofnað á sínum tíma til að skapa sátt milli andstæðra fylkinga í bandarísku samfélagi og stjórnmálum. Bandarískir forsetar hafa tekið þátt í viðburðum þessa dags frá árinu 1953. Í nýliðnum febrúar hélt Trump ræðu í tengslum við þennan dag og hvatti til þess að trú hefði meira vægi í stjórnmálum landsins.
„Djúpt í bandarísku sálinni eru allir föðurlandsvinir sannfærðir um að Guð hafi alveg sérstök áform með Bandaríkin,“ sagði hann. „Við verðum að sækja trúna aftur. Sækja hana aftur með enn meiri krafti en áður.“
„Þó að messíanskir tónar séu ekki nýir af nálinni í bandarískum stjórnmálum þá hefur það ekki áður gerst að bandarískur forseti líti á sjálfan sig sem útvalinn af Guði,“ segir franskur sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, Marie Gayte-Lebrun.
Lebrun kennir bandarísk menningarfræði við háskólann í Toulouse og sagði nýlega í viðtali við franska blaðið, La Croix, að Ronald Reagan (1911-2004) hafi vissulega nýtt sér trúarlegt orðfæri en enginn annar bandarískur forseti hefði talað um sig sem guðdómlega útvalinn fyrr en Donald Trump gerði það.
Í síðasti mánuði gat að líta fyrirsögn í Jerusalem Post þar sem ísraelskur rabbíni spurði: „Er Donald Trump hinn nýi Messías?“ Nokkrum mánuðum áður hafði annar rabbíni gefið út bókina „Trump, Messías og þriðja musterið“ og þar var líka lögð fram spurningin hvort Trump væri Messías sem myndi byggja upp musterið í Jerúsalem sem er draumur margra hægrisinnaðra rétttrúaðra Gyðinga.
Bæði kristnir hægrimenn í Bandaríkjunum og róttækir rétttrúaðir Gyðingar vísa til Jesaja, spámanns í Gamal testamentinu, sem lýsir því hverni Guð notar hinn guðlausa Persakonung, Kýros, til að hjálpa Gyðingum að snúa heim úr útlegðinni í Babýlon og byggja upp musterið. Röksemdin er sú að Guð noti syndara til að koma áformum sínum um kring.
Kaþólska tímaritið The Tablet, sem gefið er út í Bretlandi, birti í marsmánuði athyglisverða grein sem rakti kirkjulegar rætur Trumps til Öldungakirkjunnar[2] sem skosk móðir hans tilheyrði. Greinin er skrifuð af Ian Bradley sem auk þess að vera prestur í Kirkju Skotlands, sem er af meiði Öldungakirkjunnar, er líka prófessor við St. Andrews-háskóla. Hann telur að það sé arfur kalvínskrar kristni sem hafði áhrif á skosku kirkjuna og þau megi greina í ummælum Trumps.
Skilningur Trumps á því hvernig Guð bjargaði lífi hans svo hann gæti hrint stefnu sinni í framkvæmd á rætur að rekja til fyrirhugunarkenningarinnar [3] og hugmyndum um útvalningu [4], að mati Ian Bradleys. Auk þess telur Bradley að kirkjuleg hefð sem birtist í því að dæma aðra og líta á sjálfan sig og sitt fólk með sérstakri velþóknun eigi líka rætur í þeim áhrifum sem móðir Trumps varð fyrir í skosku kirkjunni áður en hún fluttist til Bandaríkjanna og giftist föður Trumps.
Foreldrar Trumps gengu í Bandaríkjunum til liðs við kirkju undir forystu hægrisinnaða prestsins Vincent Peale, sem árið 1952 skrifaði bókina The Power of Positive Thinking.[5] Sú bók varð metsölubók og tengir saman árangur í öflun efnislegra gæða við trúna á Guð.
Gagnrýnandinn og guðfræðingurinn Reinhold Niebuhr sagði bókina ýta undir sjálfsdýrkun sem styddist við einhvers konar helgisiði.
Trump hefur eftir því sem Bradley segir lagt áherslu á að trúarleg gildi hans séu komin frá móður hans og trú hennar.
Hinn heilagi Pútin
Forseti Rússlands, Valdimar Pútín, hefur líka stigið fram í hlutverki Messíasar og þá sem verndari rússneskrar siðmenningar gegn andlegu og menningarlegu hruni Vesturlanda. Trúarleg orðræða Pútíns á djúpar trúarlegar og sögulegar rætur. Rússnesku keisararnir töldu sig vera útvalda af Guði, og um aldaraðir hafa margir Rússar litið á leiðtoga sinn með sama hætti. Pútín forseti hefur samtímis því að slást í bandalag með rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni samsamað sig stofnanda hins rússneska ríkis, nafna sínum og einum mesta dýrlingi Rússlands, Valdimar hinum helga, sem kristnaði Rússlandi fyrir nær 1000 árum.
Pútín hefur stutt við bakið á hinni gríðarlegu uppbyggingu kirkjuhúsa rétttrúnaðarkirkjunnar í landinu eftir guðleysistímabil Sovétríkjanna og telja margir Rússar sem svo að hann hafi endurreist kirkjuna. Hann hefur látið taka af sér myndir í heimsókn í rússneska klaustrið á gríska Athos-skaganum 2016 og hefur kynnt sig sem verndara kristinnar hefðar sem Vesturlönd hafi snúið baki við. Þá hafa myndir verið teknar af honum í kirkjum þar sem hann sést gera krossmark og í viðtali 2017 við bandarísku sjónvarpsfréttastöðina CNN sagðist hann alltaf vera með kross um hálsinn.
Pútín er í nánu bandalagi við leiðtoga rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, Kirill patríarka, sem hefur stutt stríð Rússlands við Úkraínu svo dyggilega að Frans páfi hvatti Kirill árið 2022 að hætta að hegða sér eins og „altarisdrengur Pútíns.“
Hindúískir valdsherrar og múslímskur soldán
Hindúimsanum er líka beitt í þágu þjóðernissinnaðrar stjórnmálastefnu. Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, gekk á síðasta ári fram fyrir skjöldu þjóðernissinnaðra fylgismanna sinna með þátttöku sinni í vígslu á hindúísku hofi sem var reist þar sem moska múslíma hafði áður staðið en var rifin til grunna. Einn greinahöfundur breska kaþólska tímaritsins The Tablot benti á fyrr á þessu ári að þar hafi Modi komið fram sem hindúískur valdsherra, konungur, fremur en lýðræðislega kjörinn leiðtogi í veraldlegu ríki. Þegar til alls er litið hefur Modi staðið í fylkingarbrjósti hindúískrar þjóðernisstefnu sem hefur meira og minna mismunað trúarbrögðum opinberlega.
Trúarbrögðin hafa líka verið dregin inn á leiksvið stjórnmálanna í íslömskum ríkjum. Forseti Tyrklands, Recep Erdogan, hefur styrkt endurnýjun íslam í Tryklandi með gríðalegu átaki í byggingu moska. Hann er kannski nú um stundir langt kominn með að afnema lýðræði í Tyrklandi og honum er iðulega líkt við kalífa eða soldán en það eru hugtök sem vísa til múslímskra einræðisherra.
Einræðisherrarnir
Sagan geymir mörg dæmi af keisurum, kóngum og öðrum valdsherrum sem sótt hafa vald sitt með því að vísa til þess að að þeir séu útvaldir af Guði. Konstantínus keisari sem innleiddi trúfrelsi í Rómaveldi á 4. öld og ruddi brautina fyrir skjótum vexti kristinnar trúar, var sennilega sá fyrsti sem beitti kirkjunni og kristninni fyrir vagn sinn með þessum hætti svo um munaði og gaf í skyn að Guð væri við hlið hans. Á miðöldum var konungsvaldið víða slegið helgiljóma. Allt fram til þess tíma er lýðræðið ruddi sér braut í Evrópu litu margir konungar og einvaldar á sig sem væru þeir útvaldir af Guði og beittu hiklaust því valdi sem sú hugmynd veitti þeim.
Það er auðvitað áhyggjuefni að trúarbrögð séu að snúa aftur sem pólitískt valdatæki og það jafnvel í lýðræðisríkjum. Stjórnmálaleiðtogar eins og Trump sem líta á sig sem hina Guðs útvöldu nota það til að réttlæta stjórnmálastefnu sína; og í bandarísku samhengi þá ganga þeir gegn sjálfri stjórnarskrá landsins. Þessi þróun grefur undan lýðræði hvar sem hún nær að festa rætur á vorum dögum.
Í bók þýska félagsfræðingsins og stjórnmálafræðingsins, Hartmut Rosa, Lýðræði þarfnast trúarbragðanna (þ. Demokratie braucht Religion), hélt höfundurinn því fram að trúarbrögð væru nauðsynlegt mótvægi gegn samfélagi hraðans. Kirkja og trúarbrögð geta skapað rými, helgisiði og venjur, fyrir næmni og hlustun. Auk þess má benda á það að trúarbrögð – og í þessum heimshluta, kristin trú – hafa skotið traustum stoðum undir menningu og siðferði samfélagsins.
Það er ekki hægt að segja annað en að það sem Trump og Pútín ásamt öðrum einræðissinnuðum leiðtogum hafa verið að fást við í þessu efni undanfarin ár sé hrein og klár misnotkun á trúarbrögðum og lýðræðið þarf ekki á því að halda.
(Ísl. þýðing: Hreinn S. Hákonarson)
Neðanmálsskýringar sem þýðandi hefur tekið saman:
[1] Messías, vísar í þessu sambandi til leiðtoga sem kemur og frelsar hina útvöldu. Í Gyðingdómi er Messías frelsari Gyðinga sem þeir vænta – kristnir menn líta svo á að Jesús frá Nasaret hafi verið Messías.
[2] Öldungakirkjan (e. Presbyterian Church). Hún er ein af kirkjudeildum mótmælenda og rætur hennar eru hjá Jóhanni Kalvín á 16. öld. Var stofnuð í Skotlandi 1560 og er útbreidd á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum.
[3] Samkvæmt fyrirhugunarkenningunni eru ákveðnar manneskjur fyrirfram útvaldar til frelsunar. Jóhann Kalvín setti fram tvöfalda fyrirhugunarkenningu eða að sumir væru útvaldir til frelsunar en aðrir til glötunar.
[4] Trúarlegt hugtak í þessu samhengi, að vera valinn af æðri máttarvöldum til ákveðins hlutverks sem muni gagnast öllum.
[5] Bókin kom út á íslensku 1975: Undraverður árangur jákvæðrar hugsunar: hvernig þú færð unnið bug á andstreymi þínu og áhyggjum. Baldvin Þ. Kristjánsson (1910-1991) þýddi bókina. Bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út.

Erik Bjerager
Erik Bjerager (f. 1958) sest við Gestaglugga Kirkjublaðsins. is en grein þessi er afar áhugaverð í ljósi þróunar mála í heiminum nú um þessar mundir. Hann lauk prófi frá Blaðamannaháskóla Danmerkur og meistaraprófi frá Ameríska háskólanum í Washington (School of Communication). Erik er fastur greinahöfundur hjá Kristeligt Dagblad í Danmörku og var aðalritstjóri og forstjóri blaðsins frá 1994 til 2022. Frá hans hendi hefur fjöldi bóka komið og sú síðasta sem kom út heitir „På sporet af apostlene.“ Þessi grein birtist í Kristeligt Dagblad 30. mars sl. og veitti höfundur ritstjóra Kirkjublaðsins.is góðfúslegt leyfi til að þýða hana og birta.
Þeir Trump, forseti Bandaríkjanna Pútín, forseti Rússlands, hafa teflt sér fram sem Guðs útvöldum leiðtogum. Nýir einræðisherrar samtímans hafa tamið sér trúarlegt orðfæri og nýta það sem pólitískt valdatæki.
Árið 1792 reistu Bandaríkjamenn múr í þeim tilgangi að skilja að trúarbrögð og stjórnmál. Þannig orðaði einn af fyrstu forsetum Bandaríkjanna, Thomas Jefferson, það í fyrstu viðbótinni við bandarísku stjórnarskrána. Þar er kveðið á um rétt til trúfrelsis, tjáningarfrelsis, fundafrelsis og fjölmiðlafrelsis og taldi Jefferson að með þessari viðbót væru trúarbrögð og stjórnmál aðskilin.
Lagður var steinn í götu trúarbragða til að hindra aðkomu þeirra inn á svið stjórnmálanna. En það hafa alltaf verið brestir í þessum múr sem reistur var. Kristin trú hefur verið meirihlutatrú í Bandaríkjunum og margir kristnir stjórnmálamenn hafa litið á það sem skyldu sína að vitna um trú sína í stjórnmálunum.
Donald Trump er engin undantekning í þessu. Þó að hann hafi talað mjög óljóst um sína eigin trú eða trúarefa þá hefur það ekki aftrað honum frá því að grípa til hins trúarlega málfars. Þegar hann var fyrst kjörinn forseti árið 2016, naut hann stuðnings mikils meirihluta íhaldssamra kristinna Bandaríkjamanna, þótt þeir hafi alls ekki litið á hann sem einn úr sínum röðum. Hátterni hans í einkalífinu var fjarri öllum gildum íhaldssamra kristinna samlanda hans en hins vegar náði íhaldssöm pólitísk stefna hans eyrum þeirra til dæmis hvað snerti fóstureyðingar, innflytjendamál og svokallaða „woke-hreyfingu“ og hefur það verið hluti af skýringu á því að hægrisinnað fólk studdi hann til valda.
Þegar Trump var valinn öðru sinni í nóvember á síðasta ári var annað hljóð komið í strokkinn í málflutningi hans. Banatilræðið sem honum var sýnt 13. júlí 2024 í bænum Butler ýtti undir þá skoðun að hann væri einhvers konar Messías.[1] Það kom fram í ræðu hans við innsetningu í forsetaembættið í janúar og hann endurtók það í ræðu sinni í þinginu í marsbyrjun.
„Ég er sannfærður um að í Butler var lífi mínu bjargað örugglega af góðum og gildum ástæðum. Guð bjargaði mér til þess að ég gæti gert Ameríku stórkostlega á ný,“ sagði hann í báðum ræðunum.
Þjóðlegi bænamorgunverðurinn (e. National Prayer Breakfast) er mikill funda- og matdagur í febrúar í Washington D.C., og til hans var stofnað á sínum tíma til að skapa sátt milli andstæðra fylkinga í bandarísku samfélagi og stjórnmálum. Bandarískir forsetar hafa tekið þátt í viðburðum þessa dags frá árinu 1953. Í nýliðnum febrúar hélt Trump ræðu í tengslum við þennan dag og hvatti til þess að trú hefði meira vægi í stjórnmálum landsins.
„Djúpt í bandarísku sálinni eru allir föðurlandsvinir sannfærðir um að Guð hafi alveg sérstök áform með Bandaríkin,“ sagði hann. „Við verðum að sækja trúna aftur. Sækja hana aftur með enn meiri krafti en áður.“
„Þó að messíanskir tónar séu ekki nýir af nálinni í bandarískum stjórnmálum þá hefur það ekki áður gerst að bandarískur forseti líti á sjálfan sig sem útvalinn af Guði,“ segir franskur sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, Marie Gayte-Lebrun.
Lebrun kennir bandarísk menningarfræði við háskólann í Toulouse og sagði nýlega í viðtali við franska blaðið, La Croix, að Ronald Reagan (1911-2004) hafi vissulega nýtt sér trúarlegt orðfæri en enginn annar bandarískur forseti hefði talað um sig sem guðdómlega útvalinn fyrr en Donald Trump gerði það.
Í síðasti mánuði gat að líta fyrirsögn í Jerusalem Post þar sem ísraelskur rabbíni spurði: „Er Donald Trump hinn nýi Messías?“ Nokkrum mánuðum áður hafði annar rabbíni gefið út bókina „Trump, Messías og þriðja musterið“ og þar var líka lögð fram spurningin hvort Trump væri Messías sem myndi byggja upp musterið í Jerúsalem sem er draumur margra hægrisinnaðra rétttrúaðra Gyðinga.
Bæði kristnir hægrimenn í Bandaríkjunum og róttækir rétttrúaðir Gyðingar vísa til Jesaja, spámanns í Gamal testamentinu, sem lýsir því hverni Guð notar hinn guðlausa Persakonung, Kýros, til að hjálpa Gyðingum að snúa heim úr útlegðinni í Babýlon og byggja upp musterið. Röksemdin er sú að Guð noti syndara til að koma áformum sínum um kring.
Kaþólska tímaritið The Tablet, sem gefið er út í Bretlandi, birti í marsmánuði athyglisverða grein sem rakti kirkjulegar rætur Trumps til Öldungakirkjunnar[2] sem skosk móðir hans tilheyrði. Greinin er skrifuð af Ian Bradley sem auk þess að vera prestur í Kirkju Skotlands, sem er af meiði Öldungakirkjunnar, er líka prófessor við St. Andrews-háskóla. Hann telur að það sé arfur kalvínskrar kristni sem hafði áhrif á skosku kirkjuna og þau megi greina í ummælum Trumps.
Skilningur Trumps á því hvernig Guð bjargaði lífi hans svo hann gæti hrint stefnu sinni í framkvæmd á rætur að rekja til fyrirhugunarkenningarinnar [3] og hugmyndum um útvalningu [4], að mati Ian Bradleys. Auk þess telur Bradley að kirkjuleg hefð sem birtist í því að dæma aðra og líta á sjálfan sig og sitt fólk með sérstakri velþóknun eigi líka rætur í þeim áhrifum sem móðir Trumps varð fyrir í skosku kirkjunni áður en hún fluttist til Bandaríkjanna og giftist föður Trumps.
Foreldrar Trumps gengu í Bandaríkjunum til liðs við kirkju undir forystu hægrisinnaða prestsins Vincent Peale, sem árið 1952 skrifaði bókina The Power of Positive Thinking.[5] Sú bók varð metsölubók og tengir saman árangur í öflun efnislegra gæða við trúna á Guð.
Gagnrýnandinn og guðfræðingurinn Reinhold Niebuhr sagði bókina ýta undir sjálfsdýrkun sem styddist við einhvers konar helgisiði.
Trump hefur eftir því sem Bradley segir lagt áherslu á að trúarleg gildi hans séu komin frá móður hans og trú hennar.
Hinn heilagi Pútin
Forseti Rússlands, Valdimar Pútín, hefur líka stigið fram í hlutverki Messíasar og þá sem verndari rússneskrar siðmenningar gegn andlegu og menningarlegu hruni Vesturlanda. Trúarleg orðræða Pútíns á djúpar trúarlegar og sögulegar rætur. Rússnesku keisararnir töldu sig vera útvalda af Guði, og um aldaraðir hafa margir Rússar litið á leiðtoga sinn með sama hætti. Pútín forseti hefur samtímis því að slást í bandalag með rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni samsamað sig stofnanda hins rússneska ríkis, nafna sínum og einum mesta dýrlingi Rússlands, Valdimar hinum helga, sem kristnaði Rússlandi fyrir nær 1000 árum.
Pútín hefur stutt við bakið á hinni gríðarlegu uppbyggingu kirkjuhúsa rétttrúnaðarkirkjunnar í landinu eftir guðleysistímabil Sovétríkjanna og telja margir Rússar sem svo að hann hafi endurreist kirkjuna. Hann hefur látið taka af sér myndir í heimsókn í rússneska klaustrið á gríska Athos-skaganum 2016 og hefur kynnt sig sem verndara kristinnar hefðar sem Vesturlönd hafi snúið baki við. Þá hafa myndir verið teknar af honum í kirkjum þar sem hann sést gera krossmark og í viðtali 2017 við bandarísku sjónvarpsfréttastöðina CNN sagðist hann alltaf vera með kross um hálsinn.
Pútín er í nánu bandalagi við leiðtoga rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, Kirill patríarka, sem hefur stutt stríð Rússlands við Úkraínu svo dyggilega að Frans páfi hvatti Kirill árið 2022 að hætta að hegða sér eins og „altarisdrengur Pútíns.“
Hindúískir valdsherrar og múslímskur soldán
Hindúimsanum er líka beitt í þágu þjóðernissinnaðrar stjórnmálastefnu. Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, gekk á síðasta ári fram fyrir skjöldu þjóðernissinnaðra fylgismanna sinna með þátttöku sinni í vígslu á hindúísku hofi sem var reist þar sem moska múslíma hafði áður staðið en var rifin til grunna. Einn greinahöfundur breska kaþólska tímaritsins The Tablot benti á fyrr á þessu ári að þar hafi Modi komið fram sem hindúískur valdsherra, konungur, fremur en lýðræðislega kjörinn leiðtogi í veraldlegu ríki. Þegar til alls er litið hefur Modi staðið í fylkingarbrjósti hindúískrar þjóðernisstefnu sem hefur meira og minna mismunað trúarbrögðum opinberlega.
Trúarbrögðin hafa líka verið dregin inn á leiksvið stjórnmálanna í íslömskum ríkjum. Forseti Tyrklands, Recep Erdogan, hefur styrkt endurnýjun íslam í Tryklandi með gríðalegu átaki í byggingu moska. Hann er kannski nú um stundir langt kominn með að afnema lýðræði í Tyrklandi og honum er iðulega líkt við kalífa eða soldán en það eru hugtök sem vísa til múslímskra einræðisherra.
Einræðisherrarnir
Sagan geymir mörg dæmi af keisurum, kóngum og öðrum valdsherrum sem sótt hafa vald sitt með því að vísa til þess að að þeir séu útvaldir af Guði. Konstantínus keisari sem innleiddi trúfrelsi í Rómaveldi á 4. öld og ruddi brautina fyrir skjótum vexti kristinnar trúar, var sennilega sá fyrsti sem beitti kirkjunni og kristninni fyrir vagn sinn með þessum hætti svo um munaði og gaf í skyn að Guð væri við hlið hans. Á miðöldum var konungsvaldið víða slegið helgiljóma. Allt fram til þess tíma er lýðræðið ruddi sér braut í Evrópu litu margir konungar og einvaldar á sig sem væru þeir útvaldir af Guði og beittu hiklaust því valdi sem sú hugmynd veitti þeim.
Það er auðvitað áhyggjuefni að trúarbrögð séu að snúa aftur sem pólitískt valdatæki og það jafnvel í lýðræðisríkjum. Stjórnmálaleiðtogar eins og Trump sem líta á sig sem hina Guðs útvöldu nota það til að réttlæta stjórnmálastefnu sína; og í bandarísku samhengi þá ganga þeir gegn sjálfri stjórnarskrá landsins. Þessi þróun grefur undan lýðræði hvar sem hún nær að festa rætur á vorum dögum.
Í bók þýska félagsfræðingsins og stjórnmálafræðingsins, Hartmut Rosa, Lýðræði þarfnast trúarbragðanna (þ. Demokratie braucht Religion), hélt höfundurinn því fram að trúarbrögð væru nauðsynlegt mótvægi gegn samfélagi hraðans. Kirkja og trúarbrögð geta skapað rými, helgisiði og venjur, fyrir næmni og hlustun. Auk þess má benda á það að trúarbrögð – og í þessum heimshluta, kristin trú – hafa skotið traustum stoðum undir menningu og siðferði samfélagsins.
Það er ekki hægt að segja annað en að það sem Trump og Pútín ásamt öðrum einræðissinnuðum leiðtogum hafa verið að fást við í þessu efni undanfarin ár sé hrein og klár misnotkun á trúarbrögðum og lýðræðið þarf ekki á því að halda.
(Ísl. þýðing: Hreinn S. Hákonarson)
Neðanmálsskýringar sem þýðandi hefur tekið saman:
[1] Messías, vísar í þessu sambandi til leiðtoga sem kemur og frelsar hina útvöldu. Í Gyðingdómi er Messías frelsari Gyðinga sem þeir vænta – kristnir menn líta svo á að Jesús frá Nasaret hafi verið Messías.
[2] Öldungakirkjan (e. Presbyterian Church). Hún er ein af kirkjudeildum mótmælenda og rætur hennar eru hjá Jóhanni Kalvín á 16. öld. Var stofnuð í Skotlandi 1560 og er útbreidd á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum.
[3] Samkvæmt fyrirhugunarkenningunni eru ákveðnar manneskjur fyrirfram útvaldar til frelsunar. Jóhann Kalvín setti fram tvöfalda fyrirhugunarkenningu eða að sumir væru útvaldir til frelsunar en aðrir til glötunar.
[4] Trúarlegt hugtak í þessu samhengi, að vera valinn af æðri máttarvöldum til ákveðins hlutverks sem muni gagnast öllum.
[5] Bókin kom út á íslensku 1975: Undraverður árangur jákvæðrar hugsunar: hvernig þú færð unnið bug á andstreymi þínu og áhyggjum. Baldvin Þ. Kristjánsson (1910-1991) þýddi bókina. Bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út.